Tónlistarháskólinn í Vínarborg – Dóra Steinunn Ármannsdóttir

Dóra Steinunn Ármannsdóttir stundar nám við Universität für Musik und Darstellende Kunst Wien:

Ég er í óperudeild Universität für Musik und Darstellende Kunst Wien. Á heimasíðunni www.mdw.ac.at er hægt að skoða allt ýmislegt, en því miður er síðan aðallega á þýsku. 
Þeir sem vilja læra á hljóðfæri jafnt sem söng ættu endilega að sækja um í Universiät für Musik und Darstellende Kunst. Það er mun ódýrara en t.d. í Bretlandi eða Bandaríkjunum og auk þess neyðist maður til að læra þýsku sem er auðvitað bara frábært.
Hægt er að sækja um grunnnám (Grundstudium) sem er allt að sex ára nám. Getur verið styttra eða jafnvel lengra.
Óperudeild (Lehrgang für Musikdramatische Darstellung) er tveggja ára nám. Það sama gildir um Ljóða og Aríudeild (Lied und Oratorium) og Söngleikjadeild (Musical). Frá þessum deildum útskrifast maður með Abschlussprüfung eða sem sagt Diploma gráðu. Umsóknarfrestur er 19.maí 2006 fyrir inntökuprófið sem haldið er um miðjan júnímánuð.
Prufusöngurinn sjálfur er svo haldinn um miðjan eða í lok júní. Fyrir óperudeild þarf maður að hafa einungis fimm aríur en frá ólíkum tímabilum óperusögunnar. T.d. eina barokk aríu, eina rómantíska, eina klassíska o.s.frv. Minst ein aría þarf að vera sungin á þýsku og ein á ítölsku.
Skólagjöldin fyrir óperudeild (Lehrgang) eru 2000 evrur á önn. Sem sagt 8000 evrur fyrir tvö árin. Það gera ca. 600.000 kr. íslenskar sem er ekki mikið miðað við marga aðra skóla. Ég hef ekki kannað styrki hérna úti í Austurríki, bara á Íslandi, en ég hvet alla til að sækja um styrki.
Manni getur verið úthlutað söngkennara en gott er að fara um leið og maður er kominn inn í skólann og hlusta á söngtíma hjá sem flestum söngkennurum jafnt sem undirleikurum (Korrepetitor). Svo geta eldri nemendur skólans kannski hjálpað manni áfram. En best er að treysta alltaf á sjálfan sig þegar kemur að því að velja kennara. Svo er líka bara hægt að reyna að skipta um kennara á næstu önn ef manni líkar ekki þann sem maður er með.
Hér munu vera stúdentagarðar, en ég þekki þá ekki. Örugglega ekki dýrt. En maður fer bara inn á www.jobwohnen.at er hægt að skoða mikið af íbúðum til að leigja. Það er líka mjög sniðugt fyrir einstakling að setja upp auglýsingar í helstu háskólana að hann vilji leigja herbergi í íbúð með einhverjum. Það eru líka margar slíkar auglýsingar í háskólunum, þar sem hægt er að finna góð tilboð, eins og að leigja t.d. 30 fermetra herbergi á 300 evrur sem er ca. 23.000 kr. á mánuði.
Fastir tímar á viku eru einn söngtími 45 mín., undirleikur einu sinni í 45 mín., óperusögu í 1 og 1/2 klst. og svo Sprechen (þar er farið vel í þýskuna í þeim verkum sem maður er að syngja). En svo er hægt að skrá sig í margt annað: tónlistarsögu, öndunartíma, period dans, Ítölsku, þýsku (hún kostar reyndar aukalega  minnir mig 300 evrur).
Það er blómstrandi tónlistarlíf í þessari fallegu borg sem Vín er. Það er t.d. hægt að fara í Staatsoper sem er ein af frægustu óperum heims og fá miða í stæði (standa allan tímann) á mest 3.50 evrur eða 260 kr. og það er hæsta verð. Eins er hægt að gera í Volksoper þar sem flestar óperur eru fluttar á þýsku. Í þessum óperuhúsum eru fluttar sýningar nánast á hverju kvöldi. Svo eru tónlistarhús eins og Musikverein og Wiener Konzerthaust með tónleika á hverju kvöldi. Einnig er mikið af leikhúsum, kaffihúsum og veitingahúsum með lifandi tónlist og allt iðandi af lífi.
En fyrir þá sem finnst gaman að versla, þá er lokað í öllum búðum eftir klukkan hálf sjö öll virk kvöld og það er alls staðar lokað á sunnudögum nema einstaka veitingastöðum og kaffihúsum.
Ég vil hvetja alla til að fara í þýskunám áður en skólinn byrjar. Gott er að fara allavega í einn mánuð á undan og þá í september. Góður tungumálaskóli sem ég mæli með heitir Alpha Sprach Institut og heimasíðan er www.alpha.at
Svo vil ég líka benda á að það er virkt Íslendingafélag í Vín. Þá hittast Íslendingar einu sinni í mánuði á bjórkvöldi, svo er þorrablót, jólahittingur og margt fleira.