Ályktun frá Félagi íslenskra söngkennara

Ályktun þessi verður send fjölmiðlum og borgarfulltrúum.

Ályktun frá Félagi íslenskra söngkennara

Þegar fyrstu Íslendingarnir létu sér detta í hug að það gæti verið hægt að stunda
tónlistarnám og starfa sem tónlistarmenn þá voru aðstæður þannig að enginn
hafði tök á því nema eiga sér fjársterkan bakhjarl. Þessir frumkvöðlar eru
fyrirmyndir okkar og sköpuðu aðstæður sem við njótum góðs af enn í dag.

Nú finnst okkur sjálfsagt að tónlistarnám sé öllum aðgengilegt. Hlutverk okkar
sem tónlistarkennara er m.a. að efla góða grunnmenntun fólksins í landinu,
auka sjálfstraust nemenda og sjálfsvitund, félagslegan þroska og samkennd.
Hlutverk okkar er líka að mennta atvinnumenn í tónlist sem skila ávöxtum
erfiðis síns svo ríkulega til samfélagsins og þjóðarbúsins sem raun ber vitni.
Söngnemendur njóta þar mikillar sérstöðu þar sem söngnám með stefnu á
framhaldsnám og farsælan starfsferil í því fagi hefst að öllu jöfnu ekki fyrr en
á framhaldsskólaaldri. Þegar nemendur hafa lokið stúdentsprófi og geta sinnt
tónlistarnáminu af alvöru stunda þeir það að jafnaði í eitt til tvö ár til viðbótar
áður en haldið er til framhaldsnáms á erlendri grund.

Boðaður niðurskurður er augljóslega óframkvæmanlegur fyrir skólana, eigi
þeir að vinna áfram sem menntastofnanir. Tónlistin er hluti af skapandi
greinum sem stjórnvöld hafa nú skilgreint sem grundvallaratvinnuveg. Eigi sá
grundvallaratvinnuvegur að blómstra og þróast verður áfram að vera til staðar
menntaumhverfi sem þjónar slíkri grein.

Áform borgarinnar neyða metnaðarfulla tónlistarnemendur til náms í
einkatímum sem er ekki að neinu leyti samræmt nám auk þess sem hvetjandi
umhverfi skólanna og samstarf innan þeirra er ekki lengur fyrir hendi. Dæmi
frá öðrum löndum sanna að ef þessi braut er einu sinni valin og gæðakröfurnar
lækkaðar þá er ekki aftur snúið. Stjórn Félags íslenskra söngkennara
styður þau áform að ríkið taki yfir kostnað við nám á framhaldsstigi. Við
skorum á menntaráð borgarinnar að endurskoða fyrirhugaðan niðurskurð.
Tónlistarmenntun er ekki frábrugðin annari menntun og því eðlilegt að
niðurskurður til þess málaflokks sé í samræmi við annan niðurksurð í
menntamálum.

Fyrir hönd stjórnar Félags íslenskra söngkennara
Hlín Pétursdóttir Behrens