Með saltvatn og ótta í farteskinu, um hjálækningar óperusöngvara

 Í afar merkri, læsilegri og athyglisverðri ritgerð (sem er lokaverkefni í BA-námi í þjóðfræði í HÍ) fjallar Ólöf Breiðfjörð (eiginkona Gunnars Guðbjörnssonar) um hjálækningar nokkurra íslenskra óperusöngvara, en ritgerðin byggist á viðtölum við sjö söngvara, þau Sverri Guðjónsson, Huldu Björk Garðarsdóttur, Sólrúnu Bragadóttur, Gunnar Guðbjörnsson, Ingveldi Ýri Jónsdóttur, Ágúst Ólafsson og Bjarna Thor Kristinsson. Einnig styðst hún við ýmsar rannsóknir sem snúa að hjálækningum og heilsufarsvandamálum óperusöngvara. 

Í útdrætti segir ennfremur:

„Til að stuðla að raddlegu heilbrigði leitast viðmælendur mínir við að halda líkamlegri og andlegri heilsu í jafnvægi. Líkamlegir kvillar sem söngvarar reyna að forðast eða halda niðri eru til dæmis kvef, bakflæði, þurr slímhúð og þreyta. Söngvararnir nota meðal annars jurtir, te, vatn og saltvatnsskolun en forðast notkun sterka og fúkkalyfja vegna aukaverkana sem hafa slæm áhrif á heilsu og rödd. Þá er andlegt jafnvægi nauðsynlegt söngvurum enda veikist ónæmiskerfi líkamans ef streita og ótti þjakar þá. Viðmælendur mínir íhuga, biðja, gera verndandi æfingar og nota jákvæða hugsun til að halda andlegu jafnvægi og get á þann hátt verndað rödd sína.

Hjálækningar óperusöngvara eru starfsgreinahefð þeirra. Það eru einnig reynslusagnir og ráðleggingar um hjálækningar sem söngvarar gefa hver öðrum. Um leið og mikilvægum upplýsingum er miðlað styrkist hópurinn enda sameiginlegt markmið söngvara að stuðla að góðri raddheilsu.“

Ritgerðina má lesa í heild sinni hér skemman.is

Ef fólk kýs að kaupa útprentað eintak, er hægt að hafa samband við Ólöfu á netfangið ohb1@hi.is