Undir drekavæng í Norræna húsinu 12. mars kl. 14

Á  mánudag, heldur Strengjaleikhúsið í ferð til Finnlands og Svíþjóðar með barnaóperuna “Undir Drekavæng” eftir Misti Þorkelsdóttur og Messíönu Tómasdóttur.  Leikendur eru söngvararnir Marta Guðrún Halldórsdóttir og Bergþór Pálsson og píanóleikarinn Örn Magnússon.  Óperan hefur verið sýnd hér á landi yfir 60 sinnum í Gerðubergi og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni fyrir leikskólabörn og yngstu börn grunnskóla.  Generalprufa á sænsku verður í Norræna Húsinu  sunnudag, 12. mars kl. 14 og eru allir velkomnir.  Enginn aðgangseyrir!

Óperan fjallar um að vera stór og lítill.  Litli Dreki (Örn Magnússon) á Stóra Dreka (flygil), en finnur í honum fiðlu sem hann leikur á fyrir Fjólu fiðrildi (Mörtu Guðrúnu).  Tígur (Bergþór) verður heillaður af þessum skrýtna kassa og heimtar að fá að eiga fiðluna og leika á hana.  Hann getur ekki hætt að leika, en þá gerast undur og stórmerki.  Sólin heillast af leiknum og getur ekki farið að sofa, en það þýðir að þeir sem eru stórir eins og Tígur minnka og minnka, en þeir sem eru litlir, eins og Fjóla fiðrildi stækka og stækka. 

Tígur sér sér þann kost vænstan að búa í blómi og þegar lítil stúlka (Örn!) ætlar að tína blómið öskrar Tígur á hana til að bjarga blóminu.  Stúlkan verður hrædd og heldur að tígrisdýrið sé hunangsfluga.  Blóminu (Mörtu) tekst að svæfa litla Tígur og þá verður allt eðlilegt á ný – Tígur verður stór og Fjóla fiðrildi lítil .  Tígur hefur hins vegar fundið fyrir því hvað það er að vera lítill og lofar að vera góður við alla smáa og vernda jörðina og náttúruna. 

Þegar Mist var lítil las móðir hennar, Barbara, þessa sögu gjarnan fyrir hana.  Henni þótti undurvænt um söguna, en bókin fannst ekki við ítrekaða leit þegar Mist ætlaði að fara að semja óperuna.  Sagan er því eftir minni og Messíana  bjó til libretto. 

Í óperunni eru fjögur lög sem börnin læra í skólunum áður en þau koma á sýninguna og syngja með.  Þau eru þá í gervi fugla, þar má sjá lunda, krumma, lóur og æðarfugla.  Þar sem sænsku börnin hafa ekki haft tækifæri til að læra lögin, verða þau kennd kl. 13, þar sem einnig fer fram grímugerð.