Jón Sigurbjörnsson

Jón Sigurbjörnsson

Ásareiðin eftir Sigvalda Kaldalóns eða Suðurnesjamenn eru dæmi um lög sem Jón Sigurbjörnsson hefur gert ódauðleg, en af mörgu er að taka. Til dæmis er til frábær upptaka í RÚV af Verdi Requiem með Jóni. Escamillo, Sparafucile og fleiri karakterar lifnuðu við í höndunum á honum, enda er Jón einn af okkar þekktustu og mikilvirkustu leikurum.

Jón

Jón Sigurbjörnsson á Helgustöðum

Þegar hann varð sjötugur hóf hann búskap að Helgastöðum í skjóli Vörðufells í Árnesþingi, sex kílómetra leið frá Skálholti. Fjölskyldan á 24 hross og í félagsskap þeirra er hann í essinu sínu.

Um feril Jóns og lífshlaup má lesa í bók Jóns Hjartarsonar, „Sú dimma raust“. Við settumst hins vegar niður í eldhúsinu á Helgastöðum yfir súkkulaðiköku og vínarbrauðslengju, með ægifagurt útsýni til Heklu á yndislegum júnídegi, til að spjalla nánar um söng og söngtækni. Þar sem Jón er leikari, lá beint við að spyrja hann út í tengsl óperu og leiklistar.

LEIKLIST Í ÓPERU

 • Að vinna hlutverk frá grunni og skapa persónu fer alveg eins fram, hvort sem um er að ræða talað leikrit eða óperu. Þessi vinna veittist mér eflaust léttari en sumum öðrum söngvurum vegna reynslu minnar úr leikhúsinu. Hinn sjálfsagði undirbúningur, eins og að gera mér grein fyrir því hvaðan ég kom inn í senu og hvert ég fór var mér auðvitað ekki framandi. Að læra rullu felur ekki einungis í sér að einblína á þann karakter sem maður ætlar að skapa, heldur ekki síst að skoða samskipti persónanna og sambandið þeirra á milli.
Kaffi og vinarbrauð a Helgustöðum

Kaffi og vinarbrauð a Helgustöðum

FRAMLÆG HLJÓMSTAÐA

Á upptökum hljómar röddin þín ávallt laus, jöfn á öllu tónsviðinu og flæðir fram eins og foss. Var þessu svona farið frá byrjun?

 

 • Sem unglingur og ungur maður hafði ég alls ekki þann resonans sem ég átti eftir að finna síðar. Samt var tekið mark á mér, því að röddin var laus og víbrandi. Kórstjórinn minn í Borgarnesi vildi endilega að ég færi í Karlakór Reykjavíkur til Sigurðar Þórðarsonar, sem ég og gerði. En röddin var stutt í efri kantinn, ég náði aðeins upp á D, allt þar fyrir ofan var óplægður akur. Ég söng allt galopið og hafði ekki hugmynd um hvað það var að dekka, sem mér skildist löngu seinna. Ég fékk samt heilmikið „blod på tanden“ í frægri söngför KR til Bandaríkjanna. Ég varð eftir í New York til að fara í leiklistarnám, en fór jafnframt í söngtíma. Kennarinn hentaði mér þó ekki, því að aðaláherslan var á að opna hálsinn, en hljómstaðan sem slík varð útundan. Hálsinn var jú opinn, en það skildist ekki orð af því sem ég söng og þá vissi ég að ég var ekki á réttri leið. Það var ekki fyrr en á Ítalíu sem ég náði hæðinni. Það gekk samt ekki þrautalaust að finna rétta kennarann, en sá var Paolo Silveri, frægur barítónsöngvari sem ég fór til í Róm. Þá fór mér að skiljast hversu mikilvægt er að ná röddinni upp og fram og dekka til þess að jafna hana upp úr.

 

SUI DENTI, VIBRATION, TEXTI OG RÚNNUN

Geturðu lýst nánar þeim hugmyndum?

 • Vinnan fólst meðal annars í því sem Ítalir kalla stundum „sui denti“, eða á tennurnar. Maður verður að hafa það á tilfinningunni að hljómurinn sitji frá tönnum og upp úr. Þannig verður hann „frammi“ sem kallað er. Upp og fram sem sagt. Ég sá einu sinni í sjónvarpi viðtal við móður Ceciliu Bartoli, sem var stundum í litlum hlutverkum á Scala þegar ég var í Mílanó. Hún talaði einmitt um þetta hugtak, „sui denti“ og hvernig það
  Inámi á Italiu

  Í námi á Ítalíu

  tengdist textanum. Hún hefur þjálfað Ceciliu enda er engin tilviljun að það skilst hvert orð sem sú stúlka syngur. Framburðurinn skiptir nefnilega svo miklu máli, stundum er sagt að maskinn sé það sama og textinn, að tyggja orðin fram. Upp og fram. Í bel canto söng er líka svo mikilsvert að syngja ekki fláa sérhljóða, enda á ég bágt með að þola beina tóna hjá sumum söngvurum. Tónar sem hafa enga vibration hljóma stífir og líflausir í mínum eyrum. Auðvitað þarf maður að geta sungið A, án þess að úr verði O, en það má ekki vera hreint galopið A. Tónarnir eiga ekki að vera beinir, heldur mjúkir, hlýir og rúnnaðir og það er þetta sem ítalska þéttnin og hvelfingin í gómnum og upp úr stefnir að. Þess vegna blöndum við A með örlitlu O-i og E með örlitlu Ö-i. Þetta tengist vitaskuld innri opnun.

INNRI OPNUN

Þú hefur þá ekki sagt skilið við opna hálsinn sem þér fannst gera þig óskýrmæltan?

 • Hálsinn þarf vissulega að vera opinn. Allt verður þetta að koma saman, eins og vél, þar sem hvert tannhjól er vel smurt. Opnun hálsins má bara ekki vera forceruð; ef opnunin
  leikaramynd

  Leikaramynd

  er mjúk og slakandi, verkar hún eins og frelsandi engill til að losa hálsinn og kjálkann við stífni.

SUI DENTI UTAN FRÁ

Upp og fram, mjúk hálsopnun og dekkun eru þá lykilorðin þín?

 • Óneitanlega, en það hangir fleira á spýtunni og það er stuðningur. Áður en við förum út í þá sálma langar mig þó að nefna að það má hugsa sér framlæga hljómstöðu á fleiri vegu en ég greindi frá hérna á undan. Stundum hugsaði ég mér að háu tónarnir kæmu hreinlega utan frá, inn að framan og þannig lá leið þeirra í maskann. Þetta er ein leið til að koma í veg fyrir að hálsinn komi við sögu, stífni og standi í vegi fyrir eðlilegri raddmótun. En framlæg hljómstaða og mjúkur háls tengjast stuðningnum, enda má ekkert tannhjól vanta í heildarmynd söngvélarinnar okkar.

STUÐNINGUR

Og hvernig skilgreinir þú stuðning?

 • Við erum að tala um að anda niður í pung! Auðvitað þurfum við að nefna það öðru nafni hjá konum, en þið vitið hvað ég á við! Það má ekki anda grunnt, þannig að maður standi á öndinni. Stuðningur felst í því að anda alla leið niður og út og sleppa ekki
  JónogSirry

  Jón með Sigríði Ellu Magnúsdóttur og Ragnari Björnssyni

  loftinu út í gusum. Einu sinni stóð ég fyrir aftan Guðmund Jónsson í tónleikaferð Karlakórs Reykjavíkur til Ameríku (en hann var annar einsöngvaranna, hinn var Stefán Íslandi) og þegar hann andaði inn, spýttist ein talan úr vestinu hans út í sal, svo mikil var slökunin niður. Þetta er nefnilega slakandi aðgerð og á ekkert skylt við pressu. Herpingur stíflar tónmyndunina. Við getum miklu frekar ímyndað okkur að til verði loftpúði neðst í kviðarholinu. Ef hann er til staðar verður allt fyrir ofan svo miklu auðveldara, vibration raddarinnar, hálsinn slakur og hljómstaðan framlæg. Allt verður þetta að haldast í hendur.

AÐ HLUSTA Á GÓÐA SÖNGVARA

Hvað með tónlistina sjálfa? Hvernig lærðirðu að lyfta nótum af blaði og gera úr þeim tónlist?

 • Í fyrsta lagi spilaði ég á harmóníku á böllum Í BORGARFIRÐI Á MÝRUM sem unglingur, en seldi hana þegar ég fór til Bandaríkjanna og hef varla spilað á harmóníku síðan 1946! Svo lærði ég á píanó í Tónlistarskólanum. Þótt ég væri e.t.v. ekki efni í píanóleikara, bjargaði það mér algerlega seinna meir við vinnuna að læra rullur. Þegar ég var hjá Silveri, sendi hann mig líka til repetitöra þar sem ég kynntist því að vinna hlutverk músíkalskt og upp úr því fór ég með ferðaóperu um Ítalíu, sem var ágætur skóli. Eftir að ég fór að vinna hér heima, voru Victor Urbancic og Róbert Abraham betri en enginn við allt sem sneri að tónlistarlegu hliðinni. En síðast en ekki síst, var ómetanlegt að hlusta á góða söngvara. Allt frá Ezio Pinza í New York til Mariu Callas, Franco Corelli, Boris Kristoff, Nicola Rossi-Lemeni og margra fleiri á Ítalíu, að ég tali ekki um uppáhalds-bassasöngvarann minn, Nikolaj Gjároff frá Búlgaríu, sem ég hef að vísu aðeins heyrt á upptökum. Ég var duglegur við að smygla mér inn, gekk inn í Scala og sagðist vera leikari sem langaði að læra óperuleikstjórn og þannig var ég kominn inn á æfingu með Renötu Tebaldi og Mario del Monaco! Návígið við þessa veröld var ómetanlegt.

  Sparafucile ´Rigoletto

  Sparafucile í Rigoletto

LÍFSGLEÐI

Jón Sigurbjörnsson varð 93 ára 1. nóv. 2015. Hann iðar af lífi og talar um þessi hjartans mál sín af brennandi áhuga og eldmóði. Hver er eiginlega galdurinn við að eldast svona vel?

 • Ég hef alltaf fengist við það sem hefur veitt mér ánægju. Allt frá því ég var með bíladelluna og keyrði um á vörubíl (sem var draumastarfið þá), og til þess að annast hrossin mín og leika og syngja á sviði, hefur þetta allt saman verið mér ljúf vinna. Það sem er gaman, getur ekki verið lýjandi og leiðinlegt!

NOKKUR RÁÐ

Hvað viltu segja við söngnemendur að lokum?

 • Við alla mína nemendur hef ég sagt: Gætið þess að klemma hvergi. Andið almennilega, ekki eina litla gusu efst í brjóstholið, heldur alla leið niður. Hljóminn upp og fram! Og síðast en ekki síst: Eðlileg og laus rödd hefur vibration. Hvað er eiginlega íslenska orðið fyrir vibration?!

– Bergþór

 

Fleiri viðtöl

Print Friendly, PDF & Email