Margrét Lára Þórarinsdóttir 31. maí kl. 20 í Snorrabúð

Margrét Lára Þórarinsdóttir sópran og Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari halda einsöngstónleika miðvikudaginn 31. maí n.k. kl. 20.00 í Snorrabúð, tónleikasal Söngskólans í Reykjavík að Snorrabraut 54. Tónleikarnir eru liður í burtfararprófi Margrétar Láru frá Söngskólanum í Reykjavík, en þar er hún söngnemandi  Margrétar Bóasdóttur.

Á efnisskránni eru m.a. barnagælur eftir Atla Heimi Sveinsson, sönglög eftir Jórunni Viðar, þýskir, franskir, og enskir ljóðasöngvar, m.a. úr ljóðaflokknum I  Hate Music eftir Leonard Bernstein , aríur úr óperunum Carmen eftir Bizet og Rakaranum í Sevilla eftir Rossini og Domine Deus úr Gloriu eftir Vivaldi, en þar fær Margrét Lára til liðs við sig Sólveigu Sigurðardóttur óbóleikara, nemanda við Tónlistarskólann í Reykjavík.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.