Íslensku tónlistarverðlaunin 2006: Guðmundur Jónsson

 Hér er ræða Garðars Cortes við afhendingu heiðursverðlaunanna:

Saga okkar Íslendinga gegnum aldirnar vísar til þess að skáld og

farandsöngvarar hafi yljað okkur við aðstæður sem við  í dag berum ekki

skynbragð á.  Þeim var margt til lista lagt og voru í raun listamenn síns

tíma.

Sönglistin er undursamleg list.  Ef til vill undursamlegust allra lista. Í

stórbrotnustu verkum tónbókmenntanna, óperulistinni, birtist einhver mesta

snilligáfa sem mannsandinn hefur búið  yfir, en þar að  baki liggur mikill

lærdómur, endalaus kunnátta og þrotlaus vinna. Nú getur enginn okkar sagt

beint út hvað list er eða hvernig hún eigi að vera þannig að  allir verði á

eitt sáttir.  Samt erum við  oft furðu sammála um ýmsa menn, að  þeir séu

listamenn.

Einn slíkur maður er Guðmundur Jónsson, óperusöngvari og söngkennari. Hann

hefur göfgað  okkur með  fagurri list sinni og ber því heitið listamaður með

rentu. Guðmundur er sá í hópi íslenskra söngvara sem best er menntaður,

kann mest skil á söng, söngtækni og söngkennslu.

Reynsla hans eftir hálfrar aldar söngferil er ótrúleg, óviðjafnanleg. Á

ferli sínum  sýndi hann og sannaði að  smáþjóð  á möguleika á að eignast

stórmenni á hvaða sviði sem er.

Enginn vafi er á því að  Guðmundur  gat lagt út á braut óperuhúsa og

konsertsala á alþjóðlegum vettvangi, en hann kaus frelsið, kaus að fara heim

að námi loknu, gerast íslenskur listamaður  Sú ákvörðun var afdrifarík fyrir

íslenskt samfélag. Guðmundur hefur verið  í fararbroddi sl. 55 ár sem

söngvari og kennari, uppalandi nýrrar kynslóðar söngvara. Sú ákvörðun

verður aldrei metin til fulls né þökkuð nægilega.

Guðmundur er gamansamur maður, léttur í lund og stutt í spaug og gamanmál.

Hann býr yfir mjög góðri máltilfinningu, er skáldmæltur með  gott brageyra,

enda hefur hann þýtt margar óperur, óperettur og söngleiki til flutnings á

óperusviði. Starfsvettvangur hans var þríþættur.

 Fyrst ber að nefna….. :

Ríkisútvarpið er í brennidepli þessa dagana. Frá 1930 hefur það sameinað

þjóð og yljað eins og skáldin og farandsöngvarar forðum daga. Nú þurftu

listamenn ekki, frekar en þeir vildu, að leggja land undir fót. Tækniöld

leiddi tóna og tal á leyndardómsfullan hátt inn í baðstofur og heimili

landsmanna. Raddir þula og útvarpsmanna urðu heimilisvinir, ómissandi eftir

amstur dagsins þegar þjóð sameinaðist um útvörpin sín, um gömlu gufuna!

Söngur Guðmundar hefur hljómað þar í meira en 60 ár, þar af vann hann við

Ríkisútvarpið í rúm 30 ár við stjórnun, listsköpun og þáttagerð. Allir

íslendingar þekkja röddina, virða, elska og hlusta.

Annar þáttur í starfi ….. :

Starf Guðmundar sem óperusöngvara var hér í Þjóðleikhúsi allra Íslendinga.

Hér söng hann fyrir 55 árum titilhlutverkið  í fyrstu alvöru óperusýningu

sem uppfærð  var á Íslandi, Rigoletto.  Síðan þá skipta hlutverkin tugum:

Illmennið  Scarpia úr Toscu, Germont afskiptasaman föður úr Traviötu,

fjöruga rakarann Figaro úr Rakaranum frá Sevilla, karlkvölina Dr. Malatesta

úr Don Pasquale, ástsjúkan Marcello úr La Boheme, djöfullegan Dr. Miracle

úr Æfintýrum Hoffmanns, að  maður tali nú ekki um spaugilegan

svínabóndann úr Sígaunabaróninum.

Í Íslensku óperunn söng hann hinn virðulega æðsta prest, Sarastro, úr

Töfraflautunni og  æringjann hefnigjarna, Dr. Falke úr Leðurblökunni.

Eitt síðasta hlutverk Guðmundar á óperusviði var gamli maðurinn í

Silkitrommunni eftir Atla Heimi, sem flutt var í Þjóðleikhúsinu á listahátíð

í Reykjavík, farið  með  í frækna ferð  til Carracas í Venesuela, Suður

Ameríku og tekið  upp fyrir sjónvarp.  Þarna, eins og endranær hlaut hann

frábæra dóma.

Sem samstarfsmaður er hann góður og traustur félagi og vinur. Hreinskiptinn

og uppörvandi. 

Þriðji þáttur á starfsævi Guðmundar:

Hann er kennari af Guðs náð og hefur unnið  ómetanlegt starf við

uppbyggingu og kennslu við  Söngskólann í Reykjavík.

Hann bauð okkur síðast til tónleika þegar hann var 70 ára. Ógleymanlegir

tónleikar þar sem hann, á efri árum, sýndi  hvernig reynsla og tækni hins

sanna listamanns, vinnur gegn öllum lögmálum og normum.

Nú er komið að  því að  semja við  Guðmund um að  hann verði heiðraður fyrir

sitt lífsstarf og gjöf til íslensku þjóðarinnar.

Það verður ekki auðvelt því hann er eflaust gjörsamlega á öndverðum

meiði um allt sem hér er skrafað og kallar það  algjöran óþarfa. En þannig er

Guðmundur og því verður ekki breytt.

Garðar Cortes