Ólöf Kolbrún, Sesselja, Jónas og Ágúst í Litlu sólarmessunni 14./23. apríl

14. apríl 2006. Kór Langholtskirkju flytur Litlu sólarmessuna, "Petite messe solenelle" – hlusta á dæmi – (sem, merkilegt nokk, er borið fram solanell, þó það sé ekkert A í því!) eftir Gioachino Rossini (1792-1868) í Langholtskirkju á föstudaginn langa, 14. apríl, kl. 16, og sunnudaginn eftir páska, 23. apríl, kl. 16.  Einsöngvarar eru Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Sesselja Kristjánsdóttir, Jónas Guðmundsson og Ágúst Ólafsson. Anna Guðný Guðmundsóttir leikur á píanó og Steingrímur Þórhallsson á harmoníum. Stjórnandi er Jón Stefánsson. Verð aðgöngumiða er 3.000 og miðar eru seldir á www.midi.is 

 Petite Messe solenelle er eitt síðasta verk Rossinis og af mörgum talið eitt hans besta verk. Hinar miklu vinsældir verksins stafa af innilegri trúargleði og hrífandi glæsileik kórsins og einsöngskaflanna.

Hér að ofan má sjá  "Tournedos Rossini" að gamni, turnbauta með trufflé sveppum, gæsalifur og fleiru, en Rossini var sem kunnugt er gourmet kokkur og margir réttir og restaurantar kenndir við hann.  Í eftirrétt mætti svo hafa "Perur alla Rossini".  

Gioachino Rossini (1792-1868)  eða “Svanurinn frá Pesaro³ eins og hann var oft nefndur, sýndi strax, átta ára að aldri, að í honum blundaði mikið tónskáld og 1810, þegar hann var átján ára, var ópera hans La Cambiale di matrimonio sett upp í Feneyjum. Upp frá því samdi hann að meðaltali tvær óperur á ári og naut mikilla vinsælda, svo mikilla að hann var talinn þungamiðja ítalsks óperulífs fyrri hluta 19. aldar og féllu önnur ítölsk samtímatónskáld í skuggann af honum, s.s. Bellini og Donizetti. Enginn ógnaði honum fyrr en Verdi tók við af honum um miðja öldina eftir að hafa samið Gullna þríeykið sitt.

Snilligáfa Rossinis fólst einkum í því að hann gat gert grípandi laglínur, stal oft frá sjálfum sér (sbr. óperuforleikirnir þar sem hann vitnar í allt að þrjár af eigin óperum) og hann hafði viðhorf atvinnutónsmiðsins og fór því alltaf stystu leið og breytti aldrei neinu eftir á. Enda sagði hann sjálfur: “Látið mig fá innkaupalista og ég skal semja tónverk við hann.”    

Það var þó einkum Rakarinn frá Sevilla sem hélt nafni hans á lofti um víða veröld og enn þann dag í dag er hún gríðarlega vinsæl. Hana samdi hann á þrettán dögum, aðeins 24 ára gamall. Hún er mjög dæmigerð fyrir stíl Rossinis. Franska leikskáldið Beaymarchais hafði samið tvo gamanleiki um Fígaró, annars vegar Rakarann og hins vegar Brúðkaup Fígarós. Mozart hafði samið óperu við Brúðkaupið og í henni kemur fram hörð þjóðfélagsgagnrýni en ópera Rossinis er öll á léttu nótunum.

Fyrir þennan léttúðleika hefur hann oft verið gagnrýndur og mörgum fundist tónlist hans of einföld, sérstaklega eftir að Wagner og Strauss fóru að semja. En það er einmitt í einfeldninni þar sem styrkur hans liggur, enda var hann fyrst og fremst gamanóperutónskáld. Tónlistin er mjög einföld og beinskeitt og áheyrandinn grípur hana strax. Þetta er nokkuð sem skorti í tónlist forvera hans og samtímatónskálda en óperupersónur þeirra virka oft líflausar í samanburði við hans.    

Rossini kom sér fyrir í París og samdi þar Vilhjálm Tell sem hann taldi mesta afrek sitt enda eyddi hann sex mánuðum í smíði hennar. Henni var vel tekið en Rossini ákvað að hætta að skrifa leikhústónlist og taka sér frí frá tónsmíðum 37 ára gamall. Síðustu þrjá áratugi ævi sinnar lifði hann ríkmannlega, borðaði vel, helgaði sig sælkeralífinu. Hann var frægur sælkeri og við hann er kenndur réttur sem enn í dag er á matseðli betri veitingahúsa, Tournedo Rossini, turnbauti með trufflesveppum, gæsalifur og fleiru. Hann giftist hverri fallegu sópransöngkonunni á fætur annarri og varð hrókur alls fagnaðar í skemmtana- og menningarlífi Parísar. Ekki er vitað fyrir víst hvers vegna hann hætti að semja óperur en það eina sem hann samdi síðustu 39 ár ævi sinnar var hið stórbrotna Stabat Mater, nokkur sönglög og svo Petite Messe solennelle sem hann samdi fjórum árum fyrir dauða sinn og kallaði sjálfur “Síðustu höfuðsynd elli minnar.”    

Verkið er skrifað fyrir kór, fjóra einsöngvara, píanó og harmoníum. Það vekur undrun að Rossini, sem var svo snjall að skrifa kröftuga og dillandi tónlist fyrir hljómsveit, skyldi skrifa undirleikinn fyrir píanó þegar allir aðrir skrifuðu fyrir stærri og stærri sinfóníuhljómsveitir sbr. Berlioz. Ef til vill hafa aðstæðurnar við frumflutninginn haft sitt að segja en hann var í einkaboði greifynjunnar Louise Pillet-Will í París 1864.

Daginn eftir flutninginn var almenningi leyft að hlýða á verkið og fékk það fínar viðtökur en flestir litu á það sem uppkast að stærra verki með stórri hljómsveit. Tónlistargagnrýnandi Parísarblaðsins Le Siécle taldi að þegar Rossini væri búinn að skrifa út hljómsveitarpartinn væri hann kominn með verk með svo miklum eldmóði að það myndi bræða marmarann í dómkirkjunum. En það er einmitt píanóundirleikurinn sem gerir verkið sérstakt því messur í þessu formi eru fáheyrðar. Sé hlustað á verkið má greinilega heyra að Rossini ætlaði sér aldrei að hafa hljómsveit með í verkinu þó svo hann hafi gert útgáfu fyrir litla hljómsveit skömmu fyrir dauða sinn af ótta við að einhver annar myndi gera það að honum látnum. Þessi hljómsveitarútgáfa er sjaldan flutt. Rossini notar sérstaka eiginleika píanósins til hins ítrasta og nær hámarki með sérstakri trúarlegri prelúdíu í anda J. S. Bach.    

Líkt og Sálumessa Verdis ber verkið keim af óperum tónskáldsins. Rossini samdi fyrst og fremst gamanóperur iðandi af lífi en í messunni eru sumir kaflar þar sem tónlistin gæti verið úr einhverri óperunni. Domine Deus fyrir tenór og píanó gæti allta ð einu verið óperuaría. Tónlistin fer beint í æð og gerir engar kröfur um að áheyrandinn hafi heyrt hana áður. Í fyrri hluta verksins ríkir léttleiki þar sem hann leyfir einsöngvurunum að dilla raddböndunum á meðan kórinn veitir kirkjulegt aðhald. Þetta má glöggt heyra í upphafi verksins í Christe eleison sem er án undirleiks og svipar mjög til Palestrina.   

Þó svo verkið geri ekki kröfur um að áheyrandinn hafi heyrt það áður þá er verðugt verkefni að kafa svolítið ofan í það. Einn merkasti eiginleiki þess er að það er nokkurs konar blanda af mjög djúpum og þroskuðum trúarlegum og heimspekilegum tilfinningum annars vegar og mjög beittri kaldhæðni hins vegar. Rossini var mikill húmoristi og gleðimaður og bera óperur hans þess glöggt merki. En alvarlegu verkin sýna hinn sanna Rossini ef til vill best. Hann faldi sig á bak við háðið eins og í þessu verki. Þetta var dæmigert fyrir ítalska listamenn þess tíma að þeir forðuðust að takast á við stór vandamál með því að beita kaldhæðni. Rossini gerir þetta hér til að blanda ekki persónu sinni um of við verkið en í raun er hægt að segja að þessum mönnum er aldrei eins mikil alvara og þegar þeir spauga.

Petite Messe solennelle er að öllum líkindum uppgjör Rossinis við lífið sitt skömmu fyrir dauða sinn. Þessu til staðfestingar má vitna í handritið þar sem hann skrifaði í lokin smá bréf til Guðs en viðhélt enn trúðsgrímunni og sagði:“Kæri Guð. Hér er hún fullbúin, þessi fátæklega litla messa. Er þetta heilög tónlist eða vanhelg tónlist? Þú veist vel að mér var ætlað að semja gamanóprut en það þarf ekki meira til en smá hæfni og eitthvað smávegis frá hjartanu. Jæja, vertu blessaður og leyfðu mér nú að komast til himna.”