Sieglinde Kahmann

Sieglinde Kahmann

sieglinde1
Sieglinde Kahmann

Sieglinde Kahmann er reynslubolti.  Góðkunningjar hennar í tugi ára á sviðinu voru nöfn eins og Fritz Wunderlich, Martha Mödl og Wolfgang Windgassen. Til er firnafögur hljóðritun með Sieglinde og Fritz Wunderlich í óperunni „Fierrabras“ – smellið hér – (og hlustið á nr. 3 ) eftir Franz Schubert.
Þau Sigurður Björnsson, eiginmaður hennar og tenór með meiru, áttu afskaplega farsælan feril á árunum 1956 til 1977 og voru fastráðin við óperuhúsin í Stuttgart, Kassel og Gärtnerplatz í München, ennfremur Graz í Austurríki.

Sieglinde kemur til dyranna eins og hún er klædd, hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim, hefur einstaklega þægilega framkomu, raffineruð og smart, en fyrst og fremst heiðarleg og alltaf stutt í brosið, glens og gaman. Heimskona – “Primadonna“. Við fáum okkur Käsekuchen, kaffi og koníaksdreitil, það eru þrjú kerti á borðinu og túlípanar, allt svo fallegt og snyrtilegt í kringum þau hjónin. Das schöne Leben, ja!

Þau Siggi fluttu til Íslands árið 1977 þegar hann tók við stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands, en Sieglinde hóf kennslu við Söngskólann og síðan Tónlistarskólann í Reykjavík. Það var auðvitað öflugur liðsstyrkur við
íslenskt sönglíf og til eru hljóðritanir hjá RÚV sem bíða vonandi útgáfu, þar sem Sieglinde syngur t.d.: „Vier letzte Lieder“ eftir Richard Strauss, „Sieben frühe Lieder“ eftir Alban Berg o.m.fl. Einnig væri verðugt verkefni að gefa út bók um litríkan feril þeirra hjóna, því að þau hafa frá feiknamörgu skemmtilegu og forvitnilegu að segja. Má benda á viðtal sem
Árni Tómas Ragnarsson tók við þau hjónin í 1. tbl. 7. árg. Óperublaðsins. Og nú er kaffið komið í bollana:

MUNUR Á ÞÝSKRI OG ÍTALSKRI SÖNGTÆKNI

– Stundum er talað um ítalska, þýska, rússneska, skandinavíska o.s.frv. skóla í söngtækni. Það er t.d. umhugsunarefni af hverju ljósu, tæru tenórarnir eru svo algengir á Norðurlöndum, serioso bassarnir í Rússlandi o.s.frv.….Því liggur beint við að spyrja Sieglinde fyrst hvort munur sé á ítalskri og þýskri söngtækni?

Nei, grunnhugsun bel canto skólans er alþjóðleg. Þýskur söngvari syngur eðlilega oft á þýsku og með hverju tungumáli fyrir sig kemur eilítið annar blær. Af þeim sökum getur manni virst söngvari sem syngur á þýsku, rússnesku, eða norðurlandamálum syngja á svolítið annan hátt, en þetta stafar eingöngu af blæbrigðum tungumálsins. Á hinn bóginn kann að vera að loftslag, umhverfi og mismunandi innstilling hafi einhver áhrif á raddblæ frá mismunandi svæðum heimsins, en á hvaða máli sem sungið er, má aldrei gleyma undirstöðunni, bel canto skólanum.

AÐ VERA SÖNGKENNARI

sieglindeadele
Adele í Leðurblökunni

– Hvað þarf söngkennari að hafa til að bera?

Þolinmæði, að sjá fram í tímann hvernig árangurinn getur orðið með góðri ástundun. Einkum er mikilvægt að vera þolinmóður þegar maður sér að nemandinn gerir sitt besta. Aldrei má fara yfir strikið. Maður þarf að vita hversu langt má ganga og vinna með hliðsjón af því hvað röddin getur í bili og hvers er að vænta síðar. Ungt fólk er oft óþolinmótt. Þessi
vill verða Tosca, helst í gær. En hættan er sú að hún verði aldrei Tosca ef hún leggur það á röddina sem hún er ekki tilbúin til.

Heyrn, og þekkingu á röddum, að heyra raddblæ og karakter í röddum og lemjast ekki um í röngu fagi. Við eigum að fara eftir því sem náttúran hefur gefið okkur. Auðvitað þarf að gera ýmsar tilraunir til að finna út hvar röddin liggur, en þó að við finnum möguleika opnast í raddsviði, er ekki þar með sagt að nemandinn eigi að skipta um fag. Algengt er t.d. að mezzóar séu pressaðir upp í sópran af því þær hafa hæð, en mezzó þarf oft að hafa háa c-ið. Þó að nemandinn hafi það, er ekki þar með sagt að hún sé sópran.

Innsæi, hver nemandi er einstakur og því þarf innsæi til að finna út hvaða aðferð hentar hverjum og einum. Það er númer eitt að eyðileggja ekki neitt. Við þurfum að byggja hús og grunnurinn er það mikilvægasta. Það er sorglegt þegar fyrstu árunum er sóað af því nemandinn hefur ekki fengið þennan fyrsta grunn.

Reynslu, það er erfitt að kenna það sem maður hefur ekki gert sjálfur. Það er talsverður munur á að gera hlutina heima í stofu eða á sviði og þess vegna er sviðsreynsla mikilvæg. Að vísu eru bestu söngvararnir ekki alltaf góðir söngkennarar, en þeir sem hafa þurft að vinna vel til að aga röddina eru oft þeir sem tekst vel upp með aðra.

Fordæmi, sýnikennsla er einn mikilvægasti þátturinn. Þurr tækni er hundleiðinleg fyrir flesta, en hægt er að færa líf í að útskýra hvernig maður andar, hvernig maður losar sig, slappar af o.s.frv. ef maður getur demonstrerað vel. Þannig er miklu auðveldara fyrir nemandann að skilja hvað átt er við.  Ég segi líka við nemendur sem koma fram, þó að aðeins sé um litla tónfundi í skólunum að ræða, að vera vel til fara.  Gerið mér það ekki að mæta í gallabuxum, bitte schön! En þá verður kennarinn líka að sýna gott fordæmi.
En útlitið er ekki nóg, nemandinn þarf að kunna að bera sig. Það er ekki sama hvernig gengið er inn á svið, hvernig lagið, arían er kynnt ef með þarf, hvernig hneigingar fara fram, hvernig augnablikið er áður en lagið byrjar o.s.frv. Þá kemur auðvitað reynsla kennarans á sviði og gott fordæmi til góða.

Hvatningu, það skilar engu að niðurlægja fólk, eins og ein fræg söngkona sagði eitt sinn við nemanda sinn:
„Skúringakonan mín syngur betur en þér“.

ALGENG VANDAMÁL

– Hvað finnst þér algengt að þurfi að laga?

Alltof margir hugsa of mikið í hálsinn og verða þar af leiðandi klemmdir og fastir í hálsinum. Þegar þú ferð að heiman til að syngja, áttu að skilja hálsinn eftir heima!

Þess vegna er mikilvægt að hugsa tóninn framhjá hálsinum. Ef maður hugsar sér að tónninn eigi sér leið upp hnakkann og hljómi í hvirflinum og fram, losnar um hálsinn og þá fáum við yfirtóna (Oberklang) í hljóminn. Tónninn á að hljóma uppi í höfðinu, ekki í hálsinum!

Annað vandamál sem tengist þessu er innöndun sem veldur stífni. Innöndunin á ekki að vera til að spenna út hálsinn, hún á fyrst og fremst að losa hann, opna á náttúrlegan hátt, úfurinn fer upp og barkakýlið fer niður. Um leið finnum við tenginguna niður í kviðinn og allan líkamann. Í sömu andrá og loftið er komið inn, hefst tónninn. Það er algjör dauði að
anda inn, bíða og syngja svo. Sjáðu bara ef ég prófa það: (Sieglinde andar inn eins og fiskur á þurru landi, stoppar og syngur síðan tón), schon Scheisse, siehst Du? Hálsinn er orðinn stífur áður en maður byrjar að syngja og tónninn byrjar með “glottal attacki”.
Leðurblakan í Þjóðleikhúsinu

STAÐSETNING HLJÓMSINS

– Hvernig færðu rödd til að hljóma?

Segja má að heyrn sé hálft nám. Ef þú hlustar á söngvara sem hefur góðan textaframburð, heyrirðu hvernig bitið í röddinni kemur fram og af sjálfu sér, ef hann bítur í orðin. Það er því lykilatriði að taka utan um orðin, njóta þeirra. Þegar maður hugsar sér orðið, málar maður myndir af því með röddinni og þannig hljómar röddin eðlilega.

En allt er þetta tengt líkamsvinnunni, eins og ein vél, ein hringrás sem fer í gang strax í innönduninni, um leið verður kjálkinn að vera laflaus, kviðurinn opinn allan hringinn og tónninn að fljúga framhjá hálsinum og fram. Sumir eru með alls kyns stæla til að ná röddinni í fókus, teygjandi efri vör niður eða skæla sig á annan hátt. Þetta er óþarfi ef vélin er tengd í einni hringrás.

En eins og við töluðum um áðan, þarf að hugsa tóninn framhjá hálsinum og efst í höfuðið, þannig losnar hálsinn og röddin fær fallega yfirtóna. Höfuðtónninn gerir það að verkum að röddin berst og þess vegna þurfum við alltaf að blanda höfuðtón í hljóminn, jafnvel þó að brjósttónn aukist þegar farið er niður á við. Hreinn brjósttónn getur verið flottur í litlu
herbergi, en hann berst ekki í stórum sal.

ÖNDUN:

– Hvernig útskýrirðu öndun og stuðning?

sieglindeadfkv
Í Aðfangadagskvöldi (Notsj pered rozjdestvom) e. Rimskí Korsakoff

Þegar við öndum inn færist þindin niður. Þegar við öndum frá okkur í söng stjórnum við því hve hratt hún fer upp, þ.e.a.s. hve hratt loftið fer út, með kviðvöðvum. Svo einfalt er það.

Það er höfuðatriði að anda ekki svo mikið inn að maður stífni í kviðnum. Ef maður stífnar í kviðnum, þá stífnar maður líka í hálsinum. Mjúkt skal það vera og sveigjanlegt. Ef frasinn er langur, þarf líkaminn og hugurinn að hafa stjórn á útstreymi loftsins. Kviðurinn fellur því ekki saman, ef langur frasi er fyrir höndum.

Hins vegar þarf misjafnlega mikið loft og því gefur maður meiri kraft ef um styrkleikabreytingar er að ræða, eða háa tóna.
Þetta má útskýra þannig að ímynda sér tennisbolta sem liggur ofan á loftuppstreymi, hann lækkar og hækkar eftir því hve loftuppstreymið er sterkt. Á sama hátt má líta á gosbrunn, efst dansar einn dropi og hann lækkar og hækkar eftir því hver krafturinn er að neðan. Stuðningur við röddina byggir á svipuðu sambandi.

Oft sjá nemendur ofsjónum yfir löngum frösum og þá er mikilvægt að geta demonstrerað fyrir þá svo að þeir trúi því að þetta sé hægt með vinnu og ástundun. Eins og við sögðum áðan, er þetta allt ein hringrás, allur líkaminn syngur, það þarf að vera í honum sveigjanleiki, en meðan við föllum ekki saman eins og sprungnar blöðrur, getum við stjórnað loftinu meira en við höldum, það er alltaf smáloft eftir!

Einnig nota ég gjarnan öndunaræfingar, t.d. kveiki á kerti og læt nemandann halda því um 40 cm frá andlitinu og bið hann
að syngja á sérhljóðanum í eða ú (ekki a) langan tón án þess að láta logann bærast.

SÖNGÆFINGAR:

– Hvað finnst þér mikilvægt í upphitun?

Spretthlauparinn byrjar ekki að hlaupa 100 m á 10 sek. Hann hitar sig rólega upp. Á sama hátt eigum við aldrei að ráðast að röddinni og rjúka með hana upp úr öllu valdi. Ég byrja gjarnan með do re mí fa so fa mí re do (þ.e.fimmund) á miðsviði, oftast með 2-3 sérhljóðum og teygi svo smám saman í báðar áttir. Stundum nota ég ítölsk orð til að þjálfa
samhljóða. Samhljóðarnir vilja spýta miklu lofti út, en séu þeir ekki myndaðir með öllum munninum, er hægt að spara heilmikið loft.

AÐ GEFA TÓNLISTINNI LÍF

– Hvernig færðu nemanda til að tjá sig í tónlistinni?

Í fyrsta lagi geta augnablikin áður en tónlistin hefst ráðið úrslitum, innstilling söngvarans, einbeiting og innöndun hafa áhrif á áheyrendur. Í forspili má stundum sjá söngvara undirbúa sig, kyngja og jafnvel ræskja sig, en tónlistin hefst ekki þegar söngvarinn byrjar að syngja, hún hefst þegar forspilið hefst! Einnig er lagið ekki búið fyrr en síðasti tónninn hefur fallið, oft í eftirspili. Mér finnst oft skorta á þennan samleik söngvarans við píanóleikarann eða aðra hljóðfæraleikara sem spila með. Einnig finnst mér nauðsynlegt að söngnemar æfi ekki aðeins sólólög, heldur taki líka þátt í samsöngsatriðum.

sieglindeledurbl
Rosalinde í Leðurblökunni

Jæja, en komum að túlkuninni. Höfum í huga að fyrst kom textinn, svo kom tónskáldið og gerði lag við textann. Þess vegna verðum við að þekkja textann til hlítar og skilja hann, ekki aðeins orðabókarþýðingu, heldur að skilja dýpri merkingu hans. Við erum aðeins miðlar tónlistarinnar og ef við skiljum ekki hvað við erum að gera, skilja áhorfendur það
ekki heldur. Nauðsynlegt er að gera sér mynd af orðunum og merkingu þeirra.

Ef við tökum sem dæmi lag eins og „Auf ein altes Bild“ eftir Hugo Wolf, er um að ræða málverk eftir ítalskan málara af Jesú og krossinum. Um leið og þetta er ljóst, verður til ákveðin stemning í huganum með mikilli auðmýkt í tóninum. Þannig litast músíkin mismunandi litum eftir merkingu orðanna. Lífið er ekki svartar nótur, tómar nótur og pásur. Og tónskáldin gefa okkur alls kyns tækifæri til að lita, sjáðu bara hvernig Wolf gerir “Kreuzes Stamm” í fyrrnefndu ljóði. Og litirnir eru líka í tónlistinni í orðlausri músík, eins og vókalísunni eftir Rakkmanínoff. Lífið er ekki svart og hvítt, heldur fullt af litum!

Einu sinni var ég að syngja Pamínu í Stuttgart og í aríunni „Ach ich fühl’s“ var ég í sérstaklega góðu formi og mér fannst ég næstum gráta sjálf í lokin. Það mátti heyra saumnál detta. Ég fékk ekkert klapp og var hálf miður mín á eftir, en síðar
fékk ég að heyra að einmitt vegna þess að mér hafði tekist að lifa mig inn í tónlistina og orðin, hafði ég ekki fengið klapp.
Það er þetta sem við þurfum að reyna að ná fram, ekki okkur til dýrðar, heldur að hreyfa við fólki, þannig að það verði andaktugt.

Þá hefur viðhorfið til tónlistarinnar sem verið er að syngja mikið að segja. Tökum sem dæmi hin alkunnu lög: „Ég lít í anda liðna tíð“ eða „Draumalandið“. Það þýðir ekki að hugsa sem svo: Æ það eru allir búnir að heyra þetta svo oft.
Maður á að syngja öll lög eða aríur eins og áheyrendur hafi aldrei heyrt það áður. Gera það að sínu.

MIKIÐ MÁL

– Eitthvað sem þú vilt segja við söngnema að lokum?

Stundum heyrir maður viðhorf eins og: “Ertu að læra að syngja? Er það ekki skemmtilegt?” Skemmtilegt hvað? Tónlistin gefur lífsfyllingu, en að læra að syngja er fyrst og fremst “harte Arbeit!!!!“.

21. maí 2006

– Bergþór Pálsson

Fleiri viðtöl

Sieglinde Kahmann

 Sieglinde Kahmann er reynslubolti.  Góðkunningjar hennar í tugi ára á sviðinu voru nöfn eins og Fritz Wunderlich, Martha Mödl og Wolfgang Windgassen.  Til er firnafögur hljóðritun með Sieglinde og Fritz Wunderlich í óperunni „Fierrabras“ – smellið hér – eftir Franz Schubert.
Þau Sigurður Björnsson, eiginmaður hennar og tenór með meiru, áttu afskaplega farsælan feril á árunum 1956 til 1977 og voru fastráðin við óperuhúsin í Stuttgart, Kassel og Gärtnerplatz í München, ennfremur Graz í Austurríki.

Sieglinde kemur til dyranna eins og hún er klædd, hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim, hefur einstaklega þægilega framkomu, raffineruð og smart, en fyrst og fremst heiðarleg og alltaf stutt í brosið, glens og gaman.  Heimskona – “Primadonna“. Við fáum okkur Käsekuchen, kaffi og koníaksdreitil, það eru þrjú kerti á borðinu og túlípanar, allt svo fallegt og snyrtilegt í kringum þau hjónin. Das schöne Leben, ja!

(meira…)