Til hamingju Þuríður!

 Þuríður Pálsdóttir á afmæli í dag. Félagið sendir henni hjartanlegar hamingjuóskir í tilefni dagsins. Það er gaman að segja frá því að eftir u.þ.b. mánuð er von á þremur geisladiskum með söng Þuríðar, einn með íslenskum lögum, annar með óperuefni og sá þriðji með blönduðu efni (antikaríum, sálmasöng, ljóðasöng). Þessi útgáfa verður mikill fengur fyrir aðdáendur hennar og íslenska tónlistarsögu. 

Hún Þuríður, eða Níní eins og hún hefur verið kölluð af vinum, er ekkert venjulega flott kona og minnir um margt á kvikmyndastjörnu þegar hún er búin að dressa sig upp.  Einu sinni ruddist ég inn til hennar í Hjálmholtið snemma að morgni án þess að láta vita, en hún tók mér samt elskulega á sloppnum og þegar við vorum sest til stofu, sagði hún: Þarf ég ekki að hafa mig dálítið til?  Nei, hún þurfti þess ekki, því að hún er alltaf glæsileg.  Enda hlýtur útgeislun að vera mikil frá konu sem er allt í senn, bráðskemmtileg, hreinskilin og eins og jarðýta til verka.  Hún hefur líka látið til sín taka á fleiri sviðum en tónlistinni og hefur m.a. setið á þingi.    

Þuríður stundaði nám á Ítalíu, mest hjá Luigi Albergoni og Linu Pagliughi. Hún hefur staðið í eldlínunni allt frá 1948 og sungið fjöldann allan af óperuhlutverkum.  Má þar nefna Gildu í Rigoletto, titilhlutverkið í Lucìu, Músettu í La Bohème, Nórinu í Don Pasquale, Pamínu í Töfraflautunni, Rósínu í Rakaranum frá Sevilla, Súsönnu í Brúðkaupi Fígarós, Micaëlu í Carmen, Ännchen í Töfraskyttunum, Evridísi í Orfeusi og Evridísi og Leónóru í Il Trovatore.  Einnig óperettuhlutverk, t.d. Önnu Elízu í Paganini og Lísu í Brosandi landi.  Þá söng hún afskaplega mikið af kirkjutónlist, óratóríur og messur, s.s. Sköpunina.

Þuríður var yfirkennari við Söngskólann í Reykjavík frá stofnun 1971-1976 og er heiðursfélagi Félags íslenskra söngkennara.  Hún hefur hlotið margar viðurkenningar, má þar nefna Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1982.

Þuríður hefur kennt mörgum söngvurum og af þeim sem eru í eldlínunni í dag má nefna Elínu Ósk, Jóhann Friðgeir, Huldu Björk og Siggu Aðalsteins.  Hún er þekkt fyrir að víkja ekki frá hinum ítalska, opna, rúnnaða, framlæga skóla, enda hefur hún alltaf verið afar eftirsóttur kennari.  Já, hún er alvöru kona, hún Þuríður.

p.s. Finnst ykkur ekki að hún mætti halda námskeið í augabrúnamálun, þær eru ekkert smá kúl.  

-b