Ítalskir baritónsöngvarar á millistríðsárunum

Ítalskir baritónsöngvarar á millistríðsárunum      
EFTIR HALLDÓR HANSEN (birtist fyrst í Óperublaðinu 1. tbl. 14. árg. feb. 2001)
Ítalskir baritónsöngvarar á millistríðsárunum
Baritónröddin er væntanlega algengasta karlmannsrödd sem til er, þar eð tónsvið hennar liggur mitt á milli tenórraddarinnar og bassans.  Það er í raun ekki ýkja langt síðan farið var að skilgreina baritónröddina sem sérstaka raddgerð.  Fyrir miðja nítjándu öld voru allar dökkar karlmannsraddir kallaðar bassar, en eftir það var farið að tala um baritónröddina sem sérstaka raddgerð og enn síðar farið að skipa henni niður í flokka eftir raddumfangi, styrkleika og lit.  Léttari raddir með meiri tenórblæ en bassa voru kallaðar “kavalier baritón” en kraftmeiri og dekkri raddir  “dramatískur baritón”.  Algengastur var þó hinn svo nefndi “lýríski baritón”, sem lá þarna mitt á milli og gat, þegar vel gegndi, brugðið sér út fyrir sitt svið í báðar áttir.  Auk þess var farið að tala um bass-baritón raddir, raddir sem í eðli sínu féllu undir skilgreininguna bassi, en höfðu meiri hæð til að bera en gengur og gerist um bassasöngvara.

Giuseppe de Luca (1876-1950)

 Það má á vissan hátt líta á Giuseppe de Luca sem arftaka Mattia Battistini, hins fræga bel canto söngvara kynslóðarinnar, sem á undan fór.  Það má fullyrða að söngur Giuseppe de Luca hafi alla tíð borið í sér menjar 19. aldar sönghefðar, enda komst hann í hendur hins fræga söngkennara Venceslao Persichini einungis fimmtán ára gamall og varð fljótt uppáhaldsnemandi hans.  Þessi sami Persichini hafði einnig verið kennari Mattia Battistini og því ekki að furða þótt söngmáti þessara tveggja söngvara hafi minnt talsvert hvor á annan.
Dálæti Persichini á Giuseppe de Luca vakti fljótt öfund og afbrýðisemi annarra söngnema við Academia Santa Cecilia í Róm, en meðal raddnemenda þar var hinn raddmikli Titta Ruffo, sem sló öðrum söngvurum við, hvað varðar raddmagn, þótt raddfágun hafi et til vill ekki verið að sama skapi.
Í raun hafði Giuseppe de Luca sungið alveg frá barnæsku.  Í bernsku var hann einsöngvari með “Schola Cantorum dei Fratelli Carissimi”, en fór síðar að koma fram á öðrum sviðum og vakti athygli vegna raddfegurðar og hagstæðs útlits.
Hinn 5. Nóvember 1897 kom hann í fyrsta skipti fram í óperuhlutverki, nánar tiltekið í hlutverki Valentinos í Faust eftir Gounod við óperuna í Piacenza.  Næsti meiriháttar áfangi var Teatro Lirico í Mílanó árið 1902 og loks var hann ráðinn að La Scala óperunni í næstu átta ár.
Hann fékk þó tækifæri til að syngja annars staðar sem gestur, meðal annars á Covent Garden óperunni í London og í öllum meiriháttar óperuhúsum í Rússlandi og Póllandi.  1915 var hann loks ráðinn að Metropolitan óperunni í New York.
Hann frumflutti ýmis hlutverk, meðal annars í óperunni Adriana Lecouvreur eftir Cilèa 1902 og óperunni Siberia eftir Giordano á La Scala óperunni síðar.  Auk þess varð hann manna fyrstur til að syngja hlutverk Sharpless í Madama Butterfly eftir Puccini.  De Luca þótti einnig vel liðtækur leikari og þótt söngmátinn væri óneitanlega af bel canto gerðinni, lét de Luca engu að síður vel að leika dramatísk hlutverk og jafnframt var kímnigáfu hans við brugðið, einkum í hlutverkum eins og Fígaró í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini og Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart.
Að öðru leyti var hann fyrirmynd annarra hvað varðar tónmyndun, fraseringar og textaframburð.  Fáir hafa staðið honum á sporði á þessum sviðum, enda söng hann fram í elli með glæsibrag og þótti alla tíð söngvari hinna vandfýsnu.  Þegar hann var sjötugur gerði hann sína seinustu hljóðritun á ítölskum arie antiche, sem slær flestu við sem gert hefur verið á því sviði.

Giuseppe Danise (1882-1963)

 fæddist í Napólí og stundaði söngnám við hinn fræga tónlistarskóla þar í borg hjá kennurunum Colonnese og Petillo.  Hann kom fyrst fram í hlutverki Alfier í Cavalleria Rusticana eftir Mascagni í Teatro Bellini árið 1906.
Giuseppe Danise var heldur ekki barn síns tíma sem söngvari, fremur en Giuseppe di Luca.  Hann var það sem kalla mætti “aristókrat” meðal söngvara.  Söngtækni hans var við brugðið, sem og hæfileiki hans til að lifa sig inn í hlutverk án þess þó nokkru sinni að fara yfir strikið í túlkun eins og algengt var á vinsældatímum “verismo” óperunnar.  Danise var ávallt fulltrúi smekkvísinnar í öllu sem hann tók sér fyrir hendur, jafnt í söng sem leik.
Hann lét óspart til sín heyra um að listamaðurinn ætti að þjóna listinni, en ekki nota hana til að þjóna sjálfum sér og frama einstakra listamanna.  Þessi ummæli féllu ekki alltaf í góðan jarðveg, enda þótti Danise nokkuð ósveigjanlegur og miskunnarlaus í skoðunum.  Enginn efaðist þó um tryggð hans við listina.  Hann var ráðinn að Metropolitan óperunni 1920-21 eftir að hafa sungið mjög víða í Evrópu fram að því.  Hann var því fullmótaður söngvari með geypilega reynslu að baki.
Það er ekki furða, að þótt Danise þætti stundum erfiður í sambúð við aðra listamenn og samsöngvara sína, dró enginn í efa hæfni hans sem kennara.  Hann endaði æviferil sinn í New York sem mjög virtur kennari og hafði umsjón með söngferli eiginkonu sinnar, brasilísku söngkonunnar Bidú Sayao, sem var miklu yngri en hann, en hann var síðari eiginmaður hennar.
Nafn Danise hefur óverðskuldað fallið nokkuð í gleymsku í seinni tíð, ef til vill vegna þess að eftir hann liggja fáar hljóðritanir, en hans er minnst fyrir að hafa auðveldað söngkonunni Reginu Resnick við að breyta rödd sinni úr sópran í mezzosópran og vera listrænn ráðunautur Bidú Sayao á hennar glæsilega ferli.  Þótt Danise þætti þungur í skapi og harður í horn að taka, bætti Bidú Sayao það upp með vinsemd sinni og sjarma.  Hjónabandið var því farsælt.

Benvenuto Franci (1891-1985)

 var burðarás í ítölsku tónlistarlífi frá 1920 og fram yfir síðari heimsstyrjöldina.  Hann var að mörgu leyti andstæða Giuseppe di Luca og Giuseppe Danise.  Hann hafði til að bera ákaflega kröftuga rödd sem réði auðveldlega við þyngstu hlutverk óperubókmenntanna.  Röddin einkenndist af sérkennilegu víbratói, sem fellur mönnum misjafnlega í geð og á áreiðanlega minni vinsældum að fagna í dag en það átti á fyrri hluta 20. aldarinnar, þegar verismo söngmátinn átti hvað mestum vinsældum að fagna.  Benvenuto Franci hafði einnig til að bera mjög dramatíska hæfileika og innlifunarhæfni, þannig að hann náði nær undantekningarlaust vel til áheyrenda á sviði, en þótti ef til vill skorta nokkuð á fágun í samanburði við fyrri tíma söngvara.
Kennarar hans við Academia Santa Cecilia í Róm voru A. Cotogni og E. Rosati og voru sem sagt af gamla skólanum.  En skapgerð Benvenuto Franci lét ekki þvingast, heldur gaf hann skapi sínu lausan tauminn á leiksviðinu og hreif áheyrendur upp úr skónum með því.  Hann kom fyrst fram í Róm í óperunni Lodoletta eftir Mascagni 1918 og hélt tryggð við Rómaróperuna um margra ára skeið, þó að hann syngi sem gestur við Teatro Lirico í Mílanó, Teatro San Carlo í Napólí, Teatro Carlo Felice í Genúa og við Teatro Real í Madrid.  Hann söng líka óperuhlutverk í þýskum óperum, einkum Telramund í Lohengrin eftir Wagner.
Dramatískur kraftur einkenndi söng Benvenuto Franci.  Hæfileikinn til að gefa sig dramatískum hlutverkum á vald varð til þess að fágun varð oft að víkja en áheyrenduur létu það ekki á sig fá.  Þó að hann syngi allt annað en varlega, var ferill hans langur.  En árið 1955 varð hann fyrir slysi sem knúði hann til að draga sig í hlé frá óperusviðinu.
Þekktastur var Franci fyrir hlutverk sín í Verdi óperum.  Hann söng Jago, Macbeth, Simon Boccanegra, Amonasro í Aidu undir stjórn Toscaninis og frumflutti óperur eins og La cene delle beffe eftir Giordano, Il piccolo Marat eftir sama höfund og I Cavalieri di Ekebu eftir Zandonai.
Eitt af bestu hlutverkum hans var Escamillo í Carmen, sem hann hljóðritaði fyrir Columbiu útgáfufyrirtækið.  Hann var einnig frægur Amfortas í Parsifal og Hans Sachs í Meistarasöngvurum Wagners.
Árið 1980 frumflutti hann hlutverk Baraks í óperunni Frau ohne Schatten eftir Richard Strauss á Ítalíu.  Hljómsveitarstjórinn Carlo Franci er sonur Benvenuto Franci.

Carlo Galeffi (1884-1961)

 var án efa einn vinsælasti baritónsöngvari á Ítalíu á sínum tíma, enda röddin mjög fögur frá náttúrunnar hendi, útlitið frábært fyrir leiksvið og leikrænir hæfileikar í betra lagi.
Hann gerði fjöldann allan af hljóðritunum, en þær eru mjög misjafnar að gæðum og eiga vafalaust sinn þátt í því að seinni tíminn hefur átt erfitt með að skilja þær feiknalegu vinsældir sem Carlo Galeffi naut á meðal samtíðarmanna sinna og kvenna.  Söngheiður Carlo Galeffi hefur því átt nokkuð í vök að verjast á seinni tímum, þótt ekkert hafi dregið úr hrifningu ítalskra samtíðarmanna söngvarans.
Það er almennt talið að Carlo Galeffi hafi verið nemandi Antonio Cotogni, ef marka má umsagnir fyrri tíma.  Sjálfur hélt hann því fram að hann hafi mest kennt sér sjálfur.  “Ég hef lært mikið”, sagði hann, “en eiginlega hefur enginn kennt mér”.
“Ég byrjaði sem statisti í óperum, ekki sem kórmeðlimur, heldur sem statisti, því að þá gat ég virt fyrir mér hvernig söngvararnir sungu og hvernig þeir báru sig að.  Það sem háði mér var að ég kunni ekki að spila á píanó.  Ég varð því að fá píanista til að kenna mér hlutverk og fyrir valinu varð píanisti í kaffihúshljómsveit.  Á því sviði fór ég líka fyrst að koma fram sem söngvari.
Þegar ég svo loks hafði kjark til að fara að syngja fyrir var ég strax ráðinn til að koma fram í La Favorita eftir Donizetti og í kjölfarið fylgdi svo Amonasro í Aidu í Róm 1907.”
Hann varð fljótt vinsæll Verdi söngvari á Ítalíu og þegar 1910 kom hann fram á Metropolitan óperunni í New York í óperunni La Traviata með Nellie Melba í aðalhlutverkinu.
Eitt af vinsælustu hlutverkunum hans í ítalska faginu var Nabucco eftir Verdi og Nerone eftir Boito.
Galeffi var einn af uppáhaldssöngvurum Toscaninis.  Þrátt fyrir alla velgengni urðu endalok hans dapurleg.  Seinustu árin lifði hann í mikilli fátækt í Rómaborg og dó þar alsnauður af veraldargæðum 1961.

Apollo Gramforte (1885-1975)

 var lengi vel einn fjölhæfasti  baritónsöngvari Ítalíu.  Hann fæddist inn í ítalska verkamannafjölskyldu og lærði ungur skósmíði.  18 ára gamall lagði hann land udir fót ásamt bróður sínum og hélt til Argentínu, þar sem hann reyndi fyrir sér við skósmíði.  Það leið þó ekki á löngu þar til í ljós kom að hann var gæddur frábærri söngrödd.  Strax á fyrsta ári sínu í Buenos Aires gerðist hann nemandi í söng við Tónlistarháskólann þar í borg og stundaði það af sinni velþekktu þolinmæði, úthaldi og samviskusemi í níu ár samfleytt, áður en hann fór að reyna fyrir sér sem atvinnusöngvari.
Árið 1903 kom hann fyrst fram í óperunni La Traviata eftri Verdi í Polteano di Rosario í Santa Fe.  Ástundunarsemi hans var við brugðið og hann fór fljótt að fá hlutverk víða í Brasilíu og Suður-Ameríku.  En samviskusemin var engu minni en ástundunarsemin og þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út, rann honum blóðið til skyldunnar.  Hann hélt heim til Ítalíu og lét skrifa sig inn í herinn.  Þar með varð hlé á söngferlinum í bili, en upp úr 1915 fór hann að koma fram aftur og þá á heimavelli á Ítalíu, fyrst í Teatro Constanzi í Róm og síðar í Teatro dal Verme í Mílanó.  1921 var hann svo ráðinn að La Scala óperunni, þar sem hann var fastráðinn fram að síðari heimsstyrjöld, þó að hann syngi sem gestur um allan heim.
Auk þess að syngja öll meiriháttar hlutverk í ítalska baritónfaginu, jafnt bel canto sem verismo, söng hann einnig fjöldann allan af Wagner hlutverkum.  Fyrsta hlutverk hans við La Scala óperuna var Amfortast í Parsifal eftir Wagner undir stjórn Toscaninis.
Auk þess söng hann Wolfram í Tannhäuser, Kurwenal í Tristan og Telramund í Lohengrin og Wanderer í Hringnum.
Eitt af vinsælli hlutverkum hans var og Jochaanan í Salome eftir Richard Strauss.  Eftir að hann dró sig í hlé sem söngvari, gerðist hann prófessor í söng í Ankara í Tyrklandi um hríð, stjórnaði um nokkurt skeið þjóðaróperunni í Prag í Tékkóslóvakíu, en flutti sig síðan til Ítalíu aftur og gerðist rómaður söngkennari þar.

Riccardo Stracciari (1875-1955)

 Þó að orðstír Riccardos Stracciari hafi blómstrað á seinni árum átti hann engan veginn auðvelt uppdráttar í byrjun.  Röddin féll ekki að öllu leyti að smekk Ítala, sem aldir voru upp í söng Battistinis og di Luca, og annarra af sama skóla.  Til þess þótti nálgun hans á hlutverkum sínum og söngmáti of hömlulaus og yfirdramatískur í anda verismo stefnunnar, sem var að ryðja sér til rúms en ekki búin að ná yfirhöndinni enn.
Seinni tíminn hefur verið umburðarlyndari í þessum efnum og fáir söngvarar frá þessu tímabili eru dáðari en Riccardo Stracciari.  Enda var röddin bæði mikil og fögur, en þó þótti hljómurinn grófari en góðu hófi gegndi þegar hann var að hefja feril sinn.  Nú er fjarri því að það hneyksli nokkurn mann.
Stracciari fæddist nálægt Bologna.  Faðir hans var velmetinn myndhöggvari.  Stracciari lagði fyrst stund á verkfræðinám og hóf söngnám í Bologna fremur sér til skemmtunar en með atvinnusöng í huga.
Sem statisti og kórmeðlimur tók hann þó þátt í ýmsum óperusýningum.  Árið 1900 kom hann fyrst fram sem óperusöngvari nánar tiltekið í hlutverki Marcellos í La Bohème eftir Puccini.  Árum saman var þetta eina hlutverkið sem hann söng og kunni.  Hann söng með það góðum árangri að önnur hlutverk fóru að bjóðast og fleiri tækifæri.  Þá fyrst fór hann að snúa sér alvarlega að söngnum.  Honum var meira að segja boðið að syngja á Spáni, í Egyptalandi og í Suður-Ameríku.
Verulegar vinsældir urðu þó ekki hlutskipti hans fyrr en hann fór að koma fram á Covent Garden óperunni í London.  Hann söng öll meiriháttar ítölsk óperuhlutverk í London og kom fram sex ár samfleytt í Rússlandi og tíu ár í Latnesku Ameríku.  Söng meðal annars La Traviata með Amelitu Galli-Curci í Chicago við góðan orðstír.
Hann söng hlutverk Fígarós í óperunni Rakaranum frá Sevilla yfir þúsund sinnum á fjörutíu ára ferli sínum og þótti bera af öðrum í því hlutverki.  Óperan var síðar hljóðrituð fyrir Columbia fyrirtækið, sem og Rigoletto – annað uppáhladshlutverk Stracciaris.
Hann dró sig í hlé frá óperusöng 1934, en hélt áfram að koma fram á tónleikasviðinu og í útvarpi við góðar ndirtektir.  Seinustu árin kenndi hann í Mílanó og meðal nemenda hans var Boris Christoff.
– HALLDÓR HANSEN