Ungir einsöngvarar og Garðar Thór í ÍÓ þri. 22. mars kl. 12.15

 Óperurnar Öskubuska, Brúðkaup Fígarós og Ástardrykkurinn eru í forgrunni á efnisskrá næstu hádegistónleika Íslensku óperunnar sem fram fara þriðjudaginn 22. mars kl. 12.15. Flytjendur eru úr röðum ungra íslenskra einsöngvara en gestasöngvari á tónleikunum er tenórsöngvarinn Garðar Thór Cortes. Sviðssetningu atriðanna annast Sibylle Köll. Aðrir einsöngvarar: Bragi Jónsson, bassi, Erla Björg Káradóttir, sópran, Magnús Guðmundsson, baritón, Rannveig Káradóttir, sópran, Rósalind Gísladóttir, mezzó-sópran, Sibylle Köll, messó-sópran, Antonía Hevesi, píanó.

Aðgangseyrir á tónleikana er aðeins 1.500 kr. Gestir geta keypt léttar veitingar í anddyri Íslensku óperunnar fyrir og eftir tónleikana. Missið ekki af skemmtilegri hádegisstund í Íslensku óperunni!

Garðar Thór þykir einn af fremstu tenórsöngvurum Íslands og hefur haldið einsöngstónleika, sungið í söngleikjum, óratóríum og óperum hér heima, víðsvegar í Evrópu og einnig í Bandaríkjunum. Garðar hefur sungið á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og með sópransöngkonunni Kiri Te Kanawa og kom fram á lokatónleikum Proms-tónlistarhátíðarinnar í London árið 2009 og söng þar fyrir tugþúsundir. Hann söng hlutverk Don Ramiro í Öskubusku árið 2006 og hlutverk Nemorino í Ástardrykknum árið 2009 hjá Íslensku óperunni.