Heildræn öndunar- tal og raddmeðferð

 Á aðalfundi FÍS sagði Dagrún Hjartardóttir frá ráðstefnu í Dresden, sem hún fór á í lok ágúst sl. Þar voru samankomnir HNE læknar, talmeinafræðingar og söngkennarar á PEVOC (Pan European Voice Conference). Hún var beðin um að greina nánar frá erindi Marie-Luise Waubert de Puiseau um heildræna öndunar- tal og raddmeðferð og æfingar til að losa um streitu. Samantekt Dagrúnar má lesa hér að neðan.

 

 Breath, voice and stress – workshop

Heildræn öndunar- tal- og raddmeðferð

Streita kemur fram með ýmsu móti. Hún getur látið á sér kræla án nokkurs fyrirvara. Viðbrögð líkamans eru annars vegar að takast á við hana og nýta með jákvæðum hætti eða að kikna undan henni.

Við erfiðar aðstæður verða viðbrögðin neikvæðari og valda kvíða, sem svo verkar á ósjálfráða taugakerfið þannig að hversdagslegar athafnir verða fyrir truflun. Ef langvarandi stress er ekki meðhöndlað getur það endað í þunglyndi og alvarlegum veikindum.

Öndun og raddmyndun eru ein heild og verða ekki aðskilin. Þegar viðbrögð við stressi og áhrif þess á líkamann eru skoðuð þá er ljóst að öndun getur leikið stórt hlutverk sem meðferðarúrræði. Streita veldur stífni í líkama, vöðvabólgu og hefur áhrif á tilfinningalífið en hún hefur ekki síður áhrif á öndunina. En það er hægt að beita öndun á jákvæðan hátt til að hafa áhrif á starfsemi líkamans í baráttunni við streitu. Á þennan hátt má virkja rödd og öndun til að losa streitu.

Schlaffhorst-Andersen fræðin hafa það að markmiði að stuðla að betri raddbeitingu, líkamsbeitingu, öndun og hreyfingu. Eitt æfingakerfið kallast Schwingen og beinir athyglinni að jafnvægiskerfi mannsins auk æfinga sem bæta öndunarflæði og öndunarstyrk. Allar æfingarnar stuðla að betri meðvitund sem er sérstaklega mikilvægt í vinnu með öndun og rödd og frumforsenda þess að takast á við streitu.  Röddin hefur áhrif á öndun og hreyfingu, og öndun og hreyfing hafa áhrif á rödd.

Sitjandi

  • Rugga sér til hliðanna sitjandi á stól þannig að megin hreyfingin sé í mjöðmum. (Lyfta rasskinnum á víxl) (1-2 mín)
  • Rugga sér eins og að ofan með aðra hönd á bringu
  • Rugga sér eins og að ofan en halda báðum höndum um rifjaboga
  • Velta sér og leggja lófa beggja handa efst á mjóhrygg
  • Velta sér og leggja lófa beggja handa á neðri mjóhrygg, næstum niður við rófubein
  • Lyfta vinstri fæti upp með handafli og láta hann falla nokkrum sinnum
  • Lyfta hægri fæti upp með handafli og láta hann falla nokkrum sinnum
  • Leggja framhandleggi á lær sér.
  • Anda inn með kreppta hnefa og opna þá á útöndun. 10x.*
  • Anda inn með opna lófa en kreppa hnefa á útöndum. *

*      Endurtaka æfinguna með þeirri aðferð sem betur hentar.

Standandi :

·      Halda hönd á bringu og færa þungann fram á tærnar og aftur á hæl hægt og rólega. 10x

·      Halda hönd á bringu og færa þungann fram á tærnar og aftur á hæl. Anda inn þegar farið fram og anda út þegar farið aftur á hæl. 10x

·      Með hönd á bringu gera eins en anda inn þegar farið er aftur á bak og út þegar farið er fram á við. 10x

·      Endurtaka með lokuð augu. Velja sér tímapunkt þegar maður er tilbúinn að opna augun og taka eftir víðu svæði í kringum sig.

Flutt af Marie-Luise Waubert de Puiseau