Hvernig flokkast söngröddin?

Hvernig flokkast söngröddin?
Skrifað af Administrator
Saturday, 21 January 2006
eftir HALLDÓR HANSEN (birtist fyrst í Óperublaðinu 2.tbl. 6.árg. 1992

“Hvers konar rödd er ég?”, er um það bil það fyrsta sem söngnemandi spyr, þegar hann fer til söngkennara.  Þetta virðist eðlileg og auðveld spurning.  Þó er henni ekki alltaf auðsvarað.

Eins og mörg flokkun er fyrirbærið oft skilgreiningaratriði, því að frá náttúrunnar hendi eru mörkin stundum óskýr og kennari þarf oft að vinna nokkuð lengi með nemanda, áður en í ljós kemur, hvernig réttast sé að flokka röddina.  Stundum er það jafnvel ekki ljóst að loknu löngu námi, þar eð sumar raddir búa yfir möguleikum í fleiri en eina átt.

Í sjálfu sér liggur ekki mikið á fyrir söngnemanda að fá þetta atriði á hreint og skiptir í raun ekki höfuðmáli fyrr en nemandinn ætlar að fara að læra óperuhlutverk eða velja sér verkefni sem hæfir röddinni.

En það getur verið gremjulegt fyrir þann, sem er búinn að leggja á sig að læra mörg löng og erfið hlutverk í einu fagi, að uppgötva þá að röddin er farin að hækka sig eða lækka, allt erfiðið unnnið fyrir gýg, og ekki um annað að ræða en að snúa sér að því að læra ný hlutverk, sem falla að breyttri rödd.

 

Hvernig flokkast svo raddir?

 

Maria Callas.  Hún var sópran og gat sungið nánast allt, lýrísk hlutverk, dramatísk og fyrir kóloratúru.

Í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:  Hæsta kvenröddin hefuur verið kölluð sópran en sú lægsta alt eða jafnvel kontraalt, ef röddin er óvenjudjúp.  Þar á milli kemur mezzósópran, sem hefur minni hæð en sópran og dekkri litblæ, án þess þó að vera jafndjúp og dökk og altröddin.

Hæsta karlmannsröddin hefur á sama hátt verið kölluð tenór, en sú dýpsta bassi og þar á milli kemur svokölluð baritónrödd.  Algengustu raddir eru að sjálfsögðu mezzósópran hjá konum og baritónraddir hjá körlum, en þó eru það einmitt þessar raddir, sem hvað oftast breyta sér með þjálfun og annað hvort hækka sig eða lækka eftir ástæðum.

 

Skiptir raddumfang eitt sér öllu máli?

Nei, svo er ekki.  Raddlitur getur skipt jafnmiklu máli.  Sópran- og tenórraddir eru til dæmis venjulega skærar og bjartar raddir í eðli sínu, en alt og bassaraddir dökkar og oftast þungar raddir.  Mezzósópran og baritónraddir fara bil beggja, hvað lit varðar.  Engar tvær raddir eru eins, því að hver og ein hefur sinn persónulega raddblæ, sem þó er til dæmis hægt að lýsa eða dekkja, ef kunnátta til þess er fyrir hendi.  Á ítölsku hefur þetta fyrirbæri verið kallað “chiaroscuro”, sem þýðir eiginlega “bjart-dimmt” og þá er átt við, að söngvarinn eða söngkonan finni kjarna í rödd sinni, sem er nokkurn veginn hlutlaus, en út frá þeim kjarna geti röddin farið í átt hins ljósa og tæra eða í áttina að því dökka og matta innan þeirra marka, sem eðli raddarinnar leyfir.

Í raun er persónulegur litur og blær hverrar raddar að mestu bundinn við miðsvið raddarinnar, þar eð hæðin verður meira einlita, ljósari og bjartari, en dýptin dökk og mött.  Litauðgin er því fyrst og fremst bundin við miðsviðið, þar sem hvort tveggja mætist.  Því má segja að miðsvið raddarinnar sé undirstaðan, sem annað byggir á.

Til eru söngvarar, sem leggja það í vana sinn að “yfirlýsa” röddina, t.d. til að auðvelda sér að komast upp í hæðina eða “yfirdekkja” til Þess að fá fram meiri fyllingu, en hvort heldur sem er, fer litauðgi raddarinnar forgörðum og þar með mikilvægt tjáningartæki.

 

Hvers vegna eru raddir svo mismunandi?

 

Grace Bumbry í hlutverki Amneris í Aïdu þegar hún var mezzósópran. Seinna gerðist hún sópran og söng m.a. hlutverk Aïdu sjálfrar. (Kíkið á þessa: http://parterre.com/2006/06/bosom-buddies.html innsk. BP)

Mannsröddin er sama eðlis og blásturshljóðfæri.  Hún myndast í barkanum við það að loft frá lungunum þrengir sér á milli lokaðra raddbanda og kemur þeim þar með í sveiflu.  Sveifluhraðinn ákvarðar tónhæðina.  Eðli raddarinnar fer hins vegar eftir lengd og þykkt raddbandanna.  Háar raddir hafa yfirleitt tiltölulega stutt og þunn raddbönd, en djúpar raddir lengri og þykkari.

Þeim mun hærri sem hinn sungni tónn er, þeim mun strekktari eru raddböndin, en þeim mun dýpri sem hann er, þeim mun minna spennt eru þau.  En það situr ekki við þetta eitt.  Á lægstu tónunum  titra raddböndin bæði í lengd og breidd, á miðsviðinu titra einungis jaðrar raddbandanna, en á hæstu tónunum einungis hluti þeirra.

Á þessu atriði grundvallast svokölluð registurskipti raddarinnar, þ.e.a.s. hvert tónninn leitar til að magnast og öðlast sinn sérstaka lit.  Oftast er talað um svokallað höfuðregistur, miðregistur og svo brjóstregistur, og kveikjan að nafngiftinni er það, hvar söngvarinn skynjar hljóminn og hljómmögnunina, þegar hann er að syngja.  Hljómmögnunin fer í sjálfu sér fram í svokölluðum hljómholum í hálsi, nefkoki og höfði ofan við raddböndin, þar sem hljómurinn verður til, en þar eð einstaklingurinn getur ekki meðvitað skynjað holrúm í líkamanum sem slík, verður hann að hafa það að leiðarljósi, hvar tónninn skellur á einhverjuj hörðu eins og t.d. höfði, andliti og ennisbeinum eða brjóstkassa, og skynjar söngvarinn tónmögnunina sem einhvers konar titring á hlutaðeigandi stað.

 

Innbyggðir veikleikar raddarinnar

 

Fjodor Sjaljapín, frægasti bassi sögunnar.

Flestir tónar mannsraddarinnar leita mögnunar eðlilega og fyrirhafnarlaust á ákveðnum stöðum.  Hins vegar eru alltaf nokkrir tónar í hverri rödd, þar sem ekki er alveg skýrt hvert hljómurinn leitar mögnunar eðlilega, heldur er í raun hægt að syngja þessa tóna t.d. annað hvort með brjósthljóm eða höfuðhljóm.  Hvort heldur sem gert er, veldur það misfellum jafnt í lit sem hljómstyrk hlutaðeigandi tóna og sé ekkert að gert má auðveldlega heyra skiptin.  Þetta þykir lýti í fagursöng, þar eð takmark hans er að jafna allar misfellur með því að blanda saman brjósthljóm og höfuðhljóm á þessum vandmeðförnu tónum, þannig að engin skörp mörk verði heyranleg, hvort heldur sem er í lit eða hljómstyrk.

Þetta er að verulegu leyti gert með því að yfirkeyra ekkert eitt raddsvið heldur leyfa þeim að halda fullkomnu jafnvægi sín á milli, þannig að í hverjum tón sé raunveruleg tenging við öll þrjú registur, þó að eitt yfirgnæfi önnur í samræmi við tónhæðina.  Um leið og farið er að keyra eitt raddsvið til hins ítrasta, gerist það venjulega á kostnað hinna tveggja, þar eð tengslin losna.  Sé til dæmis miðsviðið  yfirkeyrt, getur það með tíð og tíma misst samband við hin sviðin og gert söngvaranum erfitt um vik að komast eðlilega og auðveldlega upp á háu tónana, en séu þeir að staðaldri þandir til hins ítrasta, getur það smám saman leitt til þess að lægra raddsviðið missi lit og hljóm, því að sambandið við lægri mögnunarmöguleika rofnar eða torveldast.

 

Hvaða tónlist hentar hverri rödd?

Það er tiltölulega auðvelt að skilja, hvers vegna þunn og stutt raddbönd, sem liggja að baki háum og skærum röddum, eru hreyfanlegri og sveigjanlegri en þykk og löng raddbönd, sem liggja að baki dökkum og þungum röddum.  Þegar við bætist að dýpstu tónarnir byggja á því, að raddböndin sveiflast í lengd, breidd og þykkt, en efri tónarnir á að einungis jaðrar raddbandanna sveiflast eða lítill hluti þeirra, verður enn skiljanlegra, hvers vegna háar raddir eru sveigjanlegri en dökkar, en dökkar raddir betur fallnar til að breiða úr sér.  Blökkusöngkonan Kathleen Battle sagði einhverju sinni:  “Raddir eru eins og bílar.  Sumir eru gerðir til að standa sig í beygjunum, aðrir til að bera þung hlöss” og hitti þar með naglann á höfuðið.  Það liggur því mismunandi vel fyrir einstökum röddum að syngja tónlist af mismunandi gerð og frá mismunandi tímabilum, allt eftir því hvernig röddin er gerð frá náttúrunnar hendi, þó að margt megi þjálfa, sem náttúran sjálf hefur ekki gefið.

 

Vafaatriðin

Þegar mikill vafi leikur á hvort eigi t.d. að flokka rödd sem sópran eða mezzósópran, tenór eða baritón, getur verið stoð í því að kanna nákvæmlega á hvaða sviði registurskipti verða; auk þess skiptir máli hvaða svið er þægilegast fyrir hlutaðeigandi söngvara eða söngkonu.  Sumir söngvarar sem hafa skínandi góða hæð, þreytast engu að síður ef þeir eiga að syngja til lengdar í í hæðinni, meðan aðrir blómstra á þessu sviði, en þreytast meira ef þeir eiga að syngja til lengdar neðar á tónsviðinu.  Allt þetta talar sínu máli og bendir söngvaranum á hvað hann eða hún eigi að syngja, hvað liggur best fyrir því hljóðfæri sem hann eða hún hefur í barkanum.

 

– HALLDÓR HANSEN

Síðast uppfært ( Wednesday, 04 June 2008 )