Hanns Eisler tónlistarháskólinn í Berlín – Þorbjörn Björnsson

 Þorbjörn Björnsson stundar nám í Hochschule für Musik "Hanns Eisler"  í Berlín (þar voru líka t.d. Sesselja Kristjáns og Jónas Guðmunds) og segist svo frá:

Heimasíða skólans er: www.hfm-berlin.de

Söngdeild skólans er ljóða- konsert- og óperudeild. Allir nemendur útskrifast með diplóm eins og í flestum greinum í Þýskalandi. Það er ekkert verið að skýra þá gráðu neitt frekar enda fara svona gráður bara eftir því hversu mörg ár námið er. Ætli þetta sé þá ekki einhvers konar master. Kannski bara master of the universe.

Umsóknarfrestur fyrir vetrarsemestrið er til 15. apríl á sama ári og prufusöngurinn er í byrjun júní.
Umsóknarfrestur fyrir sumarönnina rennur út 15. desember á árinu á undan og prufusöngurinn fer fram í miðjum janúar. Í prufusöngnum er beðið um 3 lög og 3 aríur og lítinn texta á þýsku. Þá eru líka píanó- tónheyrnar- og tónfræðipróf, en það er víst ómögulega hægt að falla á þeim og þar get ég notað sjálfan mig sem gott dæmi.

Það eru engir styrkir í boði fyrir nemendur, enda ekki þörf á því þar sem það er nánast því ókeypis að stunda nám í Þýskalandi (ennþá).

Það er hægt að koma með óskir hvað kennara varðar ef viðkomandi er eitthvað búinn að kynna sér málið. Annars er þeim bara úthlutað á okkur. Það er þá ekkert mál að skipta um kennara eftir eina önn ef þetta er ekki að gera sig.

Það eru öngvir stúdentagarðar á vegum skólans en einhverjar austantjaldsblokkir eru í boði fyrir nemendur á vegum stúdentafélags Berlínar. Allir sem ég þekki leigja íbúð á eigin vegum, enda alveg ágætt og alls ekki dýrt. Þá er líka hægt að hafa samband við íslendingafélagið í Berlín og spyrjast fyrir eða auglýsa eftir íbúð. www.island-berlin.de

Að lýsa hinum venjulega skóladegi er ekki eins auðvelt og það hljómar. Þetta er ekki jafn skipulagt og strangt hjá okkur, eins og til dæmis í Bandaríkjunum. Það eru ekki útbúnar fastmótaðar stundaskrár. Það eru viss fög sem maður þarf að klára en getur það svona hér um bil hvenær sem er á námstímanum. Það er auðvelt að halda sér uppteknum og vera duglegur en jafn auðvelt að gera lítið. Það er nóg af krökkum og kennurum sem eru tilbúnir að tónlistast á eigin vegum, sér til gamans. Þá er líka auðvelt að komast í allskonar verkefni og uppfærslur.

Berlín sjálf býður upp á mikla dagskrá. Það er erfitt að fylgjast með öllu sem er í boði (enda kannski óþarfi). Fyrir vikið er auðvelt og ódýrt að komast á tónleika og sýningar og svoleiðis. Svo er náttúrulega nóg að gerast utan stóru óperuhúsanna sem maður var nokkuð upptekinn af til að byrja með en hefur minna sinnt eftir að maður kynntist flórunni.

Þorbjörn Björnsson thorbjornbjornsson@hotmail.com