Jónas Ingimundarsson

Jónas Ingimundarson

 Jónas var að koma frá Rússlandi og er himinlifandi yfir því sem hann upplifði.  Hann hitti Galinu Pisarenko, sem hélt masterklassa í LHÍ í haust, og hún leiddi hann út um allt, í óperuna, inn á heimili Svjatoslav Richter, gaf honum Tsjækofskí og Sjaljapín komplett.  Hann ætti að skrifa grein um Rússlandsförina og leyfa okkur að fá hlutdeild í því ævintýri.  Það yrði spennandi, því Jónas er einkar næmur maður, maður augnabliksins og upplifir sterkt. 

Jónas - portrett

Jónas  Ingimundarson

Hann hitti líka aðra magnaða listakonu, kontraalt söngkonuna Tatjönu Garkúsjóvu og áformað er að hún komi 7. sept. til að syngja með honum tónleika í Salnum.  Takið daginn frá.  Það verður ógleymanleg lífsreynsla.  Ég hef heyrt og séð DVD því til staðfestu.

Öll vitum við að íslenskt tónlistarlíf væri ekki samt án Jónasar.  Til að nefna örfá dæmi kom hann á laggirnar Tónlist fyrir alla, skipulagði Ljóðatónleika Gerðubergs og óhætt er að segja að hann hafi með eldmóði sínum sannfært ráðamenn um að nauðsynlegt væri að byggja tónlistarhús í Kópavogi.  Allar götur síðan hefur hann skipulagt Tíbrá, glæsilega tónleikaröð í Salnum og Græna herbergið í sjónvarpinu er mörgum minnisstætt.

Jónas er sem sagt búinn að skipta um jarðveg víða, en um leið er hann ljóðrænn listamaður, sem hefur helgað líf sitt leit að fegurðinni í vinfengi við Schubert, Brahms, Liszt og marga fleiri.  Hann er stundum kallaður Syngimundarson, enda leggur hann mikla áherslu á að fá hljóðfærið sitt til að syngja og hefur leikið/sungið með söngvurum í yfir 40 ár.  En síðast en ekki síst er Jónas einstaklega skemmtilegur í viðræðu, hefur ákveðnar skoðanir og miðlar fúslega, sé til hans leitað.

– Hvernig kviknaði áhugi þinn á söngtónlist?

Jónas með Ingimundi föður sínum

Jónas með Ingimundi föður sínum 

Að upplagi er ég bara hulstur utan um allsherjar músíkkirtil, ég ræð ekkert við það. Ég held að ég hafi lært að meta tónlist ósjálfrátt, það var sjálfsagt raulað yfir mér í vöggu.  Í bernsku var ég oft einn og söng mikið sjálfur í einrúmi, hlustaði mikið og ánetjaðist söngnum. Ég hlustaði af áhuga á þætti í útvarpinu, eins og Hljómplötusafnið, Óperukynningar Guðmundar Jónssonar og mánudagsdagskrár með íslenskum söngvurum, að ógleymdu síðasta lagi fyrir fréttir og ég hef ennþá gaman af að ráða í það hverjir flytjendurnir eru, ég veit það nú oftast. Ég var 10-11 ára þegar ég kunni “hversdagslega” hluti eins og Traviata og Rigoletto nánast utanbókar.  Jussi Björling og di Stefano voru perluvinir mínir, Maria Callas og Zinka Milanov vinkonur mínar og íslensku söngvarana fannst mér ég þekkja, ekki bara með nafni, mér fannst ég hreinlega þekkja þá alla.

Í eina skiptið sem ég fór að skemmta mér með báðum foreldrum mínum, 9 eða 10 ára gamall, heyrði ég Ketil Jensson með Victor Urbancic í Selfossbíói.  Í skóla var ég oft notaður til að raula einhver lög með hinum krökkunum og þegar fyrsta hljóðfærið kom á svæðið, sílófónn af Carl Orff gerð, rétti kennarinn mér slegilinn og sagði:  Nú spilar þú með í þessu lagi, Jónas.  En þegar ætlaði hann að sýna mér tökin, þá á ég að hafa sagt:  “Þetta get ég gert sjálfur.”

Jónas með nikkuna

Jónas með nikkuna

15 ára  að aldri fékk ég fyrstu píanótímana í fermingargjöf, frá föðurfjölskyldunni minni, og hafði þá varla séð píanó, en var farinn að spila á skólaböllum á harmoniku og reyna að ná tóni út úr hinu og þessu.  Ég er ennþá að vinna úr þessari fermingargjöf.

Síðan hefur lífið verið mér einn allsherjar dans í tónum.

–  Hvaða þættir höfða mest til þín í söng?

Ef ég skoða hug minn finnst mér að leiðarstjarnan mín í tónlist sé söngurinn.  Þegar ég tala um söng er ég að tala um tónlist – ég skynja m.a.s. söng þegar pákuleikari spilar, ég heyri um leið hvort pákunni líður vel í höndum hans, hvort pákuleikarinn SYNGUR.

En samt hef ég ekkert vit á söng eða tónlist.  Ég veit bara hvað hrífur mig og það er enginn stöðugleiki í því, það sem ég hreifst af í gær er ekki endilega það sama í dag, enda er ég þeirrar gerðar, að ég er ekki alltaf við sama geðslag, er það kallað að vera lifandi?!

Jussi1

Jussi Björling

Ég var einu sinni á gangi með ungum, íslenskum söngvara í fremstu röð, rétt fyrir jólin í stórborg erlendis.  Talið barst að söng og söngvurum að sjálfsögðu, þessi hefði fallega rödd, þessi gerði eitt eða annað ekki nógu vel, eins og gengur.  Ég lenti í öngstræti með að skilgreina hinn fullkomna söng.  Er hann til?  Svo ég spurði: “Hefurðu heyrt Jussa syngja Ó helga nótt?”  Hinn ungi söngvari kvað nei við.  Ég brá mér í búð til að kaupa diskinn og um leið og ég gaf honum hann sagði ég, með blik í auga:  “Ef þú hefur aldrei heyrt þetta, þá veistu ekkert hvað söngur er.”

Ef ég hlusta á Jussa heillast ég af hans fagra, alltumlykjandi tóni og að því er mér virðist fullkominni tækni, að svo miklu leyti sem ég hef áhuga á því.

Legato Jussa Björling er óviðjafnanlegt, hugsaðu þér ef allir píanistar heimsins gætu náð því legatoi, þá væri gaman að lifa.

En ég heyri ekki það í söng hans sem ég sækist eftir þegar ég hlusta á Mariu Callas. Hún hefur ekki fallegustu rödd í heimi eða tækni.  Hún er aftur á móti afskaplega dramatísk, fylgin sér og mér liggur við að segja “stingandi”, – í góðri merkingu samt, – hún neglir mann niður, m.a.s. á hundgömlum upptökum, maður á erfitt með að standa upp þegar maður áttar sig á því hvers konar tilfinningalegt ríkidæmi, heildstæður listflutningur og dramatískur kraftur er á ferðinni.

Gobbi

Tito Gobbi

Þá get ég nefnt Tito Gobbi sem hafði ekki merkilegustu rödd í heimi, en það er eitthvað svo náttúrulegt og litríkt í söng hans, dásamleg blanda af söng og leikhúsi, að maður andvarpar og hugsar með sér:  Un grande artista.  Risastór listamaður, ætli sé hægt að skilgreina það nokkuð nánar?

Dieskau, Souzay, Kristinn Hallsson, Guðrún Á, allt er þetta fólk er eins og liljur vallarins, yndislegt hvert á sinn hátt, engir tveir eins, en merki um að guð sé til, þetta eru bara undur og stórmerki.  Listinn gæti verið rosalega langur, skal ég segja þér.

Jónas og Diddú í Grænaherberginu (RUV)(10)

Jónas með Diddú við upptökur á “Græna herberginu”.

 

Ég þekki vel til söngvara og veit að þeir eru margbreytilegir, einn syngur “Fuglinn í fjörunni” svona í dag en allt öðruvísi í kvöld. Hugsaðu þér Diddú að syngja “Svanasöng á heiði”.  Hún syngur það agað, allt rétt og eins og stendur á blaðinu.  Þrátt fyrir það glatar hún ekki spunahæfninni.  Það er sem hún semji sönglínuna um leið og hún syngur.  Þó hún sé nákvæm og öguð í flutningnum, verður lagið nýtt í hvert skipti.  Þessu má líkja við góða leikara, þeir fara ekki með texta eins og ritvél, textinn er aldrei eins, heldur ferskur og eins og verið sé að spinna hann af vörum fram.  Hljómsveitarstjórinn Kiril Kondrasjin sagði um Svjatoslav Richter: hann getur ekki bara spilað á píanó, hann kann líka að lesa úr nótunum.  Að vera læs og kunna að lesa er sitthvað.

di stefano

Giuseppe di Stefano

Ég heillast líka af því sem er náttúrulegt og upprunalegt, tökum sem dæmi di Stefano að syngja ítalskar kansónur, eins og Coren’grato eða Marechiare, ég tekst á loft þegar ég heyri hvernig honum tekst að tengja saman hið lærða, skólaða, við peyjann sem situr með gítarinn sinn í bátnum og syngur af hjartans lyst.  Annað dæmi er Jói Konn að syngja einfalt íslenskt lag, maður getur fallið í stafi, af því það er eitthvað svo náttúrlegt og eðlilegt við það.  Edith Piaf og Steindór Andersen, svo ólík sem þau eru, hafa líka eitthvað upprunalegt og engum skóla hefur tekist að eyðileggja það, en lífsins skóli liggur þar á bak við og snertir við hjartanu.

– Þegar þú hlustar á unga söngvara, hvað langar þig oftast til að segja?

Í fyrsta lagi hef ég innbyggðan, eðlislægan segul á náttúruraddir, ég get gleymt mér við að hlusta ef það er eitthvað í röddinni sem heillar mig, jafnvel þó söngvarinn kunni lítið fyrir sér.  Ég er mjög upptekinn af mannsröddinni, engar tvær raddir eru eins, engar tvær rósir eru eins.  Það er eitt af undrum lífsins að manneskjan skuli vera gædd þeim hæfileika að geta sungið.

En þegar ég er farinn að vinna með söngvara, er hann hættur að vera “náttúrufyrirbrigði”, þá koma önnur lögmál til sögunnar.  Þegar söngvarinn kemur til mín, mæti ég honum á jafnréttisgrundvelli, ekki á kennara – nemanda grunni.

En spurningin var hvað mig langar oftast til að segja við unga söngvara. Oftast langar mig oft til að spyrja:  Af hverju ertu að þessu? Ætlarðu að verða heimsfrægur?  Stundum virðist ekkert komast að nema tæknileg atriði, svo sem að placera tón.  Vissulega er þetta nauðsynlegur grunnur og að sumu leyti eðlilegt að söngnemandi sé upptekinn af því hvernig hann kemur tónunum frá sér.  En það er líka nauðsynlegt að spyrja sig:  Af hverju er ég að þessu?  Er ég að þessu til að láta dást að mér?  Langar mig til að koma laginu á framfæri?  Langar mig einfaldlega til að læra lagið?  Hef ég svo fallega rödd að ég hef ástæðu til að láta aðra njóta hennar? Eða flyt ég lagið af því ég hef eitthvað að segja, sem skiptir máli, hrífur á augnablikinu?!

Stundum verð ég einmana við hljóðfærið, ef söngvarinn syngur eins og hann viti ekki hvert hann stefnir í flutningnum, veit ekki almennilega hvað hann syngur!  Vilji söngvarinn syngja t.d. Kveðju eftir Þórarin Guðmundsson, getur túlkun lagsins verið margbreytileg eftir því hvernig lagt er upp með viðfangsefnið.  Snýst málið um að kveðja einhvern sem við eigum eftir að hitta aftur?  Eða er þetta hinsta kveðja?  Þannig verður túlkunin allt öðruvísi.

Þegar þú syngur ertu að lesa ljóð með tónum.  Leikari sem les ljóð verður að skilja innihaldið, ekki bara orðin, heldur undirtóninn, tilfinninguna, söngvarinn og píanistinn líka.  Sé vandað til verks, er    varla svo ómerkilegt ljóð tekið til meðferðar að ekki sé hægt að gera eitthvað úr því með skörpu innsæi.  Þegar ljóð og lag lifa hamingjusöm saman, ber að ganga inn í ljóðið í gegnum titilinn, tónlistin er umhverfið, sem gefur orðunum lit, undirstrika, ljáir orðunum vængi.

Það er í þessu ljósi sem lög eins og “Erlkönig”, “Gretchen am Spinnrade”, “Í fjarlægð” eða hvað það nú er, eru gædd snilldinni sem við öll skynjum.  Sá sem heldur að hái tónninn sé markmiðið í “Ég lít í anda liðna tíð” eða “Hamraborginni”, er á villigötum.  Hann er að missa af því sem máli skiptir.  Ljóð og lag þurfa að kyssast og blómstra saman í einu garðhorni flytjendanna..

En hvað með áheyrnina?  Stundum virðist fólk helst hlusta eftir falskri nótu, textarugli eða tón sem var ekki alveg “rétt placeraður”, en heyrir ekki það sem málið snýst um.  Þá langar mig til að spyrja: upplifðirðu Grétu við rokkinn eða sástu bara söngkonu í fallegum kjól sem koxaði á einum tóni?  Auðvitað viljum við að grunnatriðin séu á sínum stað líka, en þegar á hólminn er komið er þau bara “skóburstunin”, eins og þegar maður býr sig áður en maður fer að heiman.  Aðalatriðið er upplifunin, stemmningin, hvað höfðu flytjendur að segja áheyrandanum?

– Hvernig á maður þá að nálgast tónlist?

Ég lærði margt af Árna Kristjánssyni.  Hann sagði t.d. einu sinni við mig:  “Mundu það, Jónas minn, að píanóið kemur fram við þig eins og þú kemur fram við það.”   Ég var líka söngnemi hjá Einari Kristjánssyni allan þann tíma sem hann kenndi, eftir farsælan feril í útlöndum og lék með nemendum hans á prófum, það gaf mér ýmislegt.

Ég spilaði oft með nemendum Göggu Lund, hún hafði mikla reynslu.  Hún sagði gjarnan: “Mundu að setja sjálfan þig aldrei fyrir framan viðfangsefnið sem þú ert að fást við, þú ert stöðugt í þjónustu þess.”  Þetta er hollt að hafa yfir.  Það má ekki notfæra sér tónlistina sjálfum sér til framdráttar.   Einhvern veginn er það svo, að þó að þessir gömlu lærimeistarar mínir séu löngu látnir, taka þeir daglega ennþá þátt í mínu spili.  Það gerir leikinn ekki auðveldari, en það gefur mér von um að ég sé að stefna í rétta átt að fjarlægu markmiði.

– Hvað finnst þér um orðið undirleikari?

Jónas fær Heiðursverðlaun Tónlistarverðlaunanna

Jónas hlaut Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001

Það er nú bara orð, og á ágætlega við – stundum.  En þegar hlutur píanósins er, eins og æði oft, jafn mikilvægur í hljóðmyndinni eins og hlutur söngvarans, þá getur það verið misvísandi fyrir hlustandann. Áheyrandinn getur þá misst af einhverju mikilvægu, hlustar á söngvarann og gleymir því að skynja heildina, – píanóleikarinn og söngvarinn framreiða réttinn sameiginlega og þegar best tekst til, mætti líkja þeim við mólekúl, en ekki tvö aðskilin atóm.

Flutningur sönglags er þríeitt:

Í fyrsta lagi kemur textinn frá hendi ljóðskáldsins. Ljóðið þarf að vera vel gert, en þarf ekki endilega að vera besti kveðskapur í heimi til að njóta sín vel í söng, þó það sé ekki verra. Í frábærum kveðskap er oft lítið olnbogarými fyrir “viðbætur” og ef það er ekki pláss fyrir músíkina, á ljóðið að fá að vera í friði. Léttvæg kvæði geta jafnvel notið sín vel í söng. Snjallt tónskáld getur tekið miðlungskvæði og lyft því á flug.

Í öðru lagi kveikir ljóðið hugmyndir tónskáldsins, sem það sníður síðan að ljóðinu og saumar, breytir og bætir.  – Hvað á ég við? – undirspil við Sprengisand gengur t.d. ekki við vögguvísu, af því tónmyndin passar ekki við kvæðið og þar fram eftir götunum

Í þriðja lagi eru flytjendur og áheyrendur sem ganga saman inn í hljóðmynd kvæðisins, sögusviðið eða anda ljóðsins, hönd í hönd, upplifunin verður sameiginleg – það kviknar ljós.

Svo gerast skrýtnir hlutir.  Ég spila Draumalandið með sellóleikara.  Þá er það sennilega afkynnt í útvarpinu svona:  “Guðrún Sigurðardóttir og Jónas Ingimundarson léku.” En ef ég flyt sama lag með söngvara, þá segir þulurinn: “Jón Jónsson söng Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Guðmundar Magnússonar.  Við píanóið var Jónas Ingimundarson….”

Stundum er píanóleikaranum sleppt, og mér er sannarlega sama um mína persónu, en mér finnst hlustandinn svikinn.  Samkvæmt kenningunni um hið þríeina samfélag, væri eðlilegra að afkynna lag t.d. með þessum hætti: “Þetta var Draumalandið, ljóð eftir Guðmund Magnússon við lag Sigfúsar Einarssonar. Jón Jónsson og Jónas Ingimundarson fluttu.”  Flytjendur fluttu lagið saman, píanóleikurinn var hvorki undirleikur né meðleikur, hann var hluti kvæðis, flutt á píanó, með söngvaranum að sjálfsögðu.

shaw

Bernard Shaw

Í gagnrýni er venjulega skrifað um söngvarann í miklu máli eins og píanistinn hafi lítið haft að segja og varla mætt á æfingu.  Einu sinni fór Bernard Shaw á tónleika, en hann var skarpur gagnrýnandi á sinni tíð, auðvitað dálítið kostulegur, og skrifaði mestalla greinina um píanóleikarann.  Hann klykkti út með: “Með röddina var….”  sem hljómar svipað og “Við píanóið var….”.

Stundum er píanóleikurinn jafnvel mikilvægari en söngurinn.  Sjáðu t.d. “Morgen” eftir Strauss, þar gegnir píanóið stóru hlutverki, söngvarinn er með eins konar resitatíf, hugleiðingu, tónasveig, ilm sem vefur sig eins og þunn blæja utan um stefið sem píanóið syngur. En til glöggvunar þeim sem ekki þekkja, spilar píanistinn lagið tvisvar sinnum yfir, en söngvarinn syngur “undir” í seinna skiptið.  Og söngvarinn verður að átta sig á því að hann syngur með frá upphafi, en í fyrra erindinu er þögn hjá honum.

Hvað þarf góður “undirleikari” að hafa til brunns að bera ?

Ég var einu sinni á námskeiði hjá Jörg Demus, sem er einhver næmasti píanisti sem ég hef heyrt.  Þar var nemandi að spila litla píanóperlu eftir Schumann, “Der Vogel als Prophet” eða Spádómsfuglinn úr Waldszenen, og spurði: Hvernig á ég að nota pedalann í þessu verki? Þá svaraði Demus: Það eru þrjár aðferðir við að nota pedal, sú fyrsta er að hlusta, nr. 2 er að hlusta vel, og nr. 3 er að hlusta ennþá betur.  Ég held að þetta svari því sem maður þarf að gera með söngvara, maður þarf að vera eitt stórt eyra og galopinn í hjartastöðinni, eins og sagt er í heilunarfræðunum, fyrir utan að “kunna sitt” að sjálfsögðu.

En það er ekki nóg að hlusta.  Og það er ekki nóg að spila nóturnar óaðfinnanlega.  Góður píanóleikari þarf að styðja söngvarann, standa við bakið á honum, eða taka í höndina á honum, en ekki elta hann eins og skugginn.  Með því að styðja sönginn öðlast melódían reisn, það er munur að sitja gæðing eða ríða truntu þar sem taumurinn er látinn lafa.  Góður píanóleikari getur þannig jafnvel gert þokkalegan söngvara úr miðlungssöngvara, en á sama hátt er hægt að steindrepa góðan söngvara, ef hann er skilinn eftir einn úti á víðavangi. Þá fæðist músíkin andvana.

Góður píanóleikari þarf líka að setja sig inn í textann.  Hann þarf að laga sig að blæ raddarinnar og stærð hennar.  Það reynir oft á, því lagið verður t.d. nýtt í nýrri tóntegund, það er ekkert smáverkefni fyrir píanistann að halda léttleikanum í lagi sem fjallar um vorið, þegar það hefur verið fært niður um ferund svo dæmi sé tekið.  Það er mikill munur á því að spila “Vorvind” eftir Kaldalóns með Þóru Einarsdóttur eða Bjarna Thor Kristinssyni.  Þessi aðlögun er einn flötur sköpunarinnar.

Jónas við flygilinn

Jónas við flygilinn

Ég æfi mig heima hjá mér látlaust, hvern dag sem guð gefur, m.a.s. einfaldar og saklausar myndir, eins og “Ég lít í anda liðna tíð” ef það er á efnisskrá kvöldsins, þó að ég sé búinn að spila það í fimmtíu ár.  Æfingin gefur mér samt enga tryggingu fyrir því að flutningurinn takist, það eykur bara líkurnar örlítið.  Á æfingum með söngvaranum er oft lítið talað, það er oft betra, finnst mér, að tala í gegnum músíkina.  Söngvarinn þarf auðvitað að vita hvað hann vill, hvað hann ætlar að gera.  Hann þarf líka  að geta fært rök fyrir því af hverju hann vill gera hlutina svona og ekki hinsegin, en það er líka hægt að ræða yfir kaffibolla.

Þá er svo dásamlegt, að þó að að búið sé að æfa heilmikið, gerist oft eitthvað allt annað og nýtt á tónleikunum og það er frábær tilfinning ef báðir eru opnir fyrir því og til í að kasta stemningarboltanum á milli sín. Þegar best tekst til, finnst mér þá eins og ég syngi sjálfur við hljóðfærið.

What_a_pianist_DRAWINGaÞað er fátt sem gerir mig daprari en að hlusta á píanóleikara, sem “syngur” ekki.  Sé markmiðið að sáldra um sig tónaflúri og láta dást að sér fyrir flínkheit og flottheit, er alveg eins gott að fara í Laugardalshöllina og horfa á kínverskan sirkus.

En ef píanóleikarinn hvíslar að mér ljóði, segir mér sögu, miðlar draumi eða ilmi, eða hvað það nú er, þetta undarlega fyrirbrigði sem við köllum tónlist, þá hefur hann gefið mér dýrmæta gjöf.

Samspil söngvarans og píanóleikarans verður að vera ævintýri.  Út frá ljóðinu er hægt að nálgast skilninginn og næmnina.  Söngvari og píanóleikari verða að gefa hvor öðrum undir fótinn, vera saman í andanum, þetta er “give and take” samband.  Þessi næmni þarf að vera jafnvel heitari en sambandið við áhorfendur, sem er þó af sama toga og sé hún til staðar þarf ekki að “selja lagið”, það bara er.  Þannig myndast hringrás og áheyrendur verða þátttakendur í þessum galdri.

– En þarf ekki píanóleikarinn að hafa sæmilegt hljóðfæri eins og söngvari þarf að hafa sæmilega rödd?

Hér er freistandi að grípa í svar sem píanistinn frægi, Rudolf Serkin, gaf við spurningu fyrir löngu síðan.  Hann kom hingað til lands til tónleikahalds og einhver fór að afsaka hljóðfærið sem stóð til boða það kvöldið.  “Annaðhvort get ég þetta eða ekki”, svaraði Serkin.  Auðvitað skiptir ástand hljóðfærisins verulegu máli, gott hljóðfæri gefur nýja möguleika og mjög gott hljóðfæri verður eins og hugur manns.  Ég gæti sagt þér margar, mjög margar sögur af reynslu minni í gegnum tíðina á æði mismunandi hljóðfærum sem voru til staðar þá og þá, þegar ég lít til baka.

Hér má gjarnan koma fram, þó að Jónas sé lítið fyrir að flíka upphefð sinni, að í fyrra hlotnaðist honum sá heiður að vera valinn í útvalinn hóp “Steinway listamanna” af Steinway fyrirtækinu í Hamborg, einum íslenskra píanóleikara.

 

– Með upptökutækni hefur safnast mikið magn af fyrirmyndarflutningi á verkum meistarannna, er hægt að flytja eitthvað án þess að taka tillit til þess?

Jónas og Sigríður Ella

Jónas og Sigríður Ell

Það er auðvitað margt til sem varla verður gert betur, en sömuleiðis margt líka sem er ekki til eftirbreytni.

Ég get nefnt fyrirmyndarflutning á lagi, eins og “Tonerna” með Jussa, “La Barchetta” með Souzay og Baldwin, “Draumalandið” með Sigríði Ellu, margt sem Einar Kristjánsson gerði af svo miklum tærleika, eða Kristinn Hallsson; einfalt dæmi “Intermezzo” eftir Jón Múla við gríntexta af gefnu tilefni.

En kjarninn er að það er ekki búið að syngja neitt af þessum lögum í síðasta sinn, þau eru alltaf ný og það er sífersk upplifun hverjum sem hlustar af opnu hjarta, opinmynntur, helst í andlegu jafnvægi, með hlýja hönd og það gerir þetta svo dásamlegt.  En eins og ég sagði áður, upplifi ég tónlist, jafnvel sömu upptöku, á mismunandi hátt eftir því hvernig ég er stemmdur.  Móttökuskilyrðin þurfa líka að vera í lagi, ekki satt?

Vitaskuld er nauðsynlegt að fylgjast vel með og hlusta grannt, en að sumu leyti getur verið hættulegt að hengja sig á einn “fyrirmyndarflutning” eða fara bláeygur á masterklassa og trúa öllu sem þar er sagt.  Til eru bækur sem lýsa því út í hörgul hvernig lag skuli flutt, hraða, blæ, öndun, styrkleikabreytingum o.s.frv.  En ætli maður að apa allt upp er það eins og að éta þerripappír.  Innan ákveðins stílramma verður maður að nálgast viðfangsefnið út frá sínum forsendum, en gæta að því að flækjast ekki um í viðjum vanans.

Bryn

Bryn Terfel

Dæmi um strák sem gefur hefðunum langt nef er Bryn Terfel.  Hann syngur eins og lopapeysustrákur frá hjartanu og hefur eitthvað að segja, fyrir utan að hafa sína frábæru rödd.  En auðvitað er hægt að vera ósammála því hvernig hann syngur þetta eða hitt.  Toscanini sagði að hefðbundinn flutningur væri lélegasti flutningur fortíðarinnar, eitthvað sem væri ásættanlegt fyrir alla, engar feilnótur eða rugl í texta, en fyrst og fremst óspennandi.

Ljóðið á undir högg að sækja vegna þessarar skírlífishugsunar og e.t.v. ekki síður vegna nútíma upptökutækni sem máir út allar misfellur.  “An die Musik” þarf að vera nýsköpun í hvert skipti sem það er flutt, annars verður það eins og rós sem hefur verið lögð í kalk.  Skapandi og túlkandi er í raun sami hluturinn.  Það þarf að tína berin af lynginu og njóta!

Til eru söngnemar sem hafa aldrei hlustað á söng og tónlist að marki nema e.t.v. sína eigin raddtypu og eru þá sennilega að leita að fyrirmynd.  Þetta er kórvilla.  Hvernig er hægt að syngja “Il Bacio” án þess að hafa hlustað á Tsjækofskí valsana?  Það kemur söngvurum líka við hvernig Ófullgerða sinfónía Schuberts er spiluð.

Píanóleikari getur heldur ekki leyft sér að spila Rigoletto fantasíuna eftir Liszt ef hann hefur aldrei farið  í óperu á ævinni, Schubert sónötu ef hann hefur ekki upplifað sönglög Schuberts, eða Mozart sónötu án þess að hafa séð óperur Mozarts.  Fyrir mér eru sónöturnar hans litlar óperur, ég sé hvar tjaldið er dregið frá, ég skynja spegilmynd af mannlífinu um leið og músíkin líður hjá.  Eða hvernig á sellóleikari að spila Svaninn ef hann hefur heyrt góðan ljóðasöngvara?

Tónlistarmenn, hvort sem um er að ræða söngvara, hljóðfæraleikara, tónskáld eða kórstjóra verða að hlusta hverjir á aðra.  Við lærum hvert af öðru.

– Berðu saman söngvara sem þú spilar með?

Stundum fæ ég spurningar eins og: Er þessi betri en hinn?  Mér finnst það æði vafasamt, jafnvel kjánalegt, það á að meta hvern og einn út frá hans eigin forsendum.  Nær væri að spyrja: Hefur honum farið fram síðan síðast?  Hvernig er hægt að bera saman girðingarstaur og hjólbörur? Hvorutveggja er notað við garðrækt og gott til síns brúks, en þó svo ólíkt.  Við notum aldrei samanburðarmælistiku á málara, við njótum Kjarvals á hans eigin forsendum og Ásgríms sömuleiðis.

Ég öfunda söngvarana æði oft af röddum þeirra, en að sumu leyti vorkenni ég þeim, röddin er svo persónuleg, Dieskau er alltaf Dieskau.  Þannig verður erfitt að aðgreina músíkina frá röddinni.  Falleg rödd getur virkað afvegaleiðandi.  Þegar betur er að gáð getur fallegur tónn orðið ófullnægjandi ef hugur fylgir ekki máli, en á sama hátt getur ljótur tónn haft meiri áhrif ef því er að skipta.  Þessi hefur þetta, annar hefur hitt, það er ómögulegt að bera það saman.

Að syngja vel er ekki sama og að hafa fallega rödd.  “Mín rödd var mér aldrei nein freisting”, sagði Gagga Lund.  Samt hafði hún tjáningarmöguleika sem stundum voru mun áhugaverðari en ýmissa annarra sem skarta glæsiröddum.  Maður með fallega rödd getur farið upp á hól og heillað alla í bili, en hann missir kannski af “söngnum” sínum af því hann á svo auðvelt með að ná til fólks með röddinni einni saman.

Tökum sem dæmi “Edward”, op. 1. nr. 1, eftir Löwe. Þá þarf söngvarinn ekki að nota sína “fallegu” rödd nema einstaka sinnum.  Hún þarf að vera ísmeygileg hér, skelfileg þar, hrikaleg svo, blóðug og allt að því viðbjóðsleg til þess að nái inntaki kvæðisins.

Píanóið hefur þann kost að rödd þess er hlutlaus.  Það er ekki eins persónulegt og litar ekki eins sterkt og mannsröddin og er þess vegna kannski ekki eins heillandi heldur.  En það er samt hægt að fá það til við sig, láta það syngja eða “líkja” eftir öðrum hljóðfærum.  Ef maður hlustar vel þá spilar óbóið þessa línu, klarinettið hina.  Með söngvara tekst vel til ef píanóparturinn er lagaður að blæ raddarinnar, þannig að rödd og píanó verða eitt.  Píanóhljómurinn nánast breytist eftir lit söngraddanna.

– Finnst þér íslensku sönglögin eiga undir högg að sækja?

Já, íslensku lögin eru heillegasti þráðurinn í tónlistarsögu okkar í meira en 100 sl. ár, þau eru auðvitað misjöfn eins og þau eru mörg.  En við þurfum að sýna þessum arfi okkar ræktarsemi.  Ég verð oft var við á masterklössum að söngnemar kunna ekki nema mjög fá íslensk lög.  Söngvararnir okkar eru hámenntaðir tónlistarmenn, syngja á öllum mögulegum málum, takast á við ótrúlega margvísleg viðfangsefni, en þeir þurfa að halda tengslum við uppruna sinn, það skiptir máli að rótslitna ekki.  Söngvarar mættu vera djarfari í efnisvali þegar kemur að íslenskum lögum.  Nú geta konur rekið álver, flogið þotum, stýrt bönkum, en mega ekki syngja Hamraborgina.  Það er ekkert í textanum sem segir mér að karlmaður eigi að syngja það, það er bara viðtekin venja. Lykilinn er að finna í ljóðinu, viðfangsefninu sjálfu.

– Hvað um svokallaða nútímatónlist í söng?

Þegar ég var lítill drengur, hélt ég að læknar gætu ekki orðið veikir og það væru ekki til ómúsíkölsk tónskáld.  Nú veit ég betur.  Eftir seinna stríð hefur komið upp kynslóð tónskálda sem sum hver eru bara tónskáld, hafa aldrei sungið, leika ekki á hljóðfæri, hafa m.ö.o. aldrei glímt við tóninn sjálfan, líf hans og hrekki.  Þetta er áhugavert.  Maður fær handrit og það er ætlast til þess að maður sé undirgefinn því, þó að það sé hvorki sönghæft né hæfi textanum.  Svo skrifa sumir heilu óperurnar án þess að hafa samið sönglag.  Mér finnst þetta skrýtið.

En taktu eftir, ég er alls ekki að alhæfa þó ég segi þetta.

Stundum er látið í veðri vaka að það að sé merkilegra að frumflytja en aðflytja eitthvað sem hefur verið flutt áður.  Mér finnst afar áhugavert að frumflytja verk, en það er að sumu leyti auðveldara, öfugt við það sem oft er sagt, því að þar eru engin viðmið til.  Aðalatriðið er að tónlistin sé góð, sé vel gerð.

– Hvað finnst þér um skilgreiningar á klassískri tónlist?

Klassíska tímabilið í tónlistarsögunni var hátt í 100 ára tímabil, u.þ.b. frá 1730-1830.  Á hinn bóginn getur Litla flugan verið klassík í sjálfu sér, ekki klassísk, heldur sígild.  Þorkell Sigurbjörnsson er ekki að semja klassísk verk, hann er að semja tónverk í dag, í nútímanum, og þau geta orðið sígild, en þau verða aldrei hluti af hinu klassíska tímabili tónlistarsögunnar.  Hér gætir oft mjög mikils ruglings í ræðu og riti.  Ef fiðluleikarar spila með Björk, þá er stór hópur fólks og fjölmiðlar allt í einu farnir að tala um klassíska útsetningu!  Þá skil ég ekki.  Hún gæti í besta falli, eftir því hvernig hún er gerð, verið í klassískum stíl, stíl Haydns eða Mozarts, en lög Bjarkar hef ég aldrei heyrt sett í þann búning.

Íslensku tónlistarverðlaunin skilgreina tónlist á sérkennilegan hátt.  Það er ekki einfalt mál að skilgreina tónlist þannig.  Diddú hefur aldrei verið tilnefnd til verðlaunanna, held ég, en hún hefur verið kölluð til að afhenda þau.  Samt er hún í hópi okkar bestu söngvara og hefði þess vegna áreiðanlega oft átt að koma til álita sem söngkona ársins.  Kristinn Sigmundsson kemur heldur ekki til greina sem söngvari ársins, sama hvað hann afrekar.  Skilgreiningin er þannig eitthvað allt annað.

Fæstir eru í vandræðum með að skilgreina Laxness, Tolstoj, Þórberg, Shakespeare, Jónas Hallgrímsson, Sjón og Einar Má sem bókmenntir, við ruglum þeim ekki saman við dagblöð og tímarit.  Við viljum líka fá dagblöðin til að lesa, ég er ekki að kasta rýrð á það, og við getum rekist á grein í dagblaði sem skrifuð er af andagift, eru bókmenntir í sjálfu sér, en við ruglum þessu alls ekki saman.

Í tónlist virðist mér eins og allt sé sett í hrærigraut, Lay Low, Björk og Gunnar Guðbjörnsson eru skráð sem söngvarar í símaskránni, þó þau eigi ekkert skylt innbyrðis nema að þau syngja.  Af hverju eru þá blaðamenn og skáld, fréttamenn og greinahöfundar, ekki skráðir sem rithöfundar í símaskránni? Orð eru hættuleg og það er illa gert að rugla fólk í ríminu.

– En hver er munurinn á góðri tónlist og vondri?

Góð tónlist er viðkvæmt blóm, helgidómur, hún er full af meiningum, skilaboðum og trúnaði, hún getur sefað og grætt, lyft andanum á yfirskilvitlegt plan.  Hún getur líka verið dillandi, sexý, dansandi, seiðandi, gefið undir fótinn, strítt, glatt, fengið okkur til að skellihlæja eða sitja í djúpum þönkum.  Hér mætti láta hugann fljúga í löngu máli. Þess vegna er ekki sama hverju er haldið að fólki, hvernig við umgöngumst tónlistina.

Á hinn bóginn getur tónlist breyst í daðurdrós og ómerkilega dræsu.

Það er ekki alltaf breitt bilið þar á milli.   Við vitum að það syngur enginn í vondu skapi, og það er hægt að syngja frá sér leiðindi.  En þú getur tryllt, jafnvel brjálað fólk með tónum og rekið heilu þjóðirnar í stríð, og hvaðeina. Þetta sýnir að tónlistin hefur í sér eðlislægt fyrirbrigði sem getur leitt til glötunar.

– Hefur ekki síbyljan líka skaðleg áhrif?

“Síbyljan” slævir okkur og það er alvarlegt mál.  Þetta stöðuga áreiti, þessi ímyndaði hressleiki getur gert mann ágengan og árásargjarnan. Stundum hamast útvarpið í manni og maður tekur ekki eftir því, þangað til einhver slekkur.  Þá tekur maður loksins eftir hvílíkur léttir það er.  Það alvarlegasta er að við glötum hæfninni til þess að njóta þess sem tónlistin hefur upp á að bjóða, við heyrum, en kunnum ekki að hlusta.  Tónlistin missir mátt og merkingu.

Þetta á ekki aðeins við um músíkfroðu, það er jafn óhollt að hlusta 40 sinnum á viku á meistaraverk eins og Beethoven sinfóníu, þá verður hún eins og rúsínugrautur í hvert mál.  Það er illa farið með góða gjöf, því Beethoven er að trúa okkur fyrir sinni lífsreynslu og átökum, við megum ekki missa af því og verðum því að umgangast það af virðingu.  Hann skrifaði ekki 5. sinfóníuna til að vera lyftumúsík í útþynntri útsetningu.  Hann er í tónum sínum að taka okkur hlustendur til “bæna”.  Hann er að miðla okkur af reynslu sinni og að beina okkur á sigurbraut í lífinu.

– Jónas, hvað er músíkalitet? 

Ef menn komast sæmilega af í samskiptum hver við annan, þá er það ákveðið músíkalitet.

– Eitthvað að lokum?

Ég geymi ekki inniskóna mína í ísskápnum. Þó að ég haldi upp á Sálumessu Brahms, finnst mér óviðeigandi að bjóða upp á hana á krá, þar sem fólk er komið til að spjalla yfir ölkrús. Á sama hátt finnst mér óviðeigandi að fólk vaði inn í kirkju í brúðkaup með dansmúsík af balli, sem ætti ágætlega við í veislunni.

Mig langar til að segja: Sá tónn einn á rétt á sér, sem er betri en þögnin sem hann rýfur, að því tilskyldu að staður og stund hafi áhrif á valið sem hæfir hverju sinni.

 

  • Bergþór Pálsson

 

Fleiri viðtöl

 

Print Friendly, PDF & Email