„Skrekkur, tækni og tækifæri“ – nokkur orð um fyrirlesara

“Skrekkur, tækni og tækifæri” Rauða húsið, 27. ágúst 2016

 

Upplýsingar um fyrirlesara:

 

Anna Berglind Júlíusdóttir mun hrista hópinn saman eins og henni einni er lagið.

Anna Berglind er danskennari og rekur eigin dansskóla í Þorlákshöfn og á Selfossi sem heitir Danssport. Hún kennir einnig við grunnskólann í Þorlákshöfn.

 

Margrét Eir fer í gegnum grunnatriði í notkun á hljóðnema, kynnir okkur ýmsar gerðir þeirra og fræðir okkur um uppsetningu á litlum hljóðkerfum.

Margrét Eir hefur starfað sem söngkona og leikkona á Íslandi í yfir tuttugu ár. Á þessum árum hef hún starfað með helstu tónlistarmönnum landsins og sungið inn á fjölmargar plötur sem sólósöngvari og bakrödd. Hún lauk námi í leiklist við Emerson College í Boston og úrskrifaðist frá  frá Raddskóla Kristin Linklater.  Margrét Eir rekur sinn eigin söngskóla undir nafninu MEiriskóli.

Margret Eir hefur komið fram á mörgum tónleikum, meðal annars með Sinfóníuhljómsveit Ísland og Frostrósum. Hún hefur tekið þátt í uppfærslum hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Leikfélag Akureyrar. Margrét hefur starfað með hljómsveitinni Thin Jim frá 2007 og gefið út tvær plötur með þeirri hljómsveit.

 

Þórunn Guðmundsdóttir mun leiða okkur inn í stöðu mála vegna nýs tónlistarframhaldsskóla.

Þórunn lauk blásarakennaraprófi, burtfararprófi í söng og einleikaraprófi á flautu frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún lauk Bachelor-, Masters- og Doktorsprófi í söng og söngfræðum Indiana University í Bloomington, Indinana í Bandaríkjunum.

Þórunn hefur komið fram sem einsöngvari í óperum, á tónleikum og á hljómdiskum. Hún hefur einnig skrifað fjölda leikrita, söngleikja og óperur sem hafa m.a. verið sett upp af áhugaleikfélaginu Hugleik og hjá Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Þórunn hefur starfað sem söngkennari og deildarstjóri söngdeildar við Tónlistarskólann í Reykjavík um árabil og varð aðstoðarskólastjóri við skólann haustið 2009.

 

Dísella Lárusdóttir lýsir fyrir okkur hvernig ungur söngvari kemur sér á framfæri í Bandaríkjunum, en þar er talsvert annað umhverfi en í Evrópu.

Dísella þreytti frumraun sína hjá Metropolitan óperunni í New York í mars 2013 þar sem hún söng hlutverk Garsendu í óperunni Francesca da Rimini eftir ítalska tónskáldið Riccardo Zandonai. Síðan þá hefur hún sungið Woglinde í óperum Richards Wagner, Rheingold og Götterdämmerung, þjón í Frau Ohne Schatten eftir Richard Strauss, fyrsta skógarálf í Rusalka eftir Antonin Dvorák og Lísu í La Sonnambula eftir Vincenzo Bellini á þessu merka sviði. Síðast liðið haust var hún staðgengill fyrir titilhlutverkið í óperunni Lulu eftir Alban Berg. Dísella hefur einnig komið fram sem einsöngvari í Vesperae Solennes de Confessore eftir Mozart í Carnegie Hall og í Stabat Mater eftir Giovanni Battista Pergolesi í Disney Hall í Los Angeles, auk tónlistarhátíða í Madison, Wisconsin og í Breckenridge, Colorado.

Í vetur verða hlutverk Dísellu í Metropolitan óperunni Barena í Jenufa eftir Leoš Janáček og Papagena í Töfraflautunni eftir Mozart. Frumraun hennar á sviði í Evrópu verður næsta vor í Lulu óperunni í Róm á Ítalíu.

 

Ingunn Sighvatsdóttir, umboðsmaður mun fjalla um það hverju hún horfir helst eftir þegar hún hlustar á söngvara í starfi sínu. Hvað ungir söngvarar þurfa að hafa í huga og varast.

Ingunn nam söng, þýsku og bókmenntir á Íslandi en fluttist árið 1994 til München, og fékk þar sína fyrstu reynslu sem umboðsmaður hjá Sekretariet am Gasteig. Eftir það vann hún á Ítalíu sem umboðsmaður fyrir píanódúóið Katia & Marielle Labeque í Flórens, og starfaði einnig við stóru umboðsskrifstofurnar Prima International og Stage Door í Bologna. Í september 2011 gékk hún til liðs við Boris Orlob umboðsskrifstofuna, hvar hún starfar í dag með eigin lista af listamönnum, aðallega söngvara og hljómsveitarstjóra.

 

Hulda Sif Ólafsdóttir greinir frá niðurstöðum rannsóknar á frammistöðukvíða hjá íslenskum kór- og einsöngvurum. Fjallað verður um frammistöðukvíða (sviðsskrekk) frá fræðilegu sjónarhorni, einkenni hans, algengi og tengsl við líðan í félagslegum samskiptum.

Hulda Sif Ólafsdóttir er nemi við sálfræðideild Háskóla Íslands. Hún hefur sungið einsöng við margvísleg tilefni og hefur víðtæka reynslu af kórsöng. Hún stundaði framhaldsnám í söng og söngkennslu við Westminster Choir College of Rider University á árunum 2005-2007, að loknu framhaldsprófi við Söngskólann í Reykjavík. Með bakgrunn í bæði söng og sálfræði hefur svokölluð tónlistarsálfræði verið henni hugleikin. Lokaverkefni Huldu Sifjar til BS gráðu var rannsókn á frammistöðukvíða hjá íslenskum kórsöngvurum.

Kristján Jóhannsson mun ásamt Magnúsi Lyngdal Magnússyni leiða okkur í gegnum ítalska sönghefð.  Magnús mun fjalla um sönghefðina í inngangi, en Kristján kemur með nokkra nemendur og vinnur með þeim á ráðstefnunni í “masterclass”.  Það verður mikill fengur fyrir okkur að fá þá félaga til okkar og hlusta á þá miðla af þekkingu sinni um þetta efni. Kristjáni til aðstoðar verður Antonía Hevesi píanóleikari.

Kristján Jóhannsson þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en hann hefur skapað sér sess sem einn allra fremsti dramatíski tenór okkar tíma. Frá því er hann þreytti frumraun sína á óperusviðinu árið 1980 í Osimo Teatro Piccola í Feneyjum hefur hann sungið í öllum helstu óperuhúsum heims.  Kristján hefur sungið öll helstu hlutverk ítölsku bókmenntanna og eru hlutverkin orðin á fimmta tug.

Magnús Lyngdal Magnússon starfar sem aðstoðarmaður rektors Háskóla Íslands.  Magnús lauk BA-prófi í sagnfræði og íslensku frá Háskóla Íslands og MA-prófi í sagnfræði. Hann starfaði við rannsóknir frá 2002 til 2007 en var þá ráðinn sérfræðingur hjá Rannís, hvar hann gegndi m.a. starfi aðstoðarforstöðumanns. Magnús starfaði sem sérfræðingur á skrifstofu vísinda og háskóla í mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar til hann var ráðinn til Háskóla Íslands árið 2013.

Antonía Hevesi er fædd í Ungverjalandi og útskrifaðist úr F. Liszt- tónlistarakademíunni í Búdapest með MA-gráðu í kórstjórn, sem framhaldsskólakennari í söng og hljómfræði og stundaði einnig orgelnám við Tónlistarháskólann í Graz hjá Otto Bruckner. Hún hefur haldið fjölda tónleika sem orgelleikari og píanómeðleikari víðsvegar í Evrópu og Kanada og spilað inn á geisladiska. Frá því Antonía fluttist til Íslands árið 1992 hefur hún starfað sem orgel- og píanómeðleikari, auk þess að vera æfingastjóri hjá Íslensku óperunni og listrænn stjórnandi hádegistónleikaraðar Hafnarborgar.