„Gleði og gott gengi“ – nokkur orð um fyrirlesara

„Gleði og gott gengi“

Fyrirlesarar á ráðstefnu FÍS haldin þann 2. september 2017 í Grindavík

Elías Snorrason byrjaði að dansa salsa í Háskóladansinum árið 2013 á meðan hann var í námi í eðlisfræði við Háskóla Íslands og ári síðar hóf hann að kenna á byrjendanámskeiðum í Háskóladansinum. Árið 2016 varð Elías hluti af kennarateymi Salsa Iceland og hefur síðan kennt fjölda námskeiða á ýmsum getustigum á þeirra vegum.

Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir flutti til Hollands árið 1997 til að stunda nám í djasssöng við Konununglega Tónlistarháskólann í Haag. Þaðan lauk hún DM prófi með kennsluréttindum árið 2001 og útskrifaðist svo með tvöfaldan Master í djasssöng og Music Theater, árið 2003.

Haustið 2003 flutti Guðlaug heim til Íslands.  Síðan þá hefur Guðlaug verið fastráðinn söngkennari við Tónlistarskóla FÍH. Hún hefur fylgt á þriðja tug söngnemenda í Burtfararpróf frá TFÍH. Hún starfar einnig sem rhythmískur prófdómari í á vegum Prófanefndar Tónlistarskólanna.

Vorið 2016 lauk Guðlaug Dröfn 3 ára kennaranámi frá Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn, í aðferðafræðum Catherine Sadoline.

Guðlaug hefur unnið við radd- og söngþjálfun hjá Leikfélagi Reykjavíkur við sýningar í Borgarleikhúsinu og  við raddþjálfun söngkeppenda  í „The Voice“.

Matti Ósvald Stefánsson er heilsuráðgjafi og vottaður ACC markþjálfi og hefur haldið mikinn fjölda fyrirlestra og námskeiða á undanförnum áratugum þar sem hann miðlar reynslu sinni af þúsundum lífsstílsviðtala síðustu 20 ára.

Hann stundaði nám í International Professional School of Bodywork í USA frá 1988-1992 sem Massage Therapist  og Holistic Health Practi-tioner með aukanámi frá Pacific School of Oriental Medicine.  Hann hefur vottun frá The NLP Institute of Los Angeles og sem markþjálfi frá Evolvia á Íslandi.

Egill Árni Pálsson lauk 8. stigi frá Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur árið 2008. Þaðan lá leiðin til Berlínar þar sem hann bjó og starfaði sem óperusöngvari. Hann tók þátt í og vann til verðlauna í keppnum eins og Kammeroper Schloss Rheinsberg og Oper Schloss Laubach. Í kjölfarið bauðst honum að taka þátt í viðburðum eins og Classic Open Air í Berlin ásamt sópransöngkonunni Lucia Aliberti, Gala tónleikum í Mercedes World í Berlín og Das Lied von der Erde í Frankfurt og Berlín. Egill var fastráðinn við Gerhardt-Hauptmann Óperuhúsið í Görlitz árið 2010. Meðal hlutverka sem hann hefur sungið: Tamino (Die Zauberflöte), Caramello og Herzog (Eine Nacht in Venedig), Rodolfo (La boheme), Luzio (Das Liebesverbot), Bobby (Besuch der Alten Dame), Duka di Mantua (Rigoletto), Governor/Vanderdendur/Prince Ragotski (Candide), Alfred (Die Fledermaus), Adam (Der Vogelhändler) og fleiri.

Egill hefur ferðast víða til að læra hjá bestu kennurum sem völ er á eins og David L. Jones í New York, Janet Williams, Prof. Edwin Scholz og Prof. Wolfgang Millgramm í Berlín. Að auki hefur hann sótt einkatíma hjá: Johan Botha, Reiner Goldberg, Elisabeth Mayer-Topsöe og Kiri Te Kanawa. Meðal stjórnenda sem hann hefur unnið með og sótt tíma hjá eru: Martin Fischer-Dieskau, Kevin McCutcheon, Howard Griffiths og Frank Strobel svo einhverjir séu nefndir.

Egill hefur auk þess lokið 4 ára námi í kennslu og söngtækni við David Jones Voice Studio í New York, og er búinn að ljúka námi til kennsluréttinda hjá Associated Board of the Royal Schools of Music.

Egill starfar sem ráðgjafi á sviði samskiptalausna hjá Advania, og nýtir tölvutæknina daglega í sínu starfi auk þess sem hann hefur notfært sér hana við söng og kennslu síðustu ár.

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir lauk íþróttakennarapróf frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1976. Hún lauk Bs próf í íþróttafræði/heilsuþjálfun frá Kennaraháskóla Íslands 2003, stundaði einnig nám í sterkari stjórnsýslu frá Háskólanum í Bifröst 2012 og lauk Diplómanámi á meistarastigi í Jákvæðri Sálfræði frá HÍ 2016.

Hún býr og starfar í Borgarfirði, er skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar. Hún hefur einnig fengist við fjölda verkefna með börnum og unglingum er tengjast íþróttastarfi auk þess að halda námskeið um jákvæða sálfræði víða.

Ingibjörg Inga er gift og þriggja barna móðir. Helstu áhugamál eru íþróttir og heilsurækt, útivist, ferðalög og allt er viðkemur menntun, kennslu, uppeldisstörfum og velferð barna.

David Jones er frá Texas í Bandaríkjunum og hefur starfað sem söngkennari og pedagogue allt frá árinu 1982.  David lenti sjálfur í raddvandræðum í byrjun náms því hann er baritón en var látinn syngja tenór.  Hann fann þá kennarann Allan R. Lindquest sem lærði m.a hjá Enrico Caruso, Haldis Ingebjard-Isne (kennari Flagstadt), Joseph Hislop, Maestro Rosati (kennari Gigli), og Paola Navikova.  Lindquest var einstaklega gefandi maður og deildi mikilli vitneskju með David. Eftir að Lindquest lést, hélt David áfram að læra hjá Virginia Botkin, sem var einnig nemandi Lindquest, og Dr. Suzanne Hickman (nemandi Botkin) þar sem David hélt áfram að þróa kennsluhæfileika sína. Eftir að hafa lært hjá Allan R. Lindquest, lærði hann ekki bara inn á röddina og þær mismunandi leiðir sem kennarar þurfa hafa til að komast að sama markinu, heldur fékk hann innsýn í það hvernig maður kennir á áhrifaríkan hátt með fasi og jákvæðni að leiðarljósi.

David er eftirsóttur kennari bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.  Hann er búinn að skrifa fjöldan allan af greinum um söngröddina og greiningu raddvandamála á heimasíðu sinni www.voiceteacher.com. Hann hefur stundað rannsóknir á röddinni m.a. við háskólasjúkrahúsið í Groening og hefur verið gestakennari við Laboratoire de la Voix í París (en það er m.a þar sem Villazon fór þegar hann lenti í raddvandræðum) og við Opernhögskolan í Stokkhólmi.  Vegna tengingar hans við virta rannskendur á sviði raddvísinda eins og t.d. Dr. Barbara Mathis, hefur hann fengið einstaka innsýn í það hvernig hugtök „gamla skólans“ í söngkennslu koma að gagni í tal- og söngmeinafræði, hægt er leysa margþætt raddvandamál í gegnum einfaldar æfingar sem notaðar hafa verið í áraraðir við söngkennslu.  Hann fær reglulega til sín fólk frá háls-, nef- og eyrnalæknum í New York.

Auk þess að hafa lært hjá Allan R. Lindquest hefur David lært hjá hjá Dixie Neill (kennara Ben Hepner) og síðar hjá Evelyn Reynolds, sem lærði hjá Lola Fletcher (nemanda Herbert Witherspoon), Hollis Arment (tenór), William Vennard (höfundur bókarinnar Singing: The Mechanism and the Technique) og Ralph Erolleb (kennari Arleen Auger).

David hefur þjálfað söngvara sem nú syngja við óperuhús og hátíðir eins og: Metropolitan Opera, New York City Opera, San Francisco Opera, Chicago Lyric Opera, Berlin Staatsoper, Vienna Staatsoper, Opera North U.K., the Royal Opera House / Covent Garden, the Glyndebourne Opera Festival, Salzburg Festival og L’Opera Bastille í Paris.

David hefur skrifað greinar í rit NATS (National Association of Teachers of Singing) og Classical Singer Magazine.  Tími hans fer nú mest í það að deila þekkingu sinni með kennurum um allan heim, hann heldur námskeið fyrir kennara tvisvar á ári í New York og í Evrópu.

David hefur nýverið gefið út bókina „A Modern Guide to Old World Singing“.