Á toppnum – tenórröddin

Á toppnum – tenórröddin
Skrifað af Administrator
Tuesday, 24 January 2006
  Hugleiðingar um tenórröddina eftir HALLDÓR HANSEN

„Karlar, konur og tenórar” heitir ævisaga söngkonunnar Frances Alda, sem endur fyrir löngu var eiginkona Gatti Casazza, þáverandi forstjóra Metropolitan óperunnar í New  York. Hún hafði engilblíða söngrödd, en var þó þekkt fyrir að segja sannleikann óþveginn og allt annað en mildilega. Henni þóttu tenórar fyrirbæri í tilverunni, sem um giltu önnur lögmál en þau sem eru ráðandi um aðra dauðlega. Og víst er um það, að tenórröddin er snöggtum sjaldgæfari en aðrar karlaraddir og sú sem slær öllum öðrum við að vinsældum.

Tenór – nýtt fyrirbæri?

Það skrýtna er að tenórraddir eins og við þekkjum þær í dag,eru tiltölulega nýtt fyrirbæri í sögu söngsins. Þær urðu ekki til fyrr en farið var að líða á 19. öldina og franski söngvarinn Gilbert Duprez fann upp á því að syngja háa C-ið blandað brjósthljómi til að gefa röddinni meiri kraft í stað þess að láta það byggja á ómenguðum höfuðhljómi eins og áður tíðkaðist. Þetta fyrirbæri var kallað „ut-de-poitrine” á frönsku, en „Do-di-petto” á ítölsku og þýðir einfaldlega “frá brjóstinu”. Fyrirbærið vakti blendnar tilfinningar. Sumir urðu yfir sig hrifnir, en aðrir töldu það smekkleysu hina mestu. Í hópi gagnrýnenda var t.d. tónskáldið Gioacchino Rossini.

Nú á dögum þykir það hins vegar ljóður á ráði tenórsöngvara að grípa til svo kallaðrar falsettu tómyndunar í hæðinni og sá söngvari sem það gerir á tæplega upp á pallborðið í hæsta gæðaflokki. En þessu hefur ekki alltaf verið þannig farið.

Raddbönd karlmanna með háa tenórrödd eru e.t.v. ekki svo mjög löng, en þau eru mun þykkari en raddbönd kvenna. Þetta skýrir það nokkuð af sjálfu sér hvers vegna karlmannsröddin á erfiðara með að sýna sömu lipurð og sveigjaleika og kvenröddin. Engu að síður var ætlast til þess hér áður fyrr að söngvarar, og þá sér í lagi tenósöngvarar, gæfu konum ekkert eftir í flúrsöng. Fólk var þá enda vant söng kastratanna eða geldinganna og furðaði sig ekkert á því þótt rödd sem kæmi úr karlmannsbarka hefði á sér ofurlítinn kvenlegan blæ, ef lipurleikanum var ekki ábótavant.

 

Falsettusöngur

Falsettusöngur byggir að verulegu leyti á því að einungis jaðrar raddbandanna titri, en ekki öll raddböndin í lengd sinni, breidd og þykkt eins og gerist þegar brjósthljómur er ríkjandi. Falsettusöngmátinn auðveldar því flúrsöng til. En hvað þýðir þá orðið „falsetto” og við hvað er miðað? Nú á dögum telja flestir að heitið sé dregið af latneska orðinu  „falsus”, sem þýðir falskur eða óekta. Þarna er átt við einhvers konar gervihljóm, sem sé röddinni hvorki eðlilegur né eiginlegur. Þegar karlmaður syngur tónstigann upp á við með fullum þrótti og brjósthljómi kemur að því fyrr eða síðar, að röddin fer skyndilega yfir í annan farveg, hún verður mjó, hljómlítil og hjáróma. Röddin er þá komin yfir í það sem í dag er kallað „falsettu” lega. Fyrr á tímum töldu sumir að orðið „falsetta” væri dregið af orðinu „fauces”, sem þýðir eiginlega „kok”. Þar á meðal var t.d. hinn frægi spænski söngkennari Manuel Garcia. Samkvæmt þeim skilningi er falsetturöddin sama eðlis og s.k. „óblandað miðsvið” hjá konum og byggir á því að efri hljómmögnunarmöguleikar raddarinnar eru nýttir til hina ítrasta, en þeim lægri ekki hleypt að. Það er vafalítið þessi söngmáti sem tenórar fyrri tíma hagnýttu sér á efra tónsviðinu. Við það varð röddin tiltölulega liðug og lipur í hæðinni,en ekki sérlega þróttmikil né með karlmannlegan hljóm.

En það var Gilbert Duprez, sem breytti öllu þessu þegar hann fór að blanda brjósthljómi inn í alla tóna, jafnt háa sem höfðu aldrei haft áður, þótt það hafi vissulega orðið ár kostnað sveigjaleika og lipurðar raddarinnar.

 

Kontratenór

Jochen Kowalski , fæddist 1954, sonur hjónanna í kjötbúðinni í þorpinu Wachow, rétt hjá Brandenburg í Þýskalandi:

 

Aðrir: Sverrir Guðjónsson , Andreas Scholl, James Bowman , David Daniels, Klaus Nomi, Brian Asawa , René Jacobs.

Kontratenór er hæsta karlmannsrödd sem til er. Þá er oftast um að ræða rödd sem snýr við fordæmi Gilberts Duprez og flytur óblandaðan höfuðhljóm eins langt niður eftir tónstiganum og hægt er án þess að röddin þurfi að skipta yfir í brjóstlegu. Þessi rödd minnir um margt á dökka kvenrödd, en hljómurinn er þó oftast hlutlausari og nokkurn veginn „kynlaus”. Röddin þótti því henta mjög vel til að túlka andlega tónlist og koma því til skila, sem eðli sínu samkvæmt væri ekki af þessum heimi. Þetta gilti einkum áður en konur urðu gjaldgengar innan veggja kirkjunnar sem flytjendur andlegrar tónlistar.

Langoftast hafa kontratenórar djúpa talrödd, jafnvel mjög djúpa. Einn og einn virðist þó sérstakt afbrigði náttúrunnar og vera s.k. „eðlilegur” eða „náttúrulegur” kontratenór. Það er söngvari með óvenjulega háa og þunna tenórrödd, sem liggur einni gráðu ofan við það sem kallast „tenore leggiero” eða „tenore grazia” á ítölsku og við komum að síðar. Margir halda að kontratenórröddin sé náskyld geldingaröddinni , en fróðir menn telja að svo sé ekki. Hljómur geldinganna hafi verið allt annar, fyllri, glæsilegri og veraldlegri og engan veginn í sama þráðlausa sambandi við andlegheitin og kontratenórröddin.

Á endurreisnartímabilinu var kontratenórröddin mjög í móð, einnig við flutning veraldlegrar tónlistar. Þessi söngmáti hvarf svo nokkurn veginn af sjónarsviðinu þar til hann var endurvakinn um miðbik þessarar aldar, þegar áhugi á gömlum hefðum og hljóðfærum vaknaði í sambandi við  flutning á gamalli tónlist. Jafnframt því fóru samtíðatónskáld að semja sérstaklega fyrir þessa rödd. Að auki hefur þessi söngmáti verið að ryðja sér til rúms í poppheiminum.

 

Tenore leggiero eða di grazia

Hinn kynþokkafulli Juan Diego Flórez frá Perú f. 1973:

 

Fleiri léttir: Snorri Wium, Raúl GiménezIan Bostridge,   Bonaventura Bottone , Stuart Burrows , Alfredo Kraus.

Tenore leggiero eða tenore di grazia er sú tegund tenóra, sem eðli sínu samkvæmt stendur næst sönghefð fortíðarinnar og á auðveldast með að uppfylla kröfur hennar. Röddin er mjög há og liðug, en fremur þunn og ekki sérlega kraftmikil. Hún fellur tiltölulega eðlilega að þörfum tónlistar, sem samin var á 18. öldinni og á fyrri hluta þeirrar nítjándu – eða áður en tónlistin þróaðist meira í þá átt sem krafðist þróttmeiri og litríkari radda. Eins og nafngiftin „tenore di grazia” bendir til, er fágunin aðalsmerki þessarar raddar. Nú orðið finnst mörgum meira koma til raddmagns en raddfágunar og því hafa ítalir í seinni tíð stundum kallað þetta raddafbrigði „tenorino” (lítill tenór) og þá undanskilið að þessi raddgerð sé ekki með öllu samkeppnisfær samfélagi „alvöru” tenóra.

Annað og skylt afbrigði af léttri tenórrödd kallast „tenorebuffo” á ítölsku en „Spieltenor” á þýsku. Ólíkt „tenore di grazia” eru þessir tenórar sjaldnast í hlutverki elskhugans eða alla vega ekki fyrst og fremst. Þeir eru frekar í hlutverkum sem lífga upp á söguþráðinn og tónlistina og eru í rauninni oft hliðstæða gamanleikarans á venjulegu leiksviði. Stundum vantar þessa rödd allra efstu tónana til að vera gjaldgengir sem „tenore di grazia” eða þá að útlit og innræti söngvarans er betur til þess fallið að koma gamansemi og fjöri til skila en að skapa rómantískt andrúmsloft í kringum sig.

Dæmigerð hlutverk: Almavíva (Rakarinn frá Sevilla – Rossini), Nemorínó (Ástardrykkurinn – Donizetti), Tamínó (Töfraflautan – Mozart), Ferrandó (Cosi fan tutte – Mozart), Don Ottavio (Don Giovanni – Mozart), Hertoginn (Rigoletto – Verdi)

Tenore lirico

FrancIsco Araiza , frá Mexíkó, leiðandi tenór í lýríska/leggiero faginu:

 

Fritz Wunderlich, af mörgum talinn einn fremsti lýríski tenór veraldarsögunnar:

 

Enn aðrir kjósa Svíann Jussi Björling, sem á síðari hluta ferilsins fékkst við þyngri hlutverk, eins og á við um svo marga tenóra.

 

Önnur dæmi: Gunnar Guðbjörnsson, Rolando Villazón, Marcelo Álvarez, Joseph Calleja,  Richard Tauber, á fyrri hl. ferils: Ferruccio Tagliavini og Gigli 

Rómantík í algleymi er hins vegar óumdeilanlega höfuðviðfangsefni hins lýríska tenórsöngvara því engin karmannsrödd á jafn auðvelt með að bræða hjörtun með hljómnum einum saman og einmitt þessi raddgerð. Þetta er rödd æskublómans og vonarinnar, nánast ímynd draumsins, sem er skyndilega orðinn að áþreifanlegum veruleika. Ef það er í eðli sópranraddarinnar að svífa, þá er það í eðli hinnar lýrísku tenórraddar að leiftra, skína og ólga af lífskrafti. En hún er engu að síður óneitanlega jarðbundin, af þessum heimi, rödd bjartsýni og vonar. Hinn lýríski tenór er nær undantekningarlaust í hlutverki elskhugans og fulltrúi æskudrauma. Rödd hans er allt í senn; björt, litrík og aðlaðandi.

Hlutverk fyrir lýríska: Alfredó (La traviata – Verdi), Fást (Fást – Gounod), Rodolfo (La Bohème – Puccini), Pinkerton (Madama Butterfly – Puccini), Don José (Carmen – Bizet).

 

Lirico-spinto tenór

José Cura frá Argentínu, stórtenór og stjórnandi:

 

Thomas Moser frá Richmond í Virginíu byrjaði á Mozart, Belmonte, Tamínó og Ottavíó, en fór svo seinna yfir í Peter Grimes og Parsífal, hvernig er það nú hægt?  Jú, flest þyngjumst við nú með aldrinum (eða er það kallað að þroskast?)

 

Meistarann Nicolai Gedda från Sverige mætti líka setja í hvaða flokk sem er, en hann söng allt frá Almavíva í “Rakaranum frá Sevilla” eftir Rossini yfir í Gústaf í “Á valdi örlaganna” eftir Verdi.

 

Fleiri flottir: Garðar Cortes, Kristján Jóhannsson, Roberto Alagna;  Franco Corelli,  Mario del Monaco, Carlo Bergonzi; José Carreras; Placido Domingo; Beniamino Gigli; Dennis O’Neill; Luciano Pavarotti.

Það er oft mjótt á mununum á milli lýrísku tenórraddarinnar og þess afbrigðis, sem ítalir kalla „lirico-spinto” og Þjóðverjar „jugendlich-dramatisch”. Margar hreinlýrískar raddir dökkna með aldrinum og öðlast meiri fyllingu og kraft. Við það breytast þær í lirico-spinto tenórrödd. Aðrar raddir hafa haft þessa eiginleika frá byrjun.

Ef lýríska tenórröddin er táknræn fyrir æskublómann, – fyrir þann sem á lífið framundan, þá er lirico-spinto röddin fremur rödd þess, sem farinn er að takast á við lífið í öllum sínum marg breytileika. Þetta er rödd hins þroskaða manns, sem stendur í miðju átakanna með báða fætur á jörðinni, enda þótt rómantík í einhverju formi sé sjaldnast langt undan.

Hugsanleg hlutverk: Cavaradossi (Tosca – Puccini), Radamès (Aida – Verdi), Don Alvaro (Á valdi örlaganna – Verdi)

Tenore di forza

Bangsímoninn Ben Heppner frá Bandaríkjunum:

 

Aðrir hetjutenórar: Kolbeinn Ketilsson, Johan Botha, Jon Vickers,  Lauritz Melchior, Wolfgang Windgassen, Alberto Remedios, Enrico Caruso.

Hinn eiginlegi hetjutenór er sjaldgæfasta afbrigði tenórraddarinnar. Þetta er rödd, sem á mið- og lægra raddsviðinu hefur kraft, fyllingu og oft hinn dökka lit barítónraddarinnar að viðbættri hæð tenórsins. Sú rödd, sem á ítalíu er kölluð „tenore di forza” eða „tenore robusto”, er þó venjulega heldur bjartari en sú sem á þýsku er kölluð „Heldentenór” eða hetjutenór.

Það er ekki óalgengt að hetjutenórar byrji feril sinn sem barítónsöngvarar, sem tekst með þrotlausri þjálfun að uppgötva eða bæta við nokkrum tónum ofan við hið upphaflega raddsvið og breytast þar með í tenórsöngvara. Þetta á einkum við um þann hetjutenór, sem sérhæfir sig í að syngja í óperum Richards Wagners, en þær gera sjaldnast kröfur til þess að söngvarinn syngi til langframa í hæðinni þótt hann þurfi að geta brugðið sér upp á háa tóna við og við. Ítalskar óperur krefjast þess frekar að hinn dramatíski tenór geti einnig glansað og skinið á efra tónsviðinu þegar svo ber undir.

Hlutverk fyrir þykkar tenórraddir gætu verið: Manrico (Il Trovatore – Verdi), Ótelló (Ótello – Verdi), Parsífal (Parsífal – Wagner), Max (Töfraskyttan – Weber), Grimes (Peter Grimes – Britten), Flórestan (Fídelíó – Beethoven)

 

– Halldór Hansen (myndatextar og dæmi um söngvara í hverju fagi setti BP inn að gamni, en munum að fáir tenórar, ef nokkrir hanga í sama faginu allan sinn aldur)

Síðast uppfært ( Tuesday, 22 March 2011 )