Til hamingju með daginn 27. janúar!

27. jan. 2006.  27. janúar 1756-2006Í dag eru 250 ár liðin síðan snillingurinn fæddist í Salzburg.  Til hamingju, kæri vinur!  250 ár eru eins og þrír mannsaldrar.  Það er ekki lengra síðan.  Svo segja sumir að klassík og rómantík sé eldgömul tónlist og dauð úr öllum æðum!  Hvað er þá tónlist Forn-Grikkja?  Munum að mannkynið er eldra en tvævetur.  Nei, Mozart er nútímatónlist.  Fór á hlusta á Mildi Títusar í gærkvöldi.  Skemmst er frá því að segja að afmælisbarnið er sprelllifandi, stundum stóð ég mig að því að líta upp og segja í huganum: “Takk Guð, fyrir að gefa okkur þennan gimstein!”

Það var líka hátíðarstemmning í húsinu, söngvararnir stóðu sig allir með prýði, með einlægni og virðingu fyrir viðfangsefninu að leiðarljósi. 

Danielle Halbwachs hefur einstaklega fagra rödd og ætti að setja í kennslumynddisk um lausan kjálka. Þessari ungu söngkonu verður áhugavert að fylgjast með.  Gaman er hvernig Guðrún Jóhanna vex með vegsemd hverri, meðfætt músíkalitet og góð eðlisrödd eru efni sem hún slípar svo út í hörgul með hörkuvinnu, að undrum sætir.  Hallveig lét ekki sitt eftir liggja og flaut ofan á hljómsveitinni eins og fagurt morgunský án nokkurrar fyrirhafnar.  Gunnar sýndi með gullbarkanum sínum hvernig nótum er lyft af blaði og þær fylltar lífi með skilningi og drama.  Rannveig Fríða með sinn unaðslega belcanto hljóm hafði fullt vald á viðfangsefninu, eins og alltaf.  Davíð var pottþéttur og skilaði sínu með sóma.

Öll vitum við að Háskólabíó er ekki gott sönghús, það er líkara því að stungið sé handklæði upp í söngvarana.  En Rumon Gamba gerði kraftaverk til að gera gott úr aðstæðum, það heyrðist alltaf í söngvurunum og það er meira en oft hefur verið hægt að segja í þessu húsi.  Hann hafði sérstaka tilfinningu fyrir því þegar söngvararnir voru á neðsta sviðinu, hljómsveitin yfirgnæfði aldrei, en þegar hljómsveitin átti leikinn, brúsaði hún sem einn maður með Mozart snerpu og Einar Jó og fleiri áttu stjörnuleik.  Gamba er músikant með meiru, mikil heppni að fá hann til liðs við íslenskt tónlistarlíf.

Jæja, ekki er þetta nú hefðbundin tónlistargagnrýni þar sem leitað er með saumnál að því sem betur mætti fara.  En er ekki notalegt að hlýða á tónleika sæll og glaður og njóta fyrst og fremst alls sem vel er gert?  Og láta það í ljósi?  Og þakka guði enn og aftur fyrir að hafa gefið okkur meistarann Mozart!

-b