Hádegistónleikar í Hafnarborg – Jól og annað

Ingveldur Ýr flytur jólalög og aríur á hádegistónleikum í Hafnarborg þriðjudaginn 4. desember

Jól og annað er yfirskrift hádegistónleika sem haldnir verða í Hafnarborg þriðjudaginn 4. desember. Gestasöngvari að þessu sinni er Ingveldur Ýr Jónsdóttir mezzósópran, en hún mun flytja jólalög í bland við aríur og annað efni.

Ingveldur Ýr nam söng við Söngskólann í Reykjavík og síðar við Tónlistarskóla Vínarborgar, þar sem hún stundaði einnig leiklistar og söngleikjanám. Eftir það lauk hún mastersgráðu frá Manhattan School of Music í New York. Ingveldur Ýr vakti snemma athygli áheyrenda fyrir frjálslega sviðsframkomu og sterka leikhæfileika sem hafa nýst henni á margan hátt. Hún hefur ætíð haft fjölbreytni í verkefnavali og sungið í óperum, söngleikjum og kabarettum sem og á ljóðatónleikum. Hún var um skeið fastráðin við Óperuna í Lyon í Frakklandi og hefur einnig sungið ýmis hlutverk á íslensku óperusviði. Ingveldur Ýr hefur verið gestur á alþjóðlegum tónlistarhátíðum og sungið með þekktum hljómsveitarstjórum auk þess sem hún hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Meðfram starfi sínu sem söngkona hefur Ingveldur Ýr um árabil rekið sitt eigið söngstúdíó og staðið fyrir námskeiðum í raddbeitingu og söng af ýmsu tagi.

Antonía Hevesi píanóleikari hefur frá upphafi verið listrænn stjórnandi hádegistónleika í Hafnarborg og valið með sér marga af fremstu söngvurum landsins. Hádegistónleikar eru haldnir fyrsta þriðjudag í mánuði. Tónleikarnir hefjast kl. 12 og standa yfir í um hálfa klukkustund, þeir eru öllum opnir á meðan húsrúm leyfir. Húsið er opnað kl. 11.30.

Hádegistónleikar Hafnarborgar eru styrktir af Samfélagssjóði Rio Tinto Alcan.