Nýjar hugmyndir fyrir veturinn

Vegna fjölda áskorana verður í ágúst haldið þriðja námskeiðið í Skapandi Tónlistarmiðlun, sérstaklega ætlað tónlistarkennurum.  Námskeiðið mun, sem fyrr, fara fram á sal Nýja Tónlisarskólanns við Grensásveg og verða námskeiðsdagarnir 18. og 19. ágúst.

Viðfangsefni námskeiðsins verða að vanda mjög fjölþætt, en aðaláhersla verður lögð á að aðstoða kennara við að tileinka sér skapandi nálgun við kennslu, hvort sem tilgangurinn er að vinna tónsmíðar með nemendum sínum, æfa spuna eða að yfirstíga erfiða kafla í verkum sem verið er að æfa.  Eins og alkunnugt er er skapandi þáttur nú liður í nýrri Aðalnámskrá Tónlistarskólanna og því vert fyrir kennara að nýta sér þetta tækifæri

Námskeiðið fer fram dagana 18.-19. ágúst frá klukkan 10.00-13.00 og 14.00-17.00 á sal Nýja Tónlistarskólans. Kostnaður fyrir hvern þátttakanda 20.000.-kr. og fæst gjaldið endurgreitt frá endurmenntunarsjóði KÍ. 
Skráning fer fram á tölvupósti á netfanginu sigrunsae@yahoo.co.uk
 Þeir sem hafa áhuga á þátttöku eru hvattir til þess að bóka snemma þar sem uppselt hefur verið á síðustu tvö námskeið.


Grannt verður skoðað hvernig hægt er að nálgast spuna og tónsmíðar á spennandi og skemmtilegan hátt, þannig að bæði kennarar og nemendur hafi ánægju af.  Ennfremur verður litið á hvernig hægt sé að vinna á áhrifaríkan hátt með hópum sem samsettir eru af þátttakendum með mismunandi þarfir og tónlistarlega getu.

Auk vinnu með spuna og tónsmiðar mun ýmislegt annað vera á boðstólum.  Þar má helst nefna ýmsa rhythma-leiki og æfingar, skemmtileg lög frá ýmsum heimshornum og svo æfingar i samhæfingu líkama og tónlistar.

Opnuð verður umræða um skapandi tónlistarstarf og möguleika þess hér á landi.  Á námskeiðinu munu þáttakendur fá innsýn inn í heim skapandi tónlistarstarfs á hæsta mælikvarða, en sýnt verður frá námskeiðum Guildhall Connect sem er skapandi tónlistarverkefni rekið af Guildhall School of Music and Drama.  Guildhall fékk The Queen´s Aniversary Award verðlaunin árið 2006 fyrir þetta tiltekna verkefni, en skólinn er talinn bera algjöra sérstöðu í starfi sem þessu í Bretlandi sem og annarstaðar í heiminum.

Leiðbeinandi verður Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths, kennari við Guildhall School of Music and Drama.   Sigrún útskrifaðist úr blásarakennaradeild Tónlistarskólans i Reykjavik vorið 1997.  Þaðan lá leiðin til London þar sem hún stundaði nám við Guildhall School of Music and Drama.  Fyrsta árið nam hún básúnuleik hjá Eric Creese en þá tók við Continuing Professional Development deildin þar sem Sigrún nam Skapandi tónlistarmiðlun.  Hún útskrifaðist árið 2000 og hefur starfað sem stjórnandi Skapandi tónlistarmiðlunar síðan.   Hún starfar reglulega fyrir margar af virtustu sinfóníuhljómsveitum Bretlands s.s. Royal Philharmonic Orchestra, London Sinfonietta og City of London Sinfonia.  Auk starfa með sinfóníuhljómsveitum hefur Sigrún unnið fyrir Bath International Music Festival, the Barbican Centre, Royal Festival Hall, English National Ballet og Listahátíð i Reykjavik.  Sigrún er ráðgjafi hjá BBC Jam, nýstárlegu verkefni BBC,sem er að vinna frumkvöðlastarf á sviði menntunar barna og unglinga á veraldarvefnum. Hún er ein þriggja stofnenda ‘Pazzazz Music’, skapandi tónlistarklúbb fyrir börn a aldrinum 4-7 ára.  Sigrún kemur reglulega hingað til lands til að kenna við deild Skapandi tónlistarmiðlunar við Listháskóla Íslands og er kennari við Guildhall School of Music and Drama á Under Graduate, Post Graduate og Masters stigum.