Royal Academy of Music í London – Bentína S. Tryggvadóttir

 Bentína Sigrún Tryggvadóttir er við nám í óperudeildinni í The Royal Scottish Academy of Music and Drama sem María Jónsdóttir skrifaði fyrir okkur um hér að neðan. Bentína var áður við nám við Royal Academy of Music í London og skrifar um hann hér: 

Heimasíða skólans er www.ram.ac.uk.

Undergraduate, grunnnám, er 4 ár og er ekki lánshæft.

Postgraduate nám í Royal Academy  er eitt eða tvö ár. Það er blanda af ljóðasöng og óperutónlist. Á stundaskránni eru, þýsk, ensk og frönsk ljóð, ítölsk resitativ, ljóð og aríur, þýskt repertoire, hreyfingar, hljóðfræði í frönsku, leiklist, söngtímar 2×45 min í viku. Undirleikur 30 mín á viku hjá sama aðilanum. Svo eru óperusenur settar upp þrisvar sinnum yfir árið og almennt tekur maður þátt tvisvar sinnum, nema maður sé mezzo eða karlmaður/strákur, þá er það oft þrisvar sinnum. Svo er einnig ítölskukennsla. Venjulegur skóladagur er frá 9 eða 10 á morgnana og getur verið alveg til 7 eða 8 á kvöldin, en það fer eftir því hvort verið er að æfa senur og hversu snemma að deginum maður er í “coaching” hverju sinni. Þó fólk sé bara búið með 8.stig en ekki burtfarapróf heima, er postgraduate námið samt lánshæft.

Ef maður fer svo á annað ár í postgraduate þá fær maður sömu tíma nema óratoríu og nútíma tónlistartíma í staðinn fyrir ítölsk resit og þýskt repertoire. Allir tímar sem maður syngur í, hvort sem það eru þýskir ljóða eða nútímaverk, þá er manni skipt niður eftir vikum, þannig að maður veit allt árið fyrir fram í hvaða viku maður syngur. Mér fannst það mjög gott fyrirkomulag, svo maður getur verið mjög skipulagður. Þegar kemur að prófi þurfa tónleikarnir að vera 45 min í heild sinni. Það eru gefin refsistig fyrir að fara bæði yfir tíma og undir tíma. Einnig verður maður að útbúa “program notes” í efnisskránni. Þetta er allt mjög gagnlegt fyrir mann þegar kemur að skipuleggja fleiri tónleika seinna meir.

Einnig er boðið uppá master of music/mmus performance. Ég þekki það svo sem ekki nógu mikið sjálf en veit að það er mikið um ritgerðir og þess háttar vinnu og ekki mikið um að koma fram og syngja. Þetta er allt spurning hverju fólk er að leita eftir.

Ef fólk vill fara í óperudeild þá er hún tvö ár. Fyrra árið er oftast senuvinna og minni hlutverk í óperum, en stærri hlutverk seinna árið. Í óperudeildinni er mikil áhersla lögð á leiklist og hreyfingar og einnig mikið um einkatíma hjá hinum og þessum undirleikurum eða “coachum” eins og þeir eru kallaðir. Þetta er allt mjög vel lært og þjálfað fólk sem er að vinna hjá Covent Garden, National Opera studio eða bara eitthvað af hinum Royal skólunum.

Á seinna árinu setur skólinn upp áheyrnarpróf fyrir hvern og einn, fyrir hina og þessa óperukóra og fleira í von um að það bíði manns eitthvað að loknu námi. Einnig fær fólk í óperudeild mikið af tónleikum sem skólinn útdeilir.

Það er líka söngleikjadeild í skólanum sem er einungis eitt ár. Hægt er að afla sér upplýsinga um það frekar á heimasíðunni.

Skólinn er ekki með heimavist sjálfur en er í samstarfi við International Student house. Það er ein bygging beint fyrir aftan skólann sem er mjög hentugt og reyna þeir að koma sem flestum fyrir þar. Ég var hinsvegar í aðalbyggingunni  sem er við sömu götu og skólinn en bara svona 7 mínútna labb.

Í aðalbyggingunni er fólk sem er að læra allt mögulegt. Það er gott tækifæri fyrir þá sem vilja blanda geði við fólk sem er að læra eitthvað allt annað en tónlist. Einnig eru þeir með íbúðir fyrir pör. Í byggingunni er bar sem er bæði með kareoki kvöld, böll, beinar útsendingar frá fótbolta og öðrum íþróttum. Það er mötuneyti, internet café, líkamsrækt, snyrtistofa, ferðaskrifstofa og fleira. Slóðin er www.ish.org.uk

Það er svo sem ekki mikið um styrki. Það er allt eftir því hvernig fólki gengur á inntökuprófi hvort því er boðinn styrkur eða ekki. Í óperudeildinni er meira um að fólk fái styrki. Svo er mikið af keppnum innan skólans sem hægt er að keppa í og ná sér í smá pening.

Við kennaraval er gott að ráðfæra sig við einhvern sem hefur verið í viðkomandi skóla ef það er hægt, því það er jú allstaðar misgóðir kennarar. Annars er þetta svo misjafnt, það sem hentar mér vel hentar kannski ekki einhverjum öðrum. En svo getur yfirmaður söngdeildar oft sagt manni hvaða kennari hann haldi að henti manni. Bara fara í nokkra prufutíma. Það er því nauðsynlegt að taka ekki séns á bara einhverjum kennara þegar verið er að borga svona há skólagjöld.

Í inntökuprófi fyrir Postgraduate er gott að vera með aríu (helst með resitatívi), óratóríu, þýskt, enskt og franskt ljóð og antikaríu. Þetta undirbjó ég þegar ég fór í inntökupróf fyrir nokkra mismunandi skóla. Maður velur yfirleitt fyrst það sem maður sjálfur vill syngja og svo dómnefndin 1-2 lög, bara misjafnt. Svo þarf að lesa enskan texta og annað hvort þýskan eða franskan texta og svo fær maður lag sem maður þarf að læra. Það kemur píanisti eftir að maður er búinn að skoða lagið og aðstoðar mann við lærdóminn. Þess vegna er það kallað quick study en ekki nótnalestur.

Eftir að maður er búinn að syngja einu sinni þá er manni sagt að fara fram og bíða. Ef maður er svo ekki beðin að syngja  aftur þá þýðir það að maður hafi ekki komist inn. Maður þarf alltaf að hafa sungið tvisvar til að eiga möguleika á inngöngu.

Í inntökuprófi fyrir óperudeildina þarf maður  að hafa fjórar aríur, eina á ensku (má vera þýdd), eina Mozart aríu og svo hinar bara eins ólíkar og maður getur. Gallinn við óperudeildina í  Royal Academy er að þeir eru alltaf búnir að ákveða hvaða óperur þeir ætla að setja upp og eru því að leita að ákveðnum röddum í inntökuprófunum í stað þess að velja bestu raddirnar og vinna út frá því.

Að búa í London er hin mesta skemmtun. Þar getur þú fundið allt mögulegt til að gera. Hvort sem það er að fara í bíó,í leikhús, á óperu,á tónleika. Svo er talsvert um félagslíf í skólanum ef maður vill taka þátt í því.

Ef einhver er á leið í inntökupróf í Glasgow eða London, þá er netfangið mitt: bentinas@visir.is