Gunnar og Jónas á faraldsfæti 22.-26. apríl

 Félagarnir Gunnar Guðbjörnsson tenór og Jónas Ingimundarson píanóleikari halda tónleika í Selinu á Stokkalæk, Sumardaginn fyrsta – 22.apríl, í Reykholtskirkju sunnudaginn 25.apríl og í Salnum mánudaginn 26. apríl kl 20.30.  Efnisskrá tónleikana verður sú sama og þeir flytja í Berlín í lok apríl og þann 3.maí í óperuhúsinu í Freiburg. Tónleikarnir í Freiburg verða endapunkturinn á samstarfi Gunnars við Freiburgaróperuna en þar hefur hann sungið hlutverkin Max, Herodes, Siegfried og síðast Huon í Oberon eftir Weber við góðan orðstír og lof gagnrýnenda.
 
Gunnar og Jónas hafa unnið saman á þriðja áratug.  Þeir hafa haldið fjölda tónleika hér á landi og erlendis og gert  upptökur fyrir útvarp og einnig gefið út geislaplötur.  Ferðir þeirra um Ísland eru orðnar margar og utan landsteinanna má nefna tónleika í Wigmore Hall í London og í óperuhúsinu í Wiesabaden í Þýskalandi.  Þeir félagar hafa á síðustu árum fengið fá tækifæri til samstarfs og eru því tónleikarnir í Salnum, í Berlín og Freiburg kærkomið tækifæri til að endurlífga samstarf Gunnars og Jónasar.
 
Dagskrá tónleikanna samanstendur af íslenskum sönglögum, skandinavískum ljóðum og lögum eftir Richard Strauss.