Hugleiðing um það sem enginn söngnemandi getur fært í orð

 Halldór Hansen skrifaði ekki aðeins um söng og söngvara, hann skrifaði líka um börn og barnauppeldi. Sigga Jóns eignaðist krúttastrák 18. apríl sl.  Mikið var hann heppinn að eignast svo yndislega mömmu!  Tóm hamingja. 

Sigga las ráðleggingar eftir Halldór til foreldra frá sjónarhóli barnsins, mannlega og hlýja grein eins og við var að búast.  En greinin varð Siggu tilefni til hugleiðinga um hliðstæður í söngkennslu, uppeldi söngnema, sem hér fara á eftir: 

 

HUGLEIÐING UM ÞAÐ SEM ENGINN SÖNGNEMANDI GETUR FÆRT Í ORÐ
…skrifað eftir lestur meðfylgjandi greinar Halldórs Hansen, barnalæknis: Það sem ekkert barn getur fært í orð. – Í minningu þess góða vinar.

Í starfi mínu sem söngkennari hefur það oft hvarflað að mér hversu mun einfaldari vinnan yrði ef leiðbeiningabæklingur fylgdi hverjum nemanda. Ég fór að hugsa um þetta eina ferðina enn þegar ég las skemmtilegt viðtal við Guðmund Jónsson annars staðar á þessum vef. Þar segir Guðmundur frá því hversu einfalt það hafi verið að kenna Kristni Sigmundssyni. Kristinn gat gert allt sem Guðmundur kenndi um leið og hann fékk útskýringar og tilsögn.

Það er rétt að það er ekki á á hverjum degi sem söngkennari fær slíkan efnivið í hendurnar sem Kristinn Sigmundsson. En þó það þurfi misjafnlega mikið fyrir nemendunum að hafa er nemendaflóran sá yndislegasti skrúðgarður sem ég hef kynnst. Hvert blóm hefur sína sérstöku liti, stærð, lögun og angan, sum blómstra að vori, önnur verða falleg sumarblóm, sum þarf sífellt að vökva en öðrum dugar einn góður skammtur í langan tíma. Já, það eru forréttindi að fá að ganga um slíkan garð og skoða og uppgötva undrin, litlu og stóru kraftaverkin. En þetta starf er líka erfitt puð, ábyrgðarfull vinna og margt þarf að varast.

Enn finnst mér ég vera eitt af „börnum“ Ólafar Kolbrúnar, svo mikla alúð lagði hún í mitt söngvarauppeldi, lagði til það veganesti sem ég lagði af stað með út í heim og var mér fyrirmynd. Og eitt sinn hitti ég Elísabetu, kennara Ólafar, og hún talaði við mig eins ég væri hennar „barnabarn“. Svona er þetta á Íslandi, … Kristinn „sonur“ Guðmundar… og hversu langur listi „barna“ fylgir kennurum eins og Þuríði Pálsdóttur og Sigurði Demetz að loknu ævistarfi?

Þó er gott að minnast þess að afrek söngnemendanna eru fjölbreytt. Pabbi minn, hann Jón, hefur sungið með Karlakór Reykjavíkur í yfir 50 ár, en hann er í þessu tilliti „sonur“ Más Magnússonar, hvers tilsögn hefur án efa gert pabba mínum kleift að halda fallegri barítónrödd sinni skínandi í öll þessi ár.

Og svona getur hvert okkar staðsett sig í þessu skemmtilega ættartré sönglistarinnar hér á landi.

Ég varð þeirrar ótrúlegu gæfu og gleði aðnjótandi að verða móðir á þriðja degi nýliðinna páska. Það er fátt sem getur undirbúið mann undir þann stókostlega viðburð og það verkefni sem fyrir höndum liggur. Það var mér því ósegjanlegt gleðiefni að uppgötva að í foreldramöppunni, sem hjúkrunarkonan af heilsugæslustöðinni afhenti okkur hjónunum í fyrstu heimsókninni, leyndist lítið blað með grein eftir minn yndislega vin Halldór Hansen barnalækni, vin okkar allra, söngvara og söngkennara. Mér varð það ljóst eftir lestur greinarinnar að henni þyrfti ég að koma á framfæri við aðra. Í greininni, sem ber titlinn Það sem ekkert barn getur fært í orð, kemur fram djúpur mannskilningur Halldórs, föðurlegur skilningur uppalanda, manns sem þó aldrei varð faðir, þótt við séum sannarlega mörg sem fengum að njóta föðurlegs innsæis hans. Hafi ég einhvern tímann óskað mér að leiðbeiningabæklingur fylgdi einhverju starfi þá væri það örugglega þessu nýja starfi sem foreldri, og hafi ég einhvern tímann fengið góð ráð um uppeldi þá jafnast þau vart á við þessi sem í grein Halldórs eru fólgin.

En eru ekki í þessari litlu grein falin sannleikskorn sem eiga svo réttilega við í öllum þeim störfum sem kalla á kennslu og samskipti nemenda og kennara? Ég læt greinina fylgja þessum hugleiðingum um kennslu, söngnemendur, uppeldi, blóm, börn og foreldra og legg í ykkar hendur að hugleiða hvort hún eigi ekki einmitt beint erindi við okkur sem söngkennara… og hvort söngnemendur hafi getu til að færa svo mikið í orð…

Sumarkveðja til söngkennara
Sigríður Jónsdóttir
solbraut@simnet.is

ÞAÐ SEM EKKERT BARN GETUR FÆRT Í ORÐ
eftir  Halldór Hansen barnalækni

Ég bað ekki um að verða til og það er ekki víst að að ég geti orðið það barn sem ykkur dreymdi um að eignast. Það er ekki einu sinni víst að ég geti orðið það barn sem vísindin kalla heilbrigt og eðlilegt. Engu að síður vonast ég til að ykkur geti þótt vænt um mig, því að án þess get ég ekki náð fótfestu í lífinu.

En hvernig sem ég er, þá er ég SÉRSTÆTT UNDUR náttúrunnar. Það hefur aldrei verið til annað barn, sem er nákvæmlega eins gert og ég og það verður að líkum aldrei til. Þess vegna getið þið aldrei lært neitt um séreðli mitt af bókum eða fræðimönnum, heldur bara um það, sem ég á sameiginlegt með öðrum börnum svona í stórum dráttum.

Reynið að virða séreðli mitt, því að það er hvorki á ykkar færi né mínu að breyta því. En gruni mig, að ykkur falli ekki séreðli mitt í geð, get ég reynt að fara að breyta því til að þóknast ykkur. En mér getur ekki liðið vel, ef mér finnst ég þurfa að lifa lífinu í andstöðu við mitt innsta eðli. Því miður get ég ekki skýrt þetta séreðli mitt fyrir ykkur. Þess vegna á ég alla velferð mína undir skarpskyggni ykkar og athygli.

Það er svo auðvelt að horfa án þess að sjá og hlusta án þess að heyra eða sjá og heyra bara það, sem maður býst við að sjá og heyra. Ef þið festist í þeirri gildru, getur farið svo að þið uppgötvið aldrei hvernig ég er í raun og veru. Eða hvers vegna ég bregst við eins og ég geri. En þótt mig langi til að fá að vera bara svona eins og ég er, langar mig samt að geta þroskað þá hæfileika sem ég hef fengið í vöggugjöf. Til þess þarf ég á handleiðslu ykkar að halda. Það er ekki vandalaust verk.

Það er ekki hægt að ýta svo á eftir mér, að mér verði fótaskortur á hraðanum og engan veginn víst, hve vel mér gengur að rísa aftur á fætur. Á hinn bóginn getið þið líka verið svo hrædd um mig að þið leyfið mér aldrei að spreyta mig nægilega til að ég geti haldið áfram að þroskast. Til þess þarf ég, að minnsta kosti öðru hvoru, og helst sem oftast, að fá að spreyta mig við efri mörk minnar getu. Það er skaðlaust, svo framarlega sem þið hafið augun opin og fylgist með, hvenær ég er að þreytast eða verkefnin að vaxa getu minni yfir höfuð.

Ef ég fæ ekki að spreyta mig, öðlast ég aldrei það öryggi sem reynslan ein getur gefið. Séu verkefnin hins vegar að staðaldri ofviða minni getu, missi ég smám saman kjarkinn og sjálfstraustið bíður hnekki. Að sjálfsögðu vil ég gjarnan fá að ráða og þekki í raun ekki annan vilja en minn eigin. Í sjálfu sér langar mig mest til að sveigja allt og alla undir minn vilja. En það megið þið ekki leyfa mér, því það er of hættulegt. Þið verðið að passa mig fyrir hættum, því ég kann ekki að forðast þær af sjálfsdáðum. En þið verðið líka að temja mig, hefla mig og siðfága. Reynið samt ekki að kenna mér þetta allt í einu, því þá ruglast ég í ríminu. Kennið mér fyrst að forðast hættur, því að það er mikilvægast. Siðfágunin getur beðið betri tíma.

Ef ég finn að ykkur þykir fölskvalaust vænt um mig, vil ég ýmislegt fyrir ykkur gera, því mér fer að þykja vænt um ykkur á móti. Ég get meira að segja vel beygt minn vilja undir ykkar vilja, svo framarlega sem reynslan sannar mér, að ykkur er ávallt velferð mín efst í huga, þegar þið eruð að banna mér eða aga mig, en látið ekki stundarduttlunga eða augnarblikshagsmuni ykkar ráða ferðinni.

Finni ég glöggt að þið berið ávallt mína velferð fyrir brjósti, kemur fyrr eða síðar að því að mér verður ljóst, hvers virði handleiðsla ykkar er þar eð hún forðar mér frá glappaskotum, sem ég mundi gera, ef minn vilji réði einn. En viljið þið að ég hlýði til þess eins, að þið getið sýnt vald ykkar yfir mér, er ekki víst að ég verði svo mjög fús til samvinnu. Ég hlýði ykkur ef til vill af hræðslu, meðan þið sjáið til, en þið skuluð ekki búast við, að ég hlýði til að sanna, hvað þið eruð góðir uppalendur. Þá bíð ég bara eftir tækifæri til að verða ykkur til skammar, þegar næsti gestur kemur í heimsókn.

Síðast en ekki síst, vil ég biðja ykkur um að muna, að þið eruð FYRIRMYND mín í tilverunni. Ég hermi eftir öllu, sem þið gerið, hvort sem það er gott eða vont. Það þýðir ekki fyrir ykkur að segja mér að gera eitt, ef þið gerið sjálf eitthvað annað. Ég tek ekki mikið mark á orðum, sérlega ekki, ef ég finn, að þau stangast á við allt sem ég sé fyrir mér. Ég skil ekki einu sinni alltaf það, sem þið eruð að segja, en ég get alltaf hermt eftir því, sem ég sé fyrir mér, hvort sem ég skil það eða ekki. Þess vegna skuluð þið aldrei gleyma þeirri einföldu en fjarskalega erfiðu staðreynd að það er ykkar hegðun sem mótar mig öllu öðru fremur.

Heilsuverndarstöð Reykjavíkur
Barnadeild
Enduruppsett 1998