Kristinn Hallsson – In memoriam

 Smellið til að hlusta á Fögur sem forðum . Fágætt listfengi og fágun voru aðalsmerki Kristins Hallssonar, bassasöngvara. Við lát Kristins skrifaði Bergþóra Jónsdóttir þessa ágætu grein í Morgunblaðið (smellið fyrir neðan myndina):

 

Það stafar ljóma af plötu sem til var á heimili foreldra minna – plötu í hvítu umslagi með svörtu prenti. Hún bauð ekki af sér neinn sérstakan þokka, og ætla hefði mátt að innihaldið væri nauða-ómerkilegt; svo illa var vandað til umslagsins, og textans þar – allt vaðandi í vitleysu. En kannski sannaðist þar hvað best að æ skal skoða innri mann því enn hefur ekki nokkur einasta íslensk hljómplata – geisladiskar meðtaldir – hrifið mig jafn mikið og þessi plata. Þarna voru að verki þeir Kristinn Hallsson bassasöngvari og Árni Kristjánsson píanóleikari. Báðir voru þeir öndvegis listamenn og miklir brautryðjendur í íslenskri tónlist. En augnablikin sem tók þá að hljóðrita þessa plötu voru sannkallaðar óskastundir. Fyrir þremur árum var platan loks gefin út á geisladiski – tvöföldum geisladiski með öllu því besta sem Kristinn söng. Þessar upptökur ættu að vera skylduhlustun fyrir alla íslenska tónlistarnema, hvort heldur er í söng eða hljóðfæraleik og líka þá sem langar að njóta þess sem hér hefur verið gert.

Nú er Kristinn Hallsson látinn, 81 árs. Hvað ytri aðbúnað söngvara áhrærir, og möguleika til náms og frama, frá þeim tíma sem Kristinn steig sín fyrstu skref í söngnum og til dagsins í dag, er óravegur á milli, jafnvel þótt í dag þyki okkur mörgu ábótavant. Það sem mest munar um er hin menntaða sönghefð, sem var nánast engin hér þá, en við höfum í dag. Í þá daga þótti jafn fráleitt að karlmaður ætlaði að mennta sig og hafa atvinnu af söng – jafnvel þótt það væri erlendis og það þætti í dag ef kunnáttulaus Íslendingur teldi sig eiga möguleika á að verða vínræktarséní á Ítalíu. Hefðin var annars staðar og skilningur þjóðarinnar á söngmennt af skornum skammti. Þó höfðu nokkrir íslenskir ofurhugar stigið þessi skref og eðlilega varð starfsvettvangur þeirra erlendis, að minnsta kosti um tíma. Í þessum hópi voru Ari Jónsson, Pétur Á. Jónsson, Eggert Stefánsson, María Markan, Stefán Íslandi, Einar Kristjánsson og Þorsteinn Hannesson.
Kristinn Hallsson var í hópi þeirra sem töldu að betra væri að beina kröftunum að þeirri uppbyggingu sem hér bar brýna nauðsyn til að sinna. Hann stóð þá plikt með miklum sóma.
Kristinn Hallsson fæddist 4. júní 1926 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Hallur Þorleifsson skrifstofumaður og Guðrún Ágústsdóttir söngkona. Kristinn lauk verslunarskólaprófi 1945, en það var tónlistin sem togaði í hann. Það var mikil músík á æskuheimili hans og hann fékk tilsögn í söng. Það var sjálfsagt og sjálfgefið að Kristinn færi ungur að syngja hjá pabba sínum í sönghópnum Kátum félögum, og fyrr en varði var hann farinn að syngja einsöng með þeim. Hann var þá enn innan við tvítugt. Kristinn fékk tilsögn í söng hjá Guðmundi Jónssyni, sem var sjálfur nýkominn heim úr námi, og hæfileikarnir leyndu sér ekki. Tæpast verður sagt að hann hafi verið orðinn hámenntaður í sönglistinni þegar hann var beðinn að syngja einsöngsbassahlutverkið í Sálumessu Mozarts, þegar hún var flutt á vegum Tónlistarfélagsins í Reykjavík 1949. Hann var góður söngvari; – það góður að hann var valinn til að syngja í fyrstu óperuuppfærslu Þjóðleikhússins, Rigoletto, árið 1951. Eftir það lá leiðin beint til Lundúna í alvörusöngnám við Royal Academy of Music. Þaðan lauk hann prófum árið 1954. Eftir heimkomuna vann hann skrifstofustörf en kenndi jafnframt söng og söng sjálfur við þau tækifæri sem gáfust og góðu heilli áttu þau eftir að verða mörg.

Í viðtali sem ég átti við Kristin fyrir nokkrum árum spurði ég hann hvort honum hefði aldrei þótt það eftirsóknarvert að spreyta sig erlendis. Kristinn svaraði:
"Mér var boðið að syngja bæði í Covent Garden og í Saddlers Wells, en ég var bara svo óheppinn að ég fékk ekki atvinnuleyfi. Það eina sem hægt var að gera var að koma heim."
Það hefur þá ekki hvarflað að þér að fara til Þýskalands eða Ameríku?
"Elskan mín góða, ég fór til allra þessara landa og söng, en ekki til að fastráða mig. Rétt eftir að ég lauk náminu söng ég á Edinborgarhátíðinni, og fór þaðan til Þýskalands og svo til Norðurlandanna – þræddi þau tvisvar sinnum. Ég fór til Hollands, Frakklands og aftur til Englands – það var alltaf einhver helvítis fart á manni. Nú, svo fór ég nú í söngferðalag til Sovétríkjanna með Láru Rafnsdóttur. Ég fékk tilboð frá hinum og þessum óperuhúsum en ég sá að það þýddi ekkert fyrir mig að eltast við það. Fór bara að vinna eins og hver annar skrifstofumaður hjá tryggingafyrirtæki sem ég var hluthafi í. Ég var líka orðinn fjölskyldumaður en það réð engum úrslitum. Það er engum að kenna um þetta nema sjálfum mér. Við Guðmundur [Jónsson, söngvari] vorum eitt sinn að horfa hvor framan í annan, báðir búnir að fá tilboð hingað og þangað. Þá sagði hann: "Veistu það, Kiddi, ef við verðum ekki hér heima þá verður bara ekkert úr músíklífinu hérna!""

 Þeir Kristinn og Guðmundur voru iðulega söngfélagar og fleiri söngvarar, af þeirra kynslóð, einkum þau Þuríður Pálsdóttir, Guðmunda Elíasdóttir, Guðrún Á. Símonar og Magnús Jónsson skipuðu þann hóp sem varð hinn eiginlegi fyrsti hópur íslenskra óperusöngvara. Þetta er líka kynslóð Síðasta lags fyrir fréttir, söngvaranna sem gáfu íslenska einsöngslaginu líf í vitund þjóðarinnar í nútímanum. Þáttur Kristins í að skapa þessa menningu okkar var stór.
Nú þegar hann er fallinn frá er geisladiskurinn sem inniheldur gömlu góðu plötuna enn dreginn fram og settur í spilarann.
Ég spurði hann um árið nánar um samstarf hans og Árna, og hann svaraði:
"Það var sérstök uppákoma að ég fór svo að vinna með Árna Kristjánssyni. En mikið lifandis ósköp var gott að vinna með honum. Það var verið að bjóða Árna og einhverjum Íslendingi að taka þátt í tónleikahaldi í Stokkhólmi. Allt í einu kom beiðni til mín frá Árna um það hvort ég vildi vera með honum í þessu. Ég sagðist mjög gjarnan vilja gera það og við fórum út. Við fengum alveg ofsalega, helvíti góða krítík. […] Það var alveg sérstakt að vinna með Árna. Hann var svo lifandi í músíkinni að það var alveg ótrúlegt. Ég hef alveg minn eigin smekk á því hvernig eigi að fara með tónlist, en við vorum alltaf sammála um þessa hluti."
Kanntu skýringu á því?
"Ætli við höfum ekki bara verið með sömu músíksálina á þessu sviði. Það var bara aldrei neitt sem fór af sporinu í þessari samvinnu."
Ég hlusta á Kristin syngja Säf, säf, susa, og Þei, þei og ró; Árni skapar stemningu angurværðar, og í mögnuðum söng sínum leysir Kristinn vitundina úr viðjum hversdagsins inn í frelsi næturkyrrðarinnar.
Bergþóra Jónsdóttir