Franz Liszt akademían í Búdapest – Dagrún Hjartardóttir

 Dagrún Hjartardóttir stundaði nám við Franz Liszt akademíuna í Búdapest eftir að hafa kynnst deildarstjóra söngdeildarinnar þar á námskeiði í Bayreuth:  Hún hefur þetta að segja um námið:


Fyrst af öllu ber að taka fram að það var fyrir hreina tilviljun að spor mín lágu inn í Franz Liszt akademíuna í Búdapest árið 1990, Þarna upplifði ég dásamlega tíma í samneyti við land og þjóð. Ég hafði tekið þátt í námskeiði í Bayreuth sumarið 1989 og fékk tíma hjá Emily Varasdy sem leiðbeindi á námskeiðinu en var jafnframt deildarstjóri söngdeildarinnar í akademíunni. Hún bauð mér að koma utan og leggja stund á söngnám. Þegar ég síðar innti hana eftir því hvort henni hefði verið alvara hafði hún þá þegar gengið frá skráningu minni og allri annarri pappírsvinnu sem laut að skólavist minni. Þ.a.l. er ég illa að mér í því hvernig inntökupróf fara fram en ég bendi á nýuppfærða heimasíðu skólans hér að neðan þar sem auðvelt er fyrir áhugasama að nálgast upplýsingar um námið.  Jafnframt er rétt að geta þess að það eru margir sjálfstætt starfandi söngkennarar í borginni og óhætt að mæla með þeim kosti.s

Franz Liszt akademían í Búdapest er virt fyrir margra hluta sakir og vel búið að stúdentum. Þeir hljóta góða aðstoð við að finna húsnæði og annað sem til þarf til að aðlagast óþekktum kringumstæðum. Þeir njóta einnig góðs af umhverfinu þar sem frábært almennt tónlistarlíf einkennir landið. Það flokkast með meiriháttar forréttindum að nema tónlist við þessar aðstæður. Búdapest ein státar af 6 eða 7 sinfóníuhljómsveitum, tónleikasalir eru fjölmargir þar sem einn sá besti og fegursti er einmitt staðsettur í akademíunni sjálfri. Stúdentar fengu frían aðgang á flest alla tónleika ef ekki var uppselt. Akademían sjálf er þekktust fyrir píanó- og fiðludeild hennar. Strax í kjölfarið koma kór-, hljómsveitarstjórnar- og tónsmíðadeildirnar. Það er engin launung að akademían hefur þar á að skipa hágæða kennurum sem eru þekktir fyrir störf sín um allan heim. Flestir mæla þeir á erlenda tungu, ýmist þýsku eða ensku. Að auki er óperudeildin frábær. Aðalhljómsveitarstjóri þjóðaróperunnar í Búdapest hafði til að mynda yfirumsjón með deildinni og uppfærslur skólans voru oft þær sömu og í óperunni. Þetta var gert til að nýútskrifaðir gætu stokkið beint inn í sýningar ef aðalsöngvarinn forfallaðist. Styrkileiki hennar felst líka í fjölda kennara við söngdeildina þó að ég hafi einungis látið hrífast af einum þeirra fyrir góða tæknikennslu, Éva Andor, enda var hún afar eftirsótt með langan biðlista. Það var einmitt nemandi hennar og samstúdent minn, Eszter Sümegi, sem vann Pavarotti keppnina árið 1990.

Slóð Franz Liszt akademíunnar er sem hér segir: http://www.lfze.hu/hp/english/index.html