Hver svífur hæst? – sópranröddin

Hver svífur hæst? – sópranröddin
Skrifað af Administrator
Monday, 23 January 2006
Hugleiðingar um sópranröddina eftir HALLDÓR HANSEN

June Anderson, ein þekktasta sópransöngkona heims um þessar mundir:

Eitthvað er það djúpt í mannlegu eðli, sem þráir að leita á brattann, komast upp á tindinn og hefja sig til flugs.  Íþróttahetjur hafa ekki látið sitt eftir liggja í þeim efnum, en þyngdarlögmálið stangast á við markmiðið þegar líkaminn á í hlut.  Það er öðru máli að gegna um mannsröddina, sem á auðveldar með að svífa, svo að ekki sé minnst á mannsandann, sem getur svifið, jafnvel þótt líkaminn sé hlekkjaður. Ekki ólíklega á þetta fyrirbæri mannlegs eðlis sinn þátt í því að mannkynið hefur ávallt dáð söngraddir, sem geta breitt úr sér á hæsta sviðinu og jafnvel losað sig undan lögmálum hins líkamlega.  Engin rödd á auðveldara með að svífa en sópranröddin, enda engin rödd verið almennar dáð í sögu tónlistarinnar, eftir að konur fóru að hasla sér völl á söngleikasviðinu á annað borð.

Það þurfti söngvara á borð við Enrico Caruso til að hnekkja valdi prímadonnunnar í heimi óperunnar og koma karlmönnum þar inn með tærnar, sem konur höfðu hælana.  Prímadonnan réði sem sagt ríkjum og var nær undantekningarlaust sópransöngkona, sem gat framleitt tóna af þvílíkri fegurð, styrk og hæð, að undrum sætti.  Það var hennar aðalsmerki og þeim mun auðveldar sem hún gat sungið tónstigann upp úr öllu valdi, þeim mun öruggari var hún í sessi.  Prímadonnur blómstruðu á 18. og 19. öldinni og vel framan af þeirri tuttugustu, og fyrirbærið heldur enn velli, þó að tenórsöngvarar keppi nú við prímadonnuna um vinsældir almennings af sívaxandi hörku.

Nýir tímar og breyttar kröfur

Lengi framan af var það hinn skæri, bjarti tónblær sópranraddarinnar og hæfileiki til að svífa léttilega og fyrirhafnarlaust yfir öðrum röddum og hljóðfærum, sem talinn var skipta öllu máli og menn létu það lítt á sig fá, þótt röddin væri nokkuð einlit, ef hún hafði til að bera fagran blæ frá náttúrunnar hendi.  Raddþróttur þótti heldur ekki skipta höfuðmáli, því að röddin smaug auðveldlega og heyrðist oft betur en kraftmeiri dekkri raddir.  Engu að síður, þegar leið á 19. öldina, var farið að semja tónlist sem gerði kröfur til þess að sópranröddin hefði meiri þrótt og fyllingu og gæti brugðið fyrir sig fleiri litbrigðum en áður höfðu þótt nauðsynleg.  Og loks var farið að semja tónlist, þar sem raddmagnið skipti meira máli en eiginlega allt annað.  Því leið ekki á löngu þar til farið var að skipta sópranröddum í undirflokka, þó að mörkin væru engan veginn skýr.  Í heimalandi óperunnar, Ítalíu, var með tíð og tíma farið að aðgreina eftirfarandi gerðir af sópranröddum og þá stuðst að mestu við hvernig þær voru gerðar frá náttúrunnar hendi, en einnig í hvaða átt þær höfðu verið þróaðar.

Á ítalskri tungu er talað um eftirfarandi gerðir af sópranröddum:

Coloratura:

Hin þýska Diana Damrau, ein eftirsóttasta næturdrottningin um þessar mundir:

Fleiri dæmi: Diddú,  Sumi Jo, Edita Gruberova, Joan Sutherland, Beverly Sills, Nellie Melba, Adelina Patti. Lillian Watson. Anneliese Rothenberger, Rita Streich,

Orðið coloratura er upphaflega dregið af orðinu “colore”, sem þýðir litur.  En í tímans rás hefur það breytt um merkingu.  Þegar talað er um kólóratúr-sópran í dag er venjulega átt við rödd, sem hefur mjög mikla hæð, t.d. upp á, eða upp yfir F fyrir ofan þrístrikað C, en jafnframt mikinn lipurleik og er sérhæfð í að syngja trillur, hlaup og skala af einstakri leikni.  Fyrr á tímum var orðið “coloratura” ekki notað um neina eina raddgerð, heldur ætlast til að hver einasta rödd hefði þann lipurleika til að bera, sem söngmátinn gerir kröfur til.  Jafnvel bassasöngvurum var ætlað að skreyta sönginn með alls konar flúri.  En smám saman varð þessi söngmáti svo til einkaeign hárra sópranradda, enda auðveldastur fyrir þær. Á allra seinustu árum hefur þó orðið endurvakning á sviði skrautsöngsins, þannig að fleiri raddir eru aftur farnar að leggja fyrir sig flúrsöng.

Dæmi um hlutverk: Næturdrottningin (Töfraflautan – Mozart), Constanze (Brottnámið úr kvennabúrinu – Mozart), Lucìa (Lucìa di Lammermoor), Olympía (Ævintýri Hoffmanns – Offenbach), Semíramíde (Semíramíde – Rossini).

Leggiero:

Hin bandaríska Barbara Bonney, gullfallegur lýrískur – leggiero sópran:

 

Fleiri léttar: Hulda Björk Garðarsdóttir, Kathleen Battle, Ileana Cotrubas, Anna Moffo,

Leggiero þýðir í raun og veru einungis að röddin sé létt í eðli sínu.  Þetta er yfirleitt rödd sem er björt og skær, minnir á vor og æskublóma.  Ef hún hefur tilhlýðilega hæð, liggur beint við að þróa hana í átt að kólóratúr söng, því að oftast er þetta mjög lipur rödd frá náttúrunnar hendi.  Ef hæðin er ekki fyrir hendi, en raddliturinn skær og ungæðislegur, liggur vel fyrir þessari rödd að túlka sakleysi og lífsreynsluleysi, en jafnframt hefur þessi raddgerð oft mjög mikinn yndisþokka til að bera og lætur vel að túlka daður og ástleitni, og er þá oft þekkt undir nafninu “soubretta”.  Orðið er dregið af franska orðinu “soubrette”, sem þýðir eiginlega þjónustustúlka, en er einnig notað um konur sem hafa ráð undir rifi hverju og kunna að nota kvenleikann til að koma ár sinni vel fyrir borð.

Hlutverk fyrir leggiero sópran: Despína (Così fan tutte- Mozart), Súsanna (Brúðkaup Fígarós- Mozart), Marzelline (Fidelio – Beethoven), Adele (Leðurblakan – J. Strauss)

Lirico:

Renée Fleming frá Rochester í New York, einni skærustu stjörnu óperuheimsins í dag, virðast engin takmörk sett í röddinni:

 

Önnur dæmi: Sólrún Bragadóttir, Kiri Te Kanawa, Mirella Freni, Montserrat Caballé,  Virginia Zeani,  Victoria de los Angeles, Gundula Janowitz, Elisabeth Schwarzkopf, Licia Albanese.

Lýrískur sópran var lengi hin eina sanna sópranrödd.  Það er enn björt og skær rödd, en samt með örlítið dekkri raddblæ en leggiero röddin og verulega meiri fyllingu.  Henni lætur betur að túlka mannlega dýpt og þá sér í lagi tilfinningalíf stúlkunnar í öllum sínum blæbrigðum.  Venjulega getur þessi rödd sungið þrístrikað C léttilega og stundum eitthvað þar fyrir ofan, en lætur best að breiða úr sér á efra miðsvinu.  Hún hefur sjaldnast mikinn þrótt á neðra miðsviðinu, en þó mun meiri en t.d. leggiero sópran.  Einstaka sinnum getur þessi rödd haft óvenjumikla hæð fyrir raddgerðina og meiri lipurleika en gengur og gerist.  Þá er oft talað um lýrískan kólóratúrsópran.

Dæmigerð hlutverk: Mímí (La Bohème – Puccini), Tatjana (Évgéní Ónégin – Tsjækofskí), Liù (Turandot – Puccini), Eva (Meistarasöngvararnir frá Nürnberg)

Lirico-spinto:

Cheryl Studer frá Michigan þykir með þeim flottari í þyngri kantinum:

 

Fleiri spintóar: Elín Ósk Óskarsdóttir, Ólöf Kolbrún Harðardóttir, Carol Vaness, Jessye Norman, Katia Ricciarelli, Renata Tebaldi, Rosalind Plowright, (nú farin að syngja mezzó),  Julia Varady.

Orðið lirico-spinto þýðir að um lýríska rödd sé að ræða, en röddin hefur verið þanin út á ystu nöf hins mögulega, ef svo má að orði komast.  Röddin hefur nokkurn veginn sama umfang og lýrísk sópranrödd og getur sungið þrístrikað C, ef þörf gerist, en nýtur sín mun betur á lægra raddsviðinu en lýríska röddin og syngur af meiri þrótti, meiri fyllingu og með muun dekkri litblæ en hreinlýrísk rödd.  Margar hreinlýrískar sópranraddir þróast í þessa átt þegar árin færast yfir, þar eð flestar raddir hafa tilhneigingu til að lækka sig og dökkna með aldrinum.  Þessari rödd lætur best að túlka tilfinningalíf konunnar fremur en stúlkunnar og þá gjarnan tilfinningalíf konunnar á erfiðari augnablikum lífsins.

Hlutverk t.d.: Floria Tosca (Tosca – Puccini), Aida (Aida – Verdi), Sieglinde (Valkyrjan – Wagner), Leónóra (Á valdi örlaganna – Verdi), Elisabeth de Valois (Don Carlos – Verdi)

Drammatico:

Deborah Voigt, Chicago mær, er einn glæsilegasti fulltrúi þykkasta sópranlitsins í fleiri en einum skilningi (henni var m.a.s. gert að taka pokann sinn frá Covent Garden í fyrra, vegna þyngdar, og varð af því mikil rekistefna)

 

Aðrar dramatískar: Gwyneth Jones, Eva Marton, Birgit Nilsson, Kirsten Flagstad, Margaret Harshaw. 

Drammatico er rödd hetjunnar, sem berst af hugrekki við ofurafl örlaganna. Dramatískur sópran hefur nokkuð svipað raddumfang og lýrískur og lirico-spinto sópran, en mun meiri þrótt og kraft og dekkri raddblæ og meiri fyllingu en allar hinar raddgerðirnar til samans.  Raddstyrkurinn er hér hærra skrifaður en hrein raddfegurð og lipurleiki; eiginleikar sem verða oft undan að láta, sérlega ef raddmagnið er framkallað með þrotlausri þjálfun í stað þess að vera hrein gjöf nátúrunnar.  Það gerist nokkuð oft, þar eð þessi rödd er frámunalega sjaldgæf frá náttúrunnar hendi, en þeim mun eftirsóttari.  Því freistast margir til að þjálfa fíngerðari raddir upp í þungavigtarklassann til að mæta eftirspurninni, þótt það sé líklegt til að stytta söngævina til muna.

Dramatísk sópranhlutverk eru t.d.: Brynhildur (Hringurinn – Wagner), Ísold (Tristan og Ísold – Wagner), Elektra (Elektra – R.Strauss), Norma (Norma – Bellini), Turandot (Turandot – Puccini).

Sjaldgæfasta sópranröddin af öllum er svokallaður “soprano drammatico d’agilità” eða dramatískur kólóratúrsópran.  Það er svo vegna þess að raddmagn og fylling stangast í eðli sínu á við raddlipurð og sveigjanleika og flestar dramatískar raddir eru eins og klettur í hafinu og jafnósveigjanlegar.

Í hinum þýskumælandi heimi er gjarnan talað um tvenns konar dramatískar sópranraddir.  Önnur er kölluð “jugendlich-dramatisch” eða dramatísk rödd með ungæðislegu ívafi.  Hin aftur á móti “hoch-dramatisch” eða hádramatísk rödd.  Þeirri rödd er ætlað að yfirgnæfa fullskipaða nútíma sinfóníuhljómsveit og hafa betur.  Þessar raddir sérhæfa sig gjarnan í að syngja þyngstu hlutverk í óperum Richards Wagner og Richards Strauss.

– HALLDÓR HANSEN. (myndatextar og dæmi um söngkonur BP)

Síðast uppfært ( Friday, 07 December 2007 )