Kolbeinn Ketilsson með Rússíbönum 23. maí í Óperunni

Því miður komst Kolbeinn Ketilsson stórtenór ekki á hádegistónleika Hafnarborgar í maí vegna anna, en aðdáendur hans geta nú andað léttar, því að á tónleikum Rússíbananna á Listahátíð í Íslensku Óperunni 23. maí kl. 20, kemur hann fram með hljómsveitinni.  Kolbeinn var sem kunnugt er fastráðinn við Kölnaróperuna í nokkur ár en á seinni árum hefur hann sungið burðarhlutverk við mörg af stærstu óperuhúsum Evrópu, m.a. Tristan í Bastillu-óperunni á móti Ben Heppner og Radames í opnunaruppfærslu nýja óperuhússins í Höfn á móti Roberto Alagna!  Ekki dónalegt kompaní.

Hljómsveitin Rússíbanar var stofnuð árið 1996 og sló strax rækilega í gegn með líflegum flutningi á tónlist hvaðanæva úr heiminum, einkum tónlist Mið-Austurlanda og Austur-Evrópu. Efnisskrá tónleikanna í Íslensku óperunni er fjölbreytt og tónlistin kemur úr ólíkum áttum; auk íslenskra sönglaga má nefna sönglög frá meginlandi Vestur– og Austur-Evrópu og Finnlandi. Hljómsveitina skipa þeir Guðni Franzson á klarínettu, Tatu Kantomaa á harmónikku, Kristinn Árnason á gítar, Jón Skuggi á bassa og Matthías Hemstock á slagverk.  Verð 2.500 kr.  Kaupa miða