Tónlistarháskólinn í Trossingen – Jóhanna Halldórsdóttir

 Eftir að Jóhanna Halldórsdóttir, altsöngkona, kláraði Tónlistarskólann í Reykjavík lagði hún stund á söngnám við barokkdeild Tónlistarháskólans í Trossingen í Þýskalandi og lauk þaðan framhaldsprófi árið 2002.  Hér segir hún frá skólanum í Trossingen:

Fyrir þá sem áhuga hafa á að sérhæfa sig í barokksöng eru nokkrir kostir í stöðunni.
Ég nefni hér þrjá
1. Scola Cantorum í Basel sem er með frábæra barokk, miðalda og endurreisnardeild.
2. Konservatorium í den Haag sem einnig býður upp á fjölbreytt úrval námsgreina og kennara.
3. Tónlistarháskólinn í Trossingen í Þýskalandi.

Ég valdi þriðja kostinn.
Það var frábært að vera í Trossingen.  Aðstæður mínar voru líka þannig á þeim tíma að það hentaði mér vel að vera í litlu bæjarfélagi því ég var einstæð móðir.  Sonur minn var þá 8 ára gamall og gekk í skóla sem var við sömu götu og háskólinn og gerði það allt mun auðveldara fyrir okkur bæði. Engar langar vegalengdir að fara . Ef hins vegar vaknaði upp áhugi á að heimsækja stórborgirnar þá voru bæði Stuttgart og Freiburg í seilingarfjarlæð og Zürich jafnvel líka.  Þá var það venjan að fjölmenna og fara saman á stærri tónistarviðburði í stóru borgunum eða bara kíkja á mannlífið.

Í Trossingen upplifði ég mjög náin tengsl meðal nemenda.  Við eyddum miklum tima saman , ekki bara til æfinga heldur líka til skemmtunar og samræðna. Þar voru líka allra þjóða kvikindi.  Við töldum á tímabili um 20 þjóðir sem gerði samfélagið gríðarlega áhugavert. Þar eignaðist ég líka marga góða vini frá öllum heimshornum, frá Noregi, Japan, Ísrael og svo að sjálfsögðu frá Þýskalandi.

Kennarar við barokkdeild skólans eru allir framúrskarandi tónlistarmenn og framarlega á sínu sviði í heiminum.  Núna er söngkennari skólans sópransöngkonan Maria Christina Kier frá Argentínu og hef ég heyrt margt gott sagt um hennar kennsluaðferðir.  Fyrir þann sem hefur áhuga á að nema við skólann þá mæli ég með því að setja sig í samband við hana og fá tækifæri til að hitta hana og syngja fyrir hana áður en sótt er um skólalavist. Netfangið hennar er á heimasíðu skólans.

 Það var mikil samvinna milli deilda í skólanum og ég fékk gríðarlega mörg tækifæri til að kynnast öðrum hljóðfærum og öðrum kennurum  og allir að vilja gerðir að gefa nemendum kost á að spreyta sig á að koma fram við ýmis tækifæri. Það leið t. d. ekki á löngu þar til ég var farin að syngja með ýmsum hljómsveitum frá svæðinu.  Fyrir þann sem að stundar grunnnám gefst kostur á ýmsum aukagreinum.  Ég var í framhaldsdeild og gat því  að mestu einbeitt mér að söngnum og kammermúsik.

Í Trossingen er  allur uppihaldskostnaður og húsaleiga  mun ódýrari en í stærri borgum í kring.  Þar er frekar auðvelt að fá húsnæði og mikið um að nemendur leigi saman og svo eru auðvitað stúdentagarðarnir.  Auðveldast er að fylgjast með á auglýsingatöflu skólans.
Allt umhverfi Trossingen er mjög fallegt og gaman að fara í styttri eða lengri gönguferðir í nágrenninu.Trossingen liggur frekar hátt í landinu svo að vetur geta verið frekar kaldir en sumrin eru mjög heit.

Að velja sér skóla á erlendri grund er gríðarlega spennandi. Gangi ykkur öllum vel og ef þið viljið einhverjar nánari upplýsingar um Trossingen eða barokksöng yfirleitt hafð þá endilega samband við mig.
johanna_halldorsd@hotmail.com
Allar nánari upplýsingar um skólann og námsbrautir er hægt að finna á www.mh-trossingen.de

Með kærri kveðju

Jóhanna

Hvert skal haldið?