Complete Vocal Technique kynnt í Kastljósi

 Hera Björk Þórhallsdóttir kynnti “Complete Vocal Technique” í Kastljósi 20. nóv. sl.  Hera Björk hefur lagt stund á nám hjá Cathrine Sadolin í rúm tvö ár og er nú sjálf komin með kennsluréttindi sem CVT kennari.  Jóhanna Vilhjálmsdóttir spjallaði við Heru Björk og hér er endursagður meginhluti viðtalsins:

 


       Er Complete Vocal Technique aðaltæknin í dag til þess að verða góður söngvari?

–  Þetta er a.m.k. ein tegund af tækni.  Hún er mjög fljótleg, virkar vel og er góð. Þetta er eins konar “1944 tækni” fyrir sjálfstæða söngvara☺

        Já, þetta er einmitt það sem fólk hefur þurft, í staðinn fyrir að fara í margra ára söngnám til þess að verða góður söngvari.  Á hvað  stuttum tíma geturðu orðið góður  söngvari með þessari tækni, þú hlýtur að þurfa einhvern grunn?

–  Æfingin skapar alltaf meistarann og allur lærdómur er góður.  En það er leiðinlegt að hjakka í sama vandamálinu og komast aldrei niður á lausnina.  

CVT snýst um það að einfalda hlutina, gera þetta ekki svona stórkostlegt mál að syngja.  Það geta allir sungið, misvel þó.  Sumir hafa stjörnuhæfileika, en aðrir ekki.  

Í hnotskurn samanstendur tæknin af grunnatriðum, raddgírum, raddlitum og effektum.  

I.

ÞRJÚ GRUNNATRIÐI (THREE BASIC PRINCIPLES):

SLAKUR HÁLS – STUÐNINGUR – SLAKUR KJÁLKI OG VARIR

Hér eru þau þrjú höfuðatriði sem við þurfum að hafa í huga, þegar við ætlum að vinna með heilbrigða rödd:  Í fyrsta lagi slakur háls, í öðru lagi stuðningur og í þriðja lagi að gæta þess að setja kjálkann ekki fram eða vera með spennu í vörunum, það hleypur beint í hálsinn á okkur.  

        Hvaðan kemur stuðningur?    

–  Hann kemur frá kviðvöðvunum.  Á gólfið og gera 200 magaæfingar!☺  Það hefur ekkert með líkamsbyggingu að gera, ég er örugglega betri að syngja en Maggi Scheving, en hann er betri að hoppa en ég. 

II.

FJÓRIR GÍRAR Í SÖNG (VOCAL MODES)

NEUTRAL – CURBING – OVERDRIVE – BELTING

(fyrir þrjú síðustu hugtökin hafa ekki enn fundist viðunandi íslensk heiti)

1. Neutral er fyrsti gírinn, þá tala ég með loftrödd.  
2. Curbing, þá tala ég eins og latur unglingur:  “Æ, ég nenni því ekki, mamma.”  Þetta þekkjum við mikið í poppheiminum, eins og     í laginu:  “I believe I can fly.”  
3. Overdrive, þá erum við komin í fótboltabulluna:   so-mí-la-so-mí, eða Áfram Valur!
4. Belting, þá tölum við mjög hátt bæði í tónhæð og resonans, fólk sem talar þannig nær allri athygli strax!
 
        Hvar mundum við heyra belting?

–  Aðallega hjá Ameríkönum, í sjónvarpinu í Nanny Franny t.d.  Við Íslendingar erum ekki sérstaklega hrifnir af belting.  Ameríkanar eru aftur á móti ekki sérstaklega hrifnir af overdrive.  T.d. þegar við erum að versla í Ameríku, kemur kannski afgreiðslukona sem gjammar í belting:  “Can I help you, miss?”  Og þá segjum við:  “No, thank you” á overdrive.  Þá finnst þeim við vera dónaleg og með læti.  Þannig að þetta hefur svolítið með menningarheima að gera.  

III.

RADDLITIR (SOUND COLORS):  DÖKKUR – LJÓS OG ALLT ÞAR Á MILLI

Síðan getur maður ákveðið hvort maður vill hafa dökkan eða ljósan lit á röddinni.  Þetta er mikilvægt í  klassískum söng.  Ef þú ætlar að syngja óperu og ert kona að þá syngurðu í neutral / curbing  og notar dökkan raddlit til að ná fram klassíska hljómnum. Ljósi liturinn er meira ríkjandi í poppheiminum.

        En getur þetta komið í staðinn fyrir að fara í gegnum klassískt söngnám og læra að vera óperusöngvari?  Geturðu         orðið óperusöngvari með því að læra Complete Vocal Technique?

–  Hiklaust.  Í klassísku söngnámi lærir maður ofsalega mikið af lögum og textum og maður lærir alltaf mikið með því að æfa sig heima.  En þegar upp koma vandamál; t.d. að maður nái ekki tilteknum tóni eða sé of andstuttur o.s.frv., þá kemur Complete Vocal tæknin að góðum notum.  

IV.

EFFEKTAR (EFFECTS):

Að lokum getur maður valið effekta til að skreyta.  Dæmi:
Distortion t.d. sem er rokk-sándið, eins og hæsi (en er það samt ekki),  Magni er mjög klár í því.
Vibrato, sumir eru með hægt vibrato, aðrir meðal og aðrir íslenska sauðkindar-effektinn.  
Svo eru allskyns effectar eins og “Britneybrakið” eða “Louie Armstrong urrið” sem hægt er að skreyta með ef vill – Góða skemmtun☺