Sprækir söngvarar framtíðarinnar í Óperunni 29. mars-8. apr.

Langþráður draumur margra um íslenskt óperustúdíó varð að veruleika, þegar Íslenska Óperan, tónlistarskólarnir og Glitnir tóku upp samstarf, þar sem nemendum gefst kostur á að finna smjörþefinn af atvinnumennsku.  Enginn má missa af Nótt í Feneyjum!  Það er spriklandi fjör í sýningunni og krakkarnir sprækir sem lækir.

500 kall inn, en leggi maður leið sína í útibú Glitnis fær maður 2 miða á 500 kall.  Nemendur fá 2 miða á 500 kall í Óperunni gegn framvísun skólaskírteinis.  Sími miðasölu 511 4200.

Við spjölluðum við tvo einsöngvaranna, Egil Árna Pálsson úr Söngskólanum og Sólveigu Elínu Þórhallsdóttur úr Nýja Tónlistarskólanum:

Í öllum einsöngshlutverkum, 12 manna kór og 40 manna hljómsveit eru nemendur úr tónlistarskólunum.  Umsjón með uppsetningunni hefur Kurt Kopecky, hljómsveitarstjóri er Daníel Bjarnason, leikstjóri Uschi Horner, leikmyndahönnuður Sigurjón Jóhannsson (og Uschi),  búningahönnuður Hildur Hinriksdóttir og ljósahönnuður Egill Ingibergsson.

–    Egill, hvað græðið þið helst á að vinna í atvinnuleikhúsi?

“Vegna þess að Íslenska Óperan hefur kappkostað að láta þessa sýningu í engu vera frábrugðna hefðbundnum sýningum, fær maður að kynnast þeim vinnubrögðum sem gott er að temja sér þegar unnið er með öðru fólki að svona viðamiklum verkefnum.  Maður lærir fljótt hversu miklu það skiptir að vera sveigjanlegur og tillitsamur, auk þess lærir maður fljótt á sína eigin þarfir, galla og þolinmæði. 

Það er ekki sama hvernig hitað er upp fyrir hverja einustu æfingu, það er ekki sama hvernig sungið er á æfingum.  Það er fyrir mér ein risastór lexía, því auðvitað getur maður ekki haldið endalaust áfram þó maður sé ungur, gott er að temja sér þá virðingu fyrir hljóðfærinu sínu að gefa ekki alltaf allt þegar það á ekki við.  

Mjög skrítið og um leið afskaplega gott fannst mér að koma þarna og finna það að það var hugsað fyrir öllu og maður þurfti ekki að hafa alltof miklar áhyggjur af búningnum sínum eða andlitsmáliningu og hári, maður gat einbeitt sér að því að leika og syngja.   Ef þetta eru vinnubögð í atvinnuhúsum hlakka ég mikið til framtíðarinnar.”

–    Sólveig, hvernig hafa æfingar gengið?

"Mjög vel!  Þetta hefur verið æft eins og hver önnur ópera sem sett er á svið í Íslensku Óperunni, tvískiptur æfingatími daga og kvöld og á laugardögum. Núna síðustu vikuna hafa verið æfingar með hljómsveit, sem einnig er skipuð nemendum og hefur aðaláherslan því verið að samhæfa söngvara og hljómsveit og hefur Daníel Bjarnason hljómsveitarstjóri því staðið í ströngu undanfarna daga.

Æfingaferlið hefur verið mjög skemmtilegt, en það að taka þátt í uppfærslu sem þessari reynir á miklu fleiri þætti en bara það að syngja því söngvarinn verður t.d. líka að geta leikið! Hópurinn hefur náð einstaklega vel saman og ég vonast til að það skili sér til áhorfenda.” 

 

–    Hvernig er svo að syngja með hljómsveit?

“Það er alveg einstaklega skemmtilegt og erfitt, æfingar fara venjulega fram með píanói þangað til stuttu fyrir sýningu, það getur verið erfitt að byrja að syngja með svona stórt apparat með sér, því það heyrist auðvitað meira í þeim en hefbundnu píanói, og maður greinir kannski ekki eins vel taktfestuna sem maður er vanur úr píanóinu.  

Svo verður maður alveg ruglaður á að hugsa um það að maður þarf ekkert að syngja hærra eða meira, það hefur verið erfiðast fyrir mig.  Maður er alltaf að reyna að yfirgnæfa hljómsveitina og það hefur ekki alveg nógu jákvæð áhrif á söngröddina,  en sem betur fer lærist manni það á svona uppfærslum.  Maður lærir að vinna með hljómsveitarstjóra og risastórri hljómsveit sem maður sér aldrei nema í kaffipásum :)”, segir Egill kankvís.

–    Sólveig, hvernig var valið í hlutverk?

“Kurt Kopecky, listrænn stjórnandi Óperunnar og Daníel, hljómsveitarstjóri, réðu valinu eftir prufusöng, þar sem yfir 50 söngvarar mættu til leiks. Ég býst við að það hafi verið valið í hlutverk fyrst og fremst  eftir röddum, þ.e.a.s. að nemandinn ráði við hlutverkið raddlega séð. Ég held að ekki megi vera tvö ár í röð, í ár er enginn sem var í Apótekaranum í fyrra.”

–    Hefur Nótt í Feneyjum verið sett upp áður hér á landi?

“Ég veit ekki til þess að þessi óperetta hafi verið sett upp hérlendis áður. Það ættu því allir sem áhuga hafa á tónlist og leikhúsi að leggja leið sína í óperuna á næstu dögum!” segir Sólveig.

–    Egill, viltu segja okkur söguþráðinn í stuttu máli?

“Það er erfitt að segja frá því í stuttu máli, en ég skal reyna:)

Í 1. þætti heldur Herzog, sem er frægur poppsöngvari og mikill kvennamaður, sinn árlega grímudansleik, og að þessu sinni er þemað Nótt í Feneyjum. Árinu áður hafði hann reynt að koma sér í mjúkinn hjá Barböru, hinni glæsilegu eiginkonu veitinga- og klúbbeigandans Delaqua, en ekkert orðið ágengt. Hann ákveður því með hjálp einkaritara síns Caramello að nema hana á brott.

Herzog veit ekki að Barbara heldur við frænda sinn Enrico og hefur því fengið Anninu, vinkonu Caramellos, sem vinnur á veitingastað eiginmannsins, til að fara í sinn stað svo hún geti farið og hitt elskhuga sinn. Delacqua sem grunar konu sína um græsku lætur flytja þá sem hann heldur vera Barböru til ættingja sinna fyrir utan borgina. Hann biður síðan Cibolettu vinkonu Barböru að fara með sér á grímudansleikinn sem eiginkona sín.

Ciboletta, sem er æfareið út í kærastann sinn Pappacoda, sem þrátt fyrir ítrekuð loforð hefur dregið það endalaust að giftast henni, þiggur boðið með þökkum.

Í 2. þætti stendur veislan sem hæst þegar Caramello kemur með Anninu, sem er dulbúin sem Barbara, og ætlar að skilja hana eftir í veislunni. Áður en að hann fer, lætur Annina hann vita að þetta sé hún í dulargervi. Hann verður æfur af afbrýðisemi og bannar henni að fara til Herzog . Annina, sem vill refsa Caramello fyrir stærilætið, verður enn ákveðnari í að fara.

Skömmu síðar kemur Delaqua með Cibolettu, sem læst vera Barbara, og hefur hún fengið það verkefni að sækja um eftirsóknarvert framkvæmdastjórastarf hjá Herzog fyrir Delaqua. Nú þarf Herzog að kljást við tvær Barbörur þær Anninu og Cibolettu og tvo afbrýðisama menn þá Pappacoda og Caramello.

Það slaknar þó á spennunni þegar flugeldasýning hefst á miðnætti. Cibolettu tekst að útvega Pappacoda starf sem kokkur og Caramello verður  framkvæmdastjóri hjá Herzog. Hin raunveulega Barbara sleppur alla vega þetta árið við að falla fyrir Herzog."

–    Sólveig, hvað verða margar sýningar?

“Það verða alls sex sýningar. Frumsýning er 29. mars og sú síðasta verður 8. apríl. Það er um að gera fyrir fólk að tryggja sér miða strax vegna takmarkaðs sýningarfjölda!” 

–    Eitthvað að lokum?

“Okkur langar hér að koma á framfæri þökkum til Íslensku óperunnar og Glitnis fyrir að standa fyrir óperustúdíóinu og gera tónlistarnemum kleift að taka þátt í alvöru uppsetningu sem þessari og fá þannig þessa ómetanlegu reynslu."

EINSÖNGVARAR ERU:

Herdís Anna Jónasdóttir (LHÍ), Arnbjörg María Daníelssen (TR), Svanlaug Árnadóttir (SR), Sibylle Köll (útskr. SR),  María Jónsdóttir (NT), Hanna Þóra Guðbrandsdóttir (SR), Sólveig Elín Þórhallsdóttir (NT), Hrafnhildur Ólafsdóttir (SR), Egill Árni Pálsson (SR), Þorsteinn F. Sigurðsson(TR), Magnús Guðmundsson (SR), Rúnar Þór Guðmundsson (HM), Jón Leifsson (útskr. SR), Hugi Jónsson (NT), Ásgeir Páll Ágústsson (SR).

SÝNINGAR verða sem hér segir:

Miðvikudagur 29.mars kl. 20.00 – frumsýning

Föstudagur 31. mars kl. 20.00

Sunnudagur 2. apríl kl. 20.00

Þriðjudagur 4. apríl kl. 20.00

Fimmtudagur 6. apríl kl. 20.00

Laugardagur 8. apríl kl. 20.00 – lokasýning.

Nánari upplýsingar um uppfærsluna eru á Óperuvefnum

-b