Eftirminnilegir tenórsöngvarar frá 1925-39

Eftirminnilegir tenórsöngvarar frá 1925-39 PDF Prenta Rafpóstur
Skrifað af Administrator
Saturday, 21 January 2006
   eftir HALLDÓR HANSEN (birtist fyrst í Óperublaðinu 2.tbl. 12.árg. nóv. 1998)

Stórar og voldugar raddir eru dáðar öðrum fremur á óperusviðum nútímans og það því fremur sem þær verða sjaldgæfari.  Ef til vill er mannlegt eyra nútímans orðið svo vant hljómmögnun af öllum gerðum, að náttúrleg og ómögnuð hljóð fölna í samanburðinum.  Á Ítalíu nútímans tala menn til dæmis með fyrirlitningu um “tenorino” eða hálftenóra, sem standast ekki samanburð við aðrar voldugri og kraftmeiri raddir, sem séu hinar einu, sem mark er á takandi.  Þær léttari séu hálfgert plat.
En svo hefur ekki verið alla tíð.  Það þarf ekki að líta ýkja langt til baka til að uppgötva að eitt sinn kunnu menn vel að meta fíngerðar, blæbrigðaríkar raddir, sem stundum höfðu til að bera meiri hljómfegurð en þær voldugri. Væri rétt sungið, drógu þessar raddir jafnvel stundum betur en stærri og þykkari raddir í stórum óperuhúsum eða hljómleikasölum.  Konungur þessara léttu tenórradda var án efa Tito Schipa, sem var ekki einungis vinsæll og dáður af hljóðritunum sínum, heldur einnig á óperu- og tónleikasviðinu.  Ég get persónulega borið því vitni að jafnvel um sjötugt söng hann þannig, að alls staðar heyrðist og skilja mátti hvert orð sem hann söng, í stærsta tónleikasal Parísarborgar, Salle Pleyel.  En það voru fleiri vinsælir tenórsöngvarar í léttavigtarklassanum eða svokallaðir “tenori di grazia” á ítalskri tungu.  Ég ætla að minnast á tvo söngvara af þessari gerð, Dino Borgioli og Enzo de Muro Lomanto.  Þeir áttu það sameiginlegt að hafa báðir lagt stund á lögfræðinám, áður en sönggyðjan náði þeim á sitt vald.

Dino Borgioli (1891-1960)

 fæddist í Flórens og kom fyrst fram í Teatro dal Verme, en fyrir tilstilli hljómsveitarstjórans Arturo Toscanini var hann fljótlega ráðinn að La Scala óperunni í Mílanó.  Hann varð brátt vinsæll gestur erlendis, söng við Covent Garden óperuna í London, teatro Colón í Buenos Aires, við Parísaróperuna og Berlínaróperuna.  Hann tók þátt í tónlistarhátíðinni í Salzburg árið 1931, þar sem hann söng greifann í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini og aftur 1036 og 1937 þegar hann söng Fenton í óperunni Falstaff eftir Verdi.  Hann var meðlimur Metropolitan óperunnar í New York 1934-1935.
Árið 1939 settist hann að í London ásamt ástralskri eiginkonu sinni, Patricia Moore, sem einnig var söngkna.  Sama ár dró hann sig í hlé frá söng á opinberum vettvangi en stofnaði og stýrði The New London Opera Company og gerðist vinsæll, virtur og vel þekktur söngkennari.  Dino Borgioli var frábærlega fágaður og smekkvís söngvari, nokkurs konar merki eðalmennskunnar í meðferð sinni á rödd og tónlist.  Hann var því einn af þeim söngvurum sem voru sérlega dáðir af öðrum fagmönnum og ekki spillti það fyrir að hann var glæsimenni á sviði.
Nútíminn minnist Dino Gorgioli fryst og fremst fyrir það, að hann tók þátt í einum fyrstu hljóðritunum, sem gerðar voru af Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini og Rigoletto eftir Verdi.

Enzo de Muro Lomanto (1902-1952)

 var söngvari af nokkuð annarri gerð, en var í miklum metum á Ítalíu um hríð.  Hann fæddist í Canosa di Puglia en lést í Napólí.  Hann stundaði söngnám og laganám í Napólí og var oft álitinn hinn dæmigerði napólítanski söngvari, þótt hann væri ekki innfæddur Napólíbúi.  Söngnám stundaði hann við tónlistarskólann San Pietro di Majella þar í borg og er álitinn hafa verið nemandi hins fræga tenórsöngvara Fernando di Lucia.  Söngmátinn bendir til að þær tilgátur séu réttar.  Þó að hann kæmi fyrst fram í óperunni La Traviata í Catanzaro, söng hann sig til sigurs sem Cavaradossi í óperunni Tosca og sem hertoginn í Rigoletto við San Carlo óperuna í Napólí.  Eftir það söng hann víða sem gestur í Frakklandi og Sviss en heimsathygli vakti hann fyrst þegar hann kom fram í frumflutningi á óperunni Il Re eftir Giordano á La Scala óperunni í Milanó árið 1929.  Hann varð umsvifalaust einn af vinsælli söngvurum þar í borg og Arturo Toscanini studdi hann með ráðum og dáð.  Hann var einn þeirra söngvara sem tóku þátt í gestaleik La Scala óperunnar í Berlín árið 1929.
Ekki minni athygli vakti það þegar hann gekk að eiga hina frægu kólótatúrsöngkonu Toti dal Monte þegar þau voru á söngferðalagi í Ástralíu og Japan.  Sú hjónavígsla fór fram með pompi og pragt í Ástralíu og var sá viðburður mikið auglýstur um allan heim.  Engu að síður varð hjónabandið ekki endingargott og flosnaði upp árið 1932.  Þau eignuðust þó eina  dóttur, sem síðar varð augasteinn móður sinnar.
Ferill Enzo de Muro Lomanto varð þó ekki langur.  Hann hélt áfram að syngja á Ítalíu og var gestur Ítölsku óperunnar í Hollandi 1934 og aftur 1936-7, en heilsu hans fór að hraka strax upp úr fertugu og hafði það áhrif á röddina sem fór að gefa sig.  Hann lést langt um aldur fram eða einungis fimmtugur að aldri.
Rödd Enzo de Muro Lomanto naut sín best í bel canto óperum og hann varð einnig þekktur fyrir meðferð sína á napólítönskum söngvum.  Hann hafði til að bera rödd sem hafði einkennilega fagran blæ á miðsviðinu, en var takmörkuð í hæðinni.  Röddin var kraftmeiri en t.d. rödd Tito Schipa eða Dino Borgioli og fyrir bragðið gat hann sungið þyngri óperuhlutverk.  Hann naut sín best, þegar hann gat leikið sér að litbrigðum og alls konar blæbrigðum í bel canto óperum á þann hátt sem kennari hans, Fernando de Lucia, var frægur fyrir á fyrri tímum.  Söngmáti hans höfðaði mjög svo til alls almennings á Ítalíu.  Upphaflega hét Enzo de Muro Lomanto Lorenzo de Muro, en breytti nafni sínu og bætti móðurnafninu Lomanto við til að vera ekki ruglað saman við annan og eldri dramatískan tenórsöngvara Bernardo de Muro.

Alessandro Ziliani (1906-1977)

 var einn af litríkari persónuleikum í tenórastétt og hafði ekki einungis til að bera glæsilega lýríska tenórrödd, heldur einnig frábært útlit og leikhæfileika, þannig að hann söng sig ekki einungis til sigurs á óperusviðinu heldur einnig í kvikmyndum.  Hann var um skeið kvæntur söngkonunni Maföldu Favero, sem var engu síður vinsæl.
Alessandro Ziliani fæddist í Busetto, nálægt La Roncole, þar sem Giuseppe Verdi kom í heiminn.  Hann stundaði nám í Mílanó hjá Alfredo Cecchi.  Árið 1929 kom hann fyrst fram í óperunni Madame Butterfly eftir Puccini í Teatro Dal Verme í Mílanó og vakti þvílíka athygli, að His Master’s Voice bauð honum að syngja hlutverk Alfredos í La Traviata í fyrirhugaðri hljóðritun af óperunni.  Hann kom einnig fram við Ítölsku óperuna í Hollandi, en það var ekki fyrr en 1934 að La Scala óperan réði hann til sín til að syngja hlutverk Enzo í óperunni La Gioconda eftir Ponchielli.  Fyrr á árinu hafði hann einnig komið fram í Lucìa di Lammermoor í Arena di Verona með Toti dal Monte.  Þar með var hann kominn í röð efitrsóttustu tenórsöngvara Ítalíu af lýrísku gerðinni og sama ár, 1934, flutti hann tenórhlutverki í óperunni María Egiziaca eftir Respighi undir stjórn höfundarins.  Hann naut mikilla vinsælda í hlutverki Hulien í óperunni Louise eftir Charpentier, Faust í Mefistofele eftir Boïto, Paolo í Francesca da Rimini eftir Zandonai og Pinkerton í Madame Butterfly eftir Puccini.  Árið 1938 var hann í San Fransisco með eiginkonu sinni þáverandi, Maföldu Favero, en Metropolitan óperan réði hann þó aldrei til sín.  Hins vegar var hann oft gestur í Þýskalandi.  Söng og líka t.d. í kvikmyndinni Liebeslied sem var gerð bæði á þýsku og ítölsku.
Eftir seinni heimsstyrjöldina átti hann enn eftir nokkur ár sem vinsæll óperusöngvari og söng meðal annars með Mariu Callas í óperunni Armida eftir Gluck í maí 1952.  Eftir að hann hætti að syngja opinberlega gerðist Alessandro Ziliani umboðsmaður fyrir söngvara og stofnaði umboðsskrifstofuna Alci sem varð brátt ein sú umsvifamesta og mikilvægasta á Ítalíu.  Rödd Alessandor Ziliano var ávallt lýrísk og hljómfögur.  Hún skein af miklum glæsibrag í hæðinni alla tíð og má eflaust rekja það til þess að hann forðaðist hlutverk sem hann taldi of þung fyrir sína rödd og keyrði hana því aldrei fram yfir það sem henni var náttúrlegt og eðliegt.

Francesco Merli (1887-1976)

 var mikils metinn dramatískur tenórsöngvari sem starfaði engu að síður talsvert í skugga annarra söngvara í sama fagi, og þá sérstaklega í skugga Giacomo Lauri-Volpi, Aureliano Pertiles og Giovanni Martinellis.  Hann stundaði söngnám í Mílanó hjá Negrini og Borghi og vann önnur verðlaun í söngkeppni fyrir unga söngvara árið 1914.  Sigurvegarinn í þeirri keppni var enginn annar en Beniamino Gigli.  Eftir að hafa reynt fyrir sér í smærri leikhúsum, var hann ráðinn að La Scala óperunni í Mílanó árið 1916 og vakti athygli í óperunni Moses eftir Rossini og La Straniera eftir Bellini.  En hann söng einnig önnur hlutverk í dramatíska faginu við góðar undirtektir, eins og Radames í Aïdu, Don Carlo í samnefndri óperu, Manrico í Il Trovatore, Andrea Chénier í samnefndri óperu Giordanos, Canio í I Pagliacci eftir Leoncavallo og Calaf í ópoerunni Turandot eftir Puccini.  Glanshlutverk hans varð engu að síður Otello í samnefndri óperu Verdis.  Árið 1932 var hann ráðinn að Metropolitan óperunni í New York, en varð að hverfa aftur heim til Ítalíu sakir veikinda.  Hann söng við La Scala óperuna til ársins 1942 og í Bologna, Napólí og Róm til ársins 1948.  Hann dró sig endanlega í hlé árið 1950, en kenndi söng eftir það í Mílanó.  Röddin var stór og kröftug og flutningur yfirleitt tilfinningaþrunginn.  Nútíminn minnist Francesco Merli ef til vill fyrst og fremst vegna þess að hann hljóðritaði oft og mikið og tók meðal annars þátt í einni fyrstu hljóðritun af Il Trovatore eftir Verdi, I Pagliacci eftir Leoncavallo, Manon Lescaut  eftir Puccini og Turandot eftir Puccini.

Giacomo Lauri-Volpi (1894-1979)

 var dramatískur tenórsöngvari í algjörum sérklassa.  Hann fæddist í Lanuvio rétt fyrir utan Róm og stundaði söngnám við Academia di Santa Cecilia þar í borg.  Fyrsti kennari hans var Enrico Rosati, en síðar tók hinn þekkti söngvari Antonio Contogni við.  Giacomo Lauri-Volpi kom fyrst fram í óperunni I Puritani eftir Bellini í Viterbo.  Á næstu árum þar á eftir naut hann sérstakra vinsælda í Teatro Constanzi í Flórens sem og í Genoa og Teatro Colón í Buenos Aires og óperunni í Rio de Janeiro í Brasilíu.
Hann kom fyrst fram á La Scala óperunni í Mílanó árið 1922 og var ráðinn að Metropolitan óperunni árið 1923.  Fyrsta hlutverk hans þar var hertoginn í Rigoletto eftir Verdi og ekkert lát var á vinsældum hans til ársins 1933, að hann hvarf aftur heim til Ítalíu.
Tónlistarhátíðirnar við Maggio Musicale í Flórens fóru heldur ekki varhluta af þátttöku hans, en öllu öðru fremur var hann dáður fyrir frammistöðu sína við La Scala óperuna í Mílanó.  Hann flutti hins vegar frá Ítalíu til Spánar árið 1935, enda kvæntur spænskri konu.  Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar var starfssvið hans takmarkað við Spán og Ítalíu.  En ferill hans var óvenjulega langur og hann hætti ekki að koma fram opinberlega fyrr en árið 1965.  Hann skrifaði margar bækur um eigin söngferil, en þekktasta bók hans, Voci Paralelle kom út árið 1955 og í henni ræðir Giacomo Lauri-Volpi um samtíma og fyrri tíma söngvara eins og þeir koma honum fyrir sjónir.  Sú bók er hafsjór af fróðleik.
Það fór ekkert á milli mála að rödd og söngmáti Giacomo Lauri-Volpi voru í algjörum sérklassa.  Honum lét jafn vel að syngja létt tenórhlutverk frá belcanto tímabilinu sem að syngja þyngstu hlutverk verismo skólans og þegar frá leið varð frægasta hlutverk hans sennilega Otello eftir Verdi þar sem leikhæfileikar hans gáfu sönghæfileikum í engu eftir.
Það sem einkenndi söngmáta Giacomo Lauri-Volpi var að hann söng tiltölulega létt á miðsviði raddarinnar, sem gat þess vegna blómstrað í hæðinni.  Röddin var samtímis bæði jöfn og misfellulaus, en einkenndist af sérkennilegu víbratói, sem gerði röddina auðþekkjanlega innan um aðrar raddir.  Þessi söngmáti var í algjörri andstöðu við flesta söngvara, sem sérhæfðu sig í verismo óperum.  Flestir þeirra breiddu mjög gjarnan úr miðsviði raddarinnar, en þá gjarnan á kostnað hæðarinnar.  Þá létu þeir sér nægja að geta komist upp á hæstu tónana við og við, en komust í vanda ef þeir áttu að syngja til lengdar í hæðinni.  Flestir þessara tenórsöngvara sungu með tiltölulega dökkum raddblæ, en rödd Giacomo Lauri-Volpi var alla tíð björt og skær.

Aureliano Pertile (1885-1952)

 Það má nærri kallast kaldhæðni örlaganna að tveir af allra fremstu tenórsöngvurum Ítalíu fæddust með nokkurra daga millibili á sama árinu í smábænum Nontagnana nálægt Padua, eða þeir Aureliano Pertile og Giovanni Martinelli.  Þó fóru þeir engan veginn svipaðar leiðir að öðru leyti.  Giovanni Martinelli var orðinn leiðandi tenórsöngvari við Metropolitan óperuna í New York árið 1913 og var þekktastur fyrir feril sinn í Bandaríkjunum.  Aureliano Pertile varð hins vegar óumdeildur konungur í hinu dramatíska tenórfagi við La Scala óperuna í Mílanó.  Ólíkt Martinelli var Aureliano Pertile staðráðinn í því að verða söngvari strax á barnsaldri.  Hann hóf feril sinn sem kórdrengur við sóknarkirkjuna í heimabæ sínum og lagði ungur rækt við almennt tónlistarnám og nám í teoríu.
Árið 1906 hóf hann söngnám hjá Maestro V. Orfeice í Padua, en hélt síðan áfram söngnámi í Mílanó hjá Bavagnoli.  Hann kom fyrst fram á óperusviði 1911 í Vicenza og þá í hlutverki Lyonel í óperunni Marta eftir Flotow.  Fyrir bragðið varð hann fljótt eftirsóttur söngvari bæði á Ítalíu og í Suður-Ameríku.  Engu að síður stóð þó nokkuð á því að La Scala óperan kallaði hann til starfa.  Það var ekki fyrr en árið 1916.  Sú ráðning varð þó ekki langvinn.  Vegna hörmunga fyrri heimsstyrjaldarinnar neyddist La Scala óperan til að loka dyrum sínum um hríð.
Á árunum 1921-22 réði Aureliano Pertile sig því að Metropolitan óperunni í New York.  En sú ráðning varð einnig endasleppt, því að strax árið 1922 svaraði Aureliano Pertile kalli Arturo Toscaninis um að hverfa aftur til Ítalíu og taka upp sína fyrri stöðu við La Scala óperuna, sem tók aftur til starfa það ár.  Við La Scala óperuna söng hann svo viðstöðulaust til ársins 1937, að hann dró sig í hlé.  Aureliano Pertile var þekktur sem uppáhaldssöngvari Toscaninis, enda ekki í kot vísað.  Um röddina sjálfa mátti ef til vill deila, en enginn söngvari annar stóð honum á sporði að listrænum hæfileikum.  Aureliano Pertile lifði sig inn í hlutverk sín af slíkri snilld og einlægni, að engum mun líða úr minni, sem séð og heyrt hefur.
Hann var öllum ógleymanlegur í hlutverkum Radamesar í Aïdu, Manricos í Il Trovatore og Otellos í óperu Verdis, í Andrea Chénier í samnefndri óperu eftir Giordano, Canio í I Pagliacci og óteljandi öðrum óperum af ítalska og franska skólanum.  Hann teygði sig jafnvel yfir í Wagner fagið og söng meðal annars Lohengrin og Walter von Stolzing í Meistarasöngvurunum á sinn frábæra en engu að síður ítalska máta.

Giovanni Martinelli (1885-1969)

 fæddist eins og þegar er um getið í sama smábæ og Aureliano Pertile, en nokkrum dögum áður.  Hann sýndi hins vegar engan áhuga á listum í bernsku og sýnt þótti að hann mundi feta í fótspor föður síns, sem var húsgagnasmiður.  Sjálfur hafði hann ekkert við það að athuga.  Um tvítugsaldurinn var hann kallaður í herinn.  Þar var hann fenginn til að spila á klarinettu í herhljómsveitinni.  Þar kom í ljós að hann hafði til að bera prýðilega söngrödd.  Það varð úr að hann fór í einkatíma í söng hjá prófessor Mandolini í Mílanó, með þeim árangri að hann var ráðinn til að syngja í uppfærslu í óperunni Aïdu í heimabæ sínum, en ekki til að syngja aðalhlutverk, heldur eitt minnsta hlutverkið, hlutverk sendiboðans í fyrsta þætti.  Martinelli þreyttist aldrei á því að segja frá þessari fyrstu sviðsframkomu sinni.  “Ég var svo hræddur að ég hélt að mín seinasta stund væri komin og hef aldrei orðið fegnari neinu en þeirri stundu sem ég slapp aftur út af sviðinu.”  Samt varð hann ekki svo skelfdur að hann gæfist upp. Hann hélt áfram að reyna fyrir sér í smærri bæjum á Ítalíu og loks kom að því að hann var ráðinn til að syngja hlutverk Ernanis í samnefndri óperu Verdis við Teatro dal Verme í Mílanó.  Þar með var teningunum kastað og ferill hans kominn í öruggan farveg.  Hann söng sem gestur víða um Evrópu og frá 1912 var hann orðinn svo viðurkenndur að hann var ráðinn til að syngja hlutverk Cavaradossi í Toscu við góðar undirtektir við Covent Garden óperuna í London.  Sama ár var hann ráðinn að La Scala óperunni í Mílanó.  Árið 1913 bauðst honum ráðning við Metropolitan óperuna í New York, sem hann þáði.  Í New York var hins vegar Enrico Caruso hinn ókrýndi konungur tenórsöngvara.  Samkeppnisaðstaðan var því engan veginn hagstæð Giovanni Martinelli, þó að hin ungæðislegi ferskleiki raddarinnar vekti verðskuldaða athygli.
Þegar Caruso lést lá ekki alveg ljóst fyrir hver ætti að verða arftakinn og hljóta nafnbótina “fremsti tenórsöngvari heims”.  Sitt sýndist hverjum og Giovanni Martinelli var einn þeirra sem til greina kom, en sigurvegarinn í þeirri keppni varð þó Beniamino Gigli, þegar öll kurl komu til grafar.
Það leið samt ekki á löngu, þar til Giovanni Martinelli sagði skilið við lýrísk hlutverk og sneri sér af alefli að þeim dramatísku.  Hann varð þekktur fyrir söng sinn í Verdi hlutverkum eins og Manrico, Riccardo, Alvaro, Don Carlos og Radames.  Af Puccini hlutverkum var hann nafntogaður Dick Johnson í Fanciulla del West og sem Calaf í Turandot.  Hann bar og höfuð og herðar yfir aðra sem Andrea Chénier í samnefndri óperu eftir Giordano, sem Paolo í Francesca da Rimini eftir Zandonai, Canio í I Pagliacci eftir Leoncavallo, Turiddu í Cavalleria Rusticana eftir Mascagni, Arnaldo í Guglielmo Tell eftir Rossini, Eleazer í La Juive eftir Halévy, Vasco da Gama í L’Africaine eftir Meyerbeer og Don José í Carmen eftir Bizet.  En frægasta hlutverk hans var engu að síður Otello eftir Verdi, sem hann söng fyrst árið 1937, þegar hann var fimmtugur.
Eftir því sem aldurinn færðist yfir vann Giovanni Martinelli á sem leikari og túlkandi, en þeirri hlið listarinnar hafði hann gefið lítinn gaum í fyrstu.  Þegar frá leið voru fáir söngvarar sem stóðu honum á sporði hvað varðar virðingu fyrir tónskáldinu og hæfileika til að skapa ógleymanlegar persónur á leiksviði.  En jafnframt fór röddin að láta talsvert á sjá.  Menn voru ef til vill aldrei alveg á einu máli um það hvort rödd Giovanni Martinelli væri fögur eður ei, en það fór ekki á milli mála að söngur hans hitti ávallt í mark.  Röddin missti hins vegar tiltölulega fljótt blómann, sem hún hafði í upphafi, varð þurr og víbratólítil og heldur ósveigjanleg. Þessi raddblær truflaði suma meira en aðra, en listræna hæfileika Giovanni Martinellis dró enginn í efa, sem til hans sá á leiksviði.
Þó að hann drægi sig að nafninu til í hlé frá söng, hélt hann engu að síður áfram að syngja fram á gamals aldur.  Árið 1969 kom hann meira að segja fram í óperunni Turandot í Seattle í Bandaríkjunum og sagði í því sambandi:  “Fyrst söng ég prinsinn Calaf í þessari óperu.  Nú hef ég hækkað í tign og er farinn að syngja konunginn og sennilega er kominn tími til að ég fari að segja af mér embætti.”  Það gerði Giovanni Martinelli skömmu síðar, því að hann lést árið 1969 í New York.
– HALLDÓR HANSEN