Guðmunda Elíasdóttir

Guðmunda Elíasdóttir 

Guðmunda Elíasdóttir setur svip á bæinn. Hún er litríkur lífskúnstner og óhætt er að fullyrða að bók Ingólfs Margeirssonar, “Lífsjátning” þar sem Guðmunda segir sögu sína, lætur engan ósnortinn. Þeir sem vilja kynnast betur mannlegri hlýju og lífsbaráttu, stórbrotnum karakter, hreinskilni og glæstum ferli Guðmundu ættu því að arka beint á
bókasafnið og verða sér úti um eintak.
Á unglingsaldri var Guðmunda barnapía hjá rússneskri hefðarfrú. Hún var sífellt syngjandi, kenndi börnunum íslensk þjóðlög og barnalög sem móðir hennar hafði kennt henni, milli þess sem hún saumaði. Það var því ekki að ástæðulausu að skorað var á hana að snúa sér að söngnámi. Fyrsti söngkennari hennar var Kamma Haynes, en fljótlega tók Guðmunda inntökupróf í Konservatoriet í Kóngsins Kaupmannahöfn og komst strax að hjá frú Dóru Sigurðsson, prófessor, sem var gift Haraldi Sigurðssyni, píanóleikara, en hann var einnig prófessor við Konservatoriet.

Guðmunda Elíasdóttir er merkur söngkennari og því heimsóttum við hana í kaffi og æblekage med flødeskum á Vesturgötunni til að biðja hana að ljóstra einu og öðru upp um rómaðar aðferðir hennar við söngkennslu. Þrátt fyrir háan aldur, ber hún sig vel, svífur um léttstíg og hlær og skríkir eins og ungpía og tekur stundum fyrir munninn þegar
hlátrasköllin verða sem hæst. Eftir að hafa skoðað myndir um stund, setjumst við niður við fótskör meistarans og rekjum úr henni garnirnar:

gudmunda
Guðmunda Elíasdóttir

SÖNGKENNARI Í 60 ÁR

– Hvenær byrjaðirðu að kenna?

“Ég hafði eitthvað fengist við kennslu undir verndarvæng kennarans míns í Kaupmannahöfn, en ég tel það ekki með. Ég kom 25 ára hingað frá Danmörku 5. nóvember 1945. Ég hef því verið við kennslu meira eða minna sl. 60 ár!

Sigurður Birkis var að kenna hér, en honum kynntist ég þó ekki. Fyrsti nemandinn sem kom í tíma var hann Leifur minn, stæðilegur bóndi að austan. Meðal annarra í fyrsta hópnum var Helga Guðmundsdóttir, tónlistarkennari og móðir Margrétar Ákadóttur, leikkonu, Egill Bjarnason og bræðurnir Jón og Hjálmar Kjartanssynir.

Mér þótti þetta strax ákaflega gefandi, en það olli talsverðri togstreitu hjá mér að ég var á sífelldu flandri fram og til baka til Danmerkur. Á sumrin var ég alltaf í þjálfun hjá próf. Christian Riis við Universitætet.”

– Kenndirðu alltaf heima eða varstu við einhverja skóla?

“Ég var m.a. við Tónlistarskólann á Akranesi í níu ár samfleytt og tók þá Akraborgina fram og til baka, stundum tvisvar á dag. Sá tími nýttist þó vel til að læra og lesa sér til. Ég saknaði því Akraborgarinnar sárlega og langaði mest að öskra þegar hún hætti að ganga! Einnig var ég við Leiklistarskólann og Söngskólann í Reykjavík í nokkur ár eftir að hann var kominn á Hverfisgötu.”

AÐ KYNNAST NEMANDANUM

– Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú færð nýjan nemanda í hendur?

“Þegar einhver kemur og ætlar að læra að syngja þá er manneskjan yfirleitt skelkuð, því að hún veit ekki hvað hún er að fara út í. Það er því mikilvægt að fara vel að fólki og láta því líða vel, koma því í samband við sjálft sig og mig og við hljóðfærið.

Svo athuga ég í rólegheitum hvar röddin liggur. Þegar komið er upp á c2 eða d fara margir að kvarta og segja “guð almáttugur, ég kemst ekki svona hátt”, en eiga svo seinna eftir að fara upp á a eða b án þess að hafa hugmynd um það. Það er alltaf gaman þegar fólk verður steinhissa á að uppgötva möguleika í sjálfu sér sem það óraði ekki fyrir! En nauðsynlegt
er að byggja upp traust og yfirvinna allan ótta.

Mikilvægt er að nemandinn viti af sér, viti af því að hann er eitthvað, er að gera fallega hluti og er að fara að syngja. Ég byrja því rólega með léttar æfingar nokkuð lengi og teygi á báða vegu. Þá er kominn tími til að útskýra grunnatriðin og öndunartæknina.”

ÖNDUN OG ÖFUGA VASKAFATIÐ

– Hvernig útskýrirðu öndunartæknina?

“Kroppvinnan, stuðningur og líkamsburður er algert forgangsatriði og getur tekið langan tíma að koma á hreint, því að hver nemandi er einstakur, en ef hann er skynugur tekur ferlið styttri tíma. Það þarf ákveðna næmni til að gera þessa upplifun líkamans ómeðvitaða. Að jafnaði ætla ég mér u.þ.b. þrjú ár í þessa vinnu.

Einföld líking sem ég nota mikið er á þá leið að við ímyndum okkur að þindin sé eins og stórt vaskafat á hvolfi sem ýtir létt undir strókinn sem fer alla leið upp í resonansinn í andlitinu, “maskann”. Með vaskafatslíkingunni finnum við fyrir stórri opnun í kviðnum og ekki síst í hliðarvöðvunum.

Þetta má ekki fara fram með gassagangi, við þurfum að fara rólega í að styðja neðst í kviðarholinu, leggja hendur á kviðinn og fylgjast með. Þénug æfing til þess er hundaæfingin, sem ég kalla, að finna fyrir því þegar rifin þenjast út og anda létt,
ótt og títt. Á meðan haldast rifin úti en kviðurinn vinnur sjálfstætt án þess að setja pressu á rifin. Gott er að syngja á hummi í öndunaræfingunum. Að síðustu er nauðsynlegt að finna fyrir opnun í bakvöðvunum, “mörbradinu”,” segir Guðmunda og hlær sínum dillandi ungæðislega hlátri.

“En ekki gildir sama uppskrift fyrir alla nemendur, þetta er alltaf mikil vinna, fyrir flesta nemendur er þetta ákveðið sálrænt átak og að sumu leyti heimspekilegt viðfangsefni. Og ekki má gleyma að enginn einstaklingur er eins og allt mannlegt spilar inn í, sorgir og gleði, uppgangur eða erfiðleikar á heimavelli o.s.frv.

Og svo á þetta allt að líta svo ofureðlilega og ofurauðvelt út, þó að heilmikil vinna sé í gangi inni í kroppnum á okkur!”

KJÁLKI, TUNGA OG VARIR

– Hvernig þjálfarðu lausan kjálka?
“Í fyrsta lagi verðum við að gera okkur grein fyrir að kjálkabeinið nær alla leið upp að eyrum, þar sem það hangir á liðamótum. Þessi liðamót þurfa að vera laus, mjúk og létt, alveg eins og við smyrjum hjarir á hurðum eða setjum olíu á saumavélar.

Ég styðst við “Lindemann’s metode”, sem eru æfingar fyrir kjálka, tungu og varir. Frau Lindemann var þýsk söngkona, bókinni hef ég því miður týnt, en hef æfingarnar allar í höfðinu á mér. Sérhljóðarnir þurfa að hljóma á sama stað þegar maður syngur. Hver sérhljóði hefur sinn stað á tungunni. “A” og “E” mega t.d. ekki hljóma þvert aftast. Þegar við syngjum “I” lyftist tungan eilítið upp og fram að neðri tönnum. Þá mega “Ú” og “O” ekki lokast svo inni með stút, að þeir heyrist ekki í lok frasans.

Laust og lipurt skal það vera, en því miður hefur þróunin orðið sú að fólk er hætt að nenna að tala og því krefst þolinmæði að þjálfa þessa þætti upp.

Dæmi:

o Munnur eilítið opinn, efri vör fer upp og er haldið uppi meðan neðri vör fer niður, þá fer efri vör í sína upprunalegu stöðu og neðri vör síðan á sama hátt upp og munnurinn lokast.

o Munnur eilítið opinn og laus, bros og stútur á munn til skiptis

o Láta kjálka detta niður og upp til skiptis. Þá til beggja hliða og leggja áherslu á að hann sé laus.

o Slá tungu flatri upp í efri góm og tungubrodd á bak við efri tennur á lausan hátt, t.d. fyrir D, T og L.

o Munnur eilítið opinn, tungan í miðjum munni og rekin út úr sér án þess að finna fyrir stífni í tungurótinni.

o Tungubroddur ofan á neðri tönnum, sett rauf í tunguna og sléttuð.

Svona má lengi halda áfram, en hugsunin miðar alltaf að því að gera artikulationina lausa og liðuga, láta sérhljóðana hljóma á sama stað og framkvæma samhljóðana án stífni.”

AÐ OPNA

– Hvernig opnarðu röddina?

“Þegar við geispum lyftist úfurinn og mjúki gómurinn fylgir á eftir. Jafnframt finnum við hvernig slaknar á hálsinum niður á við. Sú vísa verður því aldrei of oft kveðin, að þegar við öndum inn til að syngja, líkist það hálfgeispa. Gott er að þjálfa það með því að láta nemandann geispa og einbeita sér að því að finna opnunina upp úr og niður úr og halda síðan, slaka vel og telja. 4-5 sekúndur til að byrja með, en sumir rumar sem ég hef fengið til mín hafa geta haldið allt upp í 45 sekúndur!”

AÐ SETJA HLJÓMINN Á RÉTTAN STAÐ

– Áttu leyniuppskrift að því að finna resonans í röddinni?

“Mikilvægt er að réttur resonans tengist opnun. E.t.v. má segja að nefhljóð sitji frammi, en samt er það lokað. Að finna röddina frammi í maskanum er auðveldast á –ng og –r hljóðum. Hér koma nokkrar æfingar, en þar sem ég er vestfirsk, segi ég maaaaanga, ekki máánga, það er miklu auðveldara að tala vestfirskt, þá eru tvíhljóðin ekki alltaf að bögglast fyrir manni!

Ng-æfingar

Manga Manga

Banga Banga

Opnar varir, tunga flöt upp í efri gómi:

Langa langa

Danga danga

Tanga tanga

Nanga nanga

Opnar varir: baktunga

Ganga, ganga

Kanga kanga

Err-æfingar

Opnar varir: rúlla err

Larra, larra

Tarra tarra

Darra darra

Karra karra

Narra narra

Lokaðar varir: rúlla err

Marra marra

Barra barra

Parra parra

Farra farra

Varra varra

Allt þetta krefst þolinmæði, skynjunin er mikilvæg, en með hjálp kennara með góð eyru næst árangur smám saman.”

gudmmadd
Sem Madalena í Rigoletto

ALMENN VELFERÐ OG HEILSA RADDARINNAR

– Hvað brýnirðu fyrir nemendum svo að þeir haldi góðri raddheilsu?

“Velferð raddarinnar er mikið undir nemandanum sjálfum komin. Algengt vandamál er að ráðast að röddinni með offorsi. Nemendur vilja gjarnan syngja hátt og mikið og sterkt. Það er bannað að koma að röddinni með því hugarfari. Þá er mikilvægt að borða hollan mat, mikið grænmeti og ávexti og drekka mikið vatn. Hafa klút um hálsinn og stúlkum á að
vera hlýtt að neðan. Svefn er líka afskaplega áríðandi.

Ég er strangur kennari, það þýðir ekkert annað en að taka yfirhöndina. Þessi vinna krefst gífurlegs aga og nemandinn verður að fara eitthvað annað, ef hann sættir sig ekki við það. Einu sinni bauð ég stúlku að gera tunguæfingar og þá sagði hún: “Nei, nú er ég sko búin að fá nóg!”. Og hún fór.

En að syngja hefur mikil áhrif á tilfinningar og oft hefur maður séð tár trilla niður vangana. Í slíkum tilfellum tek ég nemandann í fangið, held utan um hann og haga mér eins og ég mundi vilja að gert væri við mig.

Helst á maður ekki að vinna með röddina ef hún er hás. En hvað skal gera í neyð, þegar maður er orðinn „professionel“ og röddin er ekki eins og hún á að sér? Besta ráðið er að þegja sem allra mest og skola hálsinn með því sem hverjum og einum finnst best fyrir sig, til eru milljón uppskriftir að slíku hálsskoli. Síðan er gott að humma mikið, þá losnar oft um stíflur.”

Á HÓLMINN KOMIÐ

– Hvernig gerum við okkar besta þegar ekki verður aftur snúið, tónleikapallurinn eða óperusviðið nálgast og kvíðatilfinningin teygir sig ofan í maga?

“Ég átti aldrei í erfiðleikum með að muna músíkina, en textinn gerði mér stundum skráveifur. Sumir fá þá gjöf að muna alla texta auðveldlega, aðrir ekki. Best þótti mér að endurtaka í sífellu fyrsta orðið rétt áður en ég fór á svið, svipað og þegar ég endurtók “sykur, sykur”, ef ég átti að kaupa sykur fyrir mömmu heima í Bolungarvík. Ef fyrsta orðið var á hreinu, fylgdi afgangurinn oftast á eftir.

Best þótti mér að eiga stund með sjálfri mér áður en ég fór á sviðið, finna fyrir návist guðs uppi í einu horni salarins og biðja um styrk og kraft til að gera mitt besta. Þessi stund þarf að vera ótrufluð, þannig verður hún djúp og nærandi og líkurnar aukast á því að við sendum frá okkur þá sönggleði sem snertir á þann hátt sem við óskum okkur.”

24. maí 2006

Bergþór Pálsson

Fleiri viðtöl

Guðmunda Elíasdóttir

 Guðmunda Elíasdóttir setur svip á bæinn.  Hún er litríkur lífskúnstner og óhætt er að fullyrða að bók Ingólfs Margeirssonar, “Lífsjátning” þar sem Guðmunda segir sögu sína, lætur engan ósnortinn.  Þeir sem vilja kynnast betur mannlegri hlýju og lífsbaráttu, stórbrotnum karakter, hreinskilni og glæstum ferli Guðmundu ættu því að arka beint á bókasafnið og verða sér úti um eintak.

Á unglingsaldri var Guðmunda barnapía hjá rússneskri hefðarfrú.  Hún var sífellt syngjandi, kenndi börnunum íslensk þjóðlög og barnalög sem móðir hennar hafði kennt henni, milli þess sem hún saumaði.  Það var því ekki að ástæðulausu að skorað var á hana að snúa sér að söngnámi.  Fyrsti söngkennari hennar var Kamma Haynes, en fljótlega tók Guðmunda inntökupróf í Konservatoriet í Kóngsins Kaupmannahöfn og komst strax að hjá frú Dóru Sigurðsson, prófessor, sem var gift Haraldi Sigurðssyni, píanóleikara, en hann var einnig prófessor við Konservatoriet. 

Guðmunda Elíasdóttir er merkur söngkennari og því heimsóttum við hana í kaffi og æblekage med flødeskum á Vesturgötunni til að biðja hana að ljóstra einu og öðru upp um rómaðar aðferðir hennar við söngkennslu.  Þrátt fyrir háan aldur, ber hún sig vel, svífur um léttstíg og hlær og skríkir eins og ungpía og tekur stundum fyrir munninn þegar hlátrasköllin verða sem hæst.  Eftir að hafa skoðað myndir um stund, setjumst við niður við fótskör meistarans og rekjum úr henni garnirnar:
(meira…)