Óperan Föðurlandið 26.-27. maí á Listahátíð

Mynd Albert Eiríksson

Æfingar eru nú að komast á lokastig á óperunni “Le Pays”, eða Föðurlandinu, eftir Joseph-Guy Ropartz .  Sýningar verða 26. maí kl. 20 og 27. maí kl. 16 í porti Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsinu.  Óperan er einstök fyrir það að hún gerist á Íslandi, eða rétt fyrir austan Höfn í Hornafirði á bænum Horni. Efni óperunnar er byggt á sönnum atburðum sem áttu sér stað á bænum árið 1873. Þetta er eina ópera heimsbókmenntanna sem gerist á Íslandi samin af erlendu tónskáldi.

Á Íslandi vissi enginn að þessi ópera væri til (en hún var samin 1908-10), fyrr en Leifur Árnason, flugstjóri, sem er mikill áhugamaður um klassíska tónlist, fór í plötubúð í Boston og rakst þar á disk með efni eftir Ropartz.  Hann keypti diskinn af því hann hafði fengið áhuga á sinfóníum Ropartz. 

En þegar heim kom tók hann eftir því að framan á umslaginu var stúlka með skotthúfu og íslenskur sveitabær. Diskurinn hafði verið tekinn upp árið 2000 af Sinfóníuhljómsveit Lúxemborgar. Leifur hélt hann væri að dreyma, en arkaði með diskinn til Jónasar Ingimundarsonar, sem kom honum á framfæri.  

Það var svo árið 2004 sem Albert Eiríksson fékk þau Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Gunnar Guðbjörnsson og Bergþór Pálsson til að flytja óperuna á tónleikum á Höfn og Fáskrúðsfirði.  Þórunn Sigurðardóttir kom austur og ákvað strax að færa óperuna upp á Listahátíð í Hafnarhúsinu með Sinfóníuhljómsveit Íslands .  Verð 3.900.  Kaupa miða 

 

Efnisþráður: Frönsk fiskiskúta strandar og sjómennirnir farast, nema einn, sem bóndinn á bænum finnur á lífi og ber heim með sér.  Þar hjúkrar dóttir bóndans sjómanninum, þau verða ástfangin og hún verður ólétt þegar líður á veturinn.  Enginn prestur er í grenndinni svo að bóndinn gefur þau saman, með því að láta þau sverja við risastóra sandbleytu, Hrafnagljá, að ef þau verði ótrú, muni dýið gleypa þau.  Um vorið heyrir sjómaðurinn að frönsk skip séu komin á Seyðisfjjörð og fær óseðjandi heimþrá, leggur af stað ríðandi yfir Hrafnagljá, sem hann telur ísi lagða, en skyndilega hlýnar og dýið gleypir hann og hestinn.  

Þetta er fyrsti flutningur óperunnar í tæp hundrað ár en hún var frumsýnd í Nancy í Frakklandi árið 1912 og ári síðar í l’Opéra-Comique í París. 
Franska tónskáldið Gabriel Fauré sagði um óperuna: “Þetta verk, fullt af einlægni og ljóðrænum innblæstri, er ekki einungis tónskáldinu til sóma heldur einnig vegsauki fyrir franska tónlist.”


Hver þáttur er gegnsaminn og ekki mikið um eintöl eða aríur, heldur er meira og minna samtöl, þar sem þykk hljómsveitin hefur mikið vægi, margt er tjáð um líðan persónanna í hljómsveitinni.  Söguleg framvinda fremur hægferðug, en því meiri innri átök hjá persónunum, ástin, kvíðinn, harmurinn…. Minnir að þessu leyti nokkuð á Wagner, en einnig eru Leitmotiv, það er t.d. nokkuð augljóst hvenær hrafnar koma við sögu.  Tónlistin er talsvert krómatísk og taktskipti  alltíð, músíkin ber sums staðar merki Wagners, einnig Strauss, Puccinis og impressionistanna, en fyrst og fremst hefur hún sinn eigin karakter, mjög glæsileg tónlist.

Flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands og þremur söngvurum:
Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, Bergþóri Pálssyni og Gunnari Guðbjörnssyni í porti Listasafns Reykjavíkur, Hafnarhúsi. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Sinfóníuhljómsveitin leikur á þessum sérstaka tónleikastað. 

Hljómsveitarstjóri: Kurt Kopecky. 

Leikstjóri: Stefán Baldursson

Dansari: Lára Stefánsdóttir

Ljósahönnun: Björn Bergsteinn Guðmundsson

Útlit og búningar: Filippía Elísdóttir



Óperan fékk góða dóma í september-hefti hins þekkta franska tímarits Opera Magazine:

Opéra magazine

– umfjöllun um Le Pays á Listahátíð skrifuð af ritstjóra blaðsins Richard Martet

REYKJAVÍK
Le Pays – Ropartz
Sigrún Hjalmtýsdóttir (Kaethe) – Gunnar Guðbjörnsson (Tual) – Bergþór Pálsson (Jörgen)
Kurt Kopecky (dm) – Stefán Baldursson (ms)

Listasafn Reykjavíkur – Hafnarhús, 26. maí

Við þurftum að fara alla leið til Íslands, stórkostlegrar en einangraðrar eyjar í miðju norður Atlantshafi í 3ja tíma flugi frá París, til að sjá loks enduruppfærslu á óperunni Le pays eftir Joseph-Guy Ropartz (1864-1955). Eftir að óperan var tekin upp og gefin út á diski árið 2001 með Mireille Delunsch, Gilles Ragon og Olivier Lallouette í sönghlutverkunum undir stjórn Jean-Yves Ossonce, höfum við getað hlustað á þessa fallegu og dramatísku óperu í þremur þáttum sem var samin árið 1912 í Nancy, svo tekin upp ári síðar í l’Opera-Comique með Germaine Lubin en hefur síðan þá nánast gleymst. En geisladiskur kemur ekki í staðinn fyrir uppfærslu, sem er ástæðan fyrir því að við fáum seint fullþakkað Listahátíð í Reykjavík fyrir að gefa þessari óperu annað tækifæri.
Þar sem söguþráðurinn gerist á Íslandi (bretónskur fiskimaður sem hefur komist lífs af eftir skipsbrot verður ástfanginn af íslenskri stúlku og giftist henni. Hann verður síðar heltekinn af heimþrá og ákveður að fara frá stúlkunni en sú ferð endar með því að hann ferst í kviksyndi) er sú ákvörðun um að setja óperuna upp á Íslandi nokkuð augljós, í ramma hátíðar sem hefur frá upphafi, árið 1970, boðið upp á tónleika, einsöngstónleika, óperur, balleta, myndlistarsýningar á ýmsum stöðum í borginni (Grace Burnbry, Luciano Pavarotti, Cesaria Evora, David Bowie m.a.). Nema hvað að hljómsveitargryfjan í hinni litlu Íslensku óperu (u.þ.b. 500 sæti) var of lítil til að rúma heila sinfóníuhljómsveit, en þess er krafist af höfundi verksins. Ábyrgðarmenn hátíðarinnar urðu því að búa til nýjan “sal” í porti hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur sem var lokaður af að ofan með dúki af þessu tilefni.
Atburðarásin fer öll fram á palli fyrir ofan áhorfendur en hljómsveitin er fyrir neðan söngvarana, í sömu hæð og áhorfendur. Fáar óperur gætu farið fram á svo litlu svæði. Sem betur fer eru bara þrír söngvarar í Le pays og enginn kór! Einnig er erfitt að skapa leikmynd sem passar haglega inn í plássið. Stefán Baldursson einbeitti sér í uppsetningunni að meginþáttunum  og lætur sér þannig nægja að teikna upp söguna en bætir við dansara, eins konar svörtum engli sem dregur aðalsöguhetjuna í net sín og ræður örlögum  hans. Fyrir vikið, var tónlistin hin eina og sanna drottning kvöldsins, dásamlega flutt af framúrskarandi Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn hins unga stjórnanda Kurt Kopecky frá Austurríki, tónlistarstjóra Íslensku óperunnar. Áhrif Massanet og Franck (kennurum Ropartz) leyna sér ekki, og einnig frá Wagner, en þetta hefur engu að síður engin áhrif á frumleika tónlistarinnar sem hentar miklu frekar fyrir hljómsveitarflutning en söng.
Söngvurunum eru þröngar skorður settar og áttu þeir fullt í fangi með að láta í sér heyra með hljómsveitina allt um kring, hin eina sanna söguhetja sem höfundurinn treystir til að skapa andrúmsloft og dramað í óperunni. Af Íslendingunum þremur á sviðinu reynist barítóninn, Bergþór Pálsson, mest sannfærandi í hlutverki föður kvenhetjunnar jafnvel þótt hann, eins og félagar hans, hafi átt erfitt með að koma franska textanum skiljanlega frá sér. Tenórinn Gunnar Guðbjörnsson, betur þekktur í Frakklandi enda fyrrum söngvari Þjóðaróperunnar í Lyon, hafði ekki alveg þann myndugleika sem krafist er í hlutverk Tuals. Eins og hann var hrífandi í lýrísku köflunum átti hann erfitt með að ná efstu tónunum. Rödd sópransöngkonunnar Sigrúnar Hjálmtýsdóttur er einnig aðeins of létt fyrir hlutverk Kaethe, sem hún bætir þó upp með ótvíræðu tóneyra.
Þetta var alltént hugrakkt frumkvæði af hálfu hátíðarinnar sem er sérstaklega áræðin og af þjóð sem er hrifin af franskri menningu. Frá 22. febrúar til 13. maí 2007 mun Culturesfrance (nýtt nafn á AFAA, Association Française d’Action Artistique) hafa umsjón með stórri hátíð “Franskt vor á Íslandi” með samblöndu af tónleikum, myndlistarsýningum, leikverkum, bókmenntum, kvikmyndum… Hvað Pays snertir, bíður maður enn spenntari en áður eftir því að óperan verði sett upp á ný í Frakklandi.