NÁMSKEIÐ Í ÍTALSKRI SÖNGHEFÐ – Laura Sarti í Iðnó 16. og 17. mars 2012

Laura Sarti, MBE FGS, prófessor við Guildhall School of Music and Drama

Söngnámskeið í ítalskri sönghefð, Bel Canto, fyrir söngnemendur á lokastigum og söngvara sem þegar hafa sigið sín fyrstu skref verður haldið í Iðnó dagana 16. og 17. mars frá kl. 10-16. Námsskeiðið er opið almenningi laugardaginn 17. mars frá 13-16 þar sem hægt verður að fylgjast með Lauru Sarti kenna nokkrum af okkar efnilegustu söngvurum. Einnig verður hægt að taka þátt í námskeiðinu sem áhorfandi.

Meðleikari á námskeiðinu er Janet Haney sem er Íslendingum að góðu kunn en hún hefur þjálfað söngvara við Íslensku Óperuna og hefur oft komið til Íslands á vegum Söngskólans í Reykjavík. Þær Laura hafa áður starfað saman á Englandi.

Laura Sarti hefur öðlast alþjóðlega frægð fyrir starf sitt sem söngkennari og hún heldur reglulega meistaranámskeið í Englandi, Frakklandi, Sviss, Svíþjóð, Þýskalandi og Írlandi. Laura Sarti er sérstaklega þekkt fyrir yfirgripsmikla þekkingu á ítalskri og franskri tónlistar- og sönghefð.

Laura Sarti hefur verið prófessor við Guildhall School of Music & Drama í London í rúmlega þrjátíu ár. Nemendur Lauru hafa komið víðs vegar að úr Evrópu og margir þeirra hafa komist inn í Guildhall tónlistarháskólann eða aðra leiðandi tónlistarháskóla. Nemendur Lauru Sarti koma reglulega fram á tónleikasviðinu og í óperuhúsum víða um heim.

Meðal nemenda Lauru Sarti sem koma reglulega fram í helstu óperuhúsum eru m.a. Rebecca Evans, sópran. Hún syngur um þessar mundir syngur greifynjuna í Brúðkaupi Fígarós við Konunglegu Óperuna í London, Claire Rutter, dramatískur sópran, Anne-Marie Owens, mezzo-sópran, Ian Storey, dramatískur tenór, Alistair Elliott, lýrískur tenór.

Íslendingar þekkja vel nokkra af nemendum Lauru Sarti m.a. hefur hún kennt Þóru Einarsdóttur, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur (Diddú) og Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur.

Fullt námskeiðsgjald er kr: 35.000,-

Inn í því eru tveir söngtímar með Lauru Sarti og Janet Haney þar sem unnið er með tækni og túlkun í óperuaríum sem nemendur hafa undirbúið fyrir námskeiðið.

Fyrirlestur Lauru Sarti fjallar um undirstöðuatriði ítalskrar sönghefðar. Hún mun tala um nokkur einföld tæknileg atriði sem stuðla að heilbrigðri og varanlegri söngtækni og sem með tímanum þroska röddina á eðlilegan og áreiðanlegna hátt.

Gert er ráð fyrir að nemendur sitji allt námsskeiðið og taki virkan þátt, fylgist með hinum þátttakendunum og læri af því að sjá og heyra hvernig þeir taka framförum undir leiðsögn Lauru Sarti.

Vegna takmarka á fjölda virkra þátttakenda verður einnig boðið upp á að taka þátt í námskeiðinu sem áhorfandi. Námsskeiðsgjald fyrir áhorfendur er kr. 6000,- innifalið í því er fyrirlestur Lauru Sarti um undirstöðuatriði ítalskrar sönghefðar.

Námskeiðið verður opið almenningi laugardaginn 17. mars 2012 frá kl. 13.00 – 16.00 og mun Laura Sarti þá vinna með nokkrum nemendum sem hún hefur valið til þátttöku í opnum masterclass. Aðgangseyrir kr. 2000,-

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í námskeiðinu setji sig í samband við Þóru Einarsdóttur með því að senda póst á contact@einarsdottir.com .