Þuríður Pálsdóttir

Þuríður Pálsdóttir 

Hún Þuríður, eða Níní eins og hún hefur verið kölluð af vinum, er ekkert venjulega flott kona og minnir um margt á kvikmyndastjörnu þegar hún er búin að dressa sig upp. Góður smekkur og aristókratísk framganga haldast í hendur við mikla útgeislun enda er Níní allt í senn bráðskemmtileg, hreinskilin og eins og jarðýta til verka (finnst ykkur annars ekki að hún ætti að halda námskeið í augabrúnamálun, þær eru ekkert smá kúl). Já, hún er karakter, hún Níní.

turiddu1
Níní eða Þuríður Pálsdóttir

Hún féll niður stiga fyrir nokkrum árum í Söngskólanum þegar hann var við Hverfisgötu, en Guðmundur Jónsson sagði við það tækifæri að það hefði orðið stjörnuhrap…. Löngu síðar kom í ljós að æxli í heilanum hafði valdið röskun á jafnvægisskynjun. Hún fór því í uppskurð, en fimm vikum síðar kom í ljós að blætt hafði talsvert inn á milli heilahvela og blæðingin var þá hreinsuð burt. Þuríði lék forvitni á að vita hvernig það hefði verið framkvæmt, t.d. með hníf. “Nei, nei,” svaraði læknirinn, “þetta var bara spúlað út.” Þuríður segist því vera eina manneskjan sem hún veit um, sem hafi verið HEILAÞVEGIN í bókstaflegum skilningi!

En þrátt fyrir þessi áföll og heilaþvottinn er hún eldklár í kollinum og hefur frá mörgu að segja. Við Þuríður erum bæði kókosbollufrík og þess vegna fengum við okkur kókosbollur þegar ég heimsótti hana til að spjalla um söngtækni, en við áttum stundum bágt með að koma okkur að efninu, því að svo margt annað skemmtilegt bar á góma. Ég má til með að láta eina söguna fylgja hér með:

turpasqu
Norina í Don Pasquale

Eitt sinn voru þær Guðmunda Elíasdóttir á söngferðalagi úti á landi og menningarfrömuðurinn sem sá um tónleikana var mjög kvensamur. Hann fór allstíft á fjörurnar við þær báðar í sitt hvoru herberginu. Þær Þuríður og Guðmunda gistu í sama herbergi á hótelinu og um kvöldið, þegar þær voru háttaðar, segir Guðmunda: “Asskolli er að vita hvað hann reyndi við mig.” “Við þig líka? Hann var alveg á kafi að reyna við mig!”, svarar þá Þuríður. Daginn eftir lét hún manninn heyra það, hispurslaus að venju: “Hvernig datt þér í hug að reyna við okkur báðar á sama tíma, maður?” “Ja, sko, ég bar svona platónska ást til þín, en hafði aftur á móti kynferðislega ást á Guðmundu”, svaraði maðurinn að bragði. “Veistu það, Beggi, ég hefði getað lamið hann og gott betur!!!”

Bráðlega er von á þremur geisladiskum með söng Níníar, einn inniheldur íslensk lög, annar óperuefni og sá þriðji blandað efni (antikaríur, sálmasöng, ljóðasöng). Þessi útgáfa verður mikill fengur fyrir aðdáendur hennar og íslenska tónlistarsögu. Um feril hennar vísast í bókina „Líf mitt og gleði“, sem Jónína Michaelsdóttir skráði.

Þuríður hefur kennt mörgum söngvurum og af þeim sem eru í eldlínunni í dag má nefna Elínu Ósk, Jóhann Friðgeir, Huldu Björk og Siggu Aðalsteins . Hún er þekkt fyrir að víkja ekki frá hinum ítalska, opna, rúnnaða, framlæga skóla, sem hún nam ung hjá Linu Pagliughi og Luigi Albergoni, enda hefur hún alltaf verið feikilega eftirsóttur kennari. En snúum okkur þá að aðalefninu:

ALGENG VANDAMÁL

– Hvað finnst þér vera algengasta vandamál söngnema?

„Trúlega er það að anda inn alltof miklu lofti og stífna áður en tónninn er sunginn. Það er algjört lykilatriði að söngvarinn andi inn í fyrsta tóninn, eða eigum við að segja að innöndunin eigi að vera hluti af fyrsta tóninum, eða að fyrsti tónninn beri öndunina. Það má aldrei anda inn, halda í sér andanum og byrja síðan að syngja, þetta er ávísun á stífni. Maður á að taka eftir því hvernig maður andar þegar maður talar. Þá andar maður inn og byrjar að tala um leið og loftið er runnið niður í lungun, öndun og hljómur í einni hringrás!

Eins á maður að losa sig við það loft sem maður andar inn. Þegar læknar eru að hlusta mann, er alltaf verið að láta mann anda inn þangað til maður stendur á öndinni og fer að svima af hyperoxideringu. Eins er það í söng, mann á ekki að svima, maður verður að anda frá sér. Skoðum hvað gerist þegar við tölum; þegar setningin er búin, en loftið ekki, klárum við að anda loftinu frá okkur, en grípum ekki andann á lofti um leið og við hættum að tala. Við getum lært margt af því að fylgjast með okkur sjálfum þegar við tölum.“

TAL OG SÖNGUR

– Eru tal og söngur þá skyldari en ætla mætti?

„Ég get sagt þér skemmtilega sögu í því sambandi. Til mín kom frægur leikari sem þurfti að fara upp á D í söngleik og hann stífnaði allur upp og varð eins og viðrini í framan á þessum tóni sem hann óttaðist meira en flest í lífinu. Ég benti honum á að nota sína frábæru talrödd og smám saman töluðum við okkur upp á D – við megum ekki gleyma að við tölum á ákveðnum tónum – og allt í einu rann upp fyrir honum að þetta var ekkert mál, þegar hann gerði það sem var honum EÐLILEGT. Það er ekkert eðlilegra í heiminum en að syngja!“ Rosina – Rakarinn

– En varla er hægt að “tala” sig upp á hvaða tón sem er?

„Það er aldrei happasælt að pína raddir upp úr öllu valdi. Ef röddin hefur möguleika á ákveðnu raddsviði, finnur maður það yfirleitt, en bjóði röddin ekki upp á það, er betra að láta það vera, í bili a.m.k.“

STAÐSETNING RADDARINNAR

– Hvernig verður rödd eðlilega placeruð?

„Við verðum að syngja á loftstraumnum og hugsa hljóminn á ákveðnum stað, sem okkur hentar best. Í kennslufræðitímum var oft áhugavert að biðja nemendur um að syngja nokkra tóna með því að hugsa þá á ákveðnum stað. Ein hugsaði sér að tónninn kæmi frá brjóstinu og upp, önnur hugsaði hljóminn í öllu andlitinu, ein á augnasvæðinu eða munnsvæðinu, og ein á svæðinu frá enni og niður kringum nefið. Einu sinni uppgötvaði nemandi að hún væri með miklu meiri hæð en hún vissi um, með því einu að hugsa hljóminn létt og fram frá svæðinu frá enni og niður kringum nefið. Þannig fór hún upp í höfuðtón og var komin með fallega og létta sópranhæð.
Söngur er nefnilega ótrúlega sálræn athöfn, hugsunin ein getur haft úrslitaáhrif. En það þarf að vera rétt hugsun auðvitað, sem hentar nemandanum. Það sem hentar einum, hentar ekki endilega öðrum.“

EKKI HÆGT AÐ KENNA AÐ SYNGJA Á PAPPÍR

– En þar sem þú hefur kennt svo mikið kennslufræði raddar, finnst þér ekki mikilvægt að kunna skil á því hvernig þetta gerist allt saman inni í okkur?

„Jú, en það er næstum útilokað að kenna að syngja á pappír! Vissulega er þó áhugavert fyrir nemandann að sjá á blaði allt um hálsvöðvana og barkakýlið, vöðva sem tengjast tónmyndun, öndun og staðsetningu raddarinnar. Skoðum t.d. vöðvana sem loka öndunarveginum þegar við kyngjum:

halsvodvar1

Þarna eru þrjú sett af vöðvum, superior, mið-og inferior constrictorar. Þeir tengja nef og munn við barkann og vélindað. Við getum fundið fyrir þeim og skoðað tilfinninguna, þegar við kyngjum. Þá loka þessir vöðvar öndunarveginum, til þess að maturinn rati niður í vélindað, en ekki niður í lungu. Þessir vöðvar mega hins vegar ekki vera stífir þegar við syngjum. Hálsinn á að vera mjúkur!

Skoðum nú vöðvana sem lyfta mjúka gómnum:

halsvodvar2

Tensor og levator palati lyfta mjúka gómnum upp og aftur og loka þannig nefgöngunum. Þetta gerist t.d. þegar við segjum samhljóðann N sem flýtur í gegnum nefgöngin. Þegar við skiptum yfir í sérhljóða, eins og Í, gengur þetta til baka og hljómurinn flýtur í gegnum munnholið. Þetta gerist mjög hratt, eins og t.d. þegar við segjum Níní!, svo að við tökum ekki einu sinni eftir því að þessir vöðvar vinna á örskotshraða í hálsinum á okkur þegar við skiptum á milli N-sins og Í-sins. En þetta er hægt að skoða betur með því að segja hægt NÍNÍNÍNÍ. En í söng megum við ekki loka nefgöngunum þegar við syngjum á sérhljóði. Þá verður hljómurinn holur, nefmæltur.

En þó að nemandanum sé sýnt allt þetta og annað sem við kemur tónmyndun, er ekki þar með sagt að hann ráði fram úr því eða geti nýtt sér það í vinnunni með röddina sína. Þess vegna er svo mikilvægt að geta sýnt vel með því að syngja fyrir nemandann, t.d. hvernig blandað er brjósti við höfuðtón.“

AÐ KENNA KONUM OG KÖRLUM

– Finnst þér munur á því að kenna konum og körlum?

„Nei, flestir karlmenn þurfa að byrja á að átta sig á að blanda brjósttón og höfuðtón á yfirganginum upp í hæðina. Ég átti sjálf við þetta vandamál að stríða og þar sem ég þurfti að pæla svo mikið í þessu, á ég auðveldara með að sýna karlmönnum hvernig byrjað er að dekka röddina á mörkum miðsviðs og efra sviðs. Þetta er lykilatriði fyrir karlmenn, enda sagði Kristinn Hallsson að þegar hann var búinn að læra að dekka, var hann búinn að læra að syngja! En konur þurfa samt líka að dekka röddina þegar ofar dregur. Þetta er langbest að demonstrera, fremur en að reyna að setja það í orð.“

AÐ LÆRA AF GÓÐUM SÖNGVURUM

– En getur verið að nemandinn fari að herma of mikið eftir kennaranum?

„Jú, það getur verið varhugavert, því að hver rödd hefur sinn eigin persónuleika sem ekki má taka frá henni. Okkar hlutverk er að laða fram það besta í hverjum og einum. Ég hef engan áhuga á að safna í kringum mig persónuleikalausum litlum Þuríðum út um allt. En við verðum samt að sýna til að gera nemandanum ljósan muninn á hvelfdum og gleiðum tón, muninn á lausum og klemmdum tón, o.s.frv.

Hitt er annað mál og óskylt að það getur verið ágæt skemmtun, og jafnvel líka gagn að því að skoða hvernig aðrir fara að, þannig finnur maður bæði hvað þeir gera vel og hvað ekki. Ég var nokkuð góð í að herma eftir söngvurum og er enn.

zinkamilanov
Zinka Milanov

Zinka Milanov var mín fyrirmynd. Þegar ég hlustaði á Zinku, fann ég að hennar hljómur átti einstaklega vel við mig. Ég held að í rauninni hafi hún gert það að verkum að ég gat sungið Leónóru í Il Trovatore. Hún hafði allt til að bera sem góður söngvari þarf, hljómstaðsetninguna, losunina, öndunina, stuðning undir tóninn, nefndu það, hún hafði það allt saman. „D’amor sull’ali rosee“ úr Il Trovatore með Zinku SMELLIÐ HÉR

STUÐNINGUR

– Vel á minnst, hvernig útskýrirðu stuðning?

„Líkaminn er borinn uppi af fótleggjunum, þeir eru eins og grunnur að húsinu okkar. Sá grunnur sem veitir okkur öryggi og gerir það að verkum að við svífum fyrir ofan fótleggina. Stuðningur hefur ekkert með hersli að gera, hann er meira eins og öryggi, eitthvað sem ber okkur uppi. Þannig finnum við ekki fyrir þreytu, af því að við syngjum á loftstraumnum, óhömdum og frjálsum.
Staða líkamans er líka gríðarlega mikilvæg, við eigum að vera laus í öllum liðamótum! Söngvari með herpta hnefa eða fingur sendir stífnina allt upp í háls. Ef við erum laus í liðamótunum, fáum við ekki aðeins lausa rödd, heldur líka fallegar og elegant hreyfingar.“

turhoffm
Ævintýri Hoffmanns – með Magnúsi Jónssyni

 

– En stýrum við þá ekki því hversu mikið loft við látum frá okkur með kviðvöðvum?

„Jú, en kviðvöðvarnir eiga ekki að vera stífir. Þegar við stöndum og finnum fyrir grunninum að húsinu okkar, öndum djúpt, allan hringinn, líka með bakvöðvunum, þá finnum við hvernig kviðvöðvarnir geta stjórnað efri hluta líkamans, án þess að vera stífir! Þetta er mjúkt og engin stífni í gangi. Þetta kemur með æfingu. Með þjálfun er t.d. hægt að syngja áttundaræfingu: do re mí fa so la tí do tí la so fa mí re do fimm sinnum, – þ.e. einu sinni fyrir hvern sérhljóða, a, e, í, o og ú, -án þess að blása úr nös, þegar maður nær valdi á þessu og lætur röddina um leið fljóta á loftstraumnum. Þetta er ekki flókið mál, heldur þjálfunaratriði. Margir halda að hér sé um einhverja mysteríu að ræða, sem aðeins útvaldir geti fengið aðgang að. Ein dama kom í inntökupróf og tók sérstaklega fram að hún kynni sko að anda, af því hún hafði verið í frægum kór. Ég sagði nú bara: Guði sé lof, annars værirðu dáin….
Hitt er annað mál að það þarf ekki endilega að vera keppikefli að halda út sem lengsta frasa. Ef þú ert að halda ræðu, þá andarðu þar sem þú þarft. Þannig ætti það líka að vera með söngvara, það er eðlilegasti hlutur í heimi að anda þegar maður þarf þess. Það þarf auðvitað að vera á smekklegum stöðum og ekki inni í orðum, en langur frasi bætir litlu við tjáningu söngvarans eða getu til að hreyfa við fólki.“

– Eitthvað að lokum sem þú vilt koma til söngkennara?

„Maður þarf að kunna og heyra. Til að byrja með þarf að láta krakkana syngja með allri röddinni sem þau hafa, til að gera sér grein fyrir möguleikunum. Það er ekkert söngnám að syngja píps píps árum saman. Maður verður að fá út það sem er til með einhverjum ráðum. Auðvitað öskra þá margir út einhvern brjósttón, en fljótlega fara þau að skilja hvað er borinn tónn, opinn og stór og það er mikill sigur, enda kviknar þá fyrst í mörgum. Eftir að röddin er komin út, er svo hægt að fara að móta. En númer eitt er að syngja hvorki með pípsi né pressu, heldur EÐLILEGA!“

19. maí 2006

– Bergþór

Fleiri viðtöl

Þuríður Pálsdóttir

 Hún Þuríður, eða Níní eins og hún hefur verið kölluð af vinum, er ekkert venjulega flott kona og minnir um margt á kvikmyndastjörnu þegar hún er búin að dressa sig upp.  Góður smekkur og aristókratísk framganga haldast í hendur við mikla útgeislun enda er Níní allt í senn bráðskemmtileg, hreinskilin og eins og jarðýta til verka (finnst ykkur annars ekki að hún ætti að halda námskeið í augabrúnamálun, þær eru ekkert smá kúl).  Já, hún er karakter, hún Níní.

Hún féll niður stiga fyrir nokkrum árum í Söngskólanum þegar hann var við Hverfisgötu, en Guðmundur Jónsson sagði við það tækifæri að það hefði orðið stjörnuhrap….  Löngu síðar kom í ljós að æxli í heilanum hafði valdið röskun á jafnvægisskynjun.  Hún fór því í uppskurð, en fimm vikum síðar kom í ljós að blætt hafði talsvert inn á milli heilahvela og blæðingin var þá hreinsuð burt.  Þuríði lék forvitni á að vita hvernig það hefði verið framkvæmt, t.d. með hníf.  “Nei, nei,” svaraði læknirinn, “þetta var bara spúlað út.”  Þuríður segist því vera eina manneskjan sem hún veit um, sem hafi verið HEILAÞVEGIN í bókstaflegum skilningi!  

En þrátt fyrir þessi áföll og heilaþvottinn er hún eldklár í kollinum og hefur frá mörgu að segja. Við Þuríður erum bæði kókosbollufrík og þess vegna fengum við okkur kókosbollur þegar ég heimsótti hana til að spjalla um söngtækni, en við áttum stundum bágt með að koma okkur að efninu, því að svo margt annað skemmtilegt bar á góma.  Ég má til með að láta eina söguna fylgja hér með: 

(meira…)