Sigurveig Hjaltesteð

Sigurveig Hjaltested

Hún Veiga gæti leikið dæmigerða alltumvefjandi ömmu sem skilur allt og á alltaf til pönsur.  En Sigurveig Hjaltested, messósópran, hefur brugðið sér í ótal hlutverk um ævina, hún var í fremstu röð íslenskra söngkvenna um árabil, og söng þá hvert hlutverkið á fætur öðru, m.a. Maddalenu í Rigoletto, Azucenu í Trovatore, Marcellinu í Brúðkaupinu, Berthu í Rakaranum, Niklas í Ævintýrum Hoffmanns, einnig ýmsum óperettum, s.s. Czipru í Sígaunabaróninum og greifynjuna í Betlistúdentinum og fór um landið þvert og endilangt með Kristni Hallssyni í Ráðskonuríki.

 Svo má ekki gleyma stærri tónleikum af ýmsu tagi, eins og 9. sinfóníunni með Sinfó, sem var í fyrra skiptið flutt 9 sinnum í Háskólabíói og í seinna skiptið 6 sinnum, takk fyrir. Veiga og Guðmundur Guðjónsson voru eitt helsta “gigg”-parið um árabil á hundruðum árshátíða og út um allar trissur við öll möguleg og ómöguleg tækifæri, en saman fóru þau líka um landið í geysimikla tónleikaför og troðfylltu öll félagsheimili.

unnamed

Azucena í Il Trovatore í Þjóðleikhúsinu

 Ótal margar upptökur eru til í Ríkisútvarpinu með Sigurveigu og fyrir þremur árum voru gefnir út tveir diskar með söng hennar hjá RÚV.  Það var mikið lán, því að hún hafði til að bera sérlega glæsilega rödd og listfengi frá náttúrunnar hendi.  Það er mikil raun að halda aftur af tárunum þegar hún syngur Alfaðir ræður.  Engum dylst að þar fer listakona.   

 En ofan á allt þetta kenndi hún söng í tugi ára. Við fengum okkur rjómapönnukökur, skonsur með hangikjöti og tertu og spjölluðum um námið og söngkennarastarfið.

– Hvað kom til að þú fórst að læra að syngja?

Ég held að það hafi legið nokkuð ljóst fyrir frá því ég var krakki að þar átti ég erindi.  Ég lá oft upp við útvarpstækið og hermdi eftir röddum í útvarpinu og þá kom strax í ljós að ég gat sungið sterkt og upp úr og niður úr.

Svo söng ég alltaf mikið en eiginlegt söngnám hóf ég hjá Sigurði Demetz þegar hann kom hingað til lands árið 1955.  Eftir tvö ár sagði hann:  Veiga mín, ef þú ætlar að læra að syngja meira, þá þarftu að fara út.  Svo að ég skellti mér til Svanhvítar Egils í Salzburg árið ’58 og svo aftur 1960.  Árið 1963 fékk ég svo styrk frá Þýsk-íslenska félaginu til að vera eitt ár í München, þar sem ég varð að vera skrifuð í skólann, en fór jafnframt í einkatíma til gamals hljómsveitarstjóra, dr. Neher, sem átti afar vel við mig.  Hins vegar fór ég út um allar trissur og söng dúetta með kennaranum mínum í skólanum, Hanno Blaschke.  Að öðrum ólöstuðum held ég að ég megi segja að María Markan hafi svo fínpússað mig, þá var eins og hljómurinn byrjaði að fossa fram, ég hafði einhvern veginn alltaf hugsað of dökkt og aftarlega.

unnamed (3)

Syngur við kirkjulega athöfn

– En hvenær byrjaðirðu svo að kenna?

Upphaflega hringdi Guðrún Á. Símonar og bað mig að hlaupa í skarðið fyrir sig að kenna kirkjukór uppi á Kjalarnesi.  Ég vissi auðvitað ekkert hverju ég átti von á en lét slag standa og fann strax hvað þetta átti vel við mig.  Upp úr því fékk söngmálastjóri Þjóðkirkjunnar mig til að kenna kirkjukórum um allt land frá árinu 1966.

Ég verð að viðurkenna að oft hefur maður gengið heldur nærri sér í gegnum tíðina, ég skil stundum ekki hvernig þetta gekk upp, allur bisnessinn með Guðmundi Guðjóns og Skúla Halldórs, sviðssetningarnar – þegar maður var nú að hamast við að hafa til matinn upp við Elliðavatn, það gengu þrír strætóar yfir daginn og ég tók þann kl. 6 til að komast í Þjóðleikhúsið til að syngja stór hlutverk, eins og Czipru í Sígaunabaróninum.  Svo tók maður tveggja daga rispur við að kenna úti á landi, oft frá 9 á morgnana til 12 á kvöldin.  Þetta var tómt rugl, söngvarar eiga ekki að leyfa sér álag af þessu tagi, maður þóttist geta allt. En alltaf lenti maður á yndislegu fólki, þetta var auðvitað hreinasta ævintýri og þrátt fyrir allt gekk það nú einhvern veginn alltaf upp!

1973 byrjaði ég svo í Söngskólanum, hætti þar 1990 og ætlaði að láta það duga, en þá lenti ég í að gerast kórstjóri fyrir austan fjall og kenndi fjölmörgum nemendum austur í Landssveit.  Mér er hrein ráðgáta hvað voru margar flottar raddir þar, fólk sem hefði getað náð langt  á listabrautinni, en lét sér duga að vinna “ærlega” vinnu í sveita síns andlitis.  1999 varð ég svo að hætta vegna heilsuleysis.  Einkum hefur astmi hrjáð mig.  Það er einkennileg tilfinning þegar fólk tekur lagið í samkvæmum og maður kemur ekki upp nokkru hljóði – jæja, ætli ég hafi ekki fengið minn skerf af því um ævina og megi þakka forsjóninni fyrir það!

– Hvernig hitarðu upp?

unnamed (6)

Sem Niklas í með Magnúsi Jónssyni í Ævintýrum Hoffmanns í Þjóðleikhúsinu

Ég byrja gjarnan á nokkrum sérhljóðum á sömu nótu, til að nemandinn einbeiti sér að því að fá hljóminn þéttan á sama stað á hvaða sérhljóða sem er.  Ég nota líka gjarnan orð til að fá samhljóðana með á sömu nótu, t.d. setningu eins og Litlu börnin leika sér. Maður er að læra alla sína ævi, en algengt er með byrjendur að þeir vilja syngja sérhljóða A, E, Í, O, Ú alveg eins og þeir eru talaðir.  En í söng verðum við að rúnna sérhljóðana til að ná röddinni allri á réttan stað og til þess þurfum við að finna plássið aftur í.

Það er nauðsynlegt að gera þetta í rólegheitum, það mega ekki vera nein átök.  Maður græðir ekki neitt á að gera upphitunaræfingar nema að einbeita sér og hugsa.  T.d. þarf að fylgjast með því að tungan sé rétt staðsett, tungubroddurinn á að nema við neðri tennurnar, þannig verður textaframburður betri og mun léttara að syngja.  Svona rólegheit henta flestum, en síðan verður að velja æfingarnar eftir einstaklingnum, einn svarar betur þessum skala betur en hinn og svo öfugt.  Raddirnar og einstaklingarnir sem maður fær í hendur eru svo afskaplega mismunandi.

– Notarðu þá fyrstu upphitunaræfingar fyrst og fremst til að fylgjast með tungunni?

Nei, það er auðvitað bara eitt lítið atriði af mörgum, en mikilvægt þó.  Þetta þarf allt að koma samunnamed (7)an í einum punkti, opnun, slökun, öndun o.s.frv.  Kjálkinn þarf að vera slappur og þegar hann fellur fylgir tungan á eftir aftan við neðri tennurnar.

Að ná hljómnum á réttan stað er alls ekki alltaf áhlaupaverk, ég hugsaði t.d. sjálf alltof mikið aftur í kok lengi vel.

– Hvað finnst þér hjálpa flestum við að ná hljómnum á réttan stað?

Upp eftir hryggsúlunni og fram efst í höfðinu.  Eins og ég sagði áðan verður allt að koma saman í einum punkti og því erfitt að taka eitt atriði út fyrir.  Samt held ég að mörgum henti að hugsa leið tónsins upp eftir bakinu og fram efst í höfðinu:unnamed (8)

 

Þannig ætti hálsinn að geta verið laus við alla stífni, því að tónninn kemur ekkert nálægt hálsinum í þessari ímynd.  En margir vilja setja sig í stellingar þegar þeir byrja að syngja, stífna upp og tónmyndun verður óeðlileg.  Stundum getur jafnvel verið gott að syngja ekki.

– Meinarðu þá að syngja í huganum eða tala?

Mér finnst oft koma sér vel að láta fólk tala, t.d. setninguna margfrægu, Litlu börnin leika sér og ná upp hljómi í töluðu orðunum og færa sig síðan í átt að sungnum tóni.

Um leið verðum við að finna fyrir plássinu aftur í munn- og nefkoki.

– Einhver sérstök ímynd til að finna opnunina aftur í?

Já, að finna loftið myndast inni í sér.  Mikil og stíf innöndun hefur bara kæfandi áhrif.  Það má ekki offylla sig.  Margir vilja gleypa loftið og stífna um leið, en ef maður hugsar sér að loftið komi innan frá, opnast hálsinn og mýkist, eins og blaðra sem er blásin upp, blaðran hefur ekkert fyrir því sjálf og stífnar því ekki.  Það er því mikilvægt að “kyngja” ekki loftinu, á leiðinni verður það að búa til þetta stóra pláss, þannig að úfurinn lyftist og barkakýlið sígi niður.   Það er mikilvægt að opnunin sé mýkjandi fyrir hálsinn.

En svo er reyndar ágætt að fnæsa eins og ljón, blása í gegnum nefkokið og finna fyrir opnuninni áður en maður byrjar að syngja, því þannig kemur líka kviðurinn með á eðlilegan hátt.

– Vel á minnst, hvað finnst þér algeng vandamál í sambandi við stuðning?

Alltof margir draga inn kviðinn að framan og herða að.  Kviðurinn á að vera virkur, en hann á ekki að vera stífur.  Þetta jafnvægi hefur mér alltaf fundist einna erfiðast að útskýra.

Það er reyndar oft talað um slökun almennt í sambandi við söng, en það veldur líka gjarnan misskilningi, við verðum að vera virk þó við eigum ekki að vera stíf.  Að slaka á er ekki sama og vera eins og dauð manneskja.  Þvert á móti þurfum við að svífa í loftinu, alls staðar, brjósthol og kviðarhol svífa út og þannig erum við virk.  En að sjálfsögðu dregst kviðurinn upp að neðan eftir því sem líður á frasann.  Það má hins vegar ekki herða að að framan, slíkt hersli heldur áfram upp í háls og klemmir tóninn.  Vandinn er sem sagt að gera ekki of mikið, því þá kæfir maður tóninn og hefur enga stjórn á losuninni fyrir ofan.

Mér finnst ekki vitlaust að finna þetta jafnvægi með “bumbubananum”, að finna fyrir því hvernig vöðvarnir geta unnið án stífni.

unnamed (2)

Með Nicolai Gedda í Rigoletto í Þjóðleikhúsinu 1960

– Hvað með framkomu og túlkun?

Túlkun er erfitt að kenna, allir hafa tilfinningar, en það er svo misjafnt hvernig þeir ná að tengja það sem gerist innra með þeim og við strenginn sem gengur fram til áheyrenda.  Sumir eru fæddir með þetta, aðrir ekki, sumir segja alla hluti svo tómlega, en aðrir ljá orðunum merkingu með raddblænum einum saman og eins er þetta í söng.

Sjálfri fannst mér alltaf að textinn þyrfti að höfða til mín.  Í gamla daga voru einsöngvarar fengnir til að flytja nýjar söngdagskrár á mánudagskvöldum í Ríkisútvarpinu og Fritz Weisshappell valdi lögin til að byrja með.  Ég man að ef textinn höfðaði ekki til mín þá var eins og ég næði ekki tökum á laginu.  Þess vegna er svo nauðsynlegt að skilja til hlítar það sem maður syngur til að tónarnir öðlist líf.

unnamed (5)

Maddalena í Rigoletto í Þjóðleikhúsinu 1960

Innlifun hjálpar röddinni, því að ef textinn kemur sterkt til manns, gleymir maður sér og verður eðlilegur.  Þannig tengjum við sjálf okkur við textann og förum að skapa eitthvað frá sjálfum okkur.

Hægt er að kenna framkomu að nokkru marki, og raunar æfa tenginguna nokkuð með því að biðja fólk strax á fyrstu stigum um að kynna sig og segja hvað það ætlar að syngja, en jafnvel þetta eiga margir erfitt með að gera eðlilega og á áhugaverðan hátt.

Hins vegar er mikið nám fólgið í því að hlusta, bæði til að kynna sér efni, sjá hvernig aðrir gera hlutina, bæði vel og illa.  Helmingurinn af náminu er það sem maður leggur sjálfur á sig og hugsar, það er hreint ekki nóg að fara í söngtíma!  Í raun er þetta að miklu leyti sjálfsnám.  Þetta fann ég einkum í München þegar ég hafði ekki um neitt annað að hugsa en sjálfa mig og þetta hugðarefni mitt.  Það er ekkert sem styrkir mann eins og að gleyma sér í verkefninu og vera fullkomlega upptekinn af því!

20. maí 2006

– Bergþór

Fleiri viðtöl

Print Friendly, PDF & Email