Westminster Choir College, Princeton, New Jersey – Hulda Sif Ólafsdóttir

 Hulda Sif Ólafsdóttir stundar nám í Princeton:

Á heimasíðu skólans http://westminster.rider.edu eru mjög ítarlegar upplýsingar.

Hægt er að sækja um undergraduate (BA) og graduate (master). Í undergraduate geturðu bæði verið með major og minor (semsagt haft eitthvað sem aðalfag en annað sem auka, ekki ósvipað og í háskólanum heima). Aðalfögin í BA eru:

 

Bachelor of Music:

Music Education – tónmenntakennaradeild

Music Theater: Voice and Piano Primary – söngl.söngur/píanó

Organ Performance – orgelleikur

Piano- (píanó

Sacred Music – kirkjumúsík

Theory/composition – tónfræðadeild

Voice Performance – söngur

 

Bachelor of Arts in Music (meira svona almenn gráða)

Svo er hægt að vera með minor í Arts Management (stjórn listastofnana), Music Theater (söngleikir) og Piano Pedagogy (píanókennslufræði). Aðalfögin í MA eru:

 

Master of Music:

Choral Conducting

Composition

Music Education

Organ Performance

Piano Accompanying & Coaching

Piano Pedagogy & Performance

Piano Performance

Sacred Music

Voice Pedagogy & Performance – hægt er að velja hvað maður vill leggja áherslu á, ég er t.d. með áherslu á Performance og tek þá fleiri performance tíma og færri kennslufræði tíma, en útskrifast samt með kennaragráðu líka

Master of Music Education

Master of Voice Pedagogy

Master of Arts in Teaching

Bachelor er fjögurra ára nám og Mastersnám er tveggja ára nám.

Um marga daga er að ræða sem hægt er að syngja fyrir frá nóvember til lok apríl. og það er nóg að umsókn sé komin í hús tveimur vikum fyrir þann dag sem maður vill syngja fyrir.

Mætt er snemma að morgni inntökuprófsdags, til að vita klukkan hvað maður á að syngja. Ég er ekki alveg viss í BM en í MM hittir maður undirleikarann í kortér fyrir inntökuprófið og það líður venjulega smátími á milli. Hann fer yfir, til að kanna tempóið, kadensur og svoleiðis. Í BM þarf líka að fara í viðtal og held ég tónheyrnarpróf.

Á inntökuprófi fyrir MM þarf að hafa a.m.k. sex lög utan að sem þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði (eitt lag getur uppfyllt fleiri en eitt skilyrði):

1. Resitatív úr óperu eða óratóríu

2. Aría úr óperu eða óratóríu

3. Ljóð eða aría frá öllum helstu tímabilum (barrokk, klassíska, rómantíska og 20. aldar).

4. Ljóð eða aría á eftirfarandi tungumálum: ensku, þýsku, frönsku og ítölsku/latínu.

Allir sem syngja fyrir eiga möguleika á styrkjum. Það fer eftir því hversu vel gengur á inntökuprófinu hversu mikið maður fær.

Eftir að nemandi hefur verið samþykktur í skólann fær hann bréf með lista yfir alla kennarana. Þá merkir maður við þá með númerum eftir því hvern mann langar mest að fara til og þar fram eftir götunum. Reynt er að úthluta þeim kennara sem merkt hefur verið við í sömu röð.

Skólinn er með heimavist sem allir geta sótt um að fá að búa á. BA nemar verða að búa þar fyrstu tvö árin. Flestir leigja sér herbergi í íbúð með fleira fólki eftir það og sama gera flestir MA nemar. Ef skrifað er undir samning um að búa á heimavist er ekki hægt að rifta honum og verður maður því að búa þar út skólaárið. Ég vildi ekki búa á heimavist því að þá þarf maður að búa í herbergi með öðrum, þ.e. deila svefnherbergi. Það fær enginn sérherbergi. Ef maður vill leigja sér herbergi í íbúð annars staðar eru til fullt af síðum á netinu þar sem maður getur fundið sér stað og svo er skólinn líka með auglýsingar og veitir hjálp við að finna húsnæði ef beðið er um það.  Auðveldara er að finna sér herbergi í íbúð þar sem er fólk fyrir en að finna sér einhvern til að finna íbúð með. Það er ódýrari leiga á heimavist, en á móti kemur að þar er nánast engin eldhúsaöstaða, þ.e.a.s. enginn ofn, og flestir á heimavist kaupa sér áskrift að skólaeldhúsinu. Eldaði maturinn þar er sjaldan neitt sérstaklega hollur, en það er samt salatbar og beyglur og oft boðið upp á hollt auka, smoothies, wraps o.s.frv. Aftur á móti er hægt að velja sjálfur mataræði og spara í matarpeningum með því að búa sjálfstætt, þannig að það kemur kannski út á það sama. Plús, ef maður nennir ekki að elda sér kvöldmat að þá er ekkert mál að kaupa sér eitthvað tilbúið frá $3-15, flest svona á bilinu $5-9 dollarar. Það er svo stór súpermarkaður eins og Hagkaup rétt hjá skólanum og tveir markaðir með lífrænar vörur líka. Þeir eru örlítið dýrari, en í öðrum þeirra fær maður 10% nemendaafslátt.

Í skólanum er áfangakerfi svo að skóladagurinn er misjafn, eftir því hvaða fögum þú ert í hverju sinni. Fyrstu tímarnir eru klukkan átta á morgnanna og svo eru kvöldnámskeið líka til klukkan hálftíu á kvöldin. Sumir kennarar krefjast tímasóknar og aðrir ekki, þetta fer bara eftir kennaranum og faginu. Þú þarft að sækja sérstaklega um að fá að syngja fyrir til að komast í óperuna og það er erfitt að komast að því skólinn er svo stór. Allir geta sungið fyrir, sama hvort þeir eru BM eða MM, og þá eru kannski meira en 50 sópranar að reyna að næla sér í sama hlutverk. Það er yfirleitt miklu auðveldara fyrir strákana því þeir eru svo miklu færri.

Það er eitt leikhús hérna í Princeton þar sem eru alls konar sýningar og svo eru nokkur óperuhús í nálægum bæjum og borgum sem maður getur tekið lest í. T.d. er New York bara klukkutíma í burtu með lest og kostar bara $20 í lestina og maður getur farið á sýningar með nemendaafslætti og borgað bara $25 fyrir bestu sætin sem kosta kannski $250 venjulega. Ég hef t.d. setið fyrir miðju á neðstu svölum fyrir nemendamiða að horfa á Natalie Dessay í Rómeó og Júlíu! Svo eru auglýsingar upp um allt í skólanum og maður fær dagskrá fyrir tónlistarlíf bæjarins í pósthólfið sitt, plús, það eru kirkjur hérna uppi undir öllu þar sem er alltaf eitthvað að ske og náttúrlega Princeton University sem hefur sína eigin kapellu.  Þá er Westminster með a.m.k. tvenna til þrenna tónleika í hverri einustu viku.