Rut L. Magnússon

Rut L. Magnússon

Það var sannkallaður hvalreki fyrir íslenskt tónlistarlíf þegar Rut Magnússon, mezzósópran, fluttist hingað til lands frá London. Hún hefur nú látið hendur standa fram úr ermum sl. 40 ár. Listfengi af bestu sort, fögur rödd og skörp greind hafa ávallt verið hennar aðalsmerki og margir minnast glæsilegra afreka hennar með gleði. Sumum þykir hún hafa risið hæst í Pierrot Lunaire eftir Schönberg, en henni virtist láta jafn vel að syngja hvaða stíl sem er, allt frá erfiðustu torfum söngbókmenntanna yfir í lítil skemmtiljóð, enda þekkt fyrir létta lund og óborganlegan húmor, ekki síst fyrir sjálfri sér. Einu sinni þurfti hún að berutra vitni og var áminnt um að rangur framburður væri refsiverður, eins og venja er til. „Er þá ekki betra að þetta fari fram á ensku?!“ svaraði hún um hæl. Og Kristinn Hallsson hló sig máttlausan. En eins og flestir aðrir íslenskir söngvarar hefur hún þurft að gera fleira en að syngja, og hefur helgað sig uppbyggingu tónlistarlífsins og þannig látið til sín taka á ótrúlega mörgum sviðum. Rut er nú sest í helgan stein, en Jóhanna Þórhalls skrapp í heimsókn og spurði hana m.a. um söngkennarastarfið:

Það er janúarmorgun á því herrans ári 2006 og ég renn í hlaðið að Skipasundi, heimili Rutar Magnússonar.  Á hlaðinu tekur Jósef Magnússon, flautuleikari, eiginmaður Rutar á móti mér. Hann er í óða önn að moka gangstéttina; það er þessi líka fljúgandi hálka.

Rut tekur á móti mér í stofunni, búin að setja kaffibollana inn á stofuborð og brosir. Hún er alltaf jafnhlý og kankvísin leynir sér ekki í augunum.

Ég tek upp tölvuna mina, og velti því fyrir mér hvort ég geti bæði talað og skrifað um leið. En gamlir blaðamannataktar taka sig upp fljótlega og áður en við vitum erum við byrjaðar.

Rut Little er fædd í Carlisle í Norðvestur Englandi 1935. Hún flutti til London árið 1954 og hóf nám í læknisfræði við Royal Free Hospital School of Medicine, en var samtímis í söngtímum hjá próf. John McKenna, sem kenndi við Guildhall School of Music. Ári seinna hætti hún í læknisfræðinni og hóf söngnám í Guildhall. Seinni söngkennari hennar var Roy Hickman prófessor. Hún útskrifaðist með söngkennara- og einsöngvarapróf 1959. Rut vann til verðlauna og söng víða bæði óratoríu- og ljóðatónleika, en möguleikar í óperu voru litlir í Englandi á þessum tíma, nema í konsertuppfærslu.

-Hvað ertu búin að kenna lengi?

Ég er búin að kenna í 43 ár. Það vildi þannig til að Roy Hickman fór í nokkrar vikur til Kanada, sem prófdómari hjá Associated Board of Music og ég tók við einkanememendum

rutcarmen1
Carmen í Þjóðleikhúsinu

hans. Svo var ég líka með mína nemendur og kenndi í kennaraháskóla í Bognor Regis á suðurströnd Englands. Roy var örlagavaldur minn á margan hátt; hann hafði verið hér í stríðinu og söng meira að segja fyrir Tónlistarfélagið. Einar Vigfússon sellóleikari var góður vinur hans. Þegar Jósef fór svo til Englands til náms á sínum tíma hafði hann samband við Einar, sem aftur hafði samband við Roy, sem bað mig um að hjálpa honum. Það var til þess að við Jósef hittumst.

-Hvernig var að koma til Íslands sem söngkennari?

rutthrymskv
Rut L. Magnússon í Þrymskviðu

Rut hlær þegar hún hugsar til baka. Það var mikil breyting að koma beint frá London, og svo var ég komin með ungabarn. Auðvitað var Sinfóníuhljómsveitin, Pólyfónkórinn, Fílharmonían og Tónlistarfélagið. En mjög fáir tónlistarskólar og ekki mikil söngkennsla. Ég kenndi fyrst heima hjá mér og mikil kennsla fór einnig fram í kórunum, með raddþjálfun. Ég fór strax að þjálfa Liljukórinn fyrir upptöku með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við fluttum Jólakantötu eftir Karl O. Runólfssson um jólin. Haustið eftir voru haldnir norrænir músíkdagar í Reykjavík og þá þurfti að flytja kórlög eftir ýmis norræn tónskáld, m.a. þátt úr Requiem eftir Jón Leifs. Það var hóað saman 17 úrvalssöngvurum í kammerkórinn og við tókum þátt í þessu undir minni stjórn.

rutcarmen2
Carmen í Þjóðleikhúsinu

Ég hélt áfram með báða kórana og um jólin 1967 héldum við jólatónleika með innlend og erlend lög m.a. Ceremony of Carols eftir Benjamin Britten fyrir jól í Háteigskirkju,sem var þá nýbúið að byggja. Það var óvenjulegt að halda tónleika fyrir jól á þessum tíma, jólatónleikar voru alltaf haldnir eftir jólin á milli jóla og nýárs. Nú, meðfram þessu var ég alltaf að syngja. Fyrst söng ég á Íslandi fyrir Tónlistarfélagið 1963. Við frumfluttum hér h-moll messuna og Mattheusarpassíuna eftir Bach, Ödipus Rex eftir Stravinsky, Requiem eftir Verdi og Missa Solemnis eftir Beethoven og einnig Das Lied von der Erde eftir Mahler.

Ég vann mikið með Kammersveit Reykjavíkur við flutning á íslenskum og erlendum verkum, svo sem I call it eftir Atla Heimi Sveinsson, og Pierrot Lunaire eftir Schönberg og svo tók ég þátt í óperuflutningi t.d. Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson og Silkitrommunni eftir Atla Heimi. Já, já, segir Rut, það var ýmislegt verið að sýsla. Á seinni árum var ég framkvæmdastjóri fyrir Listahátíð þrisvar sinnum og einnig var ég framkvæmdastjóri hjá Sinfóníuhljómsveit Æskunnar, Tónlistarhúsinu og Tónlistarfélaginu. Að ógleymdri sönghátíð 1983 sem var haldin fyrir tilstilli Halldórs Hansen. Ég stjórnaði einnig Háskólakórnum og Senjórítunum.

-En víkjum nú að söngkennslunni.

Ég kenndi fyrst bæði í Söngskólanum og í Tónlistarskólanum í Reykjavík, en seinna eingöngu í Tónlistarskólanum, fyrst við tónmenntakennaradeild og síðan var stofnuð söngdeild. Þar kenndi ég ásamt Sieglinde Kahman og Elísabetu Erlingsdóttur, og var síðustu árin þar yfirkennari skólans.

-Hvað er það fyrsta sem þú gerir þegar þú færð nýjan nemenda í hendurnar?

Fyrsti tíminn fer í að kynna nemanda og kynna kennarann. Nemendur eru mjög misjafnlega undirbúnir þegar þeir koma til manns. Ef þeir eru búnir að undirbúa sig þá eru þeir að sjálfsögðu látnir syngja, en aðrir koma kannski ekki með neitt. Ég prófa heyrnina og athuga ef hann hefur sungið áður, t.d. í kór. Er hann opinn fyrir öðrum listgreinum? Hvað er hans áhugasvið í tónlist og fer hann oft á tónleika? Hvert er áhugamálið og menntunin? Hefur hann lært tungumál? Ég hlusta líka á talröddina. Líka gott fyrir nemenda að hafa ímyndunarafl og vera forvitinn. Ef um algjöran byrjanda er að ræða finnst mér best að halda mig við íslensku lögin. Í upphafi er nóg að fást við án þess að þurfa að bæta við öðru tungumáli. Ég reyni að vekja nemandann til umhugsunar um hvað er bak við textann. Túlkun verður að þróa samhliða tækniþróun.

-Jæja tölum meira um tæknina. Hvernig útskýrirðu tæknina?

rutkorÞað er varla hægt að útskýra söngtækni í nokkrum línum – og nú þegar hafa ótal margar bækur verið skrifaðar um söngtækni og án efa nokkrar enn óskrifaðar. Svo eru allir nemendur einstakir. Hvernig beitir nemandinn röddinni? Sumir hafa stjórn á önduninni, aðrir ekki. Sumir eru í góðu líkamlegu ástandi, aðrir ekki. Líkamlegt ástand hefur mjög mikið að segja.

En það þarf að athuga líkamsstöðuna – öndun – stuðning – tónmyndun -hljómmyndun -lausan kjálka -stöðu tungunnar –sérhljóða- og samhljóðamyndun -framburð -jöfnun raddsviða – stíl – tungumál – repertoire. Markmiðið hlýtur að vera að gefa nemendanum það tæknilega vald yfir röddinni sem veitir honum það frelsi að flytja það verkefni fullkomlega sem hann tekur sér fyrir hendur. Kennarar verða líka að vita ef og hvenær nemandi þarf að fara til annars kennara.

-Hvað með sviðskrekk, er hægt að hjálpa nemanda með sviðskrekk? Er til svar við honum?

Flestir þjást einhvern tíma af sviðskrekk og ég var ekki undantekning. Ef undirbúningur er góður og raddtækni byggð á góðum grunn þá hjálpar það. Einnig er gott að finna sína eigin rútínu fyrir tónleika t.d. fór ég fyrir tónleika yfir hvert einasta lag í huganum, frá byrjun til enda samdægurs. En með aukinni reynslu og sjálfstrausti kemur aukið öryggi. Það er mikilvægt að byggja efnisskrána vel upp, það hjálpar bæði söngvaranum og áheyrendum. Vel byggð efnisskrá gengur langleiðis að skapa hið undarlega samband sem myndast á milli áheyrenda og söngvara.

-Hvernig augum líturðu framtíðina?

Stofnun söngkennarafélagsins er mjög jákvæð til að styðja við bakið á söngkennurum og nemendum. Það þarf að vinna að því að tryggja stuðning hins opinbera, sveitarfélaga eða ríkisins við kennslu fyrir nemendur á hærri stigum og leysa núverandi vandamál nemenda sem vilja stunda nám í öðrum sveitafélögum en þeir eiga heima í.

Svo er kannski kominn tími til að gefa út orðabók til að samræma og útskýra orðtæki sem notuð eru við söngkennsluna. Og mig langar að bæta því við, að það er kannski tími til kominn að félagið standi fyrir pallborðsumræðum.. _ Er til íslenskur söngskóli? Íslenskur söngskóli í stærra samhengi, hvernig hefur hann myndast, hvernig er hann og hvert stefnir hann?

Við Rut fáum okkur kaffi og köku og höldum áfram að spjalla óformlega um sönginn og sönglífið. Hún talar um þessa atvinnugrein á Íslandi að vera söngvari. Flestir þurfa að gera miklu meira en að syngja. Eins og hún sjálf hefur gert. Samt held ég varla að margir hafi verið jafn afkastamiklir og hún. Ég á margar skemmtilegar endurminningar af henni uppi á sviði. Aldrei hvarflaði það að mér að hún væri hugsanlega með einhvern sviðskrekk. Af og frá. En nú er tímabært að pakka niður tölvunni, og koma sér heim á leið. Eiginlega langar mig mest til að skrifa heila bók um hana, en þetta verður að nægja að sinni.

22. maí 2006

  • Jóhanna V. Þórhallsdóttir

Fleiri viðtöl