Mozarteum í Salzburg – Einar Th. Guðmundsson

Einar Guðmundsson, baritón, sem er fastráðinn við Volksoper í Vínarborg, stundaði nám í Mozarteum tónlistarháskólanum í Salzburg:

Heimasíða skólans er http://www.moz.ac.at/
Ég lauk 8. stigi heima og tók það próf með mér út glaður í bragði. Eftir fyrirsönginn var ég spurður hvað það þýddi að vera með 8. stigs próf, hvað ég hefði lært og í hversu margar kennslustundir. Þetta var síðan sett í mat og út kom að 8. stig jafngildir um það bil fyrstu gráðunni sem maður getur lokið við skólann og var ég því settur í masters nám, sem er að öllu jöfnu 3 ára nám. Þar er hægt að velja um ljóða og óratoríudeild eða óperudeild. Einnig er hægt að stunda nám í báðum deildum eða skipta yfir á milli tímabila. Þá eru þeir sem eru með burtfararpróf lengra metnir og eiga möguleika á post-graduate námi sem er eins árs nám.
Best er að skoða heimasíðuna vel eða hafa samband símleiðis til að fá upplýsingar um umsóknarfrest og þess háttar. Fyrirsöngur er svo venjulega annars vegar í júni og hins vegar í september. Hann fer fram í þremur umferðum á jafn mörgum dögum. Þetta breytist milli ára og best að kynna sér málið á heimasíðu skólans. Eins er með efni til fyrirsöngs, en yfirleitt eru þetta fimm aríur fyrir óperudeild, í sama og réttu söngfagi, og hins vegar 3 ljóð og 2 óratoríuaríur. Þá þurfa allir sem sækja um að fara i munnlegt þýskupróf sem er nú ekki erfitt, og hins vegar hljómfræði og tónheyrnarpróf.
Kennararnir velja inn í skólann og án þess að vera kominn með vilyrði ákveðins kennara er þetta mun erfiðara en ella.  Best er að fara út viku áður en sungið er fyrir og vinna með kennara sem er áhugaverður þau stykki sem á að syngja í fyrirsöngnum. Það er algerlega nauðsynlegt að vera að vera kominn í samband við kennara sem er tilbúinn að kenna viðkomandi. Minni á, að eins og allsstaðar er þessi skóli fullur af slæmum söngkennurum.
Skólagjöld eru lítil og því þarf aðeins að sjá sér fyrir húsnæði og uppihaldi. Eitthvað er um stúdentagarða og þeir eru með sanngjarna leigu. Annars er nokkuð auðvelt að fá íbúðir þarna á fínu verði.
Venjulegur skóladagur er mismunandi eftir því hvað fólk vill vinna mikið. Óperuvinna er eins og í óperuhúsi, æfingaplan hengt upp daginn áður með nákvæmu plani um það hvaða senur á að vinna. 2 heilar óperur eru settar upp á ári auk fjölda atriða úr mismunandi óperum. Afar hjálplegt þeim sem stefna á starf i óperuhúsi. Í ljóðadeild er yfirleitt byrjað á því að skoða mismunandi ljóð, en síðar vaðið í að læra og vinna ljóðaflokka o.s.frv.
Salzburg er þekkt fyrir sumartónlistarhátíðina þar sem allar helstu stjörnur óperunnar koma fram á hverju ári. Það er þó erfitt að komast í miða enda kosta þeir yfirleitt skrilljónir. Maður eignast þó fljótt kunningja í kórnum eða slíkt sem redda gjaran miðum á æfingar. Yfir vetrartímann er borgin nokkuð sofandi hvað þetta varðar.
Þá má ekki gleyma því að þeira sem vilja geta jafnvel komist í að syngja í kórnum á hátíðinni.