Guildhall School of Music and Drama í London – Bragi Bergþórsson

 Bragi Bergþórsson, bragur@bragur.com söngnemi í Guildhall School of Music and Drama í London:

Heimasíða skólans er: http://www.gsmd.ac.uk/school/home.html

Bachelor námið (undergraduate) er fjögurra ára ferli sem undirbýr nemandann á sem flestum sviðum tónlistar fyrir Mastersnámið. En eftir að hafa lokið 8. stigi heima fara flestir í postgraduate nám:

Postgraduate nám (Master) í Guildhall er í raun blanda af óperu-, ljóða- og tungumálakennslu þar sem mest áhersla er lögð á ljóð með viðkomu í hinum ýmsu löndum.  Aðallega er staldrað við í þýskum og frönskum ljóðum.  Námið er til eins árs og er mjög krefjandi.   

Óperudeild er svo framhald af postgraduate náminu. Námið er til tveggja ára, þar sem áherslan er einungis lögð á óperur og flutning þeirra.  Hægt er að taka Mastersgráðu með henni ef þess er óskað .  Fyrsta árið fer í æfingar og uppsetningar á senum úr óperum þar sem svo er sett upp sýning á hverri önn með þeim að lokum.  Seinna árið fer svo í uppsetningu á heilum óperum þar sem allir fá tækifæri.  Nemendur í Masters-náminu sem velja svokallaðan Opera Associates áfanga fá tækifæri til að vera í kórnum í uppsetningunum.

Skoða þarf umsóknarferlið og kynna sér málin rúmlega ári áður en maður ætlar sér í nám.  Umsókninni þarf tam. að vera búið að skila fyrir október á ári hverju og inntökupróf eru í upphafi desembermánaðar.

Prufusöngurinn fer fram í upphafi desember, eins og áður segir.  Fyrir Masters-námið þarf að hafa undirbúin nokkur verk, franskt, þýskt, enskt, ítalskt og bút úr óratoríu.  Fyrir óperudeildina þarf að undirbúa þrjár aríur, eina á ensku.  Í prufusöngnum fyrir óperudeildina eru tvær umferðir og það þarf að syngja aríuna sem er á ensku í þeim báðum, en aðra hvora hinna í sitt hvorri umferðinni.

Það er ekki hægt að ganga að því vísu að fá styrki.  Það er raunar geysilega erfitt að fá þá, en maður má ekki láta það draga úr sér og maður lærir af hverri umsókn sem maður býr til.  Guildhall er með sérstakt styrktarfélag sem styrkir mann til skólagjalda og þar er góður möguleiki á að fá styrk ef maður sækir um með góðum fyrirvara.

Til að verða sér úti um kennara er best að fá svokallaða "consultation" tíma þar sem maður fær í rauninni að prófa kennarann.  Það er ekki víst að þessir tímar gefi rétta mynd af kennurunum, þar sem þeir vilja oft fá að heyra þann efnivið sem þeir hafa í höndunum og hvort þeir vilja hann, svo það er mjög æskilegt að hafa eitthvað vel undirbúið, frekar en að búast við því að fá kennslu.

Skólinn býður upp á garða, en það er mestmegnis fólk undir tvítugu sem er þar, svo maður getur orðið svolítið útundan.  Það er mælt með því að ná sér í íbúð í London uþb. 2-3 vikum áður en maður þarf á henni að halda, en það er erfitt að segja til um hvort er ódýrara.  Verðið er jafnmismunandi eins og borgin er stór, en best er auðvitað að halda sig innan Zone 2 til að vera sem næst skólanum og jafnvel að halda sig nálægt Northern Line.

Venjulegur skóladagur: Maður mætir í skólann, hitar sig upp og er í skólanum skv. tímatöflu til 4-5 á daginn og stundum lengur.  Það er ekki fyrir alla, en mér finnst gott að hafa góða dagskrá og ekki of mikinn lausan tíma.  Í óperudeildinni er mest lögð áhersla á æfingar fyrir senurnar eða óperurnar, en það eru líka tímar í leiklist, hreyfingu, söng, meðleik osfrv.  Tímasókn er ekki frjáls í óperudeildinni.  Fyrir Mastersnámið eru líka tímar í leiklist og auðvitað söng, en svo eru aðallega opnir tímar með frjálsri mætingu sem líkja má við hefðbundinn masterclass í ljóðum og einnig í óratoríum.  Tungumálunum er svo skipt niður í tímabil.  Þar að auki er kennsla í framburði á rússnesku, frönsku, ensku, þýsku og ítölsku.  Auk þess er hægt að velja tvo áfanga með, sem geta verið margvíslegir.  Oft eru masterclassar með þekktum kennurum í skólanum og þá gildir reglan: fyrstir koma fyrstir fá.

Stúdentaafsláttur er mjög algengur á hina og þessa viðburði í London en oftast ekki nema 10-20% (þó stundum sé það fast stúdentaverð), en það er nánast ógjörningur að halda utan um það sem er að gerast í borginni nema að vera með fleiri skilningarvit.  Gott er að glugga í dagskrárblöð eins og TimeOut, en oftast er svo mikið að gera í skólanum að lítill tími gefst til að stunda tónleika og óperur.