Jónas Ingimundarson

 Jónas var að koma frá Rússlandi og er himinlifandi yfir því sem hann upplifði.  Hann hitti Galinu Pisarenko, sem var í hópi glæstustu söngvara Rússa í tugi ára.  Galina hélt masterklassa í LHÍ í haust, sem alltof margir söngkennarar létu fram hjá sér fara, illu heilli.  Hún leiddi hann út um allt, í óperuna, inn á heimili Svjatoslav Richter, gaf honum Tsjækofskí og Sjaljapín komplett.  Jónas ætti að skrifa grein um Rússlandsförina og leyfa okkur að fá hlutdeild í því ævintýri.  Það yrði spennandi, því hann er einkar næmur maður, maður augnabliksins og upplifir sterkt.  
Hann hitti líka aðra magnaða listakonu, kontraalt söngkonuna Tatjönu Garkúsjóvu og áformað er að hún komi 7. sept. til að syngja með honum tónleika í Salnum.  Takið daginn frá.  Það verður ógleymanleg lífsreynsla.  Ég hef heyrt og séð DVD því til staðfestu.
Öll vitum við að íslenskt tónlistarlíf væri ekki samt án Jónasar.  Til að nefna örfá dæmi kom hann á laggirnar Tónlist fyrir alla, skipulagði Ljóðatónleika Gerðubergs og óhætt er að segja að hann hafi með eldmóði sínum sannfært ráðamenn um að nauðsynlegt væri að byggja tónlistarhús í Kópavogi.  Allar götur síðan hefur hann skipulagt Tíbrá, glæsilega tónleikaröð í Salnum og Græna herbergið í sjónvarpinu er mörgum minnisstætt.
Jónas er sem sagt búinn að skipta um jarðveg víða, en um leið er hann ljóðrænn listamaður, sem hefur helgað líf sitt leit að fegurðinni í vinfengi við Schubert, Brahms, Liszt og marga fleiri.  Hann hefur haldið fjölda einleikstónleika og staðið í eldlínunnni með íslenskum söngvurum í yfir 40 ár.  Hann er stundum kallaður Syngimundarson, enda leggur hann mikla áherslu á að fá hljóðfærið sitt til að syngja.  En síðast en ekki síst er Jónas einstaklega skemmtilegur í viðræðu, hefur ákveðnar skoðanir og miðlar fúslega, sé til hans leitað.

Continue reading „Jónas Ingimundarson“

Rut L. Magnússon

 Það var sannkallaður hvalreki fyrir íslenskt tónlistarlíf þegar Rut Magnússon, mezzósópran, fluttist hingað til lands frá London. Hún hefur nú látið hendur standa fram úr ermum sl. 40 ár.  Listfengi af bestu sort, fögur rödd og skörp greind hafa ávallt verið hennar aðalsmerki og margir minnast glæsilegra afreka hennar með gleði. Sumum þykir hún hafa risið hæst í Pierrot Lunaire eftir Schönberg, en henni virtist láta jafn vel að syngja hvaða stíl sem er, allt frá erfiðustu torfum söngbókmenntanna yfir í lítil skemmtiljóð, enda þekkt fyrir létta lund og óborganlegan húmor, ekki síst fyrir sjálfri sér. Einu sinni þurfti hún að bera vitni og var áminnt um að rangur framburður væri refsiverður, eins og venja er til. "Er þá ekki betra að þetta fari fram á ensku?!" svaraði hún um hæl.  Og Kristinn Hallsson hló sig máttlausan. En eins og flestir aðrir íslenskir söngvarar hefur hún þurft að gera fleira en að syngja, og hefur helgað sig uppbyggingu tónlistarlífsins og þannig látið til sín taka á ótrúlega mörgum sviðum.  Rut er nú sest í helgan stein, en Jóhanna Þórhalls skrapp í heimsókn og spurði hana m.a. um söngkennarastarfið:

 

 

Continue reading „Rut L. Magnússon“

Sieglinde Kahmann

 Sieglinde Kahmann er reynslubolti.  Góðkunningjar hennar í tugi ára á sviðinu voru nöfn eins og Fritz Wunderlich, Martha Mödl og Wolfgang Windgassen.  Til er firnafögur hljóðritun með Sieglinde og Fritz Wunderlich í óperunni „Fierrabras“ – smellið hér – eftir Franz Schubert.
Þau Sigurður Björnsson, eiginmaður hennar og tenór með meiru, áttu afskaplega farsælan feril á árunum 1956 til 1977 og voru fastráðin við óperuhúsin í Stuttgart, Kassel og Gärtnerplatz í München, ennfremur Graz í Austurríki.

Sieglinde kemur til dyranna eins og hún er klædd, hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim, hefur einstaklega þægilega framkomu, raffineruð og smart, en fyrst og fremst heiðarleg og alltaf stutt í brosið, glens og gaman.  Heimskona – “Primadonna“. Við fáum okkur Käsekuchen, kaffi og koníaksdreitil, það eru þrjú kerti á borðinu og túlípanar, allt svo fallegt og snyrtilegt í kringum þau hjónin. Das schöne Leben, ja!

Continue reading „Sieglinde Kahmann“