Guðmunda Elíasdóttir

 Guðmunda Elíasdóttir setur svip á bæinn.  Hún er litríkur lífskúnstner og óhætt er að fullyrða að bók Ingólfs Margeirssonar, “Lífsjátning” þar sem Guðmunda segir sögu sína, lætur engan ósnortinn.  Þeir sem vilja kynnast betur mannlegri hlýju og lífsbaráttu, stórbrotnum karakter, hreinskilni og glæstum ferli Guðmundu ættu því að arka beint á bókasafnið og verða sér úti um eintak.

Á unglingsaldri var Guðmunda barnapía hjá rússneskri hefðarfrú.  Hún var sífellt syngjandi, kenndi börnunum íslensk þjóðlög og barnalög sem móðir hennar hafði kennt henni, milli þess sem hún saumaði.  Það var því ekki að ástæðulausu að skorað var á hana að snúa sér að söngnámi.  Fyrsti söngkennari hennar var Kamma Haynes, en fljótlega tók Guðmunda inntökupróf í Konservatoriet í Kóngsins Kaupmannahöfn og komst strax að hjá frú Dóru Sigurðsson, prófessor, sem var gift Haraldi Sigurðssyni, píanóleikara, en hann var einnig prófessor við Konservatoriet. 

Guðmunda Elíasdóttir er merkur söngkennari og því heimsóttum við hana í kaffi og æblekage med flødeskum á Vesturgötunni til að biðja hana að ljóstra einu og öðru upp um rómaðar aðferðir hennar við söngkennslu.  Þrátt fyrir háan aldur, ber hún sig vel, svífur um léttstíg og hlær og skríkir eins og ungpía og tekur stundum fyrir munninn þegar hlátrasköllin verða sem hæst.  Eftir að hafa skoðað myndir um stund, setjumst við niður við fótskör meistarans og rekjum úr henni garnirnar:
Continue reading „Guðmunda Elíasdóttir“

Guðmundur Jónsson

                                                                                                                      Rigoletto 1950

 Guðmundur Jónsson söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar í meira en hálfa öld.  Hvert mannsbarn þekkir Hrausta menn o.m.fl. í flutningi Guðmundar, en í tugi ára var hann nánast ómissandi í allar óperuuppfærslur á Íslandi, allt frá því hann kom heim frá söngnámi í Bandaríkjunum og brilleraði í Rigoletto þegar Þjóðleikhúsið var opnað árið 1950. Guðmundur var rómaður söngkennari og hann var einkar ónískur á viskubrunn sinn, hann var óþreytandi við að hjálpa okkur hinum við að muna eftir því að málið er ekki eins flókið og við viljum vera að láta. Við þurfum bara að slaka á og hætta að pressa á raddirnar!  Guðmundur hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2006 (sjá ræðu Garðars Cortes hér) og var mál til komið að heiðra hann á einhvern máta, en sjálfsagt hefur honum sjálfum þótt það hégómi hinn mesti. 

Guðmundur lést 5. nóvember árið 2007, en árið áður skrapp Ásgeir Páll  með upptökutækið í heimsókn:

Continue reading „Guðmundur Jónsson“

Jón Sigurbjörnsson

 „Og nú er hann fjórfaldur!“ Hin volduga djúpa bassarödd Jóns Sigurbjörnssonar hefur yljað landanum um áratugaskeið. Ásareiðin eftir Sigvalda Kaldalóns eða Suðurnesjamenn eru dæmi um lög sem hann hefur gert ódauðleg, en af mörgu er að taka, til dæmis er til frábær upptaka af Verdi Requiem með Jóni í útvarpinu. Escamillo, Sparafucile, Þrymur og fleiri karakterar lifnuðu við í hans meðförum, enda er Jón einn af okkar þekktustu og mikilvirkustu leikurum.
Þegar hann varð sjötugur, hóf hann búskap að Helgastöðum í skjóli Vörðufells í Árnesþingi, sex kílómetra leið frá Skálholti. Fjölskyldan á 24 hross og í félagsskap þeirra er Jón í essinu sínu.
Um feril Jóns og lífshlaup má lesa í bók Jóns Hjartarsonar, „Sú dimma raust“. Við settumst hins vegar niður í eldhúsinu á Helgastöðum yfir súkkulaðiköku og vínarbrauðslengju, með ægifagurt útsýni til Heklu á yndislegum júnídegi, til að spjalla nánar um söng og söngtækni. Þar sem Jón er leikari, lá beint við að spyrja hann út í tengsl óperu og leiklistar.

Continue reading „Jón Sigurbjörnsson“