Frábærir tónleikar Katharinu og Antoniu 2. feb.

2. feb. 2006. Fór á bráðskemmtilega hádegistónleika í gær hjá Katharinu Guðmundsson og Antoniu Hevesi í Hafnarborg. 

Katharina hefur mjög fallega soubrettu-rödd sem hún beitir af mikilli smekkvísi.  Þær stölur voru samtaka í að búa til undraveröld úr hverju lagi fyrir sig, allt frá Der Zauberer yfir í Mozart aríur og óperettuaríur.  Þetta voru tónleikar þar sem maður hugsaði ekki um tækni, því að hún var á sínum stað, frekar hugsaði maður um hvað kæmi spennandi næst, túlkunin var ófyrirsjáanleg og lifandi og músíkalitetið ósvikið. 

Mér varð hugsað til þess hvað svona tónleikar gætu verið frábær kennslustund fyrir söngnema.  En þó að margt væri í salnum, kom ég aðeins auga á tvo söngnema, að því er ég held úr Nýja tónlistarskólanum.  Hvað veldur?  Stundum er kvartað yfir því að miðaverð sé óyfirstíganlegt fyrir nemendur, ef þeir eiga að fylgjast með að ráði, en í þessu tilfelli var ókeypis inn, svo að ekki getur það hafa verið ástæðan. 

Gæti ekki virkað hvetjandi að setja nemendum fyrir í upphafi hvers árs að sækja svo og svo marga tónleika og skrifa um þá lítinn pistil, sem þeir skila kennaranum sínum?  Einnig að kennarar efndu til hópferða á tónleika með nemendum sínum, þar sem sest væri niður að þeim loknum yfir kaffibolla og spjallað um þá?  Og kennarar úti á landi jafnvel efnt til menningarferða?  (Dýrt, já, skil það).  Ef ekki eru tækifæri til, eða okkur finnst engir bitastæðir tónleikar í boði, gætum við a.m.k. sest niður með nemendum og spilað hljómdiska eða DVD með uppáhalds flytjendunum og útskýrt af hverju þetta og hitt er flott, eða ekki flott….Eða sett nemendum fyrir að kynna okkur og samnemendunum áhugaverða flytjendur af diskum.

En nú kemur upp annað umhugsunarefni; ég sá aðeins tvær söngkonur á staðnum, Hlín Péturs og Auði Gunnars.  Kannski erum við bara ekki nógu dugleg sjálf við að fara á tónleika.  Eftir höfðinu dansa limirnir.  Auðvitað höfum við alls kyns ástæður, stundum er maður að kenna, stundum að syngja við jarðarför eða að baka súkkulaðitertu fyrir afmæli dótturinnar. 

En betur má ef duga skal.  Við búum ekki í stórborg þar sem velja má um hundruð tónleika og margar óperusýningar í viku hverri og þess vegna er nauðsynlegt að nýta sér það sem er þó í boði, til að fá örvun, skemmta sér, æsa sig o.s.frv.   Ég er á þeirri skoðun að söngtímar einir og sér nái skammt, ef brennandi áhugi er ekki fyrir hendi á að afla sér þekkingar í söngveröldinni, eins og hún birtist á hverjum tíma. 

Æsið ykkur á spjallsíðunni, eða sendið inn grein, ef þið hafið skoðanir á þessu. 

-b