Tónlistarháskólinn í Stuttgart – Sigrún Pálmadóttir

 Sigrún Pálmadóttir, sópransöngkona, hefur verið fastráðin við óperuhúsið í Bonn síðan hún útskrifaðist frá Stuttgart árið 2001, en hún stundaði nám í Staatliche Hochschule für Musik und darstellende Kunst Stuttgart:

 

Þegar það kom að því hjá mér að velja mér tónlistarháskóla úti í hinum stóra heimi vissi ég ekkert hvar ég ætti að byrja. Ég fór því að afla mér upplýsinga um skóla í nokkrum löndum og endaði með því að velja Þýskaland. Af hverju Þýskaland??? jú, það sem mér fannst Þýskaland hafa fram yfir önnur lönd er það að hér eru svo mörg leikhús og þar af leiðandi meiri möguleiki að fá vinnu eftir námið en annarsstaðar og þýskuna lærir maður í leiðinni en hana þarf maður hvort eð er að kunna (sem og önnur mál) sem söngvari. Eftir nokkra leit endaði ég svo í Tónlistarháskólanum í Stuttgart en ég valdi þann skóla því þar var og er starfandi Óperuskóli. 

Óperuskólinn (Opernschule) sérhæfir sig í þvi að undirbúa unga verðandi söngvara fyrir óperusviðið. Þetta fyrirkomulag fannst mér henta mér vel og dreif mig því í inntökupróf. Óperuskólinn sem er deild undir Tónlistarháskólanum býður upp á mjög fjölbreytilegt nám, mikil áhersla er lögð á senuvinnu þar sem maður fær bæði einka- og hóptíma. Önnur fög sem nefna má eru: leiklist, framburðar- talkennsla (dialogar ofl.), Tai-chi, skylmingar, sviðs- og búningafræði og margt margt fleira.

Þetta er fjögurra anna nám og á hverri önn eru settar upp óperusýningar í litlu fallegu leikhúsi sem skólinn hefur aðgang að, þetta leikhús heitir Wilhelma og tekur svona álíka marga í sæti og Íslenska Óperan.

Aðra hverja önn eru þessar sýningar með hljómsveit en hina önnina með píanóundirleik, þá önn gefst tækifæri til þess að syngja með hljómsveit á tónleikum.

Inntökupróf í skólann eru í júní/júlí fyrir vetrarönnina en yfirleitt í febrúar/mars fyrir sumarönnina en nákvæmari upplýsingar getur maður fengið á heimasíðu skólans. Umsóknarfresturinn fyrir sumarönnina 2006 er til 30.apríl næstkomandi og þarf maður að senda með 40 í staðfestingargjald annars verður umsóknin ekki tekin gild. Skólagjöld eru lítil sem engin eða tæpar 100 á önn en inni í þessum 100 er lestarkort sem gildir út önnina. Næsta önn byrjar svo  4.10.2006.

Fyrir inntökuprófin þarf maður að vera búinn að undirbúa 6 aríur. 2-3 umferðir eru í þessum inntökuprófum og eiga þær sér stað í Wilhelma og allar sama dag nema þeim mun fleiri séu að syngja fyrir.

Gott er að vera búinn að kynna sér kennara skólans áður en maður fer í inntökuprófin og taka kannski nokkra einkatíma hjá þeim því það getur hjálpað manni við að komast inn. Í þessum skóla eins og öllum öðrum eru kennararnir eins mismunandi og þeir eru margir, því er mikilvægt að vanda valið.

Barnafólk þarf að vera búið að tryggja sér vöggustofu-, leikskóla- eða skólapláss í tíma, erfitt getur verið að koma börnum á leikskóla með litlum fyrirvara!!

Flestir stúdentar hér búa í svokölluðu WG (Wohngemeinschaft, nokkrir búa saman og deila baði/eldh.) og er það yfirleitt ódýrasta lausnin.

Tónlistarháskólinn er með góða heimasíðu: www.mh-stuttgart.de

Ef klikkað er á STUDIUM – Fachgruppen/Fächer – FG Opernschule og síðan á Anforderungen für Aufnahmeprüfung getur maður fundið nánast allt sem maður þarf að vita til að geta hafið nám í skólanum. Þar eru einnig upplýsingar á ensku. Ljóðadeild skólans er líka mjög góð, annars er líka boðið upp á konsertdeild og margt fleira.

Ég tók inntökupróf eftir að vera búin að fara í gegnum Burtfararpróf í Söngskólanum heima en fólk hefur líka komist inn eftir 8.stig.

Bestu kveðjur frá Bonn

Sigrún Pálmadóttir