Gömlu söngvararnir

Gömlu söngvararnir PDF Prenta Rafpóstur
Skrifað af Administrator
Thursday, 28 December 2006
 eftir HALLDÓR HANSEN, birtist fyrst í Óperublaðinu, 2. tbl. 9. árg. 1995..Ekki alls fyrir löngu hringdi til mín ung blaðakona, sem var að undirbúa blaðagrein um sönglist, og spurði: ,”Hver var eiginlega Enrico Caruso?” Í fyrstu varð mér orðfall, en þegar ég fékk málið á ný varð mér að orði, að sennilega væri hún ekki á réttri hillu að skrifa um sönglist, ef hún vissi engin deili á Enrico Caruso, frægasta tenórsöngvara allra tíma.

Við nánari umhugsun varð mér þó Ijóst að frægðin er fallvölt og að ekkert er sjálfsagt við það að ungt fólk, sem nú vex úr grasi, kannist við nöfn úr fortíðinni, jafnvel þótt þau hafi verið á hvers manns vörum endur fyrir löngu. Víst er það að hvert mannsbarn í hinum siðmenntaða heimi þekkti nafnið Caruso á sínum tíma og hljóðritanir með söng hans voru til á flestum heimilum hérlendis sem annars staðar. Ef til vill voru það einmitt Caruso plötur, sem komu grammófónplötunni til vegs og virðingar á sínum tíma. Fyrir þann tíma litu alvarlegir listamenn hana tortryggnum augum.

Enrico Caruso

 Þegar ég hugsa til minna fyrstu kynna af söng, heyri ég strax fyrir mér rödd Enricos Carusos eins og hún barst mér til eyrna frá stórum, upptrekktum grammófóni, sem stóð einhvers staðar úti í horni á bernskuheimili mínu. Ég man ekki eftir mér svo ungum að þessi rödd hafi ekki komið mér kunnuglega fyrir eyru eins og hún hljómaði í gegnum allt slit, suð, rispur og aðrar skemmdir af gömlum og frumstæðum grammófónplötum. Vafalaust var röddin meira eða minna brengluð hvað hljómgæði varðaði, en engu að síður hrífandi og undraverð. Það mátti heyra að þrátt fyrir að röddin væri skær og björt tenórrödd, þá var á henni dökkur blær, sem gerði hana sérstæða á meðal annarra tenórradda, og að hún var borin upp af sönggleði, sem átti varla sinn líka.

Eitt sinn spurði ég söngkonuna Friedu Hempel, sem á yngri árum hafði sungið mikið með Caruso, hvort grammófónplötur gæfu raunverulega hugmynd um hljóminn í þessari fágætu rödd. „Eiginlega ekki,” svaraði hún, „þessi rödd var flauelsmjúk, en hafði samt fyllingu og fegurð til að bera, sem hljóðritunartækni þeirra tíma gat engan veginn náð. Þegar við sungum saman i fyrsta sinn var ég ung stúlka. Mér varð svo um þegar Caruso lét fyrstu tónana frá sér fara að ég var næstum búin að gleyma, að ég átti líka að syngja. Ég hef aldrei hrifist eins af nokkurri rödd. Það er gott að plöturnar eru til, en rödd hans á þeim er ekki nema svipur hjá sjón.”

Enrico Caruso (1873-1921) fæddist í fátækt, en söng sig til frægðar og frama um allan heim. Hann var rómaður af vinum og samstarfsmönnum fyrir vingjarnleika og elskulega framkomu. Auk þess var hann mjög drátthagur og skemmti sér og öðrum með því að teikna skopmyndir, sem ævinlega hittu beint í mark.

Söngvarar á gömlum plötum

Þegar ég hafði aldur til fór ég að gramsa í gömlum grammófónplötum, sem til voru á bernskuheimili mínu, og lesa það sem á þeim stóð. Þar var heilmíkið af Carusoplötum. Á sumum söng Caruso einn, en á öðrum söng hann með öðrum, stundum meira að segja með fjölda annarra söngvara á einni og sömu plötunni. Smátt og smátt fór ég að læra nöfnin á hinum söngvurunum líka og geta tengt nafn við rödd þegar ég hlustaði. En hvaða fólk var þetta? Það var skrýtið að þekkja nöfnin og raddirnar, en geta ekki tengt þetta við neina persónu. Hver voru t.d. Geraldine Farrar, Nellie Melba, Frances Alda, Ernestine Schumann-Heink, Antonio Scotti, Titto Ruffo, Marcel Journet og fleiri og fleiri? Það voru ekki margir sem ég gat spurt. En meðal þeirra sem ég þekkti var Eggert Stefánsson söngvari, sem var hafsjór af fróðleik. Hann var nær óþrjótandi uppspretta upplýsinga um söngvara og óperuhús um alla veröld, enda hafði hann víða farið. Síðar bættust aðrir í hópinn og loks gat ég sjálfur farið að lesa mér til. Smátt og smátt fóru alls konar upplýsingabrot að smella saman í eina heild.

Um þessar mundir er mikið af ævagömlum grammófónplötum gefið út á geisladiskum og þannig getur yngri kynslóðin kynnst gömlu söngvurunum og þeir eldri endurnýjað sín fornu kynni. Hljómgæði á geisladiskunum eru sem áður var og þessar gömlu upptökur hafa í öllu falli sögulegt gildi. Litum nú nánar á einstaka söngvara og söngkonur.

Adelina Patti og Lilli Lehmann

Söngkonurnar Adelina Patti og Lilli Lehmann voru komnar vel af léttasta skeiði, þegar hægt var að hljóðrita raddir þeirra fyrsta sinn. Upptökurnar gefa þvi væntanlega litla hugmynd um það hvernig raddirnar hljómuðu á blómaskeiði þeirra. Þær segja hins vegar heilmikið um þann smekk og stíl, sem réði ríkjum um þær mundir sem þær voru og hétu, þ.e.a.s. á siðari hluta 19. aldarinnar.

 Adelina Patti (1843-1919) fæddist í Madrid inn í fjölskyldu söngvara. Strax á barnsaldri fluttist hún með fjölskyldu sinni til New York og þar kom hún fyrst opinberlega fram átta ára gömul. Hún fluttist síðar aftur til Evrópu, debuteraði á Covent Garden átján ára gömul og varð fljótlega ein þekktasta söngkona heims.

Adelina Patti var best launaði söngvari heims á sínum tíma og varð stórauðug kona. Í samningum hennar við ópeuhús var klásúla sem leysti hana undan þeirri skyldu að mæta á æfingar og önnur sem kvað á um stærð stafa í nafni hennar á auglýsingaplakötum. Sagan segir að hún hafi verið plötuð til að hljóðrita söng sinn á gamals aldri. En þegar söngkonan heyrði upptökuna brast hún út: „Guð nmnn góður! Nú skil ég af hverju ég er Patti. Ó, hvílík rödd! Hvílíkur listamaður! Loksins skil ég allt!”

Rödd hennar var kóloratúrsópran, en hafði sérkennilegan dökkan blæ. Patti var frægust fyrir söng sinn í belcanto óperum af ítalska skólanum og samtíðin mat stöðu hennar þannig, að enginn söngvari kæmist með tærnar þar sem Adelina Patti hafði hælana. Væri söngkonan spurð hvernig hún færi að því að syngja svo fagurlega, svaraði hún aðeins: „Je n’en sais rien” (ég hef ekki hugrnynd um það).

Verdi sagði um Adelinu Patti að hjá henni gætti fullkomins samræmis, að í henni ríkti hið fullkomna jafnvægi milli söngkonunnar og leikkonunnar, að hún væri fæddur listamaður, sama hvernig á hana væri litið.

 Lilli Lehmann (1848-1929) var af öðrum toga spunnin, þó hún hafi einnig fæðst inn í söngvarafjölskyldu. Röddin, sem hún hlaut í vöggugjöf, var ef til vill ekki svo merkileg, en með þrotlausri þjálfun tókst henni að gera meira úr henni en efni og ástæður annars stóðu til. Fyrst æfði hún sig í að verða fyrsta flokks kóloratúrsópran með tilhlýðilegri lipurð og glans á efri tónum raddarinnar, en vann síðan að því alla ævi að fá fram meiri fyllingu, litauðgi og kraft í röddina þar til henni reyndist kJeift að syngja þyngstu Wagnerhlutverk með miklum tilþrifum.

Lilli Lehmann var meðal hinna fyrstu sem hleypti vísindalegum hugsunarhætti að við raddþjálfun og tónlistartúlkun, án þess þó að falla í þá gryfju að láta vísindamanninn í eigin sál stjórna listamanninum. Til þess var hún of mikill listamaður af guðs náð, sem innst inni var mikil hugsjónamanneskja og þráði að þjóna tónlistinni af heilum hug. En hún gat verið hörð í horn að taka og oft hörð í dómum, bæði um sjálfa sig og aðra. Eitt sinn reif hún aðra söngkonu í sig í blaðaviðtali. Blaðamaðurinn lét í Ijósi undrun og sagðist hafa haldið að Lilli Lehmann og þessi söngkona væru vinir. Þá breyttist svipurinn á Lilli og mýkt færðist yfir andlitið. „Það er rétt,” sagði hún, „þetta er mikil ágætismanneskja, sem mér þykir fjarskalega vænt um. En hún er ekki góð söngkona og hún skaðar tónlistina með því sem hún er að gera. En sjáðu til dæmis X. Ég fyrirlít hana sem manneskju og myndi aldrei tala við hana. En hún lyftir tónlistinni í sitt rétta veldi og fyrir það dái ég hana og mun vera henni ævínlega þakklát.”

Þegar Lillian Nordica, ein helsta söngkona heims á sínum tíma, þusti ásamt fleirum til Lilli Lehmann eftir sýningu í Bayreuth til að þakka henni fyrir, þá sneri söngkonan sér að henni og sagði: „Ég tek ekki við fleiri nemendum í bili!”

Það sem Adelina Patti hlaut í vöggugjöf, ávann Lilli Lehmann sér með elju og ástundunarsemi í prússneskum anda. Fyrir bragðið gat hún eitt kvöldið sungið kóloratúrhlutverk, en þyngstu Wagnerhlutverk það næsta án þess þó að skaða röddina eða missa tök á því, sem hún eitt sinn hafði náð valdi á.

Aðrar kóloratúrsöngkonur

Marcella Sembrich

Marcella Sembrich (1858-1935) var pólsk að uppruna og e.t.v. næst því af öllum söngkonum að vera álitin keppinautur Adelinu Patti. Hún hafði frá unga aldri lagt stund á tónlistarnám og var afburða píanó- og fiðluleikari. En svo var henni bent á að hún hefði eínnig hlotið frábæra rödd í vöggugjöf og að ef hún vildi stefna að frama á tónlistarbrautinni, þá skyldi hún láta þjálfa þessa rödd. Það var enginn annar en Franz Liszt, sem gaf þessi ráð. Sembrich lagði síðan stund á söngnám i Lemberg, Vín og loks í Mílanó hjá hinum rómaða kennara Giovanni Battista Lamperti.

Þó að Marcella Sembrich hafí fyrst og fremst verið kóloratúrsöngkona og þekkt sem slík, var röddin þó þess eðlis að hún gat auðveldlega fengist við lýrískari hlutverk og Ijóð, enda var hún frábærlega vel þjálfuð og menntuð í tónlist. Hún var bæði virt og heitt elskuð. Sembrich tók þátt í fyrstu sýningum á Metropolitan óperunni í New York árið 1883 og varð síðar einn af virtustu söngkennurum heims.

 

 

Nellie Melba

  En hafi Marcella Sembrich verið afsprengi menningar Mið Evrópu, þá átti Nellie Melba (1861-1931) rætur sínar að rekja til afskekktra byggða Ástralíu, þar sem fátt gat þótt fáránlegra en að leggja út á listabrautina. Ferill hennar var enda ekki auðveldur í fyrstu, en við það öðlaðist Nellie Melba vafalaust þá þrautseigju, úthald og hörku, sem hún síðar þurfti á að halda til að berjast tíl frægðar og frama. Hún var einnig svo heppin að komast í hendur afbragðs ítalsks söngkennara áður en hún lagði leið sína til frekari náms í Evrópu. Nellie Melba þótti hafa einhverja þá fegurstu rödd, sem nokkru sinni hafði heyrst, sérlega eftir að hún fullkomnaði söngtækni sína undir handleiðslu Mathilde Marchesi í Parísarborg. Madame Marchesi var þýsk að ætterni, en starfaði um þessar mundir í París. Henni þótti takast sérlega vel til með kvenraddir, en karlmönnum kenndi hún aldrei. Sjálf var hún afsprengi Garcia skólans, en Manuel Garcia var sennilega frægasti söngkemari, sem uppi hefur verið, og kenndi m.a. sænsku söngkonunni Jenny Lind.

Nellie Melba var fyrst og fremst fræg fyrir rödd sína, sem var afar hljómfögur, skær og tær. Hún þótti jafnvel mínna á drengjarödd og hafði til að bera þann sakleysislega blæ, sem féll einkar vel að smekk manna á síðari hluta 19. aldarinnar og framan af þeirri tuttugustu. Að öðru leytí var Nellie Melba síður en svo sakleysisleg og eftir að hún kom fyrst fram í Covent Garden óperunni i London drottnaði hún þar um langt árabil með harðri hendi og sá vel til þess að hættulegum keppinautum væri haldið frá. Hún þótti þó hæfileikasnauð sem leikkona og hana skorti þá listrænu fágun, sem t.d. Marcella Sembrich hafði til að bera í svo ríkum mæli.

 

 

Luisa Tetrazzini

Veldi Melbu var loks ógnað þegar Luisa Tetrazzini (1871-1940) birtist skyndilega og öllum að óvörum á sviði Covent Garden óperunnar árið 1907. Luisa Tetrazzini fæddist í Flórens á Ítalíu, þar sem systir hennar var einnig óperusöngkona og gift þekktum hljómsveitarstjóra. Frá barnæsku söng Luisa Tetrazzini af sannri sönggleði og þótti hafa bæði mikla og forkunnarlipra rödd. Hún var kóloratúrsöngkona af guðs náð, en lét síður að syngja einfaldar laglínur. Hún átti varla sinn líka hvað rödd og sönghæfileika áhrærði, en í vexti var hún lítil og gildvaxin og næstum eins og skopstæling af hugmyndum manna um óperusöngkonur – svo tíl hnöttótt, barmamikil og með óteljandi undirhökur, en sjálft andlitið var formfagurt og laglegt. Í þá tíð létu menn þetta ekkert á sig fá, heldur klöppuðu Luisu Tetrazzini lof í lófa fyrir afburðasöng hennar.

 

 Luisa Tetrazzini fékk 3000 dollara fyrir sýninguna á hátindi ferils síns og er talin hafa þénað samtals um 5 milljónir á ferlinum, en lést samt í mikilli fátækt.


Sagt var um LuisuTetrazzini þegar hún söng eitt sinn hlutverk Violettu í La Traviata, að þá hafi hún lokið Sempre libra aríunni a háa Es-inu (yfir háa C-inu) og: „Um leið og hún söng þennan stórkostlega háa tón beygði Tetrazzini sig niður, gaf sér góðan tíma til að taka upp síðan slóða kjóls síns og dró sig svo í rólegheitum út af sviðinu – og allan tímann hélt hún tóninum alveg þar til hún var komin úr augsýn. Við þetta varð allt vitlaust í húsinu.”

Röddin var mjög mikil og kröftug af kóloratúrsöngkonu að vera og til þessa hefur sennilega engin söngkona slegið henni við í þeim efnum, en Joan Sutherland komist næst því.
Þótt Nellie Melba hafi að vissu leyti verið raddlega fágaðri söngkona, þá hafði Tetrazzíni tíl að bera slíka útgeislun, glans og töfra í röddinni, sem gerðu hana að mjög skeinuhættum keppinaut fyrir Melbu.

 

 

 

 

Selma Kurz

En Melbu tókst betur að hafa annan keppinaut undir í Covent Garden óperunni, hina frægu austurrísku söngkonu Selmu Kurz (1874-1933). Hún fæddist inn í fátæka gyðingafjölskyldu í Suður-Póllandi, sem þá tilheyrði Austurríki. Með aðstoð góðra manna komst hún í söngnám til Johannes Ress í Vínarborg. Rödd hennar var afar sérkennileg, stór og mikil og með svo dökkum blæ, að í upphafi var álitið að hún væri mezzósópran. Í fyrstu söng hún meira að segja mezzósópranhlutverk, og síðar ungæðisleg dramatísk hlutverk í Frankfurt am Main, þar sem ferill hennar hófst. Það var Gustav Mahler, sem réði Selmu Kurz að Keisaralegu óperunni í Vínarborg árið 1899 og uppgötvaði hæfileika hennar sem kóloratúrsöngkonu. Hún varð fljótt ein helsta stjarna Vínaróperunnar og þótti einkar falleg kona, en aðeins miðlungsgóð leikkona. Selma Kurz var sérlega fræg fyrir að geta sungið trillur lengur og betur en nokkur önnur söngkona fyrr og síðar.

Selma Kurz var gift frægum kvensjúkdómalækni, Joseph Hallbaum. Engu að síður lést hún úr legkrabbameini langt fyrir aldur fram og var öllum Vínarbúum mikill harmdauði. Eins og áður sagði tókst Nellie Melba að koma í veg fyrir að hún syngi við Covent Garden óperuna öðruvísi en sem gestur. Metropolitan óperan fékk Selmu Kurz, en hún var ekki tilbúin til að fara frá manni og börnum og glæsilegum ferli  í Vínarborg. Þegar hún um síðir fór í tónleikaferð til Bandaríkjanna var heilsufari hennar tekið að hraka svo ferill hennar þar náði aldrei verulegu flugi.

 

Frieda Hempel

 Þegar Selma Kurz hætti við að ráðast til Metropolitan óperunnar voru góð ráð dýr þar vestra. Í hennar stað var þá Frieda Hempel (1885-1955) ráðin sem næsta kóloratúrstjarna. Frieda Hempel hafði til að bera rödd, sem var bæði liðug og lipur, en hafði samt kraft og fyllingu á miðsviðinu og gat hún því vel sungið lýrísk hlutverk, sem flestar kóloratúrsöngkonur forðast. Rödd hennar var björt og skær, en hafði ekki til að bera þá dúnmjúku silki- eða satínáferð, sem einkenndi rödd Selmu Kurz. Segja má að rödd Selmu Kurz hafi ávallt hljómað í moll, en rödd Hempel í dúr.

Frieda Hempel fæddist í Leipzig í Saxlandi, en fór ung í söngnám til Berlínar. Hún var snemma ráðin að Keisaralegu óperunni í Berlín, en var fyrst send til Schwerin í Mecklenburg til að öðlast reynslu. Hún vann sér fljótt viðurnefnið „Des Kaisers Lerche” (lævirki keisarans). Árið 1911 var Frieda Hempel ráðin að Metropolitan óperunni í New York og þar söng hún m.a. hlutverk markgreifafrúarinnar í Rósariddaranum eftir Richard Strauss við frumflutning óperunnar í Bandaríkjunum, en hún haföi áður gert því hlutverki góð skil í Berlín. Eins og margir aðrir þýskættaðir söngvarar var Frieda Hempel einnig afburða ljóðasöngkona. Þegar Amelita Galli-Curci birtist skyndilega í New York og vakti bæði undrun og furðu með glæsisöng sínum, ákvað Frieda Hempel að draga sig í hlé frá óperunni. Eftir það ferðaðist hún þó árum saman um víða veröld og og hélt tónleika, sem hún kallaði „Jenný Lind tónleika.” Þar söng hún lög og aríur, sem hin fræga Jenný Lind hafði haft á efnisskrá sinni og að auki klæddist hún á sama hátt söngkonan sænska hafði gert. Ættíngjum Jenný Lind þótti lítið til þessa koma, en Frieda Hempel hélt engu að síður sínu striki við góðar undirtektir, enda mjög fáguð söngkona og músíkant.

Amelita Galli-Curci

 Amelita Galli-Curci (1882-1963) var um skeið sennilega frægasta og örugglega vinsælasta kóloratúrsöngkona heims og naut hún þá þess að rödd hennar hljómaði óvenju vel á frumstæðum grammófónplötum. Fólk sem aldrei hafði séð eða heyrt söngkonuna á sviði, kynntist rödd hennar á plötum og átti hún að því leyti margt sameiginlegt með Enrico Caruso. Það merkilega er að Amelita Galli-Curci ætlaði sér alls ekki að verða söngkona, heldur píanóleikari. Hún stundaði píanónám við tónlistarháskólann í Milano og þar uppgötvaðist að hún hafði einnig til að bera frábæra söngrödd. Söngkonan lagði aldrei stund á alvarlegt söngnám, heldur var röddin svo að segja tilbúin frá náttúrunnar hendi og hafði til að bera sérkennilegan og fagran hljóm, einkum á miðsviðinu. Án undirbúnings réðst Galli-Curci í að syngja opinberlega í sýningu á Rigoletto á Suður-Ítalíu og hugsaði með sjálfri sér að það gerði svo sem ekkert til þótt illa færi. En það varð öðru nær. Tilboð bárust úr öllum áttum og áður en hún vissi var hún orðin fræg og vinsæl á ítalíu. Leið hennar lá næst til Suður-Ameríku, þar sem hún hlaut vinsældir. Þegar hún kom svo fram í hlutverki Gildu i Rigoletto í óperuhúsinu í Chicago árið 1916, þá skipti það engum togum að litið var á Amelitu Galli-Curci sem eitt af undrum veraldar og hún varð heimsfræg á svipstundu. Um líkt leyti undirritaði hún samning við upptökufyrirtækið Victor og von bráðar skóflaði fyrirtækið út plötum með söng Galli-Curci um allan heim. En það tók tiltölulega fljótt að halla undan fæti hjá henni. Ef til vill mátti kenna því um að að hana hafi skort raddtæknilega kunnáttu til að geta sjálf bætt úr þegar röddin hætti að hlýða á sama hátt og áður. Hitt var þó vafalaust þyngra á metunum að tiltölulega snemma á ævinni fékk hún sjúkdóm í skjaldkirtilinn, sem stækkaði og þrengdi að barka og barkakýli. Þegar hún loks lét skera stækkunina burt, var það um seinan.

Lýrískar sópranraddir

Geraldine Farrar

 Þó að kóloratúrsöngkonur væru hátt skrifaðar fram undír fyrri heimsstyrjöldina og jafnvel lengur, þá má sjá af því sem á undan er farið, að ýmsar af helstu prímadonnum heims á því sviði voru engan vegínn takmarkaðar við að láta ljós sitt skína á sviði flúrsöngsins, heldur voru þær fyllilega færar um að gera annars konar tónlist góð skil. Nýjar óperur gerðu enda öðru vísi kröfur. Geraldine Farrar (1882-1967) var að vissu leyti mikill brautryðjandi á þessu sviði, en hún var forkunnarfögur og afbragðs leikkona. Á unga aldri var hún uppáhalds nemandi Lilli Lehmann í Berlín, en þangað fór hún frá Bandaríkjunum, þar sem hún var fædd. Hún var snemma ráðin að Keisaralegu óperunni í Berlín og komst fljótt í mikið vinfengi við keisarann og fjölskyldu hans. Geraldíne Farrar fór ótroðnar slóðir í söng og leik og setti með því allt á annan endann í óperuflutningi. Einkalíf hennar vakti ekki síður athygli og kjaftadálkar dagblaðanna kepptust um að segja frá öllu smáu og stóru, sem hún tók sér fyrir hendur. Manna á milli var því hvíslað að hún ætti í ástarsambandi við sjálfan krónprinsinn. Í stuttu máli má segja að hún hafi verið undanfari stjörnuímyndarinnar eins og hún síðar þróaðist í Hollywood

Geraldine Farrar varð síðar ein af skærustu stjörnum Metropolitan óperunnar og söng oftar á móti Caruso en flestar aðrar söngkonur. Hún hafði til að bera Ijóðræna rödd, sem var feikna auðug að litbrigðum. Í túlkun byggði hún e.t.v. meira á leik en söng, sérlega þegar fram í sótti. Hún dró sig í hlé frá söngnum um fertugt, að eigin sögn samkvæmt gömlu heiti, en illar tungur sögðu að röddin væri farin að gefa sig. Þótt rödd Geraldine Farrar hafi verið lýrísk, þá var persónuleiki hennar dramatískur og ef til vill tók það sinn toll að hun söng oft nokkuð dramatisk hlutverk, sem reyndu mjög á fíngerða rödd hennar, sem hún hlífði hvergi þegar kom að dramatískri túlkun.

 

Frances Alda

 Frances Alda (1883-1952) naut nokkuð svipaðrar aðstöðu á Metropolitan óperunni í New York og Nellie Melba í Covent Garden í London. Hún var gift óperustjóranum Gatti-Casazza og þótti stundum blanda sér illþyrmilega í málefni óperuhússins. Alla vega var hún tannhvöss og óvægin við aðrar söngkonur, en var betur liðin af karlpeningnum. Ferill hennar var nokkuð undarlegur. Hún fæddist á Nýja Sjálandi, en var að nokkru leyti alin upp af ömmu sinni í Ástralíu. Fjölskyldan samanstóð aðallega af farandsöngvurum, sem ferðast höfðu um allan heim og búið víða, t.d. í Suður-Ameríku, Kaliforníu og hér og þar í Evrópu eftir því hvar atvinna bauðst. Þegar Frances Alda var vart af barnsaldri dó amma hennar og fór hún þá með bróður sínum til Evrópu. Hún komst í hendur hinnar frægu Mathilde Marchesi í París, líkt og Melba áður, og varð hún síðasti nemandi Marchesi, sem náði frægð og frama. Frances Alda sagði sjálf frá því að hún hafi í fyrstu ekki tekið sönginn mjög alvarlega, – sér hafi bara þótt afskaplega gaman af að fá að koma fram og spóka sig sem prímadonna, fyrst við Parísaróperuna og síðan við La Scala í Milano. Henni hafi alls staðar verið vel tekið og hún hafi notið þess fram í fingurgóma að láta gera sér stáss og dekra við sig. Það hafi ekki verið fyrr en hún kom til New York, ráðin að Metropolitan óperunni, að alvara lífsins hafi farið að segja til sín. Hún fékk hörmulega útreið þegar hún kom þar fram í fyrsta sinn og það varð til þess að hún fór að taka sönginn og tónlistina alvarlega.

Frances Alda þótti sem sagt kerling í krapinu, en sem söngkona var hún frábær og allra best í hreinlýrískum hlutverkum. Þrátt fyrir það að skapsmunir hennar þættu fyrirferðarmiklir í daglega lífinu, þá lét henni vel að túlka blíðar og einlægar tilfinningar á leiksviðinu og söngurinn tók mið af því. Segja má að hún hafi fengið útrás fyrir hið dramatíska í daglega lífinu, en getað tileinkað sér hið lýríska á leiksviðinu. Þegar hún kom fyrst til Milano komst Frances Alda í kynni við Gatti-Casazza, sem hún síðar gekk að eiga, og Arturo Toscanini, sem alla ævi var náinn vinur hennar og aðdáandi.

 

Alma Gluck

 

Alma Gluck (1884-1938) var önnur lýrísk söngkona, sem ávann sér vinsældir um allan heim með hljóðritunum af vinsælum sönglögum, sem áttu greiðan aðgang að hjörtum alþýðunnar. Hún var því, líkt og Amelita Galli-Curci, ein af fyrstu „grammófón-prímadonnunum” þótt verkefnaval þeirra væri talsvert frábrugðið. Það átti hún hins vegar sameiginlegt með írska tenórsöngvaranum John McCormac, sem naut geipilegra vinsælda meðal almennings. Alma Gluck fæddist í mikilli fátækt. Það kom fljótlega í ljós að hún hafði frábæra söngrödd og með góðra manna hjálp komst hún til náms hjá Alberto Buzzi-Peccia í New York. Kornung var hún ráðin að Metropolitan óperunni, en hafði þar aðeins stutta viðdvöl. Síðan stundaði hún framhaldsnám hjá Marcellu Sembrich í Berlín. Eftir fyrri heimsstyrjöldina lagði hún óperusöng til hliðar og helgaði sig konsertsöng. Hún söng inn á fleiri grammofónplötur en flestir aðrir á þeim tíma.

 

Lucrezia Bori

 Hafi Frances Alda verið blíðlynd og einlæg á leiksviðinu, en skapmikil og drottnunargjörn í einkalífinu, var Lucrezia Bori (1887-1960) fáguð kona, jafnt i list sinni sem í einkalífi. Hún var afar vel liðin af öllum sem til hennar þekktu og henni tókst að sniðganga allt það baktjaldamakk, sem svo oft blómstrar í óperuheiminum.

I.ucrezia Bori var spönsk að ætterni, af aðalsættum og hét í rauninni Lucrezia Borja, sem er spænska útgáfan af nafninn Borgia. Hún var því alnafna hinnar illræmdu ítölsku Lucreziu Borgia og átti reyndar ættir til hennar að rekja. Ung að aldri lagði Lucrezia Bori leið sina til Milano til söngnáms, en þegar hún átti að koma fram í fyrsta skipti, var talið óviðeigandi að hún notaði hið eðalborna nafn sitt á leiksviði. Það þótti nefnilega ekki við hæfi að kona af aðalsættum kæmi þar fram, svo að ekki sé minnst á afleiðmgarnar ef illa gengi. En svo fór þó alls ekki því Lucrezia Bori varð strax vinsæl söngkona. Þegar Metropolitan óperan heimsótti París forfallaðist söngkonan sem átti að syngja hlutverk Manon Lescaut i samnefndn óperu Puccinis, og Lucrezia Bori var fengin til að hlaupa í skarðið. Þar með var ráðning hennar að Metropolitan óperunni tryggð.

Í sjálfu sér hafði Lucrezia Bori ekkert sérstaka rödd frá náttúrunnar hendi. Það sem máli skipti var hvernig hún fór með röddina. Hún söng af alveg óvenjulegu næmi og kom það fram i allri hennar túlkun. Þótt hún hafi ekki verið nein fegurðardis frá náttúrunnar hendi eins og Geraldine Farrar, þá hafði hún til að bera einhvern yndisþokka, sem skilaði sér í öllu hátterni hennar, jafnt á sviðínu sem utan þess. Hún varð um nokkurra ára skeið að leggja sönginn á hilluna vegna þess að hún fékk hnút á raddböndin, sem erfitt reyndist að fjarlægja. Hún fékk röddina aftur eftir þrotlausa baráttu, m.a. leyfði hún sér ekki einu sinni að tala árum saman. Þegar hún tók aftur til við sönginn voru aðdáendur hennar mjög taugatrekktír. En það reyndist óþarfi. Lucrezia Bori stóð fyrir sínu betur en nokkru sinni fyrr.

Dramatískar sópranraddir og sópranraddir með dramatísku ívafi

Emma Earnes

 Emma Eames (1865-1952) var bandarísk, en fæddist í Kína, þar sem faðir hennar starfaði sem lögfræðingur. Hún var þó að mestu alin upp í Bandaríkjunum í umhverfi, sem var strangt, þröngsýnt og siðavant. Hún lærði fyrst söng hjá móður sinni, en gerðist síðar nemandi hjá Mathilde Marchese í París. Þeim samdi aldrei vel þar sem Emmu Eames fannst    Madame Marchese hampa Nellie Melba á sinn kostnað. Emma Eames hafði forkunnarfagra rödd, sem naut sín e.t.v. best á mið- og lægra sviðinu. Hún þótti yfirleitt heldur kaldlynd sem túlkandi, þó að vandvirkni hennar og öryggi væri við brugðið. Á námsárum sínum í París lærði hún hlutverk í óperunum Rómeó og Júlíu og Fást eftir Gounod undir handleiðslu höfundarins. Hún þótti bera af í þessum hlutverkum í Parísaróperunni á sínum yngri árum, ekki síst vegna útlitsins, en hún var afar fögur kona. Síðar lagði hún fyrir sig dramatísk hlutverk, enda rödd hennar af þeirri stærðargráðu.

Emma Eames þótti alla ævi heldur kaldranaleg, jafnvel hrokafull, í einkalífi sínu og naut því ekki mikilla vinsælda utan leiksviðsins, en þeim mun meiri virðingar. Hún kvaðst forðast að hitta gagnrýnendur augliti til auglitis þar eð það kynni að hafa neikvæð áhrif á umfjöllun þeirra um söng sinn, ef þeim líkaði ekki við sig sjálfa í einkalífinu. Söngkonan taldi að sér hefði aldrei fyllilega tekist að brjótast undan þeim strangleika, sem hún var alin upp við. Gagnrýnendur voru heldur ekki alltaf vinsamlegir. T.d. skrifaði einn þeirra eftir sýningu á Aida: „There was skating on the Nile last night” (það var skautað á Nílarfljótinu í gærkvöldi) og vildi með því gefa til kynna að Emma Eames frysti allt í kringum sig.

 

Emmy Destinn

 Emmy Destinn (1878-1930) var söngkona af allt annarri gerð. Henni varð aldrei skotaskuld úr því að gefa sig tilfinningunum á vald, hvorki í einkalífínu né á sviðinu. Hún hafði til að bera mikla og volduga dramatíska rödd og persónuleikinn var allur í samræmi við það. Hún fæddist í Prag í Tékkóslóvakíu og var alla ævi æstur tékkneskur þjóðernissinni. Hún tók upp nafnið Destinn til heiðurs söngkennara sínum, Marie Loewe Destinn. Ólíkt Emmu Eames var Emmy Destinn frábær leikkona með óvenjulega hæfileika til að lifa sig inn í hlutverk sín. Hún var að vissu leyti brautryðjandi meðal óperusöngkvenna með því að leitast við að koma óperuhlutverkum sínum til skila sem dramatískri heild. Á þessum tíma hreyfðu aðrar söngkonur sig sem minnst á sviðinu, en einbeittu sér að því að syngja óaðfinnanlega. Emmy Destinn varð fljótt ein af stjörnum Keisaralegu óperunnar í Berlín, en hróður hennar barst skjótt út um allan heim. Hún varð vinsæl söngkona bæði í París og London og loks á Metropolitan óperunni, þegar Arturo Toscanini var þar við stjórnvölinn. Eftir síðari heimsstyrjöldina hvarf Emmy Destinn aftur heim og gerðist svo frökk í baráttu sinni fyrir frelsi Tékkóslóvakíu að Austurríkismenn hnepptu hana í fangelsi um hríð.

 

Johanna Gadski

 Johanna Gadski (1872-1932) átti ýmislegt sameiginlegt með Emmy Destinn. Hún var ein allra fremsta dramatíska söngkona Þýskalands á sínum tíma, sérlega í þyngri hlutverkum í Wagneróperum. Hún var ekki jafn litríkur persónuleiki og Destinn, en naut mikilla vinsælda og virðingar í Þýskalandi og Bandaríkjunum. En söngkonan varð, líkt og starfssystir hennar Kirsten Flagstad eftir síðari heimsstyrjöldina, fyrir miklu aðkasti í hringiðu stjórnmálanna þegar Bandaríkin drógust inn í fyrri heimsstyrjöldina. Johanna Gadski var mikill þýskur þjóðernissinni og að auki var eiginmaður hennar háttsettur í þýska hernum. Vegna skoðana sinna og óheppilegra ummæla hrökkluðust þau hjón aftur til Þýskalands í stríðinu. Johanna Gadski hélt áfram að syngja, en ekki með sama glæsilega árangri og áður. Tíu árum síðar reyndi hún aftur fyrir sér Bandaríkjunum, en náði ekki fótfestu á nýjan leik. Hún lést um aldur fram í bílslysi í Þýskalandi.

 

 Olive Fremstad

Olive Fremstad (1871-1951) var dramatísk söngkona, sem fæddist í Stokkhólmi, en fluttist tíu ára gömul til Bandaríkjanna. Hún átti erfiða bernsku, en tókst samt að brjótast áfram af eigin dugnaði og komst m.a. í söngnám til Lilli Lehmann í Berlín. Hún hóf feril sinn sem mezzósópran, en þráði að geta sungið dramatísk sópranhlutverk. Með þrautseigju og elju tókst henni að hækka röddina og varð rómuð í hlutverkum Isolde og Sieglinde.  Fremstad naut sín e.t.v. best undir stjórn Gustavs Mahlers þann tiltölulega stutta tíma, sem hann var við sem hann var hjá Metropolitan óperunni í New York. Á siðari tímum er enginn í vafa um að söngkonan hafi verið listamanneskja af guðs náð og að henni hafi öðrum betur tekist að samsama sig sviðshlutverkum sínum. En Olive Fremstad þurfti að glíma við veikleika í eigin skapgerð, sem gerðu hana tortryggna og erfiða í samskiptum. Hún þurfti því oft að berjast við sjálfa sig ekkert síður en umhverfið og að henni leið að eigin sögn aldrei vel í einkalífinu. Það fór þó ekki hjá því að hún lenti í verulegri samkeppni við Johönnu Gadski, sem söng mikið sömu hlutverk og Fremstad og hafði oft betur, þó að hún hefði ekki „neistann” á sama hátt og Fremstadt.

 

 

Emma Calvé

En hafi einhver haft þennan „neista”, þá var það franska söngkonan Emma Calvé (1858-1942), sem var frægasta Carmen allra tíma. Hún var frábær leikkona, falleg í útliti og hafði rödd, sem erfitt var að flokka. Hún söng jöfnum höndum hlutverk fyrir sópran og mezzósópran og líklega lá dramatíkin meira í persónuleika hennar en í sjálfri röddinni. Röddin var að vísu bæði mikil og litrík, en ekki fallin til þess að syngja þyngri hlutverk af t.d. þýska skólanum. Hafi söngkonu eins og Olive Fremstad látið best að túlka hlutverk, sem kröfðust djúps innsæis og alvöru, þá lét Emrnu Calvé best að túlka sterka og litríka persónuleika, jafnvel dálítið afbrigðilega, og helst með mikla útgeislun og kynþokka. I leik og söng var hún eins og sköpuð til að túlka „verismo” hlutverk og skaraði m.a. fram úr í hlutverki Santuzzu í Cavalleria Rusticana eftir Mascagni, sem hún söng við geipilegar vinsældir á ítalíu skömmu eftir frumflutning óperunnar.

 

Mezzósópran og contralto söngkonur

Báðar þær söngkonur, sem hér verður getið á eftir, vantaði allt það sem gerði Emmu Calvé sérstaka. Þær minntu fremur á vinnulúnar húsmæður, komnar af léttasta skeiði, en á skínandi stjörnur á himni óperusöngs. Ernestine Schumann-Heink var meira að segja beinlínis ófríð. En báðar höfðu til að bera raddir, sem hlutu að vekja athygli hvar sem þær heyrðust.

 

Ernestine Schumann-Heink

 Ernestine Schumann-Heink (1861-1936) var dóttir liðsforingja í austurríska hernum. Hún var því alin upp hér og þar, en þó aðallega í Graz í suðurhluta Austurríkis. Þekktur söngkennari þar í borg, Mariette von Leclair, uppgötvaði hina sérstöku dimmu altrödd hennar, sem var í engu samræmi við aldur eigandans, en hún var þá vart af barnsaldri. Söngkennarinn tók stúlkuna undir sinn verndarvæng og kenndi henni með þeim árangri að nemandinn söng opinberlega althlutverkið í níundu sinfóníu Beethovens í Graz, þegar hún var aðeins fimmtán ára gömul. Ári síðar var hún ráðin til að syngja hlutverk sígaunakonunnar í II Trovatore eftir Verdi í Dresden. Aldur söngkonunnar vakti þá bæði kímni og kátínu, en þegar hún lauk upp munninum til að syngja, þögnuðu allar gagnrýnisraddir. Frá Dresden lá leið hennar til Berlínar og síðan til Hamborgar, þar sem hún söng í sextán ár, oft undir stjórn Gustavs Mahler. Hún hafði þá skilið við fyrri eiginmann sinn, Ernst Heink, sem var ritari við óperuna í Dresden, og gengið að eiga leikhússtjóra í Hamborg, Paul Schumann að nafni. Ernestine Scumann-Heink eignaðist sand af börnum og átti í fyrstu svo erfitt uppdráttar fjárhagslega, að hún kvaðst hafa verið staðráðin í að stytta sjálfri sér og börnum sínum aldur, en hætt við á síðustu stundu. Söngkonan var þekkt fyrir að vera ávallt reiðubúin til þess að syngja, jafnt á nóttu sem degi, jafnvel að hlaupa frá pottum og pönnum í miðri matseldinni. Hún var engu að síður rómuð fyrir að vera góð móðir og eiginkona um leið og hún var mikil listamanneskja og sem persóna afar elskuleg, góðhjarta og blátt áfram. Þótt ófríð væri var hún afburða leikkona og eftirherma af guðs náð.

Raddlega hafði Ernestine Schumann-Heink til að bera óhemju volduga og dökka altrödd, sem vart átti sinn líka í víðri veröld. Það sem gerði hana svo sérstaka var hæfileikinn til að létta röddina, þannig að hún hafði vald á flúrsöng á við léttustu sópranraddir þar sem þess gerðist þörf. Hún söng því ekki aðeins frábærlega í Wagner hlutverkum, heldur einnig og af ekki síðri snilld kóloratúraríur eftir Mozart, Meyerbeer og Rossini. Að þessu leyti átti hún sér engan líka. Eftir að söngkonan fluttist til Bandaríkjaruna árið 1898 varð hún nánast goðsögn þar í landi, þekkt undir nafninu „Mother SchumannHeink”, enda móðurleg jafnt í sjón sem reynd. Hún söng fram á gamals aldur við vaxandi vinsældir, ekki einungis sem söngkona, heldur einnig sem manneskja. Í fyrri heimsstyrjöldinni börðust synir hennar beggja vegna víglínunnar og lét hún mikið til sín taka sem friðarpostuli.

 

Louise Homer

 Louise Homer (1871-1947) átti ýmislegt sameiginlegt með Ernestine Schumann Heink, þó að hún væri hógværari og minna áberandi persónuleiki. Hún var bandarísk, en lagði stund

samt á margan hátt best að syngja óperur frá klassíska tímabilinu og var t.d. rómuð fyrir túlkun sína á Orfeusi í samnefndri óperu Glucks undir stjórn Arturo Toscanini. Það lá eínnig mjög vel fyrir söngkonunni að syngja óratoríur; segja má að hún hafi því ekki fyrst og fremst verið söngkona með leikhúsblóð í æðum, heldur fremur túlkandi hins andlega í tónlist. Henni var ekki eiginlegt að skína skært, heldur var mannleg hlýja hennar sterkasta hlið. Louise Homer var þó lengi ein af máttarstoðum Metropolitan óperunnar í New York. Hún gekk að eiga píanóleikarann og tónskáldið Sidney Homer og líkt og Ernestine Schumann-Heink, átti Louise Homer sand af börnum og hafði orð á sér fyrir að vera ekki síðri móðir en listakona. Hún var móðursystir bandaríska tónskáldsins Samuel Barber.

Tenórsöngvarar

Jean de Reszke

 

Fram að timum Carusos áttu tenórsöngvarar ekki upp á pallborðið á sama hátt og „prímadonnurnar”, sem í flestum tilvikum voru sópransöngkonur. Á nítjándu öld voru þó söngvarar á borð við Mario (1810-1883) og Rubini (1794-1854) í hávegum hafðir, svo ekki sé minnst á pólska tenórsöngvarann   Jean de Reszke (1850-1925), sem hóf feril sinn sem baritón, en tókst að þroska rödd sína upp í tenórhæð. Hann var glæsimenni mikið og þótti bera af öðrum í elegans og sjarma, jafnt á leiksviði sem utan – hans aðalsmerki var fágun. Þegar leið á starfsfenl Jean de Reszke gerðist hann hetjutenór og er áhrifaríkri túlkun hans á þeim hlutverkum í Wagner óperum viðbrugðið. Því miður eru ekki til hljóðritanir af söng hans svo heyra megi rödd hans að gagni.
Jean de Reszke

Fernando de Lucia

Á Caruso hefur þegar verið minnst, en forveri hans í tenórfaginu, Fernando de Lucia (1860-1925) var dálítið sérstakt fyrirbæri. Eftir hann liggur fjöldi hljóðritana, sem eru merkilegar að því leyti að þær gefa góða hugmynd um þann stíl, sem réði ríkjum í tónlistarflutningi á síðari hluta 19. aldar. Á hluta ævi sinnar söng Fernando de Lucia belcanto hlutverk í gömlum óperum og var frægur fyrir meðferð sína á Almaviva greifa í Rakaranum.  Ekki aðeins var hann sérstakur fyrir það vald, sem hann haföi á flúrsöng, heldur einnig fyrir það hvernig hann skreytti laglínurnar. Þetta má enn heyra á gömlum hljóðritunum. Annars þótti de Lucia ekki hafa sérlega fallega rödd og af tenórsöngvara að vera var raddumfangið heldur takmarkað. Þegar frá leið sneri hann sér nær alfarið að nýrri óperum og þótti frábær túlkandi á verismo óperum. Gagnrýnendum þótti hann þó vera heldur skjálfraddaður, en það fyrirbæri kemur minna að sök í verismo óperum en öðrum.

 Alessandro Bonci

 

Alessandro Bonci (1870-1940) var hins vegar raunverulegur keppinautur Carusos, þótt rödd hans væri annars eðlis. Hann hafði mun léttari rödd en Caruso og var þekktur fyrir smekkvísi og stíltilfinningu. Hafi Caruso verið söngvari alþýðunnar, þá var Alessandro Bonci fremur söngvari hinna vandfýsnu að mati samtímamanna þeirra. Nú á dögum hljómar rödd Boncis dálítið undarlega í eyrum, sérstaklega vegna þess að hann hafði tileinkað sér hið hraða vibrato, sem mjög var í móð meðal ítalskra tenórsöngvara í lok 19. aldar. Þessi söngmáti varð þó aldrei vinsæll utan latneskra landa og þótti almennt Ijóður á söng á meðan belcanto söngur var hafður í hávegum.

 

 

Giuseppe Anselmi

Giuseppe Anselmi (1876-1929) var annar ítalskur tenór, sem átti margt sameiginlegt með Bonci. Röddin var tiltölulega létt og smekkvísin frábær og að auki var röddin fyllilega stöðug og laus við hið hraða vibrato, sem einkenndi rödd Boncis.

Giuseppe Anselmi söng mikið í Madrid og var borgin i tniklu uppáhaldi hjá honum. Hann ánafnaði leiklistarsafni borgarinnar hjarta sitt og er það enn varöveitt þar.

Francesco Tamagno

En smekkurinn var að breytast og léttari tenórraddir tóku að víkja fyrir dramatískari röddum. Á Ítalíu var Francesco Tamagno (1850-1905) fremsti fulltrúi þessarar stefnu. Voldug rödd hans var sem kjörin til þess að syngja dramatísk hlutverk í nýrri óperum og var hann m.a. valinn af Verdi til að syngja hið erfiða hlutverk Otellos við frumflutning samnefndrar óperu. Verdi hafði sérstakt dálætí á Tamagno og taldi hann öðrum tenórsöngvurum fremri. Enn eru til hljóðritanir sem staðfesta ágæti Tamagno.

Francesco Tamagno var einn fremsti tenore di forza allra tíma. Ekki aðeins var raddmagn hans gífurlegt heldur átti hann líka svo létt með að syngja í hæðina að sagt er að honum hafi stundum þótt þægilegra að láta hækka upp háa og erfíða kafla um hálfan eða heilan tón

 

Giovanni Zenatello

Nokkru yngri en Tamagno var Giovanni Zenatello (1876-1949), sem einnig var gæddur mikilli þrumurödd. Ferill hans var glæsilegur, sérlega í þyngri hlutverkum Verdis, t.d. Otello og Radames í Aidu, en að auki var hann frábær í verismo óperum. Það var Zenatello sem söng hlutverk Pinkertons í Madama Butterfly eftir Puccini, þegar óperan var frumflutt á La Scala, þótt það hafi ekki dugað til að bjarga frumsýmngunni.

John McCormack

Írski tenórinn John McCormack (1884-1945) var af öðrum toga en starfsbræður hans á Ítalíu. Hann var það sem síðar hefur verið kallað hinn dæmigerði „írski” tenór. Þó var söngmátinn á margan hátt af ítalska skólanum, enda var hann skólaður á Ítalíu hjá Vincenzo Sabatini í Milano. Röddin var létt og lipur og óvenjulega björt, laus við þann dökka barítónblæ, sem einkenndi t.d rödd Carusos. Þótt John McCormack væri mikið glæsimenni á yngri árum, var hann afleitur leikari og gafst fljótlega upp á óperusöng. Hann hafði hins vegar mikla útgeislun og sneri sér fyrst og fremst að tónleikahaldi. Og það spilltí ekki fyrir að hann varð einn vinsælasti grammófónplötusöngvari, sem um getur. Líkt og Alma Gluck flutti hann af frábærri smekkvísi írsk, skosk og amerísk sönglög, sem áttu greiðan aðgang að hjörtum almennings, og seldust plötur hans eins og heitar lummur, einkum í hinum engilsaxneska heimi.

 

 

 

Barítónsöngvarar


Antonio Scotti ásamt Caruso. 

Antonio Scotti

Það er ef til vill ekki óviðeigandi að byrja á því að ræða feril Antonios Scotti (1866-1936), sem á yngri árum hafði afar fallega barítónrödd. Eins og Caruso fæddist hann í Napólí og þeir urðu síðar mjög nánir samstarfsmenn viö Metropolitan óperuna í New York, þar sem Scotti söng í 36 ár. Eftir það stofnaði hann sitt eigið óperufélag, sem flutti óperur víða um Bandaríkin. Loks flutti hann aftur heim til Ítalíu þar sem hann lést í fátækt.

Antonio Scotti missti tiltölulega fljótt mesta glansinn úr röddinni, en var svo mikill maður að það dró ekki á nokkurn hátt úr vmsældum hans. Það skipti sköpum að hann var afar myndarlegur maður, sannkallað glæsimenni í útliti, varð m.a. þess vegna einn dáðasti Don Giovanni í óperu Mozarts, sem um getur. Hann söng hlutverkið um allan heim, m.a. í Salzburg árið 1910. Vegna leikhæfileika og útlits þóttí hann bera af í hlutverki Scarpia i Tosca eftir Puccini, en auk þess söng hann flest þau barítónhlutverk, sem til féllu í ítölskum og frönskum óperum. Hann söng inn á fjöldann allan af grammófónplötum og þá oft með Caruso, sem var mikill persónulegur vinur hans og aðdáandi.

 

Mattia Battistini

 Söngur Mattia Battistini (1856-1928) var annars eðlis. Hann þótti skara fram úr að raddfegurð og oftast er vitnað til hans sem fulltrúa hins fullkomna belcanto söngs. Hann hafði til að bera mjög háa og tiltölulega bjarta barítónrödd, sem hann hafði fullkomið vald yfir. Hann var ef til vill dæmigerður fyrir það sem ítalir hafa stundum kallað „barítenóre”, en það er rödd sem liggur á mörkum þess að vera barítón og tenór. Í seinni tíð hafa margir söngvarar af þessari gerð leitast við að bæta fáeinum tónum við efra sviðið til að gerast tenórsöngvarar, sérlega dramatískir hetjutenórar. Mattia Battistini lagði aldrei út á þá braut, heldur hélt sér við sitt upprunalega fag, enda dáður á því sviði umfram flesta ef ekki alla aðra.

Battistini var í rauninni fulltrúi hins gamla í belcanto söng og lagði mest upp úr jafnri, misfellulausri raddbeitingu með fullu valdi yfir öllum blæbrigðum. Hann fór stundum frjálslega með fyrirmæli tónskáldanna að síns tíma sið, en söng samt af smekkvísi og göfgi. Í föðurlandi sínu var hann kallaður „La gloria d’ Italia” (dýrð ítalíu) eða ,,Il re dei baritone” (konungur barítónsöngvaranna). Hann gat sungið með miklum ágætum vel fram yfir sjötugt, sennilega vegna þess að hann misbauð aldrei rödd sinni og hafði fullt vald á söngtækni. Hins vegar varð hann aldrei maður leikhússins að sama skapi.

 

 

Titta Ruffo

Það sama verður ekki sagt um Titta Ruffo (1877-1953), sem sannarlega var maður leikhússins fram í fingurgóma og hlífði þrumurödd sinni hvergi. Þeir sem til hans heyrðu þóttust aldrei hafa heyrt aðra eins rödd. Hún virtist engin takmörk hafa, hvorki að styrk né umfangi, og Titta Ruffo hikaði aldrei við að tjalda því sem til var, hverjar svo sem afleiðingarnar kynnu að verða. Hann og Caruso voru brautryðjendur í því að sameina söng og leik á óperusviðinu og einbeita sér að því að koma dramanu í tónlistinni til skila jafnt til augans sem eyrans. Hins vegar fór ekki hjá því að hömluleysið tæki sinn toll þegar fram liðu stundir og því slitnaði röddin nokkuð snemma, en sem náttúrurödd átti hún fáa sína líka. Þrátt íyrir takmörkuð gæði hljóðritana á blómaskeiði Titta Ruffo, eru upptökur með rödd hans furðu góðar.

 

 

Pasquale Amato

Pasquale Amato (1878-1942) var annar ítalskur barítónsöngvari á svipuðum aldri. Hann hafði líka til að bera mikla þrumurödd, sem var heldur fíngerðari en rödd Titta Ruffo, en Amato var hins vegar fágaðri söngvari. Hann gerði garðinn frægan á Metropolitan óperunni í New York um svipað leyti og Caruso og kom einnig oft fram með Geraldine Farrar.

Það segir sitt að Pasqual Amato kom fyrst fram í La Scala óperunni í Milano í hlutverki Goulaud í óperunni Pelléas og Mélisande eftir Debussy, sem þá var tiltölulega ný ópera, samin á óhefðbundinn hátt og gerði því mjög óhefðbundnar kröfur til söngvara af ítalska skólanum. Pasqual Amato var engu síður á heimavelli í ítalska faginu og á því sviði naut mikil og fögur rödd hans sín best. Að söngferlinum loknum gerðist hann söngkennari i New York, þar sem hann lést í upphafi siðari heimsstyrjaldarinnar.

 

 

 

 

Giuseppe de Luca

Giuseppe de Luca (1876-1950) átti líklega meira sameiginlegt með Mattia Battistini en Titta Ruffo eða Pasquale Amato. Þótt rödd hans hafi ekki verið sérstaklega mikil, þá var hún bæði hlý og hljómfögur og jöfn og fáguð upp úr og niður úr. Í fullu samræmi við röddina var tónlistarsmekkur hans bæði fágaður og göfugur.

Það lá ekki fyrir honum að skvetta úr sér á leiksviðinu og grípa til leikrænna tilþrifa, sem hefðu orðið á kostnað söngsins. Hann var yngri en Mattia Battistini og nær nútímanum i skilningi sínum á tónlist og túlkun hennar. De Luca var fyrst og fremst fulltrúi smekkvísinnar, bæði í raddbeitingu og meðferð sinni á tónlist. Hann söng mjög lengi og alltaf vel, seinustu árin þó fremur á tónleikasviði en í óperum. Meðferð hans á ítölskum „arie antiche” var rómuð um allan heim.

 

 

 

Bassasöngvarar

 

 

Edouard de Reszke

Af öllum þeim söngvurum og söngkonum, sem hér hefur verið minnst á, er enginn af frönsku bergi brotinn nema Emma Calvé. En tveir franskir bassasöngvarar báru höfuð og herðar yfir flesta aðra, að undanskildum Edouard de Reszke (1853-1917), bróður Jean de Reszke. Þeir bræður voru þó í reynd afsprengi hins franska menningarheims, þótt pólskir væru að ætterni. Edouard de Reszke var frábær söngvari, þótt hann væri alla ævi talsvert í skugga bróður síns.

 

 

 

 

 

 

 Pol Plancon

Pol Plancon (1854-1914) var á hinn bóginn allra söngvara dáðastur fyrir elegans, slípun og fágun. Þótt röddin væri ekki sérlega óvenjuleg frá náttúrunnar hendi, tókst honum með góðri skólun og þrotlausri vinnu að gera hana að hljóðfæri, sem vart átti sinn líka. Hann var hinn sanni „basso cantate”, sem auk þess að syngja fegurri og blæbrigðaríkari laglínu en nokkur annar bassasöngvari, hafði fullt vald á flúrsöng og gat sungið trillur og hlaup á við sjálfa Nellie Melba. Hann beitti þessu og óspart fyrir sig.

 

 

 

 

 

Marcel Journet

Marcel Journet (1867-1933) hafði hins vegar fengið óvenju glæsilega rödd í vöggugjöf. Röddin var bæði stór og mikil, en ólíkt flestum bassaröddum, sem vilja verða mattar og glanslausar, þá geislaði rödd Marcel Journet af birtu og glæsileik.
Bæði Pol Plancon og Marcel Journet urðu fljótt heimssöngvarar og frægir um víða veröld, þótt þeir hæfu feril sinn í heimalandinu. Þótt Pol Plancon hafi bróðurpart ævinnar starfað utan Frakklands, var hann alla tíð dæmigerður fransmaður í öllum háttum og lærði t.d. aldrei að gera sig skiljanlegan á ensku nema til að verða sér úti um brýnustu lífsnauðsynjar. Öðru máli gilti um Marcel Journet, sem hóf feril sinn í frönskum og ítölskum óperum, en varð síðar dáður Wagner söngvari. Hann réði einnig yfir óvenjulegu raddsviði þannig að hann gat auðveldlega sungið bass-barítónhlutverk í óperum Wagners og gerði það óspart. Þegar Rússinn Fjodor Sjaljapin var ráðinn að Metropolitan óperunni og sló öll met í vinsældum, dró Marcel Journet sig í hlé, enda kominn af besta skeiði. Hann hvarf aftur til Frakklands, starfaði þar áfram við góðan orðstír og var búsettur í föðurlandi sínu til æviloka.

Síðast uppfært ( Friday, 07 December 2007 )